þriðjudagur, 30. desember 2008

Barna -

Á sunnudaginn heimsóttum við Pétur ömmu mína sem býr í þjónustuíbúð í Seljahverfi. Meðan á heimsókn okkar stóð bönkuðu tvær nunnur upp á til að færa ömmu minni sælgætispoka. Fallegt af þeim að gleðja gamlingjana, en mér skildist á ömmu minni þetta væri árlegur viðburður.
Þær töluðu báðar ensku. Önnur þeirra lyktaði af hvítlauk. Hún var líka skrafhreifnari. Hún spurði Pétur hvort hann væri sonur ömmu minnar. Ég tók af honum svarið og sagðist vera sonardóttir hennar. Hún spurði hvort við ættum börn og ég sagði að ég ætti ekki börn. Hún sagðist ætla að biðja fyrir mér & Pétri svo okkur myndi auðnast barna. Ég nennti ekki að segja henni ég kærði mig ekki um nein börn, svo ég kreisti fram að ég tel kurteislegt bros og hummaði hana út um dyrnar.
Mér finnst fyndið að kona sem hvorki vill stunda kynlíf né eignast börn sjálf, skuli ætla að biðja til æðri máttarvalda mér til handa í barna - jah, láni.. Ég ætti jafnvel að hafa samviskubit yfir því að aumingjans konan eyði brot af tíma sínum í þetta en æj, verði henni að því. Svarta karamellan í sælgætispokanum frá þeim var góð.

mánudagur, 29. desember 2008

Gleði-leg jól

Ég hafði hugsað mér að smella jólakveðju hér inn fyrir afmælisdag J.C. en tölvuþörfinni hefur lítið sem ekkert verið sinnt síðustu daga. Lestrar- og letiþörfinni hefur hins vegar verið sinnt af natni og alúð. Uppáhalds jólasveinninn minn er búinn að dekra við mig með faðmlögum, tá-strokum, gullhömrum, mat, drykk og gjöfum yfir hátíðarnar. Kettinum hefur einnig verið spillt með athygli og mat. Við erum sum sé búin að hafa það afskaplega gott með myndarlega manninum og fallegu afkvæmunum hans. Höfum hugsað okkur að halda því áfram fram á nýja árið.

föstudagur, 19. desember 2008

TiVi

Foreldrarnir eru í heimsókn hjá systur minni í útlöndum. Fóru fyrir viku og verða yfir áramót. Á meðan nýt ég þeirra þæginda að hafa bifreiðina þeirra til umráða. Þau lánuðu mér líka sjónvarpið sitt, sem er eins og meðalstór tölvuskjár með innbyggðum DVD-spilara. Segir maður annars innbyggður í þessu tilfelli? Í gær datt mér svo í hug að kveikja á apparatinu. Sá heilann þátt af 30 rock. Mér fannst hann leiðinlegur. Mér hefur samt fundist hann skemmtilegur þegar ég sé hann í bútum og pörtum hjá myndarlega manninum. Ég altjént lagði ekki í meira og slökkti. Lagðist í heitt freyðibað í staðinn. Mundi svo eftir DVD-diskunum sem ég á í kompunni. Svo ég ákvað að gefa apparatinu annann sjéns. Sem var ágætt því mér leiddist myndefnið sko ekki.
Þar sem ég sat í bleika sloppnum hennar mömmu, í rauða ruggustólnum hennar ömmu, og horfði á tilvonandi eiginmann minn dilla rassinum, varð mér hugsað til þess þegar fólk leigði ekki bara vídjó-spólur, heldur vídjó-tæki líka. Munið þið ekki eftir stóru, svörtu harð-töskunum sem voru utan um þau? Ég man vel eftir því þegar foreldrarnir komu heim með svona tösku í fyrsta skipti, haug af spólum, spenningnum og gleðinni og eftirvæntingunni, og fjölskyldan samanþjöppuð alla helgina að komast yfir glápið.

Í morgun átti ég erindi í gamla fjölbrautarskólann minn. Eina breytingin þar innandyra var konan á skrifstofunni, hún er komin með alveg snjóhvítt hár. Fór henni reyndar mjög vel.
Annars var það bara ég sem hafði breyst.

miðvikudagur, 17. desember 2008

Jóla - jólajóla

Í gærkveldi voru jólatónleikar Söngskólans haldnir í Snorrabúð. Ég verð að viðurkenna það kom mér á óvart bæði hvað þeir voru skemmtilegir, og eins að það var troðið út úr dyrum. Ég söng ásamt 9 öðrum stúlkum ein 5 lög. Við köllumst víst nemendakór SR. Kórstjórnarnemar hafa fengið að spreyta sig á okkur á fimmtudagskvöldum það sem af er vetri, og í gær kom afreksturinn í ljós. Ég er hugsanlega ekki hlutdræg en við stóðum okkur vel. Altjént var þetta reglulega skemmtilegt.

Myndarlegi maðurinn svaraði há-degis-kalli dagsins og bauð mér í lönch á Kaffitár. Ég hallast að þeirri hugmynd að bloggið sé áhrifaríkur samskipta-máti við hann. Spurning hvað ég ætti að biðja um næst..

þriðjudagur, 16. desember 2008

Há-degi

Í hádeginu í gær fór ég í söngtíma og söng jólalög af fullum krafti. Þar á eftir borðaði ég ljúffengt smur-brauð á Jómfrúnni í góðum félagsskap.
Í hádeginu í dag fór ég aftur í söngtíma og söng fleiri jólalög af fullum krafti. Þar á eftir hitti ég myndarlega manninn á Kjarvalsstöðum, hlustuðum á Garðar Cortes syngja skemmtileg jólalög og fengum okkur lönch.

Mig er strax farið að hlakka til einhvers skemmtilegs í hádeginu á morgun.

mánudagur, 15. desember 2008

Helgin

Vinkonur - góður matur - rauðvín - mótmæli - kaffihús - smákökubakstur - jólatónlist - kaffiboð - lestur - jólakort - sjónvarpsgláp - snjór - myndarlegur maður.

Vellíðan - eftirvænting - vonbrigði, en já, helgin var afskaplega ljúf.

fimmtudagur, 11. desember 2008

Mannréttindi

Fór á tónleika Amnesty í Hafnarhúsinu í gær. Í gær voru 60 ár liðin síðan Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu Þjóðanna var gefin út. Tónleikarnir voru reglulega skemmtilegir, ekki síst vegna mikillar fjölbreytni í dagskránni. Tilefnið er göfugt en eins og ræðan við lok tónleika minnti á, er enn langt í land að mannréttindi séu virt víða um heim. Verulega sorgleg og ljót staðreynd. Mannréttindum verður að halda á lofti, ekki síst í löndum þar sem menn hafa það gott.

Svo verð ég að segja Tómasi að Ave Maria í útsetningu Sigvalda Kaldalóns var flutt af tenór, fiðlu-, selló- og píanóleikara. Mér fannst það gaman og varð hugsað til þín.

miðvikudagur, 10. desember 2008

MSL

Magga systir mín á afmæli í dag. Í uppvextinum vorum við bara systur. Í dag er hún kær vinkona mín líka. Fyrir um 1,5 ári síðan tók hún sig til og flutti með fjölskylduna til Danmerkur. Núna fæ ég allar bökunar-ráðleggingar í sms-i. Ég er enn að reyna að venjast því að geta ekki skroppið í kaffi til hennar. Mig nefnilega vantar hana oft og ég sakna hennar mjög mikið.

Ég var svo lánsöm að geta heimsótt þau tvisvar á árinu. Í seinna skiptið hitti ég þau í París og fór í yndislegt ferðalag með þeim. Í garðinum í Versölum náði ég þessari flottu mynd af tánnum hennar.

mánudagur, 8. desember 2008

28 ár

eru liðin frá dauða mikils friðarsinna, en boðskapur hans á ennþá erindi til okkar allra!

Ja

Er víst með kvef-lufsu, bara ekki á raddböndunum. Komst að þessu í söngtíma í hádeginu. Kitlaði samt doldið í hálsinum meðan ég söng, en það gæti svo sem hafa verið þýski framburðurinn sem gerði það að verkum. Bróðir minn var búinn að vara mig við því, ég yrði látin læra þýsk ljóð í lange baner í Söngskólanum. Lange banen er sem sagt hafin.

mánudagur, 1. desember 2008

Full-veldi

Mér þótti ræða Illuga á Austurvelli sl. laugardag góð. Þar orðaði hann mínar hugsanir um önnur mánaðarmót og fleiri sem fengju reisupassann í vinnunni. Fleiri sem horfa upp á að eiga ekki fyrir mánaðarlegum útgjöldum. Fleiri sem fóru heim til sín sl. föstudag með verri kvíðahnút í maganum en var þar fyrir.
Ég er því miður ekki undrandi á þörf fjölmiðla til að útlista því sérstaklega að einn maður hafi mætt með eggjabakka til að grýta í alþingishúsið. Ég var heldur ekki hissa á niðrandi spurningu fréttamanns RÚV um hvort hægt væri að mótmæla án lausnar. Ég er hins vegar reið yfir að ríkisstjórninni finnist sjálfsagt að sitja áfram og valtra yfir þjóðina, án nokkurrar sýnilegrar lausnar!

Desember er runninn upp og miskunnsami samverjinn Hagkaup býður jólin á láni. Ég vona innilega að þjóðin reyni frekar að halda að sér höndum, og halda þau jól sem hún hefur efni á. Ég vona enn fremur að græðgishugtak Hagkaupa um opnun allan sólarhringinn í Skeifunni, í miðri kreppu þar sem bjóða þarf þjóðinni lán til að versla, springi eins og 1000 grýtt fúlegg.

Arnarhóll í dag kl. 15:00

fimmtudagur, 27. nóvember 2008

hvorki - né

Grey-Geir var hissa á því hversu margir mættu á borgarafundinn í Háskólabíó sl. mánudag.
Aumingja-Árni er undrandi á yfirlýsingum Gylfa Arnbjörnssonar um að hann (ásamt reyndar fleirum) eigi að segja af sér vegna bankahrunsins.
Þeir virðast líka eiga það sameiginlegt að finnast hvorugur bera ábyrgð á því ástandi sem ríkir í þjóðfélagi okkar í dag, að þeir eigi að sitja sem fastast, hundsa vilja meirihluta þjóðarinnar og halda uppteknum DO-hætti = tala niður til fávísa skrílsins af fullum hroka.
Ætli undrun- og hiss-ismi sé nýjasti atvinnusjúkdómur stjórnmálamanna í dag?

Ég er hvorki hissa né undrandi. Ég er hins vegar bæði reið & sorgbitinn yfir að vera hvorki hissa né undrandi lengur yfir ráðherrum þessa lands.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Ble

Ég rétt náði í restina af borgarafundinum í Háskólabíó eftir tónleikana á mánudaginn. Rétt náði að sjá Geir tjá sig við fréttamann að hann væri bara hissa á hversu margir hefðu mætt, og snúa svo út úr spurningu án þess að gefa nokkurt svar. Reglulega upplífgandi að sjá forsætisráðherrann setja sig í sömu ömurlegu stellingarnar, þrátt fyrir húsfylli af ósáttum íslenskum borgurum.

Ég er annars enn mjög stolt af myndarlega kærastanum mínum.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Þjóðlaga-tónleikar

Í gær söng ég í fyrsta skipti opinberlega, þ.e.a.s. á tónleikum í skólanum mínum. Það var húsfyllir af foreldrum, öfum & ömmum, systkynum & vinum. 66 lög voru flutt - 2 á mann. Ég var fjórða síðust. Ég var líka skræfa & bauð ekki neinum. Ég lét að vísu kærastann vita en sagði honum jafnframt honum væri ekki boðið. Kærastinn er sanngjarn maður, & samþykti þau rök mín að ég myndi að öllum líkindum ekki koma nokkru hljóði upp úr kokinu á mér af stressi, ef hann væri meðal áheyrenda. Bauð mér í ljúffengann mat & lánaði mér kaggann sinn svo ég þyrfti ekki að tipplast á milli húsa, uppstríluð á hælum.
Ég gleymdi heilu orði í fyrra laginu en náði að redda mér fyrir horn með uppfyllingu á allt öðru orði. Ég skalf af skelfingu í sálartetrinu, en ákvað eftir fyrra erindið í fyrra laginu það sæi það varla nokkur maður. Náði jafnvel að skila túlkuninni í seinna laginu, þrátt fyrir maður eigi að standa þráðbeinn og ég er ekki alveg enn þá búin að átta mig á hvernig maður fer að því að láta túlkunina leka með. Skemmtilegt að finna hvernig stress sem maður telur sjálfum sér trú um að muni yfirbuga mann, gefur manni svo kraft þegar á reynir. Háu tónarnir sem ég hafði mestar áhyggjur af að ná ekki, og verða mér til óbærilegrar skammar, voru svo ekkert vandamál er á reyndi.

Ég greip svo smotterís sárabót með mér fyrir kærastann; hjartalagaða piparköku af kaffiborðinu eftir tónleikana. Mér fannst það voða sætt af mér.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Áann

Kærastinn minn er ekki bara myndarlegur og góður maður.
Hann hefur líka þor.
Ég er mjög stolt af honum.

föstudagur, 21. nóvember 2008

Sam-vinna

Kærastinn & hjásvæfan tóku sig til og gerðu við stofuborðið hjá mér




Það var fallegt af þeim.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Lukka

Mér var boðið starf um daginn. Húsmóðurs-stöðu í einu af úthverfum bæjarins. Þrif, innkaup og umsjá læðu. Hægt að semja um garðvinnu. Frítt fæði að launum.
Að auki auðnaðist mér skemmtari sem gæti hjálpað mér að drýgja tekjurnar. Gæti vel trúað það væri markaður fyrir þýska-eydís-skemmtara-bar-stemmingu hér á landi, nóg er víst um aðrar hamfarir í þjóðfélaginu.

Notalegt að hafa góða hluti í bakhöndinni.

mánudagur, 17. nóvember 2008

rottu-svipurinn

Ég eeelska þessa mynd af Pétri



Eiginlega get bara ekki litið á hana án þess að springa úr hlátri. Er viss um hún á eftir að reynast mér mikill gleðigjafi í margar, margar, margar vikur. Svona ekki ósvipað og myndin af Gus heitnum. Hún er tekin meðan við biðum eftir meindýraeyðinum að sækja 1 stk. rottulík heima hjá mér, og mér finnst auðvita tilvalið að segja að Pétur hafi sett svipinn upp við það að sjá rottuna. Sannleikurinn er þó sá að Pétur var að sannfæra mig um að nota aðra myndavél, sem hann segir að sé betri en mín, m.a. vegna þess hversu fljót hún er að smella af. Hann vildi endilega ég tæki mynd af sér til að prufa og setti, eins og klárlega sést, allann sinn sjarma í myndatökuna. Það sem mig þó grunar er að hann sjálfur hafi ekki verið búinn að átta sig á hversu helvíti snögg vélin er að smella. Enda nota ég hana eingöngu hér eftir.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

ÁM

Í Morgunblaðinu í dag, nánar tiltekið á bls. 54, er mynd af skellihlægjandi dýralækni. Ég varð hálf hissa yfir þessu og fussaði um það við kærastann, að ég skildi ekki alveg af hverju hann væri svona rosalega glaður, hann hlyti að hafa það svo mun betur en við hin í miðjum efnahags-hamförunum. Síðan las ég pistilinn hans og þá skildi ég þetta. Hann er nefnilega að tala um nýjasta brandarann. Jú, þennann glænýja þarna til bjargar heimilunum. Ekki skrýtið þó hann hlægi greyið. 

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Ung-rotta

Síðustu helgi lánaði ég Ólafíu frænku minni og Arnóri manninum hennar íbúðina mína. Arnór var spenntur að komast á músaveiðar, svo ég sá mér hag í því að hafa þau þar, meðan myndarlegi maðurinn myndi bera mig á höndum sér heima hjá sér. Þau gistu þó ekki nema eina nótt, því eftir að hafa dregið eldavélina fram á mitt gólf og opnað, brá Arnóri hressilega, við mikla kátínu Ólafíu, við að sjá á eftir rottu-hala. Á mánudeginum drattaðist ég því loksins til að hringja í Borgina og biðja um meindýraeyði, sem brást snarlega við og kom upp massívum gildrum hjá mér, með eðal dönsku marsípani sem beitu. Það snar-virkaði þar sem rottan fannst snar-dauð í annari gildrunni deginum eftir. Geðþekki meindýraeyðirinn frá Borginni kom svo og hirti hana, mér til mikillar ánægju, og gladdi mig enn meir er hann fræddi mig á því, að músa- og rottu-veiðar væri þjónusta sem ég væri þegar búin að borga fyrir með fasteignagjöldunum.
Í gær hófst svo tiltektin. Ég prísaði mig sæla að vera hvorki klígju- né kúgunargjörn. Lyktin af uppsöfnuðum rottu-saur er vægast sagt svívirðileg.
Myndarlegi maðurinn var sætur að vanda og kom með mat handa mér. Meðan ég þreif dundaði hann sér svo við að lagfæra aðra gardínuna, í samvinnu við köttinn sem hafði aflagað hana vikunni á undann. Þar sem myndarlegi maðurinn er með eindæmum laginn, gerði hann sér lítið fyrir og klippti út lítil, sæt typpi handa mér í "nýju" gardínuna mína.


þriðjudagur, 11. nóvember 2008

UMSKA

Föstudagskvöld borðaði ég indæla rækjunúðluhumarsoðssúpu hjá Unni Maríu. Myndarlegi maðurinn kom til okkar síðar um kvöldið og við flatmöguðum í sjónvarps-deninu, fengum popp að hætti Unnar og horfðum á athyglisverða mynd.
Laugardagskvöldið komu Unnur & Arna í mat í Samtúnið. Við drukkum doldið af hvítvíni, tókum slatta af myndum, hlustuðum á næntís tónlist, fórum í næntís-þrítugsafmælið hans Haffa & enduðum svo niður í bæ.
Sunnudagskvöldið fór ég með myndarlega manninum á Unglist í Norræna Húsinu. Dagskráin var fjölbreytt & skemmtileg. Ásta myndarlegamannsdóttir spilaði listilega vel með tríóinu sínu. Fífilbrekkan var sungin í útsetningu Sigvalda Kaldalóns sem mér þótti sérstaklega gaman að heyra, þar sem hún er verulega frábrugðin útsetningu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar sem ég er að æfa þessa dagana.

En ég gerði líka hluti sem ég átti ekki að gera. Og gerði ekki hluti sem ég hefði átt að gera.
Ég fór í göngutúr til að fá rok í andlitið á mér, en rokið var mun meira en ég átti von á, göngutúrinn endaði á öðrum stað en ég ætlaði, og ég fékk meira en bara rok í andlitið.


Það er gott að eiga góðar vinkonur til að hlægja með



en það er ekki síður gott að eiga vinkonur, sem þrátt fyrir að þekkja veikleika manns og asna-sköft, nenna samt að bulla með manni

föstudagur, 7. nóvember 2008

Ódýrt

Ég hef lagt mig í lima við að vera verulega stinamjúk við hjásvæfuna. Klappa honum, kreista hann og fullvissa hann um hann sé sætasti köttur í heimi. Ég hefi nefnilega samviskubit yfir að loka blessaða skepnuna svona inni. Mér varð ljóst er ég kom heim í gær, að þessi stinamýkt mín er greinilega hætt að virka og ódýra rúmfatalagers-gardínan mín fékk að gjalda fyrir það.



Ég veit ekki alveg hvernig ég á að færa pabba tíðindin. Hann hafði jú fyrir því að föndra doldið við gardínurnar til að koma þeim fyrir í gluggunum hjá mér. Annars sagði kærastinn það væri ekki mikið mál fyrir mig að setja nýtt í staðinn fyrir þetta aflagaða, svona fyrst það er kreppa eins og hann orðaði það. Það sem kærastann grunar þó örugglega er, að það er langþægilegast fyrir mig að hann geri það fyrir mig. Enda leggst föndur afskaplega illa í mitt geð, sem er víst nógu tæpt fyrir.

Svona lítur hún svo út niðurdregin



Já, verulega döpur. Þrátt fyrir að vera ekki skemmt, gat ég með engu móti skammað blessaða lufsuna. Ekki myndi ég vilja vera neydd til að míga í appelsínugult þvottafat, og verða að hírast innilokuð með mús, sem skellihlær að manni allann liðlangann daginn.

Best að fara heim og breiða mjúku sængina mína yfir hausinn á okkur báðum.

MjáMjáMjá

Er að borga skemmtanagjaldið. Nema hvað skemmtunin var ekkert skemmtileg. Langar heim að leggjast upp í rúm og breiða mjúku sængina mína yfir hausinn á mér.

Nei annars, þetta var ekki planið. Bjartsýni var planið. Alveg rétt. Jákvæðni. Já.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Bót

Heyrði í útvarpinu í morgun að atvinnuleysisbætur dygðu ekki fyrir útgjöldum heimilanna. Því miður eru þetta ekki nýjar fréttir, heldur gamlar. Þar sem ég er uppsögð ákvað ég mér til hughreystingar, að skoða hverjar grunnatvinnuleysisbæturnar eru. Og viti menn, þær eru Kr. 136.023,- á mánuði. Lítur alls ekki sem verst út. Fyrir mig þ.e.a.s. Þegar mín mánaðarlegu útgjöld eru dregin frá þessu er ég bara tæpum 10.000,- í mínus. Ég myndi að sjálfsögðu kanna möguleikann á að skorast undan mánaðarlegu afborguninni á rándýra áhugamálinu mínu, sem er auðvita ekkert nema munaður. Með því ætti ég að koma út í plús um tæpar 20.000,- og það er feikinóg til að metta minn maga með pasta yfir mánuðinn. Ég er nefnilega svo lánsöm að hafa fyrir mörgum árum tekið ákvörðun um að börn vilji ég ekki eignast. Ég hef því einungis kattarlufsu aukalega á mínu framfæri, sem blessunarlega hefur ávalt verið fremur matgrannur. Þess fyrir utan á ég sætasta kærastann sem vafalítið heldur áfram að vera duglegur að bjóða mér í mat, svo ég kem til með að fá fjölbreyttara fæði en hveiti og egg, og spara mér nokkrar verðlausar krónur fyrir vikið. Þess þess fyrir utan munu foreldrar mínir aldrei geta horft upp á að ég líði skort. Ég sé mér því ekki annað fært en horfa áfram bjartsýnisaugum til framtíðar. Enda er ég ekki atvinnulaus. Enn. Og kærastinn fær kossana fríkeypis. Enn.

Ath. reikniforsendur í ofangreindri færslu eiga einungis við ný-afstaðin mánaðarmót.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Hætt'essu bulli

Sem fyrr vaknaði ég við Morgunútvarp Rásar 2 í bóli kærastans. Viðtalið við hana nöfnu mína, Sigurbjörgu Árnadóttur, var með því betra sem ég hef heyrt lengi. Sigurbjörg þessi bjó í Finnlandi er kreppan mikla reið yfir þar. Hún talaði ekki um neina Finnska skyndilausn né aðrar skyndilausnir. Hún talaði opinskátt um þær hörmungar sem hún upplifði í Finnlandi. Og hún var beinskeytt í orðum sínum til Íslendinga. Og ég tek heilshugar undir með henni. Að tími sé kominn til að hætta þessu bulli og fara að búa sig undir alvöruna fyrir alvöru.
Stjórnmálafólkið okkar þarf að átta sig á því að þau eru ekki háu herrar okkar. Við erum atvinnurekendur þeirra. Og sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita sannleikann um fyrirtækið okkar, hver staðan raunverulega er, hvað sé raunverulega í stöðunni og hvert eigi að halda. Sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita hvaða starfsmaður stendur sig vel, hvaða starfsmaður stendur sig illa, og reka þann sem ítrekað brýtur gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Sem þjóð eigum við rétt á að komið sé fram við okkur eins og fólk. Ekki bara að hanga á brúninni í óvissu og hræðslu um hversu lengi við höngum, og hversu langt og harkalegt fallið verður þegar við missum takið.

Ég er þess fyrir utan afskaplega fegin að Barack Obama er verðandi forseti Bandaríkjana.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Mjá

Sl. föstudag labbaði ég heim úr vinnunni með uppsagnarbréf í vasanum. Helgin var engu að síður ekki alslæm. Ég fékk mér rauðvín með bestu vinkonu minni og við fórum út að dansa. Foreldrar mínir gerðu sitt besta til að pakka mér inn í hughreystingarbómul. Ég talaði lengi við systur mína í Horsens. Klappaði kettinum. Fór í langann göngutúr. Horfði á gamla, hugljúfa mynd. Knúsaði myndarlega manninn. Fékk smakk og grænann sun-lolly. Eldaði mat.

Ég er búin að segja það upphátt ég ætli ekki að láta kreppubölsýni ná tökum á mér. Mig langaði samt að halda áfram að sofa í morgun, og spurði kærastann af hverju það væri ekki aftur komin helgi. Hann svaraði einfaldlega; af því þér finnst svo gaman að mánudögum. Og það er alveg rétt, ég hef gaman af mánudögum. Ég hef vinnu næstu 3 mánuðina, fæ útborguð laun og tíma til að leita mér að annari vinnu. Hvað síðan tekur við hef ég ekki nokkura hugmynd. Ekki frekar en nokkur annar á Íslandi í dag. Það sem ég þó veit með vissu er að ég er langt í frá ein; ég á fjölskyldu sem stendur saman í raun, frábæra vini, sætasta kærastann og kött sem malar hátt þegar ég strýk honum. Og ef út í það er farið, þá þykir mér pasta rosalega gott.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

ómótstæðilegur



Þarf nokkurn að undra þó ég ráði ekki við sjálfa mig?

Má samt ekki eingöngu hanga utan um hálsinn á myndarlega manninum um helgina, þótt ég vildi. Verð líka að vera dugleg að læra. Og klappa kettinum. Bölvuðum.

föstudagur, 31. október 2008

Haló

Búin að skipta yfir í halóskanið.
Unnur María þykist vera duglegri að komenta í solleiðis.
Hvað er annars íslenska orðið yfir koment?

Músa-mál

Fundum músina í gær. Ég hafði undanfarna daga fundið svo mikinn músafnyk í kringum eldavélina, og sér í lagi á meðan ég brúkaði hana til eldamennsku. Síðast þegar ég hafði fundið jafn þrálátann fnyk af henni, án þess þó að vita það væri mús, þá var ég búin að staðsetja fnykinn við ísskápinn, þar sem foreldrar mínir komust síðar að að væri fylgsni hennar – þá. Ég bað því stærra gæludýrið mitt að draga eldavélina fram í gærkveldi og viti menn; við okkur blasti músartrýni sem reigði sig hnusandi upp á móti okkur. Mér varð svo hvelft við að ég hörfaði að eldhúsdyrunum. Bölvaður kötturinn hörfaði fram á gang.
Músin er sem sagt búin að hreiðra um sig í eldavélinni og hefur jafn vel fengið veður af krepputali, hún var búin að hamstra stórann bing af kattamat. Já; músin lifir á kattamat. Kötturinn deilir mat með mús.

Kærastinn kom músagildru fyrir í ofnskúffunni. Hún var því miður tóm í morgun. Bölvaður kötturinn setur sig enn í veiðistellingar fyrir framan ísskápinn. Músin væntanlega löngu búin að átta sig á honum og hingað til séð við honum.
Ég býst við að næsta skref hljóti að vera meindýraeyðir.

fimmtudagur, 30. október 2008

Ástríður Paestoa

Myndarlegi maðurinn færði mér þessa bók að gjöf í gær



Tæpar 500 bls fullar af fróðleik um Ítalíu, hráefni, matarhefðir og uppskriftir. Ég virkaði svöl á yfirborðinu en tísti af gleði inní mér. Get ekki beðið eftir að skoða hana betur og prófa uppskriftirnar. Fyrir svo utan hvað það er endalaust svalt hún skuli vera P-P-P.
Ég fékk líka gamlann magnara, aðstoð við eldamennskuna, drakk Líbanskt hvítvín og faðmaði mjúka ístru.

Í dag reyni ég að ákveða hvort ég eigi að skipta um komenta-kerfi. Mér finnst halóskanið með skemmtilegra umhverfi, en við breytinguna týni ég þeim komentum sem þegar eru komin.

Já, krepputímar eru erfiðir...

Jól 2008

Mér skilst að þetta sé jóla-myndin í ár

miðvikudagur, 29. október 2008

Kaffi-mál

Fyrir 2 sumrum síðan vann kjaftfor stubbur hér á skrifstofunni hjá mér. Hann fékk mig æði oft til að hlæja mig máttlausa með ótrúlegum talandanum, en það var þessi sami bölvaði talandi sem fékk því áorkað, að gömlu góðu kaffivélinni var skipt út fyrir sýróps-vél. Ég var sú eina sem mótmælti komu vélarinnar af fenginni reynslu frá öðrum vinnustað, og mun aldrei heiðra þetta sýróps-sull með því góða nafni kaffi. Rökin sem allir fóru á sveif með voru að það væri svo gott að hafa aðgengi að heitu “kaffi” á hvaða tíma sólarhrings sem er, bara að ýta á einn takka. Mín rök voru - og eru - sú að ég vil frekar 1 góðann kaffibolla á dag en marga vonda. Fyrst eftir að vélin kom, og öll þægindin sem henni fylgdu, var ég kölluð sérvitringur fyrir að koma með pressukönnuna mína í vinnuna og drekka mitt eigið kaffi yfir daginn. Fljótlega fór þó að þynnast hljóðið í mönnum og einn af öðrum að segja það upphátt, það væri vart hægt að kalla þetta “kaffi”. Nokk reglulega er kaffi-málið til umræðu á kaffi-stofunni. Strákskrattinn (nýlegi rekstrarstjórinn) tók sig því til, lét fjarlægja sýrópið í gær og er búinn að skipta yfir í stærðarinnar uppáhellingarvél með raunverulegu kaffi.

Ég er ekki frá því það hafi verið léttara yfir mönnum í morgun. Nema það sé snjórinn.

föstudagur, 24. október 2008

oink - oink

Er það bara ég, eða lítur maðurinn út eins og svín?



Myndinni fylgdi reyndar sú frétt að mormónar í Bandaríkjunum sjái Prop 8 fyrir 77% af fjármögnun þeirra. Já, klárlega svín!

fimmtudagur, 23. október 2008

Ástand

Undanfarna daga hefur pissustand átt sér stað á heimilinu. Reyndar ekki á mér, en ég hef víða fundið miður geðfellt kattahland um þessa 47 fermetra sem ég kalla heimili mitt. Ég hef ekki haft tíma til að dást að því hvað kettir geta greinilega migið hátt upp um veggi, þar sem ég hef vart haft undan að vinda tuskuna, og er nú í fyrsta sinn síðan ég flutti, búin að handskúra alla þessa 47 fermetra. Ég hef orðið vör við ýmsa mismunandi ketti á sveimi við íbúðina mína, og komið að tveimur bláókunnugum köttum á eldhúsgólfinu hjá mér. Ég hef því ekki haft hugmynd um hvort hlandið komi frá mínum eigin ketti eða annarra köttum, en þó dregið þá ályktun að hugsanlega gæti Dagurinn minn verið að míga út um allt, til að verjast ágangi annarra katta. Eitt er þó á hreinu; ég held ég hafi sjaldan átt jafn miklar samræður við annað fólk um kattarlufsuna, og hugsanleg úrræði til að koma í veg fyrir stöðuga kattahlandsfýlu, sem satt best að segja er langt frá því að jafnast á við góðan bökunarilm þegar maður kemur inn úr dyrunum.

Ég fékk foreldra mína í heimsókn sl. helgi. Það var reglulega gaman að hitta þau, ekki bara af því mamma eldaði góðann mat handa okkur og við drukkum doldið af góðu rauðvíni, það var bara gott að hitta þau. Við ræddum að sjálfsögðu ástandið á heimilinu og ég kvartaði sárann yfir lykt í eldhúsinu sem ég botnaði ekkert í, og virtist ekki með neinu móti geta komið í veg fyrir, þrátt fyrir ítrekaðar þrif-tilraunir.


Á mánudagsmorgun hringdi pabbi í mig til að láta mig vita hann væri farinn á músaveiðar. Þau hjónakornin hefðu í hægindum sínum ákveðið að færa til ísskápinn hjá mér, þar sem mömmu sýndist grunsamleg korn vera þar undir. Þau voru sem sagt búin að komast að því að fnykurinn í eldhúsinu mínu stafaði af uppsöfnuðum músasaur, og það töluverðum. Um kvöldið fórum við pabbi eins ítarlega og við gátum yfir ísskápinn, en fundum enga mús né líklegann felustað fyrir mús. Töldum þó vissara að skilja eins og tvær músagildrur eftir með smotterís ostbita í.

Þriðjudagskvöldið greip ég kattar-skömmina glóðvolga þar sem hann sprændi lengst upp á fataskáp, var skammaður undir drep og hefur í kjölfarið ekki migið á fleiri staði. Músafnykurinn í eldhúsinu var ferskur sem fyrr, en ég var þó ánægð að engin frekari um-merki um mús var að finna.

Í gærkveldi var ég enn og glaðari; músafnykurinn horfinn með öllu og enginn um-merki. Ég var ekki glöð er ég uppgvötaði síðar um kvöldið að ísskápurinn virtist látinn. Kæró-lumman var kölluð út, ekki þó á músa-veiðar heldur til músa-viðgerðar. Ísskápurinn komst í samt lag eftir að laghenti ístru-Pésinn minn hafði tengt saman sundurnagaða víra. Eftir ítarlegar skoðanir á ísskápnum, bakvið eldavélina, inní skápa og öll hugsanleg skúmaskot, var niðurstaðan sú sama; einu um-merkin eftir mús eru undir ísskápnum. Hvar henni tekst að halda til er enn á huldu.

Eymingjans kattalufsan, sem ég hirti hálfstálpaðann úr fjósi fyrir um 9 árum síðan, er nú innilokaður og neyðist til að míga í appelsínugult þvottafat. Hann er undir gríðarlegum þrýsting frá eiganda sínum um að reynast nú klókari en músarfjandinn, og koma henni í eitt skipti fyrir öll, fyrir kattarnef. Vandræða-Pési er nafnið sem hann heyrir orðið oftar en sitt eigið.

Það eru spennandi tímar. Ég hélt það væri þægilegra að eiga kött fyrir gæludýr en hund. En það er klárlega kæró-lumman sem er þægilegasta gæludýrið.

mánudagur, 20. október 2008

SBAN

Á mínum vinnustað gengur síðasti geirfuglinn laus, með hálfa skúringafötu á höfðinu, latex-hanska á höndum og fulla vasa af skrúflyklum.

Suma daga smyr ég þykkara lagi af Camparí-sultu á ristaða brauðið mitt með kaffinu.

föstudagur, 17. október 2008

fés-bar

Fékk fés-póst frá gaur sem ég þekkti þarna einhverntímann í fyrndinni, er við vorum saman í Undirheimanefnd. Hann líkir fésinu og öllum “vinskapnum” þar við það að fara á barinn. Mér finnst það fyndið og jafnvel nokkuð til í því hjá honum. Nema hvað maður er oftar edrú á fésinu heldur en á barnum.

fimmtudagur, 16. október 2008

Don Pedro

skrifaði þennann pistil í gær.
Mér finnst hann skemmtilegur.

Áhyggjur

Til að fyrirbyggja allann misskilning, þá er kæró-lumman hvorki of seig undir tönn né orðinn verulega þreytandi. Ég var með áhyggjur af því að kjéllingin í kæró-lummunni myndi taka öll völd. Ég sá það fyrir mér hún myndi skellihlægja og klappa saman lófunum yfir öllum kreppu-áhyggjunum sem hann nú gæti velt sér upp úr. En kæró-lumman hefur það bara fínt. Fyrir utan heilbrigðu og vel gefnu afkvæmin sem hann á, fékk hann happdrættisvinning sem skiptir nokkrum þúsund-köllum í svo gott sem ónýtri krónu, á fulla skápa af dósamat, myndarlegann forða í líki ístru, svo ekki sé nú minnst á hann á jú mig sem kærustu.

Ég er því hætt að hafa áhyggjur af því hann hafi áhyggjur. Sem er ágætt, ég var ekki að nenna því hvort eð er.

þriðjudagur, 14. október 2008

Grá-sleppa

Í gær var ég ánægð sem fyrr með það væri kominn mánudagur. Parísardaman kíkti við hjá mér og sagði: Sko! Það er alveg til jákvætt fólk á Íslandi. Ég vissi það. En hugsanlega var það nú líka vegna þess ég sagðist hlakka til fleiri daga, en svo virðist sem afar fáum hlakki yfirhöfuð til þessa dagana.

Í fyrra skiptið sem ég bjó gal-ein upplifði ég fjárhagslega krísu, sem varð til þess ég fékk ógeð af endalausu pasta með smjöri, en var um leið hin ágætasta peninga-lexía, sér í lagi þegar krísunni var lokið. Ég hef aldrei verið há-launamanneskja eða átt sjóð af neinu peningalegu tagi. Ég hef engu að síður plumað mig alveg hreint ágætlega, ekki síst fyrir það að ég hef lært og tekst oftar en áður að temja skap mitt, og tamið mér að líta frekar í átt til já-kvæðni en nei-kvæðni. Þess fyrir utan er ég afskaplega einföld sála. Þrátt fyrir það ófremdarástand sem nú ríkir, geri ég passlega ráð fyrir að halda áfram að draga andann. Nú, og ef ekki, þá er ég væntanlega bara dauð.


Ég er líka að gera svo skemmtilega hluti, t.d. að læra söng og knúsa gamlann ístrubelg. Glætan að ég ætli að eyða tíma mínum í svartsýni, sér í lagi á þessum síðustu og verstu. Ef ég þarf að borða pasta með smjöri aftur, þá bara andskotans borða ég pasta með smjöri aftur – punktur - .


En takk fyrir komentið Parísardama, mér þykir vænt um það.

Ég

Það var svo fallegt að labba í vinnuna; dimman var svo notaleg, prjónapeysan frá mömmu var svo hlý, stöku hálkusvæði til að renna til í, Gonna Sing You My Lovesong & Move On í eyrunum, og búið að kveikja aftur á ljósunum í trénu í Barmahlíðinni sem lýstu svo fallega allann síðasta vetur. Nú sit ég með afganginn af kuldaroðanum í kinnum og á nefinu og hugsa bara; ah!

En jæja, best að hella upp á kaffi.

mánudagur, 13. október 2008

Kjarklaus kjáni

Í morgun var í fyrsta skipti þennann vetur sem ég labbaði í vinnuna í myrkri. Mér fannst það notalegt.
Í dag bíð ég eftir því að kjána-hrollur helgarinnar hverfi. Svo þykir mér líka gaman að mánudögum; gaman að hefja nýja viku sem bíður upp á tilhlökkun til fleiri vikudaga, rólegra kvölda og annarrar helgar.

fimmtudagur, 9. október 2008

Lú-sug

Njúkuð gráðaosta- og spínatbaka frá í gær er ekki góð.
Seta á Boston fram yfir miðnætti á virkum degi er ekki góð hugmynd, þrátt fyrir góðann félagsskap.
Í ofanálag hef ég svo áhyggjur af kæró-lummunni.

Detti mér allar dauðar lýs úr höfði.

þriðjudagur, 7. október 2008

Gling-gling-gló, dill-i-dó

Þegar ég var við það að byrja í Söngskóla Reykjavíkur, sagði bróðir minn mér að söngtími væri á við þerapíu. Ég er honum hjartanlega sammála. Ekki gott að útskýra það, maður er bara einhvað svo glaður eftir smá áreynslu á þindina og raddböndin.

Ég finn enga eirð í mér til að hafa áhyggjur af kreppunni. Mæli bara með söng.

föstudagur, 3. október 2008

Verði snjór

Í gær beið ég spennt eftir snjókomu.
Í dag bíð ég spennt eftir góðum breytingum í efnahagslífinu.

Ætli ég þurfi að slá saman hælunum um leið...

fimmtudagur, 2. október 2008

Konungur

Sá Norðurljós í gærkveldi er ég skondraðist á milli í Norðurmýrinni. Stór og björt í rokinu og reglulega falleg. Glöddu mitt litla hjarta ásamt kuldanum í bollu-kinnunum mínum. Þrátt fyrir mér leiðist stöðugt kaldir puttar og tær, þá finnst mér veturinn skemmtilegur.

Ég býð spennt eftir snjókomu.

miðvikudagur, 1. október 2008

Kæri -

Kæró er farinn að færa sig upp á skaftið.
Kaupti sér flunku-nýjann tannbursta og skildi hann eftir í ponkuskonsu íbúðinni minni.

Er alvarlega að íhuga að lækka hann aftur í hjásvæfu-tign.

þriðjudagur, 30. september 2008

Oní-skúffu

Kæró var góður með sig eftir kæró-færsluna og uppástóð ég væri löngu komin með skúffu, þar sem ég stæli sokkum frá honum án þess að blikna.
Sokkastuld hefur fylgt mér lengi; var strax á táningsaldri búin að ákveða með sjálfri mér að ég og pabbi ættum sömu sokkaskúffuna, þ.e.a.s. hans inn í svefnherbergi foreldra minna. Ég er orðin svo sjóuð í sokkastuld að ég er ekki enn þá búin að átta mig á því, hvernig ég fór að því að stela sokkum af Birni mág mínum.
En þar sem ég er ekki lengur táningur heldur orðin að ungling, á ég orðið þó nokkuð safn af mínum eigin herra-sokkum, í minni eiginni skúffu í eigins svefnherbergi.
Það sem kæró í fyrstu virtist ekki átta sig á, en ég benti honum að sjálfsögðu góðfúslega á er, að ég tek sokka ÚR skúffunni hans og set Í mína skúffu. Sem aftur þýðir að kæró-lumman er komin mun lengra en ég í þessu sambandi, og þegar kominn með skúffu í minni ponkuskons sýnishorn af íbúð.

Svona svipað og að telja sig viðskiptavin ónefnds banka, en vakna svo upp við það að vera orðinn einn af mörgum eigendum hans..

mánudagur, 29. september 2008

Hnútur

Ég er kvíðin. Veit ekki alveg af hverju.
Ekki heldur hvort það er slæmt eða gott.

fimmtudagur, 25. september 2008

miðvikudagur, 24. september 2008

Lúða

Var heima í gær. Eina gáfulega sem ég gerði var að gefa kattar-ræskninu túnfisk. Honum virtist líða vel.







Í morgun beið mín svo stráheilt músar-rahgat fyrir utan svefnherbergisdyrnar. Að öllum líkindum hefur hjartað svikið hana og hún í kjölfarið gefið upp öndina. Kæmi mér þó ekki á óvart ef kattar-skömmin hefur komið þar við sögu.

En – ég átti þetta skilið.

mánudagur, 22. september 2008

Klukk - kukl

4 störf sem ég hef unnið
Markaðsfulltrúi - SBA Norðurleið
Verslunarstjóri - Steinar Waage
Verslunarstjóri - Mango
Framkvæmdastjóri - Myndstef

4 bíómyndir
Fast Forward
The Little Mermaid
Play it Again Sam
Desperately Seeking Susan

4 staðir sem ég hef búið á
Ólafsgeisli
Hólaberg
Marlboro
Gröf

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar
Sex & the City
Family Guy
The Simpsons
Forbrydelsen

4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
mbl
Facebook
Flickr
Söngskólinn

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum
Rekavík bak Látur
Nýfundnaland
Den Haag
San Francisco

4 matarkyns
Soðkökur
Appelsínur
Pasta
Kartöflur

4 bækur
Meistarinn og Margaríta - Mikhaíl Búlgakov
Ofvitinn - Þórbergur Þórðarson
Skræpótti Fuglinn - Jerzy Kosinski
Sagan Endalausa - Michael Ende

4 óskastaðir akkúrat núna
Péturs-faðmur
Íbúðin mín
Skúrinn
Í nuddi

4 bloggarar sem ég skora á að svara þessari könnun
Magga systir mín
Tómas
Kalli
Urður

Takk fyrir klukkið Ragna!

föstudagur, 19. september 2008

Ótrúlegt!

Var ágætlega undir-búin fyrir tímann með undir-leikaranum mínum. Kórtíminn á eftir var skemmtilegur. Hjásvæfan mín var yndislegur eins og hann á að sér að vera, og eldaði fyrir mig kvöldmat þegar skólinn var búinn. Ég nennti þó ekki að skrölta með honum á Ölið að hitta Ara frænda. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, tók með mér rauðvín og bók í rúmið og hrúgaði öllum 3 koddunum undir hausinn á mér. Eftir 2 rauðvínssopa og u.þ.b. heila málssgrein var ég sofnuð.

Þau sem þekkja mig vita, að orðatiltækið allt er vænt sem vel er rautt hentar mér prýðisvel. Ekkert skrýtið í sjálfu sér að hjásvæfunni hafi brugðið við þessa sjón í morgunsárið.


fimmtudagur, 18. september 2008

Súpa

Eftir allt góða yfirlætið í boði hjásvæfunnar, og þá staðreynd að ég mundi ekki lengur hvenær ég hefði síðast eldað, ákvað ég að ganga úr skugga um ég kynni enn þá list að elda eftir uppskrift. Fiskisúpa Eddu systir hennar Rögnu varð fyrir valinu. Rögnu kann ég miklar þakkir fyrir góða hjálp og fiskisúpan, sem er sú fyrsta sem ég hef mallað en þó ekki sú síðasta, var ljúffeng!
Ég ákvað að dekra köttinn í leiðinni með soðnum fisk og smotterís humar. Afslappelsið á eftir var algjört – enda fiskur hollur og góður:



Er annars stokkin heim í upphitaða fiskisúpu og smotterís æfingar, verð að vera vel undir-búin fyrir undir-leikarann í kvöld.

mánudagur, 15. september 2008

Hreinlega

þoli ekki þegar þetta gerist u.þ.b. – akkúrat – nákvæmlega þegar ég er við það að pressa mér fulla könnu af rjúkandi kaffi!



Kann samt ágætlega við Mánudaga.

laugardagur, 13. september 2008

Túr-hestur

Laugardag fyrir viku var mér boðið að fljóta með í Gullhring. Þau eru ekki ófá tilboðin sem ég hef gefið í akkúrat þennann hring, svo ég þáði boðið og brá mér í gervi túrista. Vegagerðin var rausnarleg sem fyrr og bauð þessum annars indæla hóp Skandinava, upp á eðal íslenska náttúru.


föstudagur, 12. september 2008

Talandi um bréf

þá fékk ég ansi skemmtilegann snepil frá KB banka um daginn. Þeir vildu nebbla endilega fá að gera tilboð í bankaviðskipti mín. Sérdeilis elskulegt af þeim, sér í lagi þar sem ég seldi Landsbankanum sálu mína fyrir ríflega ári síðan í formi fasteignalána.
Ég er ekki nógu mikil bjartsýnismanneskja til að ýmynda mér að KB banki bjóðist til að borga upp öll mín lán, mér að kostnaðarlausu. Sé því fram á að láta féfletta mig áfram þar sem ég er.

fimmtudagur, 11. september 2008

Trú-boð?

Ég hef heyrt margar sögur af ýtnum vottum í dyragættum heimila. Ég hef hins vegar aldrei heyrt talað um Votta sem skilur eftir handskrifað bréf. Þetta beið mín þó í póstkassanum er ég kom heim í gær:




Ég efast um að Gerda viti að ég stend utan trúfélaga og hafi þess vegna ákveðið að skrifa mér bréf. Mig grunar frekar að þar sem nafnið mitt stendur eitt og sér á bjöllu, ýmyndi Gerda sér að þessi eymingjans einstæðingur þrái ekkert frekar, en hlýða orðum biflíunnar í einmannaleika sínum.

Gerda mín/minn, ég vona þú fáir þín sölulaun á himnum. Ég hins vegar er of upptekin við að mæta í skólann og hanga utan um háls hjásvæfunnar, til að sitja heima og bíða eftir þér.

miðvikudagur, 10. september 2008

Lopi

Blautir sokkar á ofninum og frúin komin í ullarsokka.



Sumarið er búið. Finn best fyrir því í fingrunum.

þriðjudagur, 9. september 2008

Veit fátt óþægilegra

en að hnerra undir stýri.

Man enn hversu sársaukafullt það var að hnerra með brákað bringubein.

mánudagur, 8. september 2008

Hamingja - í hnotskurn..

Var spurð í gær hvort ég væri hamingjusöm.
Í stað einfalds jáeðanei-svars svaraði ég fyrir mig með spurningu, sem ég reyndar geri doldið oft og er eiginlega frekar leiðinlegur ávani.

Er hamingja gleði eða er gleði staðgengill hamingju. Er hamingja að vera sáttur við og með sjálfa-nn sig. Er hamingja tilfinning sem aðrir veita manni. Er hamingja að vera glaður með hlutskipti sitt. Er maður hamingjusamari ef maður hugsar ekki svona mikið um hvað nákvæmlega hamingjan snýst.

Hvernig veit maður að maður er hamingjusamur?

þriðjudagur, 2. september 2008

Dui, dui, dui -

Það að labba úr skemmtilegum en krefjandi tíma, í yndislegu September-veðri aftur í vinnuna, gerir restina af deginum svo mun ánægjulegri. Held það hafi einhvað með gleði að gera.

Nema það hafi verið allt jóðlið í gær.

mánudagur, 1. september 2008

LGL

Ég var einu sinni spurð að því hver væri uppáhalds ofurhetjan mín. Ég var ekki lengi að hugsa mig um og svaraði; pabbi minn.
Ástæðan er einföld - pabbi minn hefur alltaf gert allt sem hann getur fyrir mig. Hann leyfir manni alltaf að bleyta mola í kaffinu sínu, skríða uppí á morgnana til að kúra, hjálpar manni að flytja, þurkar manni í framan með tóbaksklút ef maður grenjar, gerir við þvottavélina manns og er óspar á faðmlög. Svo hefur hann líka gaman af því að syngja Gunna var í sinni sveit þegar hann rakar sig. Það besta er að þó ég stækki er ég enn þá litla stelpan hans.

Í dag á pabbi minn afmæli – og hann er enn uppáhalds ofurhetjan mín.


fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Þegar óskirnar rætast

Mæli með því að láta drauma sína rætast.
Altjént að reyna, það er vel gleðinnar virði.

miðvikudagur, 27. ágúst 2008

Góð-verk

Ég gerði góð-verk í gær. Að vísu fyrir sjálfa mig en ég ætla samt að telja það með.
Ég hefi nefnilega ekki þrifið íbúðina mína síðan áður en ég fór út. Ég hef verið upptekin við brúðkaup, Fiskidaginn, sem maki á Vegagerðarfundi, fjölskyldumót í Vestmannaeyjum og svona almennt að hanga utan í hjásvæfunni, sem virðist óþreytandi á að bjóða mér í mat kvöld eftir kvöld. Gærkvöldið var þar engin undantekning nema að því leiti, að þrif-samviskubitið var við það að setja Frú Sigurbjörgu á hliðina, enda er ég vön því að þrífa samviskusamlega í hverri viku ásamt því almennt að ganga vel um heimili mitt. Ég ákvað því að setja fótinn niður og tilkynnti hjásvæfunni nú yrðu þrifin í forgang í mínu lífi, ég kæmi ekki í mat fyrr en þeim væri lokið.
Mér leið líka mun betur að verki loknu og með hreingerningarlyktina í nösunum íhugaði ég það í heila sek. að njóta þess bara að vera heima hjá mér, meira að segja kattarskömminn heiðraði heimilið með nærveru sinni. En – sem ég svo sem vissi – hjásvæfan mín er bara ómótstæðileg.


Mér þykir annars að setja fótinn niður skondið.

mánudagur, 25. ágúst 2008

laugardagur, 23. ágúst 2008

Sultu-tau

Hjásvæfan fól mér ábyrgðarmikið hlutverk eitt kvöldið í nýliðinni viku. Fyrr um daginn hafði hann beðið drengina um að tína rifsberin úr garðinum. Hann stóð svo sjálfur yfir pottunum og mallaði sultu. Mér setti hann fyrir að skrifa: rifs 2008 á nokkra límmiða. Ég tók ágætlega í það en komst hins vegar fljótt að því, það er bara ekki vinnandi vegur að skrifa mikið rifs 2008 vegna einskærra leiðinda og ótilbreytingar. Ég axlaði þó rúmlega hálfa ábyrgð og skrifaði á límmiða fyrir allar sultukrukkurnar með réttri árgerð.
Ég var afskaplega glöð þegar mér tókst að tala indæla manninn á að búa til eins og eina krukku af Campari-sultu. Mig hlakkar líka afskaplega til að smakka hana, má maður ekki annars alveg borða Campari-sultu í morgunmat? Eða þýðir þetta rómantískan málsverð við kertaljós sem samanstendur af ristuðu brauði með osti, campari-sultu og rauðvín með...


Mér þykir annars sultu-tau afskaplega fallegt orð.


föstudagur, 22. ágúst 2008

Brósi

Litli bróðir minn á afmæli í dag. Hann er svo sem ekkert lítill lengur, mun hávaxnari en ég og kominn með nokkur grá hár. Þar sem hann er ekki nema rétt rúmu ári yngri en ég deildum við herbergi saman mesta barnæsku okkar, og vorum ósjaldan klædd í föt í stíl. Þegar litli bróðir minn byrjaði í skólanum harðneitaði hann að læra að lesa því; Katla systir les fyrir mig. Ef e-r vogaði sér að stríða bróður mínum varð sá hinn sami að heygja orrustu við mig og slást undir húsvegg á skólalóðinni. Ég gat heldur ekki unað nokkurri stelpuskjátu að bjóða honum upp í dans í dansskólanum og í eina skiptið sem það tókst, hrinti ég skjátunni harkalega í gólfið.

Ég hef blessunarlega látið af þessari eigingirni en held þó áfram að þykja afskaplega vænt um hann. Hann er nebbla alveg ágætur.



fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Basilíka

Ég hef aldrei verið blómamanneskja. Afskorin blóm gleðja mig reyndar, en þeim get ég líka hent án nokkurar samvisku þegar ljóminn er af þeim farinn. Eina blómið sem mér hefur nokkurri sinni tekist að viðhalda lífi í, var Jukka sem kom frá ömmu minni. Veit það núna að ástæðan er einfaldlega sú maður þarf ekkert mikið að vökva hana. Það fer mér ekkert sérstaklega vel að verða að sinna e-u af skyldurækni, eins og td. að vökva blóm, umpotta og stússast í að halda því við. Það hentar mér td. afskaplega vel að eiga kött en ekki hund, þó mér þyki reyndar jafn gaman af báðum dýrum.
Ég hef þó haft gaman af því að vökva og sturta basilíkuna mína í sumar. Þegar ég loks kom heim frá ferðalagi mínu til útlanda og helgarferð norður í land, var aumingjans eyðimerkurbasilíkan mín ekki bara jafn aumingjaleg og áður en ég fór, blöðin voru líka mörg hver orðin svört af vanrækslu. Ég ákvað þó að fleygja henni ekki heldur hugsa hlýlega til hennar, ásamt því að sjálfsögðu að vökva – ég er langt í frá e-r galdrakerling sem nægir að hugsa bara um hlutina. Ég veit ekki alveg af hverju hún braggast svona ágætlega hjá mér, en ég skammast mín ekkert fyrir að blogga það upphátt að mér þykir bara doldið vænt um hana. Ástæðan fyrir væntumþykjunni gæti þó verið sú að basilíka er uppáhalds kryddjurtin mín; ilmar yndislega, bragðast yndislega og tekur sig bara nokkuð vel út í eldhúsinu mínu.



miðvikudagur, 20. ágúst 2008

þriðjudagur, 19. ágúst 2008

Parmigiano-Reggiano

Í París kaupti ég mér tvenn parmeson-osta-stykki. Ég pakkaði þeim vandlega inn, stakk þeim ofan í ferðatöskuna mína og smyglaði þeim svo til landsins án þess að blikna. Þeir byrjuðu dvöl sína á Íslandi í ísskápnum hjá hjásvæfunni. Þaðan fóru þeir nokkrum dögum seinna í ísskápinn í vinnunni minni. Einhverjum dögum þar á eftir kom ég þeim loks í ísskápinn heima hjá mér.
Í gær bauð besta vinkona mín mér í heimsókn. Hún bauð upp á ristað brauð og spagettí – ég bauð upp á pestó og ákvað að tími væri kominn til að smakka ostana góðu. Ég passaði mig vel á að muna eftir ostunum þegar ég kvaddi hana rétt fyrir miðnættið, en á leið minni yfir túnið í átt að Skaftahlíðinni tók ég vinstrihandarsnú-beygju í átt að Samtúninu
.
Indæla hjásvæfan mín var svo elskulegur að minna mig á ostana í morgun þegar hann kyssti mig bless á efri hæðinni. Á neðri hæðinni var ég löngu búin að gleyma tilvist þeirra í ísskápnum. Er svo líka að uppgvöta mér til hálfgerðrar fegins-skelfingar að ég er ekki enn farin að fá mér fyrsta kaffibolla dagsins.

Það er eiginlega sérdeilis svakalegt þegar parmeson-ostar setja veröld manns á hliðina.

mánudagur, 18. ágúst 2008

Heimaey

Komst að því í Vestmannaeyjum um helgina að ég get enn hoppað úr rólu, þó ég sé komin á mikinn hraða. Datt að vísu í fyrsta hoppinu, en eina sem gerðist var að ég fékk þessa líka fagurgrænu grasgrænku á hnéin, sem fór mér bara doldið vel. Var í góðum félagsskap hjásvæfunnar, foreldra minna, systra og fylgifiska þeirra. Mamma Vestmannaeyingur var með heitt á könnunni alla helgina ásamt ógrynni af heimabökuðum skonsum og flatkökum. Frú Sigríður hefði reyndar getað haldið mannskapnum uppi á mat ef út í það er farið. Mér þykir alltaf gaman að fara til Eyja og þessi ferð var engin undantekning; siglingin skemmtileg, ræningjaflöt á sínum stað, sundlaugin í hæfilega stuttu göngufæri frá tjaldsvæðinu, hefðbundið al-íslenskt rok til að ýfa á manni hárið og ánægjuleg samvera með fjölskyldu-limum á öllum aldri.

Eftir þó nokkuð af útilegum í sumar vorum við kæró búin að ákveða að þessi yrði sú síðasta – í sumar þ.e.a.s. Mér varð þó um og ó er ég uppgvötaði í gærkveldi að ekki bara er enn doldið eftir af sumrinu, ég er líka komin með heljar-ábyrgðarstöðu í tjaldferlinu sem ég þyrfti jafnvel að æfa aðeins betur – ég stakk því upp á að tjalda út í garði um næstu helgi og enda tjaldævintýri ársins þannig. Það væri allavega stutt á kósettið.

miðvikudagur, 13. ágúst 2008

Trú

Naut þeirrar skemmtilegu stundar að vera viðstödd brúðkaup vina minna sl. föstudag í Freyvangi. Ég var doldið spennt þar sem athöfnin var að ásatrúasið, en fram að því hafði ég einungis verið viðstödd hin hefðbundnu kirkjubrúðkaup innan þjóðkirkjunnar. Athöfnin var indæl, stutt, hnitmiðuð og laus við alla helgislepju. Mér þótti sérstaklega gaman að brúðhjónin þurftu, hvort fyrir sig, að lýsa því yfir að þau gerðu sér fulla grein fyrir þeirri ábyrgð sem hjónabandi fylgir.

Þó ég sjálf standi utan trúfélaga og haldi mig við þá ákvörðun að gifta mig aldrei, hef ég fulla trú á þessum flónakornum.

fimmtudagur, 7. ágúst 2008

París

Mér þykir gaman að spóka mig um í kjól á heitum degi, án þess að þurfa að taka lúffurnar með mér og hafa áhyggjur af því mér verði kalt. Mér þykir gaman að skoða fallegar byggingar og rölta í rólegheitum í stórborg með afslöppuðu andrúmslofti. Mér þykir gaman að drekka morgunkaffið utandyra í góðum félagsskap. Mér þykir gaman að fara í bakarí og sjá gamla konu setjast niður að hvíla sig, og hina viðskiptavinina sjá til þess, að hún sé afgreidd þegar röðin er komin að henni. Mér þykir gaman að drekka gott rauðvín og borða góða osta með. Mér þykir gaman að róla mér þó ég þori ekki lengur að hoppa þegar ég er komin á mikinn hraða. Mér þykir gaman að lenda í úrhellisrigningu sem er notaleg. Mér þykir gaman að babla á tungumáli sem ég varla kann.

Mér þykir gott að vera í fylgd með foreldrum sem hugsa fyrir nánast öllu. Mér þykir gott að vera minnt á það að þrátt fyrir við Íslendingar séum svo frábærir, þá mættum við oft vera mun kurteisari hvort við annað í daglega lífinu. Mér þykir gott að eiga indæla hjásvæfu til að sakna þegar ég er í útlöndum. Mér þykir gott að eiga góða vini sem hugsa til mín meðan ég er í burtu. Mér þykir gott að koma heim eftir gott ferðalag.

Er annars stokkin norður með myndarlega manninum.

fimmtudagur, 24. júlí 2008

Pestó

Útbjó heimalagað pestó í fyrsta sinn um daginn. Bústna basilíkuplantan mín er frekar mögur eftir herlegheitin.



Er annars stokkin til Parísar að hitta systur mína – vonandi verður plantan búin að jafna sig þegar ég kem til baka.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Nafna

Sl. helgi hjá mér byrjaði eiginlega á fimmtudagskvöldinu þrátt fyrir að vinna part úr degi á föstudag.
Matreiddi pestólambalundir ásamt ofnbökuðu grænmeti handa okkur Guðmundi á fimmtudagskvöldinu. Eftir að hafa borðað ljúffenga máltíð, drukkið doldið rauðvín, hlustað á Gaye vin okkar, fíflast í kettinum og atast með myndavélina, drifum við Örnu með okkur á Boston að hitta Unni, Helgu Þórey og Kjartan. Kannski ekki það gáfulegasta sem hægt er að gera á fimmtudegi en öfga gaman.
Eftir stutta útgáfu af vinnudegi brunuðum ég og hjásvæfan svo í Þakgil á föstudeginum. Það var vægast sagt indælt að sofa í tjaldi, njóta góða veðursins, bjóða öðru fólki góðann daginn, drekka morgunkaffið undir berum himni, fara í langann göngutúr, hitta furðuverur nátturunnar og alls ekki slæmt að sjá glitta í hana nöfnu mína í fjarska.
Sunnudegi var svo eytt í almennt hangs sem er ljúft með indælli hjásvæfu.




Fórum og hittum kisurnar hennar Unnar í gær, eða jah, yfirskynið var vissulega að heimsækja Unni og þiggja gott kaffi hjá henni, en aðalaðdráttaraflið eru nýja kisa og nýjasta kisa – líklega Ísafold og Piparkaka. Þær eru svo fallegar og mjúkar og yndislegar og sætar og mala svo flott að mér klæjaði í kattarbeinið sem Unnur þvælir stundum um.

Og nú er kominn mið-viku-dagur – lífið er bara svei mér þá ein skrembilukka.

Líflátin

Í nótt dreymdi mig að systir mín hefði verið dæmd til dauða. Hún skyldi hálshöggvin fyrir ósiðsamlegt athæfi. Draumurinn hófst þar sem hún beið í varðhaldi ásamt 2 öðrum konum.
Ég var að allann tímann við að kanna hvað hefði gerst og hvernig væri hægt að sanna annað og breyta dómnum. Ég rakst á margar hindranir, varð vör við hvað aðrir voru passífir og vildu ekki vera með neinn mótþróa og ég varð sjálf að láta í minnipokann á endanum. Ekki bara dreymdi mig að ég hefði verið viðstödd aftökuna skv. hennar ósk heldur hélt draumurinn svo langt að mig dreymdi líf mitt eftir hana líka.
Þetta var einn af þessum draumum sem virðast standa yfir alla nóttina. Ég vaknaði um 2 leytið en hvarf strax til draumsins þar sem frá var horfið og var enn að dreyma er ég vaknaði, dauðþreytt.
Hvernig er hægt að dæma 3 konur til lífláts fyrir að hafa sagt eða gert einhvað sem öðrum þykir ósæmandi.

Þar sem ég lá varla vöknuð og heilinn ekki farinn að skynja mikið meira en faðmlag hjásvæfunnar, varð mér hugsað til þess að þessi fáránlegi draumur minn er því miður staðreynd í lífi of margra kvenna í heiminum í mörgum mismunandi myndum.

Ég hins vegar er svo lánsöm að vera kona á Íslandi, þar sem mín eymd felst í besta falli í krepputali og afborgunum af húsnæðisláni.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

PPP

Ég er svo lánsöm að þykja gaman að elda – meira að segja mjög gaman að elda. Skemmtilegast finnst mér að elda eftir uppskrift. Svo gaman að þrátt fyrir að hafa búið ein sl. 1,5 ár elda ég nánast alltaf eftir uppskrift, þó það sé máltíð handa mér einni hugsanlega í félagsskap kattarins. Ég á mér þó letirétt en ég gríp örsjaldan til hans.
Mér þykir eiginlega gaman að öllu ferlinu. Mér þykir gaman að velta mér upp úr uppskriftum og setja saman matar- og innkaupalista. Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að Bónus sé neinn skemmtistaður, en ég hef gert margt leiðinlegra en að versla. Minn galdur er einfaldlega sá að vera doldið skipulögð – fara á þeim dögum sem mér henta og versla doldið inn í einu.
Eftir að ég kynntist hjásvæfunni - sem er mjög liðtækur í eldhúsinu - og eyði sífellt meiri tíma með honum, hefur þessi matar rútína mín riðlast svo, að oft á tíðum liggur við að það eina matarkyns sem til er í mínum skápum, er kattamaturinn.
Ég var því ákveðin í að setja saman stutta útgáfu af matarlista, fara í búð og eyða svo tíma með sjálfri mér og kettinum heima hjá mér, í mínum eigin huggulegheitum í gær. Og hvað gerir Frú Sigurbjörg? Jú, eldar letiréttinn!

Pasta, pestó, parmesan. Ekki bara er hann einfaldur, þessi þrjú hráefni þykja mér afskaplega góð. Mikilvægast þó – hann gengur með öllum tegundum af rauðvíni.


Í kvöld verður þó bragarmunur á - ætla að elda góðann mat handa góðum vin.
Hver er annars ykkar letiréttur?

mánudagur, 14. júlí 2008

Fía pía

Ólafía litla frænka mín á afmæli í dag. Ég man vel eftir því þegar þessi stelpa kom í heiminn en það sama sumar byrjaði ég sumarvist hjá systur minni, sem átti eftir að vara nokkur ár eftir það að passa gríslinginn og síðar systur hennar líka. Það var aldrei leiðinlegt að passa þetta litla skott, ef hún var ekki brosandi þá var hún hlægjandi og uppátektarsemina vantaði ekki. Mér er alveg sama þó hún Fía sé 21 árs í dag og eigi 2 fallega drengi með sambýlismanni sínum – hún verður alltaf litla skottið mitt.


Vinir

Eins og ég hef þegar bloggað um þykir mér afskaplega vænt um töluna þrettán. Ekki bara fyrir að ég sjálf sé fædd þrettánda, ég hef líka töluvert af góðu fólki í kringum mig sem fætt er þrettánda. Dagurinn í gær var sérstakur fyrir það að tveir góðir vinir mínir deila þessum afmælisdegi.

Lindu Rós kyntist ég fyrir heilmörgum árum í Hagkaup sem var okkar sameiginlegi vinnustaður. Það hefur verið sérstaklega gaman að fylgja henni Lindu minni, sem þrátt fyrir að hafa bætt á sig árum - eins og við gerum víst öll - og orðin móðir og eiginkona, þá er alltaf eins að hitta hana – alltaf yndisleg, geðgóð, traust og vinur vina sinna. Samverustundirnar mættu gjarnan vera fleiri, en með svona góðann og hlýjann vin í farteskinu er ekki hægt að kvarta.




Guðmundur var áður sambýlismaður minn og elskhugi – lét það yfir sig ganga að vera kynntur sem hjásvæfa fyrstu 2 árin en varð maðurinn minn eftir það. Ég hef ekki fyrr haldið vinskap við “fyrrverandi” en ég er afskaplega ánægð með þennann. Þrátt fyrir að sambúð okkar hafi ekki lukkast er ekki hægt að líta fram hjá því, að Guðmundur er yndislegur drengur með stórt hjarta. Mér þykir gott að halda áfram að þykja vænt um hann og eiga hann sem einn af mínum betri vinum.



Eins og besta vinkona mín orðaði það: hvaða vit er í því að auka í óvinahópnum – miklu skemmtilegra að stækka vinahópinn.

föstudagur, 11. júlí 2008

Purr

Sambýlingurinn hefur vart látið sjá sig. Ég sé á matarskálinni að einhver étur af henni og hef verið að vona það sé hann. Hef samt haft áhyggjur af því hann sé hugsanlega fluttur að heimann, búinn að taka sér búsetu annars staðar og Skaftahlíðin sé eingöngu orðin að hverju öðru útibúi, sem ég er reyndar viss um hann eigi nokkur þar sem skepnan er með eindæmum mannelsk. Hef einnig velt því fyrir mér hvort tíð fjarvera mín af heimilinu eigi þar hlut að máli.
Ég varð því mjög kát að sjá skepnuna koma vælandi á móti mér er ég arkaði Skaftahlíðina heim rétt eftir miðnætti í fyrrakvöld. Ekki bara fylgdi hann mér inn og fékk sér smá snarl, heldur kúrði hann sig upp við mig í rúminu og ég sofnaði með malið í eyrunum – vaknaði svo með skepnuna til fóta. Í gærkveldi er ég kom heim á svipuðum tíma eftir kaffikjaft með indælum vinkonum var skepnan þegar sofnuð í rúminu.
Eins og mér leiðist þegar kvikindið fer á brölt í rúminu um miðjar nætur, og ýtir loppunni á nefið á mér til að vekja mig, veit ég þó fátt indælla en mjúkann kisukroppinn og háa malið hans Dags míns.

Ég ætla samt að kúra hjá hjásvæfunni í kvöld – veit að hann er glaður að vera einstaka sinnum tekinn fram fyrir kött.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Kjölur

Við Unnur María vorum mættar á BSÍ sl. föstudag til að fara með áætlunarbíl SBA norður Kjöl. Kjölur er skemmtileg leið, altjént í glampandi sólskini, og ekki skemmdu fjörugar og athyglisverðar samræður við Ingjald bílstjóra fyrir.
Urður og Ragnar eru höfðingjar heim að sækja og við Unnur vorum dekraðar í mat og drykk.
Fengum einkaleiðsögn safnstjóra um Iðnaðarsafn Akureyrar sem er mjög athyglisvert. Borðuðum pizzur með kartöflumús og pepperoni annars vegar og nautakjöti, frönskum og Bernais sósu hins vegar. Borðuðum á verönd veitingastaðarins Strikinu með fallegt útsýni yfir höfnina, rómantísku gargi máfa yfir höfðum okkar og dáðumst að sjortara-borðinu í lyftunni. Kynntum okkur næturlíf Akureyringa. Tókum ákvörðun seint á Laugardagskvöldi um að dissa áætlunina til baka deginum eftir og húkka okkur bara far í bæinn.
Sem betur fer beilaði ég á þeirri hugmynd og reif mig á fætur. Hafði það mjög heimilislegt í framsætinu hjá Jóni Jaka með sokkaklæddar bífurnar út í framrúðunni, og þakkaði fyrir út í bláinn hvað heilsan væri góð.


Það er fátt sem toppar góðann félagsskap – áhyggjulaust frí – stuttann kjól á sólskindegi.