mánudagur, 3. júní 2024

Hver er ég?

"Ég heiti Katla. Ég er 49 ára gömul, ógift, barnlaus og byrjaði í nýju starfi í morgun. Þetta eru staðreyndir um líf mitt akkúrat þessa stundina. Ég er bókhneigð, tilfinningarík, uprreisnar- og ævintýragjörn. Ég hef oft og ítrekað fundið fyrir þrýstingi frá fjölskyldu, vinum og samfélaginu um hvernig ég eigi að haga mínu lífi og hvaða kökuform ég eigi að troða mér í. Það sem er svo skemmtilegt við að læra af því að lifa er að öðlast þor til þess að vera maður sjálfur og stjórna eigin för. Mitt svar við spurningunni hver er ég? er einfalt, ég er hver sú sem ég kýs að vera hverju sinni eins og mér einni hentar. Takk fyrir."

Fyrir þennan óundirbúna og uppdiktaða ræðustúf á staðnum í Masterklasstíma í kvöld áskotnuðust mér skemmtileg verðlaun sem var ekki hvað síst ánægjulegt fyrir þær sakir að ég var ekki búin að átta mig á því að tveir nemendur voru í dómarastellingum og að verðlaun væru í boði. Hnitmiðað og snarpt, fumlaus og öruggur flutningur held ég svei mér þá að hafi verið taldir kostir þessa búts og nú legg ég hreint ekki meira á ykkur hlustendur góðir. Takk fyrir.

sunnudagur, 2. júní 2024

Í nýafstöðnum forsetakosningum,

þar sem enginn frambjóðandi var frambærilegur að mínu áliti, er mikilvægt að minna sig á það jákvæða við niðurstöðu kosningana. Sú staðreynd að Halla Tómasdóttir bar sigur úr býtum er ánægjulegt fyrir þær sakir einar að það þýðir að Katrín Jakobsdóttir er ekki nýkjörinn forseti landsins. Lýkur þar með upptalningu minni á jákvæðum kostum tilvonandi forseta.

Datt ekki til hugar að fylgjast með kosningasjónvarpi gærdagsins en skemmti mér konunglega yfir Stellu í orlofi sem einhverjum árum síðar fór líka í framboð, þó ekki forsetaframboð

miðvikudagur, 13. mars 2024

Konan hans Sverris...

 ...er áhrifamikil, snörp og skörp saga af ofbeldi sambýlismanns og barnsföður.

"Hann er ekki hann

heldur þeir.

Hann er bláeygur, brosmildur,

grímuklæddur, góðlegur

og vinalegur voffi.

Hann er úlfur.

Hann er grímulaus, ýlfrandi,

svarteygur, urrandi,

geltandi, gólandi, úlfur og hvutti.

Hann er þeir tveir."

Konan hans Sverris eftir Valgerði Ólafsdóttur. Útgefin af Benedikt bókaútgáfu, 2021.

mánudagur, 11. mars 2024

Liðið og ekki liðið

Muna hlustendur góðir eftir hinum heimsfræga (allavega á Íslandi) pöbb sem bar heitið Dubliners? Í vikunni sem leið ákvað ég að rifja upp liðna tíð og skellti mér á staðinn sem í dag ber heitið Tres Locos. Tilefnið að þessu sinni var sumsé ekki að belgja kviðinn með góðum Guinnes af krana heldur kýla vömbina af mexíkóskum mat. Var vísað til borðs á efri hæðinni. Brosti í kampinn er ég þræddi stigann upp, stigann sem ég hef hreinlega ekki tölu á hversu oft ég steig upp, og niður, í misjöfnu ástandi, þ.e.a.s. allt frá næstum því edrú, tipsý, vel tipsý, vel í því og jafnvel peðölvuð. Komst þó ávalt klakklaust upp stigann og niður aftur. Sömu sögu var að segja þetta kvöld þrátt fyrir að hafa fengið mér einn rjúkandi Pisco Sour eftir matinn. Fyndið að sjá Dubliners skrýddum mexíkóskum myndum, mexíkóskum munum og óma af mexíkanskri tónlist. Nei, enginn trúbador í boði, allavega ekki á þriðjudagskveldi.


Þau voru ófá skiptin sem ég rölti úr Túnum í Hörpu tónlistarhús með mínum fyrrverandi til að hlusta á jazz. Múlinn á enn sinn miðvikudagssess svo ég ákvað að tími væri kominn til að endurnýja kynnin. Er ég arkaði í átt að stiganum sá ég starfsstúlku Hörpu í miðasölunni, af hálfgerðri rælni bauð ég henni góða kvöldið og spurði hvort Múlinn væri ekki enn á sama stað, á 3ju hæðinni? Sem betur fer því svo reyndist alls ekki vera, búið að færa jazzinn í allt annann sal. Ulrik Bisgaard Quintet sveik aldeilis ekki með ljúfum tónum og Suður amerískri sveiflu í bland. Tveir saxófónar, píanó, bassi, trommur og dönskuskotin enska í kynningum á milli laga.

Á fimmtudeginum fór ég svo á Food and fun með systur minni og dóttur hennar. Gúffuðum í okkur Gullsporða, bleikju- og humarsushi, lúðuchevise, andabringum og ostaköku svo fátt eitt sé nefnt. Töluðum einhver ósköp og stóðum svo á blístri á eftir.
Hef marg oft farið á Sushi social, líka á ansi eftirminnilegt Food and fun með piparúða í forrétt.

Samt var einhvernveginn öðruvísi að vera þarna. Það eru ekki bara hlutir og staðir sem ýmist haldast óbreyttir eða breytast. Kona breytist nefninlega líka.

fimmtudagur, 7. mars 2024

630 kr. stakur miði í strætó

Í morgun tók ég strætó frá Barónsstíg í Glæsibæ. Hef ekki nýtt mér íslenskar samgöngur í háa herrans tíð. Förin var að mestu tíðindalítil og þokkalega ánægjuleg með góða tónlist í eyrunum á leiðinni. Þó þykir mér farið heldur dýrt. 

Í Glæsibæ átti ég tíma í sjónmælingu. Hef alla tíð haft mjög góða sjón en stuttu áður en ég flutti til Parísar neyddist ég þó til að gera mér ferð í Tiger og kaupa mín fyrstu lesgleraugu. Þau gleraugu nota ég enn en hugsaði þó með mér að það væri besta mál að láta mæla sjónina og fá almennilega úr því skorið hver staðan á henni væri, hvort Tiger gleraugu á styrk 1 væri málið. Eftir ítarlega skoðun, mismunandi stafaspjöld og svíðandi augndropa er niðurstaðan sú að ég á að halda mig við Tiger, 100% sjón á vinstri auga, 80% sjón á því hægra. Var tjáð að ég hefði verið með ofursjón áður en ellin skarst í leikinn og hugsanlega kæmist ég mest upp í styrk 1,75 í Tiger gleraugum með hækkandi aldri. 

Með þessa niðurstöðu í farteskinu ákvað ég að labba til baka á sjúkrahótelið. Rölti í gegnum Laugardalinn, fór göngubrúna yfir í túnin, gekk götuna sem ég bjó við. Staldraði við húsið sem ég flutti inn í vegna þess að ég elskaði mann svo heitt. Leiddi hugann að ástinni sem teymdi mig þangað, hamingjunni sem hélt mér þar, erfiðleikunum og vonbrigðunum sem teymdu mig þaðan út ríflega áratug síðar. 

Fyrr á gönguferðinni sá ég annað hús sem ég tengdi við námsefni tímans sem ég er að bíða eftir að hefjist hvað úr hverju. Kannski segi ég ykkur frá því síðar. Eitt get ég þó sagt ykkur með nokkurri vissu; það fæst ekki allt séð með sjón.