fimmtudagur, 6. desember 2018

Fésbókin er eins og gömul frænka

Fésbókin vildi óð og uppvæg benda mér á það um daginn að 11 ár væru liðin síðan ég gekk til liðs við hana. Henni þykir víst svo vænt um mig að hún var búin að búa til handa mér myndband sem hún var æst í að ég myndi deila með öllum heiminum en mér datt ekki í hug að láta það eftir henni. Í myndbandinu var vissulega fyrsta prófílmyndin af mér og einhver haugur af myndum af mér og Pétri (skyldi líklega engan undra) en ég var samt soldið sár að sjá ekki fyrstu myndina af okkur Pétri þarna á þessu fésvídjói. 

Af hverju? gæti einhver spurt. Jú, málið er nefninlega það að mánuði eftir að ég hóf samlífið með fésbókinni leyfði ég bestu vinkonu minni að teyma mig á bar þar sem ég hitt þann myndarlega í fyrsta sinn. Það sem eftir lifði af því kvöldi mændi ég á þann myndarlega, talaði frá mér allt vit og ákvað síðan að stinga hann af.

Af hverju? gætuð þið aftur spurt. Jú, stundin sú var hreint út sagt bara svo frábær að ég vildi eiga hana ósnerta í minningunni. Hvað ég meina með því á ég kannski eftir að segja ykkur síðar frá nema að degi eftir að ég stakk þann myndarlega af á ónefndri ölstofu hér í bæ fékk ég skilaboð á fésbókinni frá rauðhærðum manni með rammskakka fremri tönn sem þótti víst afar leitt að hafa misst af mér kvöldinu áður og vildi endilega fá að hitta mig aftur og ég sat við tölvuna mína í ponku skonsunni minni í Skaftahlíð og hugsaði WHAT?! Hringdi í snarhasti í vinkonu mína og spurði hana hvort maðurinn sem ég hefði hitt kvöldinu áður væri ekki örugglega dökkhærður með þráðbeinar tennur? Besta vinkona mín svaraði með "Katla mín, þetta var G.Pétur Matthíasson, fréttamaður " og ég svaraði; nei, hann vinnur hjá Vegagerðinni þessi sem ég hitti í gær!

Síðan eru liðin einhver ár en við Pétur getum víst ekki neitað fésbókinni um að hafa spilað stórt hlutverk í lífi okkar og því vel við hæfi að birta hér fyrstu myndina af okkur á fésinu 
Sigurbjörg og Guðmundur