þriðjudagur, 1. júlí 2014

Skar niður lauk

og steikti í olíu og góðri dúnku af paprikukryddi


Fyrst ég var búin að óhreinka hnífinn skar ég líka niður hvítlauk, paprikur og gulrætur. Skolaði rauðar linsubaunir og skemmti mér við að teyga skrýtnu lyktina af þeim


Henti þeim í pottinn og örlítið á gólfið þegar allt hitt var farið að mýkjast nógu vel til að renna nógu ljúflega niður skoltinn á pilti á þrítugsaldri sem losnaði við þrjá endajaxla nokkrum tímum fyrr


Dós af tómötum og fullt, fullt af kjötsoði til að malla á móti rigningu, pipar að vildarlægð


Príma vetrarsúpa á sumri sem telur sig haust. Þar hafið þið það.

Það skiptast á skin og skúrir

sagði eitthvert gáfumennið á einhverjum tíma og síðan þá hafa mannskepnurnar hér á fróni keppst við að endurtaka frasann. Skyldi engann undra, sannleikur nokkur í þeim orðunum eins og veðrið keppist við að sýna okkur, að maður kona tali ekki um sjálft lífið.

Síðan síðast er ég búin að lesa 3 sæmilegar bækur eftir Íslending og ævintýralega sérstakar sögur eftir Spánverja, eftirstríðssögu í Hamborg eftir Breta og gamaldags krimma í Svíþjóð eftir Dana. Hugsa enn til frú Holst. Daninn sá hefur hæfileika til að skrifa sögur, óháð skini og skúrum.