sunnudagur, 3. desember 2017

Kyrrð í Krók.

Horfi út á ísilagt vatnið. Fjöllin ber við gráhvít skýin, teiknuð af snjó niður í móbrúnar hlíðar. Trén standa bísperrt með naktar greinar, laufin liggja grafkjur og hlýðin á jörðinni. Dansinum er lokið.

Inni fyrir stagla skötuhjú við frönsk orð, spá í spurnarfornöfn, beygja sagnir, feta sig áfram við setningagerðir, hlusta á franskan orðaflaum. 

Á stund milli stríða þeysast persónur á milli heima í tíma og rúmi orða á bók. 

Orð dagsins er kyrrð.

laugardagur, 2. desember 2017

Úr bústaðarfleti

Á helgarmorgnum vil ég helst ekki vakna fyrr en karlinn er búinn að hella uppá. Þegar svo óheppilega vill til að ég er vöknuð áður en það gerist þá klemmi ég saman augunum og neita að opna þau fyrr en kaffiilmurinn er kominn í nasirnar. Svona er ég fordekruð af þeim myndarlega. Mér til varnar ætla ég að láta ykkur vita að yfirleitt sé ég um að sækja ábótina. Hananú.

Á þessum helgarmorgni vaknaði ég í niðamyrkri. Lá og hlustaði á þyt vindsins og laufanna fyrir utan. Heyrðist á andardrætti þess myndarlega að hann mundi líka vera vakandi. Fann engann kaffiilm. Var farin að halda að það væri enn nótt en sá myndarlegi fullvissaði mig um að það væri kominn morgunn.

Meðan eiginmaðurinn hellti svo uppá gamla mátan lá ég í bælinu með lokuð augun og hugsaði upp þennan fína bloggpistil sem var fljótur að smjúga út um gluggann um leið og ég tók fyrsta kaffisopann. Er viss um að hugmyndirnar fínu dansa þarna úti með laufunum í rokinu og enda í vatninu að dansi loknum. Á meðan læt ég fara vel um mig undir sæng með heitan eiginmannskropp mér við hlið og ilmandi kaffi í bolla.

þriðjudagur, 31. október 2017

Appelsínugult og grænt

Síðasti dagur októbermánaðar var blautur og grár en mildur. Á degi sem þessum skar kona niður graskersrest, pipraði og saltaði og lét malla í ólafíuolíu í ofni. Tók góðan hálftíma að verða mjúkt. Var búin að skola spínat sem ég lagði á disk, graskersbitar örlítið kældir lagðir ofan á spínatið. Keypti geitaost í Melabúðinni sem ég krumplaði og kleip yfir spínatið og graskerið. Hrærði ólafíuolíu og balsamediki saman og drippaði yfir þrennuna. Þurrsteikti sólblómafræ á pönnu og dreifði í óreglulegri óreiðu yfir. Á meðan á öllu þessu stóð hlustaði ég á Rhye og dreypti á hvítvíni. Feðgar tveir biðu svangir. Útkoman bærileg ef ekki bara harla góð 
 Er ekki annars rosalega langt síðan ég hef bloggað um mat?

föstudagur, 20. október 2017

Ég líka - höfum hátt!

Fyrir sautján árum vann ég í stórri verslun hér í Reykjavík, var svo kallaður svæðisstjóri yfir nokkrum deildum og hafði deildarstjóra yfir mér, einhleypur náungi, nokkrum árum eldri en ég. Þessari vinnu fylgdi mikið álag og ég var iðulega á öðru hundraðinu, var kannski að raða leikfangakössum uppí hillu þegar ég var kitluð, raða skókössum inná lager þegar ég var klipin, af deildarstjóranum. Yfirmaður minn var óþreytandi við klíp og kitl og dónalegar athugasemdir. Sem dæmi kallaði hann mig eitt sinn uppá skrifstofu, er ég kom þangað lokaði hann hurðinni, slökkti ljósið, settist í skrifstofustólinn og renndi honum upp að mér og sagði; dansaðu fyrir mig í tón sem átti kannski að vera seiðandi en mér fannst ógeðfelldur. Eftir að hafa neitað og beðið hann að hætta þessu, sem engu skilaði, ætlaði ég að rjúka á dyr. Þá spratt hann upp úr stólnum og stöðvaði mig með þeim orðum að láta ekki svona, hann væri nú bara að grínast. Mér fannst þetta ekki fyndið og þykir ekki enn. Á einum tímapunkti þar sem hann kom aftan að mér og kleip mig fauk svo í mig að ég ýtti honum harkalega frá mér og hvæsti að honum hvað hann hefði hugsað sér að gera einn daginn þegar ég ætti eftir að slá hann utan undir fyrir framan alla viðskiptavinina? Ætli ég verði ekki bara að taka því svaraði hann glottandi. Eftir þessa senu komu þó nokkrar samstarfskonur mínar til mín og höfðu orð á því hvað þeim þætti ömurlegt að horfa uppá hvernig hann hagaði sér gagnvart mér. Áreitnin var nefninlega fyrir allra augum en fram að þessum tímapunkti hafði engin haft orð á henni. Eitthvert skiptið var ég svo stödd í miðbæ Reykjavíkur að djamma með vinkonu minni. Þetta var  þegar staðirnir lokuðu allir kl. 03:00 og fólk safnaðist saman í Austurstræti og nálægum götum. Þar var ég sumsé stödd þegar deildarstjórinn kemur upp að mér og fer að "tala" við mig; hæ sæta, kemuru heim með mér í kvöld og þar fram eftir. Þegar vinkona mín áttaði sig á hver hann væri (og já, ég var búin að segja henni sólarsöguna) þá gjörsamlega missti hún sig, hún jós skömmum yfir hann á sínu hæsta c-éi. Deildarstjórinn lét sig hverfa. Á mánudeginum lét hann svo eins og ég væri ekki til, yrti ekki á mig, labbaði framhjá mér með fýluna lekandi á eftir sér, hagaði sér eins og ég hefði gert á hans hlut. Ég var fljót að taka það inná mig og var gjörsamlega miður mín yfir því að vinkona mín hefði ekki haldið sig á mottunni. Svo miður mín var ég að félagi minn, sem vann á tölvudeildinni, sá hvað mér leið illa og vildi vita hverju sætti. Eftir að hafa sagt honum sólarsöguna vildi hann fara með málið alla leið til framkvæmdastjóra. Einhverjum dögum seinna er ég svo kölluð upp til þess stjóra sem vildi fá að heyra mína sögu, sagði mér að honum þætti voðalega leitt að heyra þetta en deildarstjórinn minn væri jú ungur maður, sagði að hann gæti alveg talað við hann ef ég vildi en stakk uppá að við myndum aðeins hinkra og sjá hvort þetta jafnaði sig ekki bara.

Á þessum sama stað vann maður eitthvað yngri en foreldrar mínir. Afskaplega þægilegur og glaðlegur náungi. Á hverjum morgni þegar ég mætti tók hann á móti mér með brosi. Á einhverjum tímapunkti fór hann að taka á móti mér með faðmlagi. Mér fannst það svo sem í lagi, er sjálf óspör á faðmlög við fólk sem mér þykir vænt um. Fljótlega eftir að faðmlögin hófust sagði ég upp í vinnunni og fór svo að gera annað eftir að uppsagnarfresti sleppti. Eftir að ég hætti störfum þarna fór maðurinn að hringja í mig í gsm-inn minn, sem á þeim tíma var nokkuð nýr á nálinni og svona, rétt notaður fyrir símtöl og mikið sport að geta sent sms og talað inn á talhólf. Fljótlega fór maðurinn að hringja of oft að mér fannst, hann var sífellt að biðja mig að koma og hitta hann t.d. á kaffihúsi, fara með honum út að borða, koma með honum í sumarbústað yfir helgi. Ég neitaði öllum slíkum beiðnum og á endanum bað ég hann um að hætta að hringja í mig. Eftir það fór allt úr böndunum. Maðurinn hringdi í mig ca. 30 sinnum á dag, talaði inná talhólfið mitt í ca. helming af þeim skiptum sem hann hringdi og sendi mér líklega 20 sms daglega. Eftir örmagna tilraunir þar sem ég bað hann að hætta, láta mig í friði, var ég hætt að svara honum. Vinir mínir og fjölskylda voru farin að spyrja mig hvað væri eiginlega í gangi þar sem síminn minn var síhringjandi og sípípandi. Ég fór að hafa símann minn á silent, alltaf. Í síðasta skiptið sem ég svaraði hótaði ég honum því að ég myndi fara til lögreglunnar ef hann hætti ekki að ofsækja mig. Það virkaði ekki. Ég hinsvegar fékk mér leyninúmer og var með slíkt í mörg ár á eftir. 

Tíu árum síðar (eða svo) vann ég á skrifstofu. Eitt sinn bauð eigandi fyrirtækisins mér í svona fyrirtækjagill á hóteli hér í bæ, matur og vín og gleði og gaman. Undir lok gleðinnar kemur eigandinn til mín og býður mér uppá herbergi (á hótelinu, þar sem hann gisti) og segir að þar ætli nokkrir vinir að koma saman og fá sér einn lokadrykk. Ég slæ til og fer með honum uppá herbergi. Þigg drykk og við spjöllum í einhverja stund. Nema þegar eigandinn fer að hrósa mér fyrir hvað ég líti glæsilega út og segir mér að hann sé soldið skotinn í mér og að honum langi til að ég gisti hjá honum þarna á hótelherberginu um nóttina þá átta ég mig á því að það er líklega ekki von á fleiri gestum en mér. Í stað þess að segja þvert nei minni ég hann á að ég eigi mann (sem hann hafði nokkrum sinnum hitt) og hann eigi nú von á að ég komi heim um nóttina. Eigandanum fannst það allt í góðu, ég á líka konu sagði hann, þú verður heldur ekkert að gista en mig langar að sofa hjá þér. Mér leist ekki á blikuna og stend upp til að kveðja. Um leið rís hann á fætur, tekur í hönd mína, þrýstir sér að mér og kyssir mig á munninn, reynir að troða tungunni uppí mig. Ég hörfa, slít mig frá honum og segi að ég verði að drífa mig heim. Eigandinn fylgir mér að lyftunni og reynir að fá mig til að skipta um skoðun. Ég vil ekki skipta um skoðun, ég vil bara komast heim. Eftir þetta fer eigandinn að vera meira kammó við mig, gerir sér far um að spjalla í vinnunni, sest gjarnan í stól á móti skrifborðinu mínu þegar ég var ein á skrifstofunni og biður mig um að hitta sig, koma með sér út að borða, á kaffihús, út í hádegisverð. Situr á móti mér, með skrifborð á milli okkar, og segir mér hvað honum þyki ég falleg og kynþokkafull. Þrátt fyrir ítrekaðar neitanir neitar hann að gefast upp. Það geri ég hinsvegar og ákveð að segja mínum yfirmanni frá sem eftir það gerði sitt besta til að ég væri aldrei ein með eigandanum á vinnustaðnum.

Snemma á árinu brá mér heldur í brún er ég svaraði símanum í vinnunni. Þrátt fyrir að hafa ekki heyrt röddina í næstum sautján ár þekkti ég hann strax í gegnum símann. Ég var stutt í spuna og gaf símtalið áleiðis, lærði númerið utan að og svaraði ekki þegar ég sá að viðkomandi var að hringja. Síðar brá mér enn frekar þegar maðurinn, sem hafði ofsótt mig með símhringingum fyrir sautján árum, var mættur uppá skrifstofu. Erindi hans var vinnutengt. Sem fyrr virkaði hann afskaplega þægilegur og glaðlegur, kjaftaði á honum hver tuska enda vel tekið að Melabræðra vanda. Ég hinsvegar sat á mínum stól kengbeygð í sálinni. Sannast sagna var ég hálf hissa á hversu nærvera hans hafði mikil áhrif á mig en öllum þessum árum síðar fann ég að ég gat ekki þolað hann, allar reiðu tilfinningarnar og þær smeyku líka skutust fram. Örfáum dögum síðar var hann aftur mættur uppá skrifstofu. Aftur lét ég sem hann væri ekki þarna, eða öllu heldur lét ég sem ég væri ekki þarna, tók ekki þátt í neinum samræðum og svaraði heldur engu. Ég vissi að ég gæti ekki átt samskipti við hann og ákvað því að koma hreint fram og segja mínum yfirmönnum frá því sem gerst hefði fyrir öllum þessum árum, ég vildi að þeir vissu af hverju ég gæti ekki hugsað mér að vera nálægt þessum manni, ég vildi að þeir vissu af hverju ég drægi mig í hlé og vonaði að þeir myndu sýna mér skilning með að fara útaf skrifstofunni þegar þessi maður kæmi. Viðbrögð bræðranna voru vægast sagt önnur en ég átti von á. Jú, vissulega á maðurinn erindi í mína vinnu vinnu sinnar vegna en að ég drægi mig í hlé kom ekki til greina af bræðranna hálfu. Eftir að hafa hlustað á það sem ég hafði að segja var afstaða þeirra skýr; mér á ekki að líða illa í vinnunni minni. Punktur. Næst þegar maðurinn kom töluðu þeir við hann, skýrðu honum frá því að þeir vissu hvernig hann hefði hagað sér gagnvart mér og að hann væri ekki velkominn uppá skrifstofu. Maðurinn þrætti ekki fyrir, sagðist skilja þetta. Bræðurnir gengu síðan skrefi lengra og fjarlægðu símalista starfsmanna sem annars hafði hangið uppá vegg í vinnuaðstöðunni niðri. 

Nú þegar #metoo skrapar hrúðrið ofan af sárum kvenna í áranna rás, kynferðislegri áreitni af óþrjótandi toga, þá er vert að hafa í huga að þrátt fyrir að all flestar konur hafi sögu að segja þá erum við ekki að segja að allir menn séu skúrkar, við erum að segja að við ætlum ekki lengur að "taka því" að svona sé komið fram við okkur. Punktur. Og sem betur fer er haugur af karlmönnum, eins og t.d. þeim Melabræðrum, sem taka því ekki heldur. Punktur.   

miðvikudagur, 27. september 2017

Hafið þið heyrt um eiginmannsdindil?

Annar miðvikudagur í röð sem ég fer eiginmannslaus í frönsku. Ein æfingin í tímanum var að senda hvort öðru sms. Ég stakk upp á því að við myndum öll senda þeim myndarlega sms þar sem hann er fjarverandi. Eftir hlátur og glens með þá hugmynd komst ég svo að því að ég var ekki bara eiginmannslaus, ég var ekki heldur með símann. Mér tókst sumsé að gleyma honum heima. 

Mér er alveg sama hvort þið trúið mér eða ekki en ég er ekki á bleika sófanum og mér er ekki kalt á fótunum. Sit við borðstofuborðið og er í þykkum sokkum. Kalt á nefinu. Hlusta á Erik Satie. Kertaljós tendruð, rauðvín í glasi, rósir í vasa.

Í fjarveru þess myndarlega dró ég afgang af fílódeigi úr ísskápnum. Fann líka eina sneið af Parmaskinku, tvær sneiðar af Pestóskinku og botnfylli af rifnum osti í poka. Íhugaði að blanda grænmeti í málið en afréð svo að smyrja rjómaosti og gæða sinnepi frá Bordeaux á herlegheitin. Því næst vöðlað saman í vefju, ólafíuolíu skvett yfir og endasent í ofninn. Gjörning þennan ákvað ég að kalla eiginmannsdindil. Prýðilegur kvöldskattur get ég sagt ykkur.

Núna ætla ég að lakka á mér neglurnar og hugsa um karlinn. Alltaf að hugsa um karlinn.

sunnudagur, 24. september 2017

L'automne

Sátum á móti hvort öðru við borðstofuborðið og fórum yfir frönskuna. Fórum yfir allt efnið sem sá myndarlegi missti af í síðasta tíma, lét hann gera sömu æfingarnar og hlýddi honum yfir. Unnum heimanámið. Sá myndarlegi ranghvolfir augum, hristir höfuð, endurtekur í sífellu þessir frakkar. Heldur svo áfram að kljást við málfræði og framburð. Veit ekki alveg hvort hann ber sömu ást til franskrar tungu og ég en klárlega deilum við hrifningu á París, frönskum ostum og franskri tónlist. Talandi um tónlist þá er eiginmaðurinn yfir sig hrifinn af henni þessari

Lái honum hver sem vill.

Ykkur að segja þá er ég búin að vaska upp OG skúra. Það hlaut að koma að því. Milli þess sem rigningu dembir niður úr myrkum himni og sólin brýst fram og lýsir upp liti haustsins er ég líka búin að þurrka af og ryksuga, fannst vænlegast að demba mér í það áður en ég skúraði. Er annars ekki fylgjandi því að eyða frítíma í þrif, vil heldur eyða virku kvöldi í heimilisþrifin og nýta helgarnar í einhvað skemmtilegra. Nei, mér sumsé finnst ekki skemmtilegt að þrífa. Lái mér hver sem vill.

Í gær flaut ég með þeim myndarlega að ræktinni með það að markmiði að koma við í fiskbúðinni á leiðinni heim. Nema, um leið og ég steig inní fiskbúðina áttaði ég mig á því að ég var ekki með peningaveskið á mér. Snaraði mér því út og labbaði heim. Kom heim um það bil sem fiskbúðin lokaði. Á göngunni frá Laugardalnum í túnin tók ég slatta af myndum enda haustið heillandi. Í ófá skiptin er ég var búin að miða út myndefnið skarst haustið í leikinn

Haustið er ekki bara gult og rautt, rigning og sól heldur líka rok sem fékk frúnna til að hlægja í hvert sinn sem það þeytti myndamótífinu af stað. Lái henni hver sem vill.

föstudagur, 22. september 2017

Berfætt á bleiku

Pat Benatar ómaði úr útvarpinu í bílnum er ég keyrði af stað úr vinnunni. Söng að sjálfsögðu með, Pat verið ein af mínum uppáhalds síðan ég heyrði í henni fyrst í græjunum hjá elstu systur minni. Hlusta líklega mest á Rondó í bílnum en um leið og óperugutlið fer af stað er ég fljót að skipta um stöð, held svo áfram að skipta eftir hentisemi, nenni ekki blaðri, þoli ekki þungarokk, hryllir við kántrí og hef enga samúð með leiðinlegum lögum. Ég sumsé rása á milli rása en ílengist þó oftast á Rondó, eins og áður segir. Haldið þið ekki að ég hafi svo dottið niður á Pat Benatar aftur rétt ókomin heim og ekki bara það, söng hástöfum með sama laginu síðasta Túnspottann. Ég, Pat og rigningin.

Mér er aftur kalt á tánum. Þrátt fyrir það er ég aftur berfætt og eins og það sé ekki nóg þá er ég aftur komin á bleika sófann. Í augnablikinu rignir ekki. Kampavínið er búið. Eða jú, það er aftur byrjað að rigna. Nenni ekki enn að vaska upp og enn síður að skúra. Kötturinn sefur á efri hæðinni í ruggustólnum hennar ömmu. Sá myndarlegi er enn í vinnunni. Það heitir víst vísindaferð þegar háskólanemar heimsækja fyrirtæki í þeim tilgangi einum að komast í vínveitingar (hefi ég heyrt). Ruggustóllinn hennar ömmu er rauður. Enn of mikil dagsbirta til að kveikja á kertum. 

Hvað sem öðru líður þá er ég komin í helgarfrí og á morgun ætla ég að sofa út, getið sveiað ykkur uppá það!

P.s. Er kona orðin miðaldra þegar henni finnst svaka kósí að liggja á bleikum sófa í blárri peysu af eiginmanninum með kaldar bífur undir bútasaumssaumuðu teppi frá móður hennar og lætur sig dreyma um að sofa út án þess að það flökri að henni að demba sér á djammið á föstudagskveldi? Svör óskast.

fimmtudagur, 21. september 2017

Brut

Mér er kalt á tánum. Samt er ég berfætt. Teygi úr mér á bleika sófanum í stofunni. Kötturinn liggur malandi við kaldar fætur mér. Hlusta á djass (ekki kötturinn, hann er heyrnarlaus).  Sötra kampavín. Í gær fór ég eiginmannslaus í frönsku. Sá myndarlegi er í Vík, á heimleið. Eftir frönsku í gær kom ég heim og opnaði kampavínsflöskuna. Nenni ekki að vaska upp. Finnst haustið fallegt þrátt fyrir kaldar tær. Nýt þess að fylgjast með því spretta fram í gulum og rauðum litum. Miðinn á kampavínsflöskunni er gulur. Í gær kláraði ég bók og byrjaði á nýrri bók. Kveikti á glás af kertum. Komst að því að ég hef ekki hugmynd um hvar eiginmaðurinn geymir ljósaperulagerinn á heimilinu. Var líka kalt á tánum í gær.

Þessi sundurlausa færsla frúarinnar var hvorki í boði VegagerðarinnarAlliance Francaise.

miðvikudagur, 20. september 2017

Gamalt stef

Fyrir einhverju síðan vann ég hjá Myndstef. Það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími en líka erfiður vegna aðstæðna sem ég mun kannski segja ykkur frá síðar. Ég átti ekki von á að fá þetta starf þegar ég sótti um það, hafði ekkert sérstaklega unnið á skrifstofu áður og vissi heldur ekkert of mikið um list. Ég var samt ráðin. Sat í ofsalega þægilegum skrifstofustól með eitt flottasta málverk sem ég hef augum litið fyrir aftan mig, kolbikasvart með rauðri línu. Drakk kaffi úr fallegum keramikbollum. Þegar ég tók mér pásur frá vinnunni rölti ég niður stigann til að mæna á málverk sem ég var gjörsamlega hughrifin af, verk eftir Georg Guðna sem hafði sjálfur lagt það til hússins, sem ég vissi ekkert sérstaklega hver var þá en ég heillaðist gjörsamlega af verkinu. Gat algjörlega gleymt mér við að mæna á það.

Tvö önnur samtök áttu skrifstofur sínar í þessu húsi. Ofsalega fallegt hús annars, fyrir mig var alveg sérstakt að mæta til vinnu í þetta hús. Var satt að segja full lotningar þegar ég stakk lyklinum í skránna og gekk inn í þessa gersemi. Nema hvað, formaður SÍM var með skrifstofu á sömu hæð og ég. Þegar hann var við (sem var ekki alltaf) arkaði hann iðulega yfir til mín, settist í stólinn beint á móti skrifborðinu mínu og svo hófst kjaftagangurinn. Það var alveg ágætt að kjafta við hann Pjétur (já, með j-ði), altjént urðum við sjaldan uppiskroppa með kjaftaefni. Einn daginn kom hann og færði mér geisladisk að gjöf. Spurði hefur þú hlustað á Chet? Nei, svaraði ég. Tók við disknum og hef verið forfallin Chet Baker aðdáandi síðan. Lái mér hver sem vill


þriðjudagur, 19. september 2017

Af lærum og lifrum

Í frönskutíma gærkvöldsins lærðum við myndarlegi á klukkuna og sögnina il faut. Hlustuðum á æfingar, unnum æfingar. Skrifuðum talhólfsskilaboð sem við lásum svo upp fyrir bekkinn. Meðan samnemendur okkar skálduðu öll að þau væru stödd í búðinni að kaupa ýmist kartöflur eða mjólk þóttist sá myndarlegi vera að kaupa bíl. Mín skilaboð voru á þá leið að ...je suis retard, il faut aller dans le bar avec mon superior. Bisous! 

Svo lengist lærið sem lifrin segir sá myndarlegi. Ekki veit ég hvaðan orðatiltækið kemur, vona bara að lærin og lifrin lengist í nokkurn veginn réttum hlutföllum. Annars fór hann með piltana sína út að borða í kvöld og ég nenni ekki að elda, hef þess í stað gúffað í mig hvítmygluosti með vænum slurki af rifsberjasultu (árgerð 2009, beint úr kjallaranum). Ætti auðvitað að vera að undirbúa mig fyrir frönskutíma morgundagsins en er þess í stað með nefið ofaní bók. Ces´t ca. Bisous!

sunnudagur, 17. september 2017

Í morgunmat var þetta helst

Var rétt byrjuð að hugsa um að fara að tygja mig fram úr í morgun þegar mamma og pabbi birtust galvösk með bakarísbakkelsi. Morgunverður frúarinnar samanstóð því af vænni sneið af vínarbrauði, dálaglegum kökubita og gómsætri Berlínarbollu sem var sérstaklega keypt fyrir mig. Sá myndarlegi varð að fá sér einhvað hollt áður en hann dembdi sér í sætindin, veit ekki hvort þetta er líkamlegt ástand en það er honum klárlega ofviða andlega að fá sér bara einhvað sætt strax um leið og mann langar í það, eins og t.d. kökusneið í morgunmat. Samviskan segir honum að hann verði fyrst að fá sér einhvað almennilegt og síðan megi hann leyfa sér annað. Slík samviska angrar mig ekki hið minnsta enda stúlkan orðin stór og getur etið það sem henni sýnist. Það verður hver að fá að vera eins og hann er gjörður.

Vorum að koma úr bíó, sáum Undir Trénu. Ágætis ræma svo sem en djöfull sem mér leiðist annars að fara í bíó, af 2 klukkustundum sóuðum við 45 mínútum í hangsi yfir auglýsingum og hléi, FJÖRUTÍUOGFIMMMÍNÚTUM! Í gærkvöld sat ég í Laugardalshöllinni þar sem sjóið hófst á hárréttum tíma og endaði á áætluðum tíma. Ólíkt bíóferð kvöldsins þá sveif ég út úr Höllinni með hjartað fullt af gleði og óhaminni hamingju. Það er bara einn Páll Óskar og sem betur fer er hann okkar, hvílíkur sjó-maður, maður minn! Að kona tali ekki um óbilandi jákvæðnina og gleðina sem streymir frá þessari heilsteyptu, yndislegu mannveru. Ekki skemmir svo fyrir að strákurinn kann vel að syngja. Halleljúa, *the queen has spoken.

*vitna hér lóðbeint í dívuna sjálfa

þriðjudagur, 12. september 2017

Mardi

Haldið þið ekki að hinn Péturinn í lífi mínu hafi skensað mig seint í gærkvöld á hinum alþjóðlega vettvangi fésbókarinnar fyrir slælega kunnáttu í frönsku, apaði eftir setninguna sem ég lét frá mér, gerði sig breiðan með því að skrifa 42 í tölu-orðum (sem ég gerði ekki) og spurði svo hvort þetta væri rétt. Að sjálfsögðu var þetta ekki alveg allt rétt og í millitíðinni meðan ég svaf á mínu græna eyra skarst hin eina sanna Parísardama í leikinn (enda með 2 tíma forskot) og leiðrétti mig. Allt pent og blessað með það. Mætti samt til vinnu í morgun og bauð Bonjour með nokkrum þjósti en hafði ekki tíma til að staldra við þann þjóst, þvílíkan tíma sem það tekur núorðið að keyra þennan spotta á Sæbrautinni við Hörpu, nánast hljóp við fót niður í búð með skiptimyntina í kassana rétt fyrir opnun, herregúd!

Jæja, ég var svo sem ekkert mikið að velta mér upp úr þessu enda hinn Péturinn í lífi mínu hinn vænsti piltur og við búin að fá okkur kaffisopa saman og hrökkkex með osti og svona. Nema eitthvað barst þetta í tal okkar í millum síðdegis og þar sem ég stend fyrir aftan Pésa og horfi á fésbókina hans yfir öxlina á honum verður mér að orði: af hverju er statusinn minn á ensku?

P: Nú, þú skrifaðir hann á ensku
K: Nei, ég gerði það ekki neitt, þú ert bara búinn að þýða hann
P: Nei, ég gerði það ekki neitt og skil heldur ekkert af hverju þú varst að skrifa þetta á ensku fyrst þú ert að læra frönsku
K: Ég skrifaði þetta á frönsku!
P: Nei, þú sérð að þetta er á ensku!
K: Hvaða rugl er það eiginlega?!

Já krakkar mínir, hlutirnir eru aldrei bara svartir eða hvítir. Svona er einfalt að misskilja hlutina, lesa sitt lítið af sínu úr hverju, túlka hluti á mismunandi hátt og í rauninni alveg fáránlega sáraeinfalt að hrapa að ályktunum, síns eigin að sjálfsögðu.

Við myndarlegi vorum annars að koma af Kex, snæddum prýðis máltíð og dilluðum okkur við dunandi jass. Sigurður Flosason þandi saxafóninn af sinni einstöku prýði svo unun var af að hlýða. Ekkert minna en dásamlegt.

mánudagur, 11. september 2017

Lundi

Nei, ég er ekki að tala um lunda. Við myndarlegi vorum að koma úr fyrsta frönskutíma vetrarins (ekki getur maður sagt haustsins, er það?). Síðan við fórum í síðasta tímann í vor hafa kennslubækurnar, pennarnir, glósubækurnar, blýantarnir og strokleðrið legið óhreyfð í rauðu axlartöskunni minni. Fyrsti tíminn var notaður til upprifjunar. Eftir 4 mánaða hvíld frá bókunum verð ég nú bara að segja að við myndarlegi kunnum ennþá tölurnar og okkur gekk alveg hreint bærilega að kynna okkur. Af því það eruð þið get ég svo líka alveg viðurkennt að mér fannst mjög skemmtilegt að vera komin aftur í tíma, ég meina franska krakkar, franska, við erum að tala um langue francaise! 

Fengum líka prýðis útskýringu á þessu með muninn á g og g, bagette og baguette og allt það enda fátt sem jafnast á við franska baguettu. Nema kamapavín auðvitað. Og kannski íslensk náttúra. Kannski.

sunnudagur, 27. ágúst 2017

Óróleiki grasekkju

Vaknaði rétt fyrir ellefu í morgun og spratt fram úr rúminu. Sólin skein inn um gluggann á efri hæðinni en þegar ég kíkti út um gluggan á neðri hæðinni sá ég þykka, fíngerða rigninguna. Brosti með sjálfri mér er ég dembdi baunum í kaffikvörnina, eins og ég geti ekki hellt uppá hugsaði ég meðan ég malaði dýrindis kaffið. Var ekki alveg jafn sjálfsörugg þegar ég mældi vatnið og fylltist óöryggi er ég fylgdist með kaffinu hrynja niður í könnuna. Hvað haldið þið svo? Jú, kaffið var lapþunnt. Kaffioflæti þess myndarlega í gegnum árin er búið að gjörspilla mér. Hvað veldur því svo að ég er að rembast við að hella uppá á sunnudagsmorgni en ekki hann gætuð þið spurt. Jú, ég nefninlega vaknað í nótt til að keyra karlinn á Keflavíkurflugvöll, hann er því fjarri öllu kaffigamni. Með Finnbogaráð í handraðanum hellti ég kaffinu aftur í gegn og drakk svo rótsterkt kaffi úr bolla sem við myndarlegi keyptum í antíkverslun í smábæ í Englandi.

Eftir 7 ára sambúð með þeim myndarlega fyllist ég enn eirðarleysi þegar hann er erlendis og ég er ein heima. Já, ég sakna hans þegar við erum ekki saman og já, líklega hefur mér aldrei fundist þetta heima vera mitt heima. Hvað sem því líður eru nokkrir hlutir sem ég gæti gert til að slá á eirðarleysið


 1. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
 2. Blastað Prodigy á hæsta styrk
 3. Skúrað gólfin en líklegast mun ég ekki nenna því
 4. Horft á allar Dynasti seríurnar sem sá myndarlegi gaf mér í jólagjöf og drukkið kampavín með
 5. Sópað moldina úr stiganum fyrir utan og tæmt pottana af dauðum blómum
 6. Sleppt því með öllu að kveikja á sjónvarpinu
 7. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
 8. Spilað ABBAplöturnar hennar mömmu og sungið eins og síkátur skúnkur með
 9. Endurraðað öllu innandyra
 10. Falið allar nærbuxurnar hans
Smávinir fagrir, treysti á ykkur að koma með fleiri góðar uppástungur fyrir grasekkjuna (aðrar en að reykja gras) í fjarveru þess myndarlega. Koma svo!

föstudagur, 25. ágúst 2017

Síðla kvölds

Seint á föstudagskveldi get ég sagt ykkur að síðan síðast hef ég
 1. hugsað um að skúra en ekki nennt því
 2. étið hamborgara tvö kvöld í röð
 3. þróað með mér hlýjar tilfinningar til nuddtækis sem samstarfskona mín lánaði mér
 4. geispað ævintýralega mikið í vinnunni
 5. sagt við sjálfa mig að nú verði ég að fara að skila nuddtækinu en hef ekki látið verða af því enn
 6. sagt kallinum að mér þyki hann SVO sætur
 7. skrifað þrjátíuogfimm þakkarkort
 8. hjólað í vinnuna og úr vinnunni 
 9. setið í garðinum hjá Unni vinkonu og týnt jarðaber beint uppí mig og drukkið freyðivín með
 10. hjólað heim frá Unni með hausinn freyðandi af freyðivíni
 11. drukkið kvöldkaffi hjá tengdaforeldrum mínum með leifar af freyðandi freyðivínsbubblum í hausnum
 12. hlustað á magnaðan fyrirlestur í Háskóla Íslands
Þakka þeim sem hlýddu.

mánudagur, 21. ágúst 2017

Menning smenning

Foreldrar, vinir, systkin, börn, ferðafélagar, frænkur, vinnufélagar, frændur og já, yfirmenn líka. 78 nautahamborgarar, 3 grænmetisborgarar og 20 pylsur grillaðar. 101 brauð hitað í ofni. Slatti af iceberg, gúrkum, tómötum og lauk niðurskorið. Haugur af bjór í bala, hvítvín á klaka í handgerðri skál af frúnni. Rauðvín líka, mikil ósköp. Hjartalaga gestabók tekin í gagnið. Inn á heimilið voru bornar rauðvínsflöskur, hvítvínsflöskur, kampavínsflaska, líkjör, vínglös, diskar, bollar, danskur lakkrís, kampavínskerti, blóm í Saharasandi, bækur og falleg kort. Erum alveg bit yfir gjafmildi vina okkar enda átti hvorugt okkar afmæli, buðum bara fólki í menningarnæturgrill, fólki sem okkur langaði til að hitta, gefa að éta og drekka og gera okkur glaðan dag með. Vorum heldur ekki svikin af gleði, meira hvað við Pétur erum lukkuleg með skyldfólk og vini, skil satt að segja bara ekkert í því hvernig allt þetta skemmtilega fólk nennir að hanga með okkur, en gaman var það!

Verð að viðurkenna að við vorum jú örlítið rykug í gær en alveg ofsalega sátt með allt þetta frábæra, glaða fólk sem hjálpaði okkur að gera góða veizlu. Vorum líka ansi lukkuleg að hafa foreldra mína í næturgistingu í gær og geta steikt fleiri hamborgara. Annars var fólki tíðrætt um hve hamborgararnir voru góðir og ég stenst ekki mátið að upplýsa ykkur um að hamborgararnir eru algjört eðal, pressaðir úr príma hakki af Tobba kóngi á laugardagsmorgninum í Melabúðinni. Ef þið vissuð það ekki nú þegar þá er hakkið í Melabúðinni 100% gott og hamborgararnir eftir því. 

Södd og sæl leikur okkur annars forvitni á að vita hverjum var svona í nöp við blómapottana, ég meina, var þetta í alvöru svona villt partý? laugardagur, 19. ágúst 2017

Til-vera

Stúlkan Konan í bókinni er aftur farin að vinna á staðnum sem hún hætti á. Reyndar ekki búin að fastráða sig aftur, vinnur svona frílans eins og sagt er. Hún er líka búin að rífast við sambýlismann sinn og sættast við hann aftur, hitta slatta af vinum á börum og hanga heil heiljarinnar ósköp á kaffihúsum. Að sjálfsögðu hamast hún svo líka við að finna sinn stað í tilverunni.

Sjálf tæmdi ég kattadallinn, þurrkaði af og ryksugaði í gær. Í dag ætla ég að lakka á mér neglurnar og hamast við að vera glöð. Hvað það segir um minn stað í tilverunni verður bara að koma í ljós.

miðvikudagur, 16. ágúst 2017

Afmælisskál!

Var svo áfjáð í kaffi í morgun í vinnunni að ég hellti því ekki bara upp í mig heldur yfir hökuna líka þar sem það lak niður á bolinn minn og skvettist svo á hendurnar á mér og á gallabuxurnar mínar þegar ég brást við þessum ósköpum. Eins og rjúkandi nýlagaður kaffiilmur er nú góður þá get ég alveg staðfest það hér og nú að köld kaffilykt í fatnaði er töluvert síðri. Það væri auðvitað voða gott að geta bara kennt axlarverknum um en líklega var það bara kaffigræðgin í konunni sem tók alla stjórn. Svo væri alveg hugsanlegt líka að kenna þessum Melabræðrum um fyrir að hafa svona svívirðilega gott kaffi á boðstólum en fjandinn hafi það, ætli fullorðin kona eins og ég verði ekki að axla sína ábyrgð á eigin gjörðum. Mætti annars í vinnuna í morgun í næfurþunna skæslega jakkanum mínum enda veðrið eftir því, sólbjart og fallegt. Mígandi rigning þegar ég ætlaði að labba heim. Gat skeð. Hinn Péturinn í lífi mínu aumkaði sig yfir mig og skutlaði mér heim að dyrum. Jájá, það er ekki allt á afturfótunum í henni veröld.

Sit við eldhúsborðið með fullt mjólkurglas af vodka. Er svo skrambi heppin með gott skyldfólk sem er örlátt á góð ráð. Ekki bara benti hún Inga frænka mér á að sterkt áfengi væri líklega betra en hvítvín, hún bað mig einnig um að ofgera mér ekki á glasalyftingum og nota bara rör. Að sjálfsögðu læt ég undan slíkri umhyggju. Sá myndarlegi er á deiliskipulagsfundi vegna Borgartúns 24, var að senda mér sms; hitafundur, stendur enn. Ætti kannski að vera að elda kvöldmat en æ, ég nenni því ekki, hann getur bara fengið sér vodka eins og ég þegar hann kemur heim.

Af öðrum merkilegum viðburðum dagsins get ég deilt því með ykkur að Madonna á afmæli í dag. Eftir því sem ég frómast veit mun það eiga sér stað einu sinni á ári.
Skál fyrir því!

þriðjudagur, 15. ágúst 2017

Á háu stigi sjálfsvorkunar

Plís, ekki hringja í lögguna en djöfull væri ég til í að vera í vímu núna, þ.e.a.s. einhverri betri en sársaukavímunni sem hrjáir mig. Vaknaði í gærmorgun með þvílíkan verk í hægri öxlinni, verk sem teygði sig uppí háls og smaug á stundum niður í handlegg. Verk sem gerir það að verkum að ég sný mér allri til hliðar ef ég ég þarf að snúa höfðinu til hægri. 

Þrátt fyrir verki er ég búin að taka úr uppþvottavélinni, smjörsteikja þorskhnakka og fara í sjóðandi heitt bað. Sá myndarlegi er búin að tala út í geim um að ég þurfi að panta mér tíma hjá sjúkraþjálfara og helst að fá einn til mín í vinnuna til að sýna mér hvernig ég eigi að bera mig að við skrifstofustörfin. Að auki er hann búinn að nudda og þrýsta og kremja og kreista og segja; já, þetta á að vera vont, síðan verður það gott. Ég læt mér nægja að súpa hveljur. Sit reyndar núna við eldhúsborðið og sýp á hvítvíni frá Bordeaux. Sá myndarlegi segir að ég eigi frekar að taka Voltaren töflur nema við eigum engar slíkar töflur til, bara Voltaren krem.

Það má vel vera að áfengisvíma geri ekkert fyrir verkinn en ég prísa mig sæla að geta yfirhöfuð lyft glasinu að vörum mér. Á tímum sem þessum biður kona ekki um mikið meira.

mánudagur, 14. ágúst 2017

Ég er í vímu.

Víman er græn og samanstendur af rósmaríni, oreganói og salvíu. Ilmurinn smýgur upp um nasirnar og skapar himneska harmóníu í hausnum. Heimaræktað stöff, að sjálfsögðu.

Kona ætti auðvitað ekkert að vera að raupa í rafheimum í annarlegu ástandi en fjandinn hafi það, ég er víst örugglega búin að skrifa nógu marga bloggpistla edrú. Þess vegna leita ég nú á náðir hlustenda og spyr, þekkir einhver haus eða fætur á þessum kvikindum?
P.s. Sjáið þið ekki alveg örugglega líka pöddur á þessari mynd?

Af bréfaskiftum

Bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar beið mín er ég kom heim í dag. Þar er ég boðin velkomin á fund um breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgartún 24. Kynningarfundur haldin á afmælisdegi Madonnu. Sá myndarlegi fékk líka bréf um sama efni enda vissara fyrir borgina að senda sitthvort bréfið, aldeilis ekki sjálfgefið að hjón tali yfirhöfuð saman. 

Fékk líka bleðil frá HR, bækling sneisafullan um allskyns kúrsa sem allir innihéldu orð um einhverskonar viðskipti, markaðsþetta og stjórnunarhitt. Vafalaust gríðarlega spennandi stöff. 

Viðurkenni kinnroðalaust að bréfið frá henni Akvilé, pennavinkonu minni til 17 ára, vakti mestu gleðina. Svona getur fullorðin kona verið skrýtin.

sunnudagur, 13. ágúst 2017

Af fjallgöngu og leti

Vorum að koma ofan af Skaga. Sóttum skál í skúrinn hennar Kristbjargar sem er í stíl við vasann hennar mömmu og paufuðumst upp á Háahnúk. Mig er lengi búið að langa til að tölta á Akrafjall og var hreint ekki svikin með daginn í dag því veðrið lék við okkur. Álpuðumst að vísu aðra leið upp en sú vanalega, að við teljum, en það var bara gaman að fara allt aðra leið niður. Upp komumst við og alla leið niður aftur. 

Dagarnir eftir frí hafa annars einkennst af mikilli leti eða eiginlega haugaleti. Get víst þakkað vinnunni fyrir að ég hef klætt mig og burstað tennur s.l. 2 vikur. Jújú, ég hef svo sem þvegið haug af þvotti, farið í göngutúra, keypt í matinn, sett í uppþvottavél, farið í sund, tekið úr uppþvottavél, eldað mat, klappað kettinum, brotið saman þvotti og vaskað upp svo sitt lítið sé nefnt en eina sem mig langar til að gera er að lesa. Lesa, lesa, vera löt og lesa svo meira.

Rétt í þessu rignir hann og á morgun er mánudagur. Er að lesa bók um stelpu konu sem hættir í vinnunni af því hún vil reyna að finna út úr því hvað hún vil verða. Konukindin sú er sumsé orðin tuttuguogfimm... en ég skil hana samt vel. 42ja ára veit ég ekki enn hvað ég vil verða en þrátt fyrir yfirgengna leti þessa dagana ætla ég ekkert að hætta í vinnunni, læt mig bara hafa það að vakna á morgun. 

Þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað ég vilji verða þá veit ég þó það að sólskin er betra en rigning á fjöllum og heiðskýrt betra en skýjað á fjallstoppum. Ég veit hins vegar ekki af hverju Akranes er eilíflega kallað Skaginn. Svoleiðis er það bara.

sunnudagur, 6. ágúst 2017

Bókaskattur og morgunarfi

myndarlegi lætur eins og við séum enn stödd í Frakklandi, skaust í bakaríið í gærmorgun til að færa frúnni ilmandi nýtt krossant í árbít. Í morgun sauð hann linsoðin egg og bar fram ásamt steinbökuðu súrdeigsbrauði. Ekki amalegur morgunskattur, að kona tali nú ekki um blessað Haití kaffið hennar Eldu. 

Eyddi bút úr degi á hnjánum útí garði, reytti arfa eins og kona með græna fingur en í rauninni voru þeir bara moldarbrúnir. Á árum áður hefði ég fremur kosið að dansa húlla í helvíti en að stunda garðvinnu af neinni sort, svona þroskast nú kona með aldri. Eða ekki.

Ég sem ætlaði að liggja sem mest í leti þessa helgina er allt í einu, já, rétt si svona, komin á kaf í 2 bækur. Get reyndar ekki fett neinn fingur út í það, fyrir mig er lestur príma afslöppun og andleg næring. Hvaða bók ert þú annars að lesa?

föstudagur, 4. ágúst 2017

Föstudagssvimi

10 hamborgarar steiktir á heimilinu í kvöld, 8 nautaborgarar, 2 grænmetis. Allir runnu þeir ljúflega niður í liðið hans Péturs, mig þar á meðal.

Ligg eins og skata á sófanum. Þrátt fyrir þá samlíkingu líður mér samt eins og steiktum borgara. Letin umvefur mig eins og steikingarbræla, daglega lífið eins og bráðinn ostur á herðunum. Sumarfrís(angur)værð eins og hnausþykkur þokuhnykill í hausnum á mér.

Gleðst innilega og fölskvalaust yfir þeirri staðreynd að núna er föstudagskvöld og ég þarf ekki að vakna til vinnu fyrr en á þriðjudag. Ef guð lofar.

fimmtudagur, 3. ágúst 2017

Heima er bezt

Kreisti límónu og komst að því að ég er með blaðskurð á vísifingri. Lét sem ekkert væri þrátt fyrir stingandi sviða, hélt bara áfram með eldamennskuna. Soldið eins og að byrja aftur að vinna eftir undursamlega dásamlegt sumarfrí. Finnst eins og fingurnir séu stirðir er ég hamra inn tölur í uppgjörum liðinna daga. Vanalegur músarfimleiki fremur óliðugur. Sumarfrísleti hríslast um kroppinn, sumarfrísværð eins og þoka í höfðinu. Hélt í allan gærdag að það væri þriðjudagur. Allur dagurinn í dag var fimmtudagur, á morgun ætti því að vera föstudagur.

Sá myndarlegi heldur því fram að einhver hafi einhverntíma sagt einhvað á þá leið að allar ferðir séu ferðir heim. Hvað svo sem til er í því þá er alveg rétt að það er alltaf gott að koma heim þó að heim þýði að þá þurfi að mæta í vinnuna, skúra gólfin, versla í matinn og allt hitt daglega snöflið. Heim þýðir líka ískalt og gott vatn úr krananum, klapp og kúr með kærasta kettinum, frískandi súrefni í hausinn á góðri göngu ásamt svo mörgu öðru sem er hreint ekki sjálfgefið en oftar en ekki sjálftekið.

Að auki er fáránlega gott að vefja sér inní sína eigin sæng.

fimmtudagur, 27. júlí 2017

Ég er prinsessa

Síðasti dagurinn í Bordeaux að kveldi kominn. Þrátt fyrir fantafína spá var dagurinn sólarlaus að mestu. Get samt ekkert kvartað, erum búin að spóka okkur um í sandölum og sól, flatmaga við sundlaugina í hita sem hefur farið alla leiðina upp í 37 stig (heldur mikill hiti fyrir tvo Íslendinga), setið úti á veitingastöðum og vínbörum og dæst af hreinum (vín)anda.

Annan hvern dag hefur sá myndarlegi skotist í bakaríið að sækja nýja baguettu og croissant handa frúnni. Hinn daginn steikir hann baguettuna, niðurskorna, frá deginum áður og ber fram með steiktum eggjum. Þegar baguettan er ný sýður hann eggin. Linsoðin, að sjálfsögðu. Með þessu gæðum við okkur á frönskum ostum, skinkum og eðal appelsínusafa. Einn sumarfrísdaginn þegar sá myndarlegi vakti mig með kaffibolla sagði hann; þú ert nú meiri prinsessan. Svar mitt var einfalt (enda nývöknuð); ég veit.

Þrátt fyrir sólarleysi dagsins sit ég úti við laugina, í kjól sem ég keypti mér í Marokó um páskana. Kampavín í glasi, berfætt. Hvar er sá myndarlegi? spyrjið þið. Nú, hann er að pakka, hver annar á að gera það?

Frá sólarlausri Bordeaux

Heyrði köttinn góla hérna fyrir utan og dreif mig útá verönd að athuga með hana. Þar sem ég beygði mig yfir hana og strauk mjúkan feldinn varð mér skyndilega hugsað til Elle. Andskotann þarftu alltaf að láta svona kona sagði ég við sjálfa mig í huganum. Dreif mig samt inn. Kötturinn kom á eftir mér en ég lét það alveg vera að loka verandarhurðinni. Er nefninlega ein heima í augnablikinu, eða þ.e.a.s. ég, Licia (kötturinn) og of auðugt ímyndunarafl mitt eru heima. 

Rétt áðan hringdi ég í monsjör Pinto og pantaði leigubíl fyrir morgundaginn. Talaði ekkert nema frönsku í símann. Ófull í ofanálag. Hvort herra Pinto mætir kl. tíu í fyrramálið verður bara að koma í ljós, þeim myndarlega fannst allavega ástæða til að leita uppi hraðbanka og hafa upphæðina (sem ég held að ég hafi skilið rétt) klára ef ske kynni að herra Pinto verði ekki með posa meðferðis. Þess vegna er frúin ein heima með ímyndunaraflið á snúningi.

Annars er karlinn búinn að vera óvenju lengi í burtu, mætti alveg fara að koma til baka. Það þarf jú að fara að opna kampavínsflöskuna sem lúrir ísköld í ísskápnum.

þriðjudagur, 18. júlí 2017

Oft veltir góð bregða skæru ópi

Þið munið öll eftir sturtuatriðinu úr Psycho, er það ekki? Ekki það nei. Jæja, ég stóð sumsé í sturtunni nýskrúbbuð og lét vatnið renna yfir mig, lyngdi aftur augunum og lét mér líða svo ósköp vel undir heitri bununni. Byrjaði að vagga mér í vellíðan og pírði rifu á augun og 
haldið þið ekki að eiginmannsónefnan hafi staðið starandi þvílíkum girndaraugum á eiginkonuna að ég bara æpti upp yfir mig og þakkaði Jesús og Maríu mömmu hans fyrir að ekki var sturtuhengi fyrir sturtunni, annars hefði ég klárlega rifið það niður í geðshræringunni sem ég var í. 

Við myndarlegi erum annars í sumarfríi í Frakklandi, Bordeaux nánar tiltekið. Skiptum á húsnæði við franska listakonu. Látum okkur líða svo ógurlega vel hér í einbýli á einni hæð með sundlaug í garðinum. Síðustu tvo daga hefur hitinn hlaupið uppí 37 °c og þá kemur sér nú vel að geta slakað á við laugina. Var búin að teygja skanka í sólstól eftir sundsprett þegar róbótinn, sem hreinsar sundlaugina átómatískt, spyrnti við sínum plastfótum og spýtti vatni langt yfir sundlaugarbakkann. Sem betur fer bara við hliðina á mér þar sem ég lá allsnakin að lesa sænskan krimma yfir frönsku rósavíni. Hljóðaði samt upp yfir mig.

Eftir allan hitann hrúguðust dökk ský skyndilega á himininn og sterkur blástur feykti laufum og blómum í laugina. Sá myndarlegi stökk að grillinu enda höfðum við fyrr um daginn keypt dýrindis steikur sem honum var farið að hlakka til að grilla. Er fyrstu droparnir hrundu af himnum heyrði ég þann myndarlega æpa. Ég var rétt búin að breiða yfir sundlaugina og stökk af stað til hans. Það eru engar rifflur á þessu grilli æpti hann móðursýkislega. Getum við nú ekki samt sett kartöflurnar á sagði ég sefandi röddu, svo eru nú steikurnar svo fínar, svona rifflulaust grill slær ekkert á slík gæði. Sá myndarlegi lét sig hafa það og rigningin varð eiginlega engin rigning.

Eftir dýrindiskvöldverð sátum við myndarlegi svo með dýrindis rauðvín í glösum úti við laug og fylgdumst með mögnuðum eldingum og hlustuðum á þrumandi þrumur fram eftir kveldi. Létum okkur hvergi bregða.

sunnudagur, 16. júlí 2017

Liberté, égalité, fraternité!

Í fyrradag röltum við myndarlegi útá strætóstöð sem er steinsnar hér frá í úthverfinu sem við dveljum í hér í Bordeaux. Án þess að vita nokkuð um tímasetningar þá römbuðum við akkúrat á strætóinn "okkar", rétt komin. Nema hvað, við stóðum hinumeginn á götunni og horfðum því á strætóinn "okkar" bruna framhjá. Klukkutími í næstu ferð svo við afréðum að halda í hálftíma göngu á sporvagnastöðina. Með sporvagninum komumst við svo niður í miðbæ þar sem við röltum um í brakandi blíðu, dáðumst að stórkostlegum byggingum, fylgdumst með hlæjandi börnum hlaupa hálfber í Spegli vatnsins, furðuðum okkur á stærð árinnar La Garonne sem er ekkert minna fljót en á, fengum okkur drykk, snæddum versta kvöldmat ferðarinnar (vonandi), fengum okkur annan drykk, týndum okkur í iðandi mannfjölda á þjóðhátíðardegi Frakka. 

Flugeldasýningin um kvöldið var ekkert minna en frábær þó hún hafi ekki átt roð í flugeldana á Fiskihátíðinni miklu á Dalvík. Frakkarnir voru heldur ekkert á við Íslendinga, t.a.m. sáum við aldrei vín á neinum þrátt fyrir að fólk sæti víðsvegar um hafnarbakkann og dreypti á víni og bjór. Mér fannst fólk almennt lágstemmdara og með meiri kurteisisbrag. Aldrei leið mér heldur eins og ég kæmist hvorki afturábak né áfram í allri mannmergðinni, og hún var ekkert lítil get ég sagt ykkur. Það var eiginlega ekki fyrr en við vorum komin inn í sporvagninn heim, sem við vorum hreint ótrúlega lukkuleg með að hafa komist í í fyrstu atrennu, sem mér fór að líða eins og sardínu í dós. Allar hinar sardínurnar voru jafn glaðar og ég þegar sporvagninn fór loks af stað og ýmist sátu eða stóðu af sér ferðina með gleði og bros á vör.

Í gær drifum við myndarlegi okkur í bíltúr síðdegis. Ókum framhjá vínekrum, vínekrum, maísökrum, vínekrum, vínekrum og maísökrum, vínekrum, vínekrum og svo fleiri vínekrum. Röltum um litla undurfallega miðaldabæi sem lúrðu á ævafornum klaustrum og kirkjum, borgarveggjum og hliðum, torgum og húsum, fangelsi og ráðhúsum, skemmtilegum svölum og hurðabönkurum. Eftir að hafa þrætt veitingastaði Cadillac bæjar og komist að því að þau sem ekki voru lokuð opnuðu ekki eldhúsin fyrr en um eða eftir átta, römbuðum við á vínsafn korter í lokun þess og fengum ekki bara að skoða safnið heldur fengum við líka vínsmökkun. Fransmaðurinn hellti nokkuð drjúgt í glösin okkar og hellti ég úr þeim flestum fyrir næsta smakk. Úti á bílaplani reif ég upp bílhurðina beint á ennið á mér. Ekki meira rauðvín fyrir þig sagði karlinn rogginn enda kláraði hann úr öllum sínum glösum.

Af þessu hef ég dregið þann lærdóm að ávalt skal klára hvern dropa úr vínglasi.

föstudagur, 14. júlí 2017

Áfram höldum við

Litlu mátti muna að ferðataskan okkar hefði orðið eftir í einum rúllustiganum á leiðinni í metróinn í gær. Að þessu sinni var það sá myndarlegi sem lenti í töskuvandæðum. Að sjálfsögðu greiddi hann snöfurmannlega úr því, rykkti töskunni nokkrum sinnum og náði henni af stað (með vott af stressi) án þess að skaða handlegg (sem hélt fast í handfangið) eða tösku. Stóð svo brattur og beinn í baki alla rúllustigaleið og lét sem ekkert hefði hent.

Á Charles de Gaulle flugvelli gekk flest hægt. Ótal flugvallarstarfsmenn skoðuðu vegabréfin okkar og boarding pappírana, fyrst í þessari röð, síðan í hinni og svo við röðina að öryggisröðinni og svo líka við öryggisleitina. Vorum að sjálfsögðu bæði tekin í handahófskennda leit sem blessunarlega gekk vonum framar, engin merki um meðhöndlun sprengiefna á höndum þessara Íslendinga. Í boarding röðinni var sá myndarlegi svo teymdur, ásamt örfáum öðrum, fram að hliði og beðinn um að tjékka handfarangurinn inn í vél, vélin uppbókuð og hætt við að plássleysi yrði í handfarangurshólfunum í vélinni. 

Á de Gaulle sumsé biðum við og biðum og fórum svo í lengsta fluvélarúnt á flugvelli sem við höfum farið í, ágætis rúntur og allt það en þreytandi til lengdar. Í Lyon lenti vélin með harkalegu höggi og samstundis reif flugstjórinn véina upp með látum. Hringsóluðum svo drjúga stund áður en næsta atrenna til lendingar var tekinn. Sú lending gekk öllu betur og þrátt fyrr töluverða seinkun náðum við tengifluginu okkar.

Í Bordeaux tóku Paty og Philippe brosandi á móti okkur. Okkur tóks með ágætum að babbla okkur í gegnum bílferð og kaffidrykkju heima fyrir á ensku og frönsku, PP-parið talar sumsé álíka mikla ensku og við tölum frönsku. Kvöddumst brosandi og margs vísari um heimili þeirra sem við myndarlegi ætlum okkur að dvelja í næstu dagana. Verð þó að viðurkenna að það var átakaminna að vingast við köttinn sem eftir nokkrar strokur var reiðubúin að hoppa uppí kjöltuna á mér og hreiðra þar malandi um sig. D'accord!

miðvikudagur, 12. júlí 2017

Hlauptu stúlka, hlauptu

Við myndarlegi hlupum niður tröppurnar. Við náum henni kallaði hann á hlaupunum svo ég gaf í, hljóp hraðar en hann. Kom að lestinni og skutlaði töskunni inn. Nema hvað, sem ég skutlaði töskunni inn og ætlaði á eftir henni þá lokuðust dyrnar. Neðanjarðarlestardyrnar lokuðust á handföngin á töskunni minni. Ég stóð á lestarpallinum með handföngin í höndunum og æpti; taskan mín, taskan mín!  Í lestinni sá ég stúlku, yngri en ég, sem tók á móti töskunni minni og æpti á strákinn við hliðina á sér að ýta, og saman ýttu þau töskunni minni (sem inniheldur þið vitið símann minn, veskið mitt, snýtubréfin mín, sólgleraugun og allt það) út um rifu á lestarhurðinni, sem þau þröngvuðu upp, meðan ég stóð á pallinum með handföngin ein í höndunum.

Sá myndarlegi segist hafa sagt mér að stoppa en ég heyrði hann bara segja mér að hlaupa. Altjént var ég með ónotuð hliðarbönd í töskunni sem ég smellti á hana og henti henni svo á öxlina á mér í kjölfarið. Þakklát stúlkunni í lestinni sem hlýtur að hafa lent í svipuðu og ég miðað við snör viðbrögð hennar. 

Við myndarlegi vorum annars að koma úr siglingu á Signu. Kvöldsiglingu þar sem við drukkum kampavín, átum ostabitnip, foi gras, krabbakjöt, drukkum hvítvín, rauðvín frá Bordeaux, átum kálfakjöt og andabringu, himneska osta, apríkósutertu og makkarónu. Lífið í París er gott.

miðvikudagur, 5. júlí 2017

Bóhemískt nethangs og þrifalegir frídraumar

Var að panta Bóhemískan kvöldverð í heimahúsi í Montmartre í næstu viku. Líka búin að bóka kvöldverð í siglingu á Signu. Já, við myndarlegi siglum brátt í frí og nei, við ætlum ekki bara að sitja á rassinum og borða, erum líka bókuð í göngu um stræti Parísar (með tíu matar- og vínstoppum). Höfum einnig hugsað okkur að mæna á einhverja list, milli þess sem við mænum á hvort annað, og svolgra í okkur kampavíni á einhverjum grasblettinum í parc Buttes Chaumont. 

Á eftir að vinna mér einhvern helling í haginn í vinnunni og reyni með veikum mætti að mana mig í áframhaldandi þrif hér á heimilinu. Nethangs og frídraumar eru bara svo miklu skemmtilegri. Þið skiljið mig alveg, er það ekki?

þriðjudagur, 4. júlí 2017

Af sænskum ísskápsþrifum

Þreif ísskápinn í gær. Það var þjóðþrifaverk get ég sagt ykkur. Langt síðan ég hef legið á sófanum yfir glæpaþætti jafn samviskulaus og í gær. Svei mér þá ef það var ekki bara auðveldara að koma sér framúr í morgun líka. Ísskápsþrif gera andlegan gæfumun. Mæli með því.

Talandi um glæpi þá var ég að lesa bók um heldri mann í sjálfskipaðri útlegð í sænska skerjagarðinum. Maðurinn atarna átti gamlan hund og gamlan kött. Einn daginn birtist gömul kona úr fortíðinni tifandi yfir snjóinn með göngugrind og var þá bókin bara svona rétt u.þ.b. að byrja. Allan tímann meðan ég las um ferðalag djúpt inní skóg í kulda og snjó, svarta, djúpa, ísilagða tjörn, óvænta dóttur, rauða skó, einhenta konu, vandræðaunglinga, sjálfsvíg, víndrykkju, krabbamein, veislu, póstbát og sjóböð fannst mér eins og Wallander ætti eftir að spretta þarna fram, beið hálft í hvoru eftir honum, sem er kannski pínu skrýtið þar sem hin bókin sem ég hef lesið eftir Mankell er Kínverjinn og sú bók hefur ekkert með Wallander að gera frekar en Ítalskir skór. Má af þessu draga þann lærdóm að sjónvarpssófaglæpagláp smeygir sér ísmeygilega í undirmeðvitundina.

Er annars búin að finna flekkótta svertingjann, eða þ.e.a.s. ég er búin að finna sönnun þess að flekkótti svertinginnn er ekki hugarburður frúarinnar eins og hér má sjá. Nú er bara að finna bókina.

miðvikudagur, 28. júní 2017

Hríslaðist um mig...

Vegna fjölda áskoranna (það var ein) rauk ég til og tók myndir af óberminu í gær

Hér sést glöggt hvernig óbermið breiðir úr sér yfir gafl og glugga og teygir anga sína upp á svalir. Vert er að taka fram að myndin er tekin EFTIR að kallpúngurinn, sem þjáist af hnausþykkri þrjósku varðandi þessa hríslu, var búinn að klifra uppí stiga til að snyrta óskapnaðinn. Eða, afsakið, óbermið.

Í gvuðanna bænum látið gvuðsvolað sólarljósið sem skín þarna eins og himneskt ljós ekki blekkja ykkur, helv*"%! hríslan er eins og subbulegt skrímsli þarna á húsinu, ég er að segja ykkur það.Núnú, þið sem trúið mér ekki, hvernig haldið þið að það sé að opna glugga beint út í þetta?
Já, eins og ég var búin að segja ykkur þá eru þessar myndir teknar eftir að ástkær eiginmaður minn, sá þrjóski þverhaus, snyrti óbermið.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með honum ofan af svölunum og hélt á tímabili að hann myndi hreinlega ekki leggja í hana í ár. Læt þessa mynd hér fylgja með máli mínu til stuðnings

Þverhandarþykk þrjóska þess myndarlega lætur aldeilis ekki að sér hæðast og uppí stiga fór hann, glotti svo bara til frúarinnar, öruggur í faðmi sinnar hríslu mánudagur, 26. júní 2017

Af óbermi ómunatíðar

Eftir að hafa lesið pistil frúarinnar í gær fann sá myndarlegi sig knúinn til að minna hana á að hann hefði ekki bara slegið blettinn fyrir gönguna góðu, hann hefði jú líka snyrt klifurjurtina (hér eftir kallað óbermið). Óbermið sumsé hríslast upp gaflinn á Samtúni 8, breiðir úr sér milli glugganna í stofunum, þ.e.a.s. betri stofunnar og hinnar stofunnar (er hægt að vera svo fínt fölende að kalla aðra stofuna verri stofuna?). Á hverju ári talar sá myndarlegi í sig kjarkinn til að taka fram stigann og ráðast á óbermið sem á hverju ári teygir hríslur sínar yfir glugga og upp á svalir. Á hverju ári hóta ég þeim myndarlega að fara út í garð og klippa ræturnar á helv*+<! óberminu sem mér finnst subbulegur þarna á gaflinum, lítur helst út eins og hárlubbinn á Davíð Oddsyni þar sem það flækist út um gafl og trissur, bölvað óbermið. Í ofanálag er ég hætt að opna annann gluggann í betri stofunni, glugga sem snýr svo gott sem út í bév¨#*%? óbermið, því ef ég geri það skríða von bráðar pöddur inn sem mig langar hreint ekki til að fá, við erum jú að tala um betri stofuna.

Ég hef aldrei skilið kindarlega svipinn sem hefur komið á þann myndarlega þegar ég lýsi áliti mínu á óberminu, ekki fyrr en í fyrra þegar hann játaði það loks fyrir mér að hún hefði ekki fylgt húsinu heldur hefði hann og fyrrverandi fengið óbermið að gjöf og gróðursett sjálf á umræddum gafli. Það var nefninlega það. 

Þrátt fyrir að kæra mig ekki hið minnsta um að særa ástkæran eiginmann minn, móðga hans ágætu fyrrverandi og enn síður góðvini þeirra frá Þurá þá hótaði ég því samt að klippa á ræturnar í ár eins og öll hin árin. Óbermið er kannski ekki versta óbermið frá ómunatíð, en djöfull er það ljótt samt. 

Legg ekki meira á ykkur elskurnar. Lfið heil og blómstrið.

sunnudagur, 25. júní 2017

Þotið á Þyril

Drukkum morgunkaffið í brakandi blíðu á svölunum og ákváðum að drífa okkur í göngu. Þ.e.a.s. eftir að sá myndarlegi var búinn að slá garðinn. Ég sauð egg á meðan. Vorum búin að ákveða að ganga á Mosfell en tókum svo stefnuna á Hvalfjörð. Gengum á Þyril í svo mikilli blíðu og kyrrð, fuglasöngur og lækjarniður og já, jafnvel býflugnasuð var sem englasöngur í stórbrotinni náttúrunni, tignarleg fjöll, litfagurt og spegilslétt haf, grænar hlíðar og litrík blóm, var bara hársbreidd frá því að hefja trú á almættið enda blakti ekki hár á höfði frúarinnar.

Vorum að koma heim og sá myndarlegi fór strax og fíraði upp í grillinu og skar niður kartöflur og lauk. Kjötið fór í maríneríngu í gær. Sit á veröndinn í grillreyk, með sólina í andlitinu og rauðvín í glasi. Almættið krakkar, almættið, það er enginn guð en lífið sjálft er ekkert minna en stórkostlegt, ég er að segja ykkur það. Núna ætla ég að borða.

fimmtudagur, 22. júní 2017

Rækjukokteill par excellence

Hef ekki hugmynd um hvenær ég keypti þessa hestaradísu 
 Eins og umbúðirnar bera með sér hefur eitthvað og dulítið gengið á en hvað það var veit ég ekki heldur. Á skældum pakka sem þessum er enginn heilbrigður gjörningur að lesa á best fyrir dagsetningu sem er gott, best fyrir er bara blöff til að fá neytandann til að kaupa oftar og meira en hann þarf. Vodkinn sem ég blandaði hestaradísunni saman við var skilinn eftir í ísskápnum okkar af tveimur geðþekkum frökkum í ágúst 2015. Síðan þá hefur vodkaflaskan vermt stað í frystikistunni niðrí kjallara, einstaka sinnum dreginn aftur upp á efri hæðina til að hristast saman við kokteil(a). Í kvöld sumsé var flöskunni dröslað upp til að blandast saman við útþvælda hestaradísu, tómatsósu, tabaskósósu, Vúrstersjérsósu, salt, pipar og majónes. Rækjum skellt saman við og geymt í kæli þar til sá myndarlegi kom heim úr ræktinni. Þá fleygði frúin brauði inní ofn, skar sundur lárperur, henti blindfullri rækjunni yfir og smurði þykku smjörlagi á heitt brauðið. Ef einhvað er að marka John Torode (sem ég hef ekki hugmynd um hver er) þá var frúin að bjóða þeim myndarlega uppá retró lárperu með rækjum í Blóðugri Maríu majónesi
 Sel það ekki dýrara en ég keypti það en við myndarlegi erum sammála um að þessi rækjukokteill var með þeim betri og já, það álit er með tilliti til sterkrar rækjukokteilhefðar hér á heydögum landans. Ef þið trúið okkur ekki þá ragmana ég ykkur bara til að prófa uppskriftina. 

Hvað afganginn af vodkaflöskunni varðar þá má bjóða okkur myndarlega í kokteil hvaða kvöld vikunnar sem er. 

þriðjudagur, 20. júní 2017

Er aldur afstæður?

Hvað er krísa? spurði stúlka vinkonu sína á kaffistofunni í dag. Æ, það þýðir það sama og kaos svaraði vinkonan. OK, sagði stúlkan, þú talar stundum eins og eldgömul 53 ára kelling þúst. Það er nefninlega það hugsaði ég sem væntanlega er orðin vel miðaldra í þeirra augum.

Arkaði heim meðfram sjónum eftir vinnu með vindinn í fangið og prísaði mig sæla með rigningarleysi. Annað en á sunnudaginn sem leið, rigning og ský gerðu það að verkum að afmælisgjöf þess myndarlega var afbókuð. Kaffi í rúmið, kampavín og krossant á sófanum og út að borða um kvöldið varð því að duga. Í gær glennti sig sólin og ég brunaði fyrr heim úr vinnunni til að sækja karlinn. Í gær viðraði prýðilega til þyrluflugs sem var hreint stórskemmtilegt enda mitt fyrsta þyrluflug, karlinn er auðvitað svo sjóaður að hafa ekki bara ferðast með þyrlu heldur með heilt tökulið með sér. Jájá, allt gott og blessað með það, hann hafði allavega ekki lent á Stóra Bolla áður til þess eins að dreypa á kampavíni, alveg glæný "2007" hegðun fyrir hann skal ég segja ykkur.

Karlhróið hlunkaðist annars yfir á 57. árið s.l. sunnudag. Ekki veit ég hvað vinkonurnar á kaffistofunni hefðu sagt um það, enda þagði ég þunnu hljóði. Lái mér hver sem vill.

föstudagur, 16. júní 2017

Gríma

Um daginn röltum við myndarlegi í bæinn þar sem við stungum okkur inn á Jómfrúna, sátum þar yfir smurbrauði og víntári, undir dillandi bongójassi og hávaðasömum flugvélum. Daginn eftir um daginn brunuðum við í barnaafmæli á Hvolsvöll, knúsuðum sætar systur, átum súpu og kökur, drukkum kaffi og spjölluðum. Eitthvert kvöldið eftir þessa daga þarna um daginn fórum við með mömmu út að borða á hávaðasömum veitingastað í bænum, átum rausnarlega af svakalega góðum mat, drukkum temmilega af rauðvíni með og hristum svo skankana í Hörpu þar á eftir í takt með Kool & the gang.

Þessir þrír atburðir eiga það allir sameiginlegt að frúin var með maskara. Eftir að ég fékk kvef þarna um daginn, daginn þá nennti ég ekki að setja á mig maskara á morgnana, enda þrútin um augun og leiðinlegt að vera með kvef eins og ég var búin að segja ykkur. Það er bara svo asskoti þægilegt að vera laus við að maskara sig hvern dag. Jújú, ég get svo sem alveg viðurkennt að suma daga þegar ég lít í spegilinn finnst mér eins og það vanti á mig andlitið og vissulega (og blessunarlega) er ég löngu laus við kvefið, ég nenni bara samt ekkert að setja á mig maskara á morgnanna. Set bara á mig maskara þegar ég nenni og vil og heilmikið frelsi í því fólgið, skal ég segja ykkur.

Sá myndarlegi er í afmælispartýi í heimabænum með móður sinni níræðri. Sálf ætla ég að hitta yndislegar vinkonur í kvöld. Spurning hvort ég splæsi maskara í það.

miðvikudagur, 14. júní 2017

Græn steik

Meðan ég steikti græna eplið í gær varð mér hugsað til steiktra grænna tómata og rifjaðist þá upp fyrir mér bók sem ég las fyrir margt löngu sem mig minnir að hafi verið eftir sama höfund og skrifaði Steiktir grænir tómatar. Mér finnst eins og bókin heiti Hvítt skítapakk og flekkóttur svertingi en hún gæti líka heitið Flekkóttur svertingi og hvítt skítapakk, það eru jú einhver ár síðan ég las hana en ég man að mér þótti hún feikn skemmtileg. Núna langar mig til að lesa hana aftur en finn hana hvergi í bókaflóðinu hér á heimilinu. Finnst eins og ég eigi að eiga hana en það gæti verið misminni. Er nokkuð viss um að bókin er ekki hugarburður en ef ég á hana ekki, hvar ætli ég hafi þá fengið hana að láni fyrir öllum þessum árum?

Það voru rétt passlegir afgangar af steiktum gænum eplum á eina samloku sem kom sér býsna vel í kvöld, sá myndarlegi er að kósa sig með afmælispiltinum eldri syni sínum, sitja rétt í þessu, nuddaðir og dekraðir, á Hótel Holti og kýla vömbina. 
Svei mér þá ef smjörsteikta búrbonperulaukssultusamlokan var ekki bara betri í kvöld en í gær. Ég er að segja ykkur það satt.

þriðjudagur, 13. júní 2017

Af garnagauli og steiktum grænum eplum

Var að smjörsteikja epli og langar að deila því með ykkur að ilmandi lyktin í vitum mér ærir upp í mér hungrið. Þegar sá myndarlegi kemur úr ræktinni ætla ég að smyrja búrbonperulauksultu á hvítar brauðsneiðar, leggja galíslenska skinku í sæng með breskum cheddar osti og smjörsteikja samlokur með smjörsteiktu eplunum á milli líka. Ó mig auma hvað ég vona að karlinn fari að koma heim. Garnagaulið í maga frúarinnar er ekki nærri því jafn fagurt hljóð og mal kattarins. Legg ekki meira á ykkur mjásurnar mínar.

mánudagur, 12. júní 2017

Frásögn af því hvernig kona verður plebbi

Núna erum við orðnir plebbar sagði sá myndarlegi við mig i morgun. Ég var 32 ára þegar ég kynntist honum, bjó ein í þægilega lítilli íbúð og átti ekkert sjónvarp. Í dag er ég 42 ára, bý með þeim myndarlega í þægilega of stórri íbúð og við eigum 55" flatsjónvarp (er það orð?) síðan í gær. Svona æðir lífið áfram meðan stúlka rétt deplar auga.

Af öðrum þroskasögum stúlkunar ber þar helst til tíðinda að eftir 6 farsæl ár í starfi Melabúðarstúlkunnar þeyttist hún á hausinn og endaði á eldhúsgólfi búðarinnar miðju. Ruslatunnan sem stúlkan hafði hugsað sér að demba í pappagáminn í portinu utandyra þeyttist á undan henni og pappírinn dreifði sér fagurlega um eldhúsgólfið. Fall frúarinnar, hér eftir kallað the Macron effect, var frönsk kartefla. Þökk sé vídjókerfi búðarinnar gátum við spilað og endurspilað og skemmt okkur yfir fallinu, skemmt okkur yfir því með samstarfsfólki sem missti af sýningunni, gestum sem bar að garði, talsett með tilþrifum, hlegið fram eftir degi. Gott stöff skal ég segja ykkur.

Svo er ég líka orðin plebbi, þið náðuð því, var það ekki? Hvernig segir kona annars plebbi á frönsku?

sunnudagur, 4. júní 2017

Á vegum landsins

Sá myndarlegi treystir sér ekki í langar göngur þessa dagana og stakk uppá bíltúr í staðinn. Þú sem ert nú úr bíltúrafjölskyldu sagði hann rogginn með sjálfan sig yfir hugmyndinni. Féllst á þetta með semingi eftir að hann hafði lofað að smyrja samlokur og hafa kaffi á brúsa með. Mosfellsheiði, Uxahryggir, Kaldidalur, Húsafell, Kleppjárnsreykir, Skorradalsvatn, Draginn, Hvalfjörður, Kjósaskarðsvegur, Mosfellsheiði. Vorum að koma heim.

Malbik og malarvegur, rok og rigning, galíslenskt landslag og frönsk músík í bílnum, vaðandi túristar og sauðfé á vegunum. Rukum í nokkur skipti út úr bílnum til að taka myndir, t.d af girðingastaur, fjöllum, skýjum og steinum. Sáum fullt af fallegu landslagi, fjöllum sem vert væri að ganga á og athyglisverðum gönguleiðum. Drukkum kaffið í bílnum, nenntum ekki að breiða úr teppinu í rokinu til að maula dýrindis Pésasamlokurnar.

Höfðum hugsað okkur að fara í sund í Húsafelli. Sá myndarlegi ákvað að sýna mér fyrst bústaðinn sem vinir okkar eiga þar uppfrá, ef hann rataði þ.e.a.s. Ekki bara rataði karlgarmurinn heldur voru vinir okkar stödd í umræddum bústað ásamt börnum, barnabörnum og tengdasyni. Ekki bara vorum við mætt þarna óvænt í heimsókn heldur önnur vinahjón þeirra líka. Yfir kaffibollum og fjörugum samræðum komumst við síðan að því að vinur þeirra reyndist ekki bara skyldur tengdasyni þeirra, hann er líka náskyldur mági mínum og fyrrverandi eiginkonu þess myndarlega.

Ísland er stórkostlega mikil þúfa. Enda ætlum við myndarlegi aftur í bíltúr á morgunn, getið sveiað ykkur uppá það.

miðvikudagur, 31. maí 2017

Af kvefleti og kartöflum

Ég er með kvef og það er leiðinlegt. Ó, hafið þið heyrt þennan áður? Kom heim úr vinnunni með þorskhnakka í töskunni. Núnú, líka heyrt þennan?  Jæja þá, ég nennti ekki að elda og ekki reyna að halda því fram að það hafið þið líka vitað.  

Letinnar vegna skar ég nokkrar kartöflur í búta, afgang af rauðlauk, nokkur hvítlauksrif í tvennt, saltaði, pipraði, klippti tvær greinar af rósmaríninu sem stendur í potti úti á verönd, dembdi slatta af ólífuolía yfir og henti inní ofn. Einfalt og þægilegt? Já. Bragðgott og ilmandi? Ójá!
Sólin skein (og skein ekki) og sá myndarlegi dútlaði við að koma kryddjurtum og salati haganlega fyrir í kassa hérna á veröndinni, haltraði nokkrar ferðir í safnhauginn að sækja mold, blásandi af elju og vinnusemi. Sjálf sat ég ekki auðum höndum þarna úti á verönd, togaði tappa úr flösku og lyfti glasi, dæsandi af leti
Er ég ekki annars örugglega búin að segja ykkur hvað mér finnst skemmtilegar kartöflur skemmtilegar?
Verið spök elskurnar og munið eftir skemmtilegu kartöflunum næst þegar þið farið í búðina.

mánudagur, 29. maí 2017

Gult og annað merkilegt stöff

Magga systir mín er alla jafna í svörtum fötum. Hún litar hárið á sér svart og er með svört gleraugu. Hvort sálin er jafn svört er ekki gott að segja en það mætti halda því fram að svart sé hennar uppáhaldslitur. Þó setur hún mjólk í kaffið og á það til að klæðast bláum gallabuxum. Mér krossbrá þegar hún mætti hingað í vinnuna til mín í heiðgulri regnkápu. Já, ég veit sagði hún, það var bara ekki til svört regnkápa svo ég keypti mér bara gula. Uppreisnarseggur sem hún systir mín er, sjálf var ég í rauðri regnkápu og skyldi engan undra.

Örkuðum af stað systurnar áleiðis í bæinn. Settumst inn á Apótekið og fengum okkur drykk. Áfengi með sítrónusafa og safa úr gulri papriku var samsetning sem ég gat ekki staðist, sumt verður kona einfaldlega að prófa. Fínasti drykkur og alveg í stíl við stílbrot sumra
Þessu næst lá leið okkar systra á Tapas barinn. Þar sem Margrét hafði aldrei svo mikið sem dýft tungu í Sangríu kom ekki annað til en að panta slíkan drykk. Íhuguðum alvarlega að skella okkur bara á könnu en afréðum þó að vera penar og fá okkur einungis sitt hvort glasið og bragða þá bæði hefðbundna Sangríu og hvítvíns
Pöntuðum okkar forréttaplatta fyrir tvo að deila og miðað við stærðina á Sangríu glösunum pöntuðum við bara tvo tapasrétti á mann þrátt fyrir að þjónustustúlkan indæla hefði mælt með fleirri réttum, sem betur fer, plattinn stóð enda á milli okkar systra á borðinu, í orðsins fyllstu, hlaðinn góðgæti. Þrátt fyrir að standa á blístri fengum við okkur af tapasréttunum en enduðum kvöldið á að biðja um hundapoka (hvað er annars gott orð yfir doggie bag á íslensku?).*

Af karlinum er það annars að frétta að í morgun keyrði ég hann í vinnuna. Já, ég sumsé keyrði hann út Samtúnið, bút af Nóatúni út í Borgartún, alla leið að Höfðatorgshorninu. Karlgarmurinn er að jafna sig eftir hnéaðgerð og gengur það býsn vel held ég. Liggjum núna bæði afvelta á sófanum, hann að jafna sig eftir fyrsta vinnudaginn eftir hnéaðgerð, ég að jafna mig eftir ofát. Legg ekki meira á ykkur hróin mín.    

*Vert er að taka fram að hundapoka var ekki þörf fyrir Sangríurnar en þær kláruðum við systur.

fimmtudagur, 25. maí 2017

Hjól og teipaður plastpoki

Á frídegi sem þessum teymdi ég fákinn út úr skúrnum og hjólaði í vinnuna. Það er auðvitað engin hemja að konan skuli snattast svona til einhvers kaupmanns á horninu eftir kjötsneið meðan hálf þjóðin berst um kerrur í Kostkó en mikið sem það er gaman að hjóla. Svo gaman að stíga fast á pedalana í háum gír, hjóla með rokið í fanginu, renna á miklum hraða niður brekkur, finna þytinn í eyrunum. Svo ekki gaman að fá flugu í augað, báðar á fullri ferð. Getið sveiað ykkur uppá að því langar mig ekki til að lenda í aftur.

Í dag aðstoðaði ég líka eiginmanninn við að teipa plastpoka utan um viðgerða hnéið á honum. Það sem karlhróið gladdist við að komast í sturtu eftir x daga frá aðgerð. 

Sælir eru einfaldir, ég segi ykkur það satt.

þriðjudagur, 23. maí 2017

Kammerför

Bróðir minn kom svo tímanlega að sækja mig á föstudagskvöldið síðasta að ég var rétt nýbyrjuð að úða í mig kvöldmatnum. Dreif mig að sjálfsögðu af stað* og var heldur undrandi á því hversu fá stæði voru laus í bílakjallara Hörpu. Fengum þó stæði og þar sem við vorum svona líka tímanleg örkuðum við beint á barinn. Þar sem við stóðum og kjöftuðum yfir hvítvínsglasi hafði ég á orði hvað það væri lítið af fólki mætt þarna í Hörpu. Fimm í tónleika höskuðum við okkur í átt að dyrunum, dyrum sem reyndust læstar. Komumst að raun um að tónleikahald hefði hafist hálftíma fyrr, hálftímanum sem við eyddum pollróleg yfir vínglasi og kjaftagangi. Alúðleg starfsstúlka hleypti okkur inn í salinn. Vorum rétt sest niður þegar komið var að hléi. Fékk mér annað glas af hvítvíni. Kammersveit Vínar og Berlínar sviku ekki þótt miðarnir okkar væru með kolrangri tímasetningu.

Bróðir minn kom svo aftur á laugardeginum og sótti mig. Brunuðum í blíðviðrinu til Borgarness. Sátum öxl við öxl á kirkjubekk ásamt okkar nánustu fjölskyldu. Fylgdum sómamanninum honum Jóni Sigurvini til grafar. Jóni hennar Imbu frænku. Drukkum kaffi og úðuðum í okkur brauðtertum og rjómatertum á eftir, göntuðumst, spjölluðum og hlógum með skyldfólkinu. Held hann Jósafat hefði ekki viljað hafa það neitt öðruvísi. Skrifaði Jósefína Baker í gestabókina. Jón kallaði mig sjaldan neinu öðru nafni.

Langar aftur í blíðviðri helgarinnar. Lífið er svo fallegt í sólskini, svo gaman að vera til í blíðu.

*Hef alltaf látið allt eftir honum**
**Nema reyndar eitt***
***Segi ykkur kannski frá því síðar

miðvikudagur, 17. maí 2017

Farfantar á símaakstri

Þið þekkið þennan bílstjóra, er það ekki? Hann er lengi að taka við sér á ljósum. Ökulagið er skrykkjótt, hann keyrir kannski löturhægt en gefur svo duglega í. Hann er lengi að stöðva bílinn við rautt ljós, stöðvar hann jafnvel í 3ja bíla fjarlægð frá bílnum á undan. Þú sérð í baksýnisspeglinum að bílstjórinn horfir niður, svo lítur hann skyndilega upp og þá keyrir hann að bílnum fyrir framan og stoppar þar, lítur aftur niður. Hann keyrir ískyggilega nálægt akreininni á móti, fer jafnvel yfir á hana. Já krakkar, ég er að tala um þetta lið sem leyfir sér að vera í símanum á keyrslu, sem sendir sms / fer á facebook / skoðar myndir á instagram eða hvað svo sem á meðan það keyrir bíl! Eða, þykist öllu heldur keyra bíl, í rauninni er þetta lið bara í símanum. 

Las þessa frétt í gær. Kannski er ég bara svona illa innrætt en ég gleðst yfir því þegar fólk er látið axla ábyrgð, sína eigin í þokkabót. Satt að segja vekur það hjá mér ónotatilfinningu að finnast ekki lengur neitt sérstakt tiltökumál þegar fólk er bara að tala í símann undir stýri.

Á árdögum farsímanna keyrði ég samhliða manni á Sæbrautinni sem var ekki bara að tala í símann, á vinstri akrein, heldur var hann líka að borða. Sumsé, hann notaði vinstri öxlina til að styðja við símann (ekki mikið um handfrjálsann búnað þá), var með salat í plastboxi á hægra læri (við erum ekki að tala um neina Sóma samloku krakkar), úðaði upp í sig með plastgaffli milli þess sem hann talaði og "keyrði" bílinn með ýmist vinstra hnénu eða hægri hendi (eftir því hvernig á stóð).

Viðurkenni fúslega að mér verður stundum hugsað til hans þegar ég pirra mig á farsímaökuföntum, hvernig ætli hann keyri bíl í dag?

Að blogga

er góð skemmtun. Skemmtun sem þó virðist vera á undanhaldi. Stór hópur af bloggurum sem ég áður fylgdist með er hættur að blogga. Ég er þó svo heppinn að eiga annan hóp af bloggurum sem enn eru iðnir við bloggkolann. Meira að segja stálheppin því um helgina hitti ég þetta frábæra fólk og drakk kaffi með því, talaði um lífsins mál og gerði skil á mikilivægi þess að hlægja mikið. Fyrirtaks samvera.