fimmtudagur, 27. nóvember 2008

hvorki - né

Grey-Geir var hissa á því hversu margir mættu á borgarafundinn í Háskólabíó sl. mánudag.
Aumingja-Árni er undrandi á yfirlýsingum Gylfa Arnbjörnssonar um að hann (ásamt reyndar fleirum) eigi að segja af sér vegna bankahrunsins.
Þeir virðast líka eiga það sameiginlegt að finnast hvorugur bera ábyrgð á því ástandi sem ríkir í þjóðfélagi okkar í dag, að þeir eigi að sitja sem fastast, hundsa vilja meirihluta þjóðarinnar og halda uppteknum DO-hætti = tala niður til fávísa skrílsins af fullum hroka.
Ætli undrun- og hiss-ismi sé nýjasti atvinnusjúkdómur stjórnmálamanna í dag?

Ég er hvorki hissa né undrandi. Ég er hins vegar bæði reið & sorgbitinn yfir að vera hvorki hissa né undrandi lengur yfir ráðherrum þessa lands.

miðvikudagur, 26. nóvember 2008

Ble

Ég rétt náði í restina af borgarafundinum í Háskólabíó eftir tónleikana á mánudaginn. Rétt náði að sjá Geir tjá sig við fréttamann að hann væri bara hissa á hversu margir hefðu mætt, og snúa svo út úr spurningu án þess að gefa nokkurt svar. Reglulega upplífgandi að sjá forsætisráðherrann setja sig í sömu ömurlegu stellingarnar, þrátt fyrir húsfylli af ósáttum íslenskum borgurum.

Ég er annars enn mjög stolt af myndarlega kærastanum mínum.

þriðjudagur, 25. nóvember 2008

Þjóðlaga-tónleikar

Í gær söng ég í fyrsta skipti opinberlega, þ.e.a.s. á tónleikum í skólanum mínum. Það var húsfyllir af foreldrum, öfum & ömmum, systkynum & vinum. 66 lög voru flutt - 2 á mann. Ég var fjórða síðust. Ég var líka skræfa & bauð ekki neinum. Ég lét að vísu kærastann vita en sagði honum jafnframt honum væri ekki boðið. Kærastinn er sanngjarn maður, & samþykti þau rök mín að ég myndi að öllum líkindum ekki koma nokkru hljóði upp úr kokinu á mér af stressi, ef hann væri meðal áheyrenda. Bauð mér í ljúffengann mat & lánaði mér kaggann sinn svo ég þyrfti ekki að tipplast á milli húsa, uppstríluð á hælum.
Ég gleymdi heilu orði í fyrra laginu en náði að redda mér fyrir horn með uppfyllingu á allt öðru orði. Ég skalf af skelfingu í sálartetrinu, en ákvað eftir fyrra erindið í fyrra laginu það sæi það varla nokkur maður. Náði jafnvel að skila túlkuninni í seinna laginu, þrátt fyrir maður eigi að standa þráðbeinn og ég er ekki alveg enn þá búin að átta mig á hvernig maður fer að því að láta túlkunina leka með. Skemmtilegt að finna hvernig stress sem maður telur sjálfum sér trú um að muni yfirbuga mann, gefur manni svo kraft þegar á reynir. Háu tónarnir sem ég hafði mestar áhyggjur af að ná ekki, og verða mér til óbærilegrar skammar, voru svo ekkert vandamál er á reyndi.

Ég greip svo smotterís sárabót með mér fyrir kærastann; hjartalagaða piparköku af kaffiborðinu eftir tónleikana. Mér fannst það voða sætt af mér.

laugardagur, 22. nóvember 2008

Áann

Kærastinn minn er ekki bara myndarlegur og góður maður.
Hann hefur líka þor.
Ég er mjög stolt af honum.

föstudagur, 21. nóvember 2008

Sam-vinna

Kærastinn & hjásvæfan tóku sig til og gerðu við stofuborðið hjá mér




Það var fallegt af þeim.

þriðjudagur, 18. nóvember 2008

Lukka

Mér var boðið starf um daginn. Húsmóðurs-stöðu í einu af úthverfum bæjarins. Þrif, innkaup og umsjá læðu. Hægt að semja um garðvinnu. Frítt fæði að launum.
Að auki auðnaðist mér skemmtari sem gæti hjálpað mér að drýgja tekjurnar. Gæti vel trúað það væri markaður fyrir þýska-eydís-skemmtara-bar-stemmingu hér á landi, nóg er víst um aðrar hamfarir í þjóðfélaginu.

Notalegt að hafa góða hluti í bakhöndinni.

mánudagur, 17. nóvember 2008

rottu-svipurinn

Ég eeelska þessa mynd af Pétri



Eiginlega get bara ekki litið á hana án þess að springa úr hlátri. Er viss um hún á eftir að reynast mér mikill gleðigjafi í margar, margar, margar vikur. Svona ekki ósvipað og myndin af Gus heitnum. Hún er tekin meðan við biðum eftir meindýraeyðinum að sækja 1 stk. rottulík heima hjá mér, og mér finnst auðvita tilvalið að segja að Pétur hafi sett svipinn upp við það að sjá rottuna. Sannleikurinn er þó sá að Pétur var að sannfæra mig um að nota aðra myndavél, sem hann segir að sé betri en mín, m.a. vegna þess hversu fljót hún er að smella af. Hann vildi endilega ég tæki mynd af sér til að prufa og setti, eins og klárlega sést, allann sinn sjarma í myndatökuna. Það sem mig þó grunar er að hann sjálfur hafi ekki verið búinn að átta sig á hversu helvíti snögg vélin er að smella. Enda nota ég hana eingöngu hér eftir.

sunnudagur, 16. nóvember 2008

ÁM

Í Morgunblaðinu í dag, nánar tiltekið á bls. 54, er mynd af skellihlægjandi dýralækni. Ég varð hálf hissa yfir þessu og fussaði um það við kærastann, að ég skildi ekki alveg af hverju hann væri svona rosalega glaður, hann hlyti að hafa það svo mun betur en við hin í miðjum efnahags-hamförunum. Síðan las ég pistilinn hans og þá skildi ég þetta. Hann er nefnilega að tala um nýjasta brandarann. Jú, þennann glænýja þarna til bjargar heimilunum. Ekki skrýtið þó hann hlægi greyið. 

fimmtudagur, 13. nóvember 2008

Ung-rotta

Síðustu helgi lánaði ég Ólafíu frænku minni og Arnóri manninum hennar íbúðina mína. Arnór var spenntur að komast á músaveiðar, svo ég sá mér hag í því að hafa þau þar, meðan myndarlegi maðurinn myndi bera mig á höndum sér heima hjá sér. Þau gistu þó ekki nema eina nótt, því eftir að hafa dregið eldavélina fram á mitt gólf og opnað, brá Arnóri hressilega, við mikla kátínu Ólafíu, við að sjá á eftir rottu-hala. Á mánudeginum drattaðist ég því loksins til að hringja í Borgina og biðja um meindýraeyði, sem brást snarlega við og kom upp massívum gildrum hjá mér, með eðal dönsku marsípani sem beitu. Það snar-virkaði þar sem rottan fannst snar-dauð í annari gildrunni deginum eftir. Geðþekki meindýraeyðirinn frá Borginni kom svo og hirti hana, mér til mikillar ánægju, og gladdi mig enn meir er hann fræddi mig á því, að músa- og rottu-veiðar væri þjónusta sem ég væri þegar búin að borga fyrir með fasteignagjöldunum.
Í gær hófst svo tiltektin. Ég prísaði mig sæla að vera hvorki klígju- né kúgunargjörn. Lyktin af uppsöfnuðum rottu-saur er vægast sagt svívirðileg.
Myndarlegi maðurinn var sætur að vanda og kom með mat handa mér. Meðan ég þreif dundaði hann sér svo við að lagfæra aðra gardínuna, í samvinnu við köttinn sem hafði aflagað hana vikunni á undann. Þar sem myndarlegi maðurinn er með eindæmum laginn, gerði hann sér lítið fyrir og klippti út lítil, sæt typpi handa mér í "nýju" gardínuna mína.


þriðjudagur, 11. nóvember 2008

UMSKA

Föstudagskvöld borðaði ég indæla rækjunúðluhumarsoðssúpu hjá Unni Maríu. Myndarlegi maðurinn kom til okkar síðar um kvöldið og við flatmöguðum í sjónvarps-deninu, fengum popp að hætti Unnar og horfðum á athyglisverða mynd.
Laugardagskvöldið komu Unnur & Arna í mat í Samtúnið. Við drukkum doldið af hvítvíni, tókum slatta af myndum, hlustuðum á næntís tónlist, fórum í næntís-þrítugsafmælið hans Haffa & enduðum svo niður í bæ.
Sunnudagskvöldið fór ég með myndarlega manninum á Unglist í Norræna Húsinu. Dagskráin var fjölbreytt & skemmtileg. Ásta myndarlegamannsdóttir spilaði listilega vel með tríóinu sínu. Fífilbrekkan var sungin í útsetningu Sigvalda Kaldalóns sem mér þótti sérstaklega gaman að heyra, þar sem hún er verulega frábrugðin útsetningu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar sem ég er að æfa þessa dagana.

En ég gerði líka hluti sem ég átti ekki að gera. Og gerði ekki hluti sem ég hefði átt að gera.
Ég fór í göngutúr til að fá rok í andlitið á mér, en rokið var mun meira en ég átti von á, göngutúrinn endaði á öðrum stað en ég ætlaði, og ég fékk meira en bara rok í andlitið.


Það er gott að eiga góðar vinkonur til að hlægja með



en það er ekki síður gott að eiga vinkonur, sem þrátt fyrir að þekkja veikleika manns og asna-sköft, nenna samt að bulla með manni

föstudagur, 7. nóvember 2008

Ódýrt

Ég hef lagt mig í lima við að vera verulega stinamjúk við hjásvæfuna. Klappa honum, kreista hann og fullvissa hann um hann sé sætasti köttur í heimi. Ég hefi nefnilega samviskubit yfir að loka blessaða skepnuna svona inni. Mér varð ljóst er ég kom heim í gær, að þessi stinamýkt mín er greinilega hætt að virka og ódýra rúmfatalagers-gardínan mín fékk að gjalda fyrir það.



Ég veit ekki alveg hvernig ég á að færa pabba tíðindin. Hann hafði jú fyrir því að föndra doldið við gardínurnar til að koma þeim fyrir í gluggunum hjá mér. Annars sagði kærastinn það væri ekki mikið mál fyrir mig að setja nýtt í staðinn fyrir þetta aflagaða, svona fyrst það er kreppa eins og hann orðaði það. Það sem kærastann grunar þó örugglega er, að það er langþægilegast fyrir mig að hann geri það fyrir mig. Enda leggst föndur afskaplega illa í mitt geð, sem er víst nógu tæpt fyrir.

Svona lítur hún svo út niðurdregin



Já, verulega döpur. Þrátt fyrir að vera ekki skemmt, gat ég með engu móti skammað blessaða lufsuna. Ekki myndi ég vilja vera neydd til að míga í appelsínugult þvottafat, og verða að hírast innilokuð með mús, sem skellihlær að manni allann liðlangann daginn.

Best að fara heim og breiða mjúku sængina mína yfir hausinn á okkur báðum.

MjáMjáMjá

Er að borga skemmtanagjaldið. Nema hvað skemmtunin var ekkert skemmtileg. Langar heim að leggjast upp í rúm og breiða mjúku sængina mína yfir hausinn á mér.

Nei annars, þetta var ekki planið. Bjartsýni var planið. Alveg rétt. Jákvæðni. Já.

fimmtudagur, 6. nóvember 2008

Bót

Heyrði í útvarpinu í morgun að atvinnuleysisbætur dygðu ekki fyrir útgjöldum heimilanna. Því miður eru þetta ekki nýjar fréttir, heldur gamlar. Þar sem ég er uppsögð ákvað ég mér til hughreystingar, að skoða hverjar grunnatvinnuleysisbæturnar eru. Og viti menn, þær eru Kr. 136.023,- á mánuði. Lítur alls ekki sem verst út. Fyrir mig þ.e.a.s. Þegar mín mánaðarlegu útgjöld eru dregin frá þessu er ég bara tæpum 10.000,- í mínus. Ég myndi að sjálfsögðu kanna möguleikann á að skorast undan mánaðarlegu afborguninni á rándýra áhugamálinu mínu, sem er auðvita ekkert nema munaður. Með því ætti ég að koma út í plús um tæpar 20.000,- og það er feikinóg til að metta minn maga með pasta yfir mánuðinn. Ég er nefnilega svo lánsöm að hafa fyrir mörgum árum tekið ákvörðun um að börn vilji ég ekki eignast. Ég hef því einungis kattarlufsu aukalega á mínu framfæri, sem blessunarlega hefur ávalt verið fremur matgrannur. Þess fyrir utan á ég sætasta kærastann sem vafalítið heldur áfram að vera duglegur að bjóða mér í mat, svo ég kem til með að fá fjölbreyttara fæði en hveiti og egg, og spara mér nokkrar verðlausar krónur fyrir vikið. Þess þess fyrir utan munu foreldrar mínir aldrei geta horft upp á að ég líði skort. Ég sé mér því ekki annað fært en horfa áfram bjartsýnisaugum til framtíðar. Enda er ég ekki atvinnulaus. Enn. Og kærastinn fær kossana fríkeypis. Enn.

Ath. reikniforsendur í ofangreindri færslu eiga einungis við ný-afstaðin mánaðarmót.

miðvikudagur, 5. nóvember 2008

Hætt'essu bulli

Sem fyrr vaknaði ég við Morgunútvarp Rásar 2 í bóli kærastans. Viðtalið við hana nöfnu mína, Sigurbjörgu Árnadóttur, var með því betra sem ég hef heyrt lengi. Sigurbjörg þessi bjó í Finnlandi er kreppan mikla reið yfir þar. Hún talaði ekki um neina Finnska skyndilausn né aðrar skyndilausnir. Hún talaði opinskátt um þær hörmungar sem hún upplifði í Finnlandi. Og hún var beinskeytt í orðum sínum til Íslendinga. Og ég tek heilshugar undir með henni. Að tími sé kominn til að hætta þessu bulli og fara að búa sig undir alvöruna fyrir alvöru.
Stjórnmálafólkið okkar þarf að átta sig á því að þau eru ekki háu herrar okkar. Við erum atvinnurekendur þeirra. Og sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita sannleikann um fyrirtækið okkar, hver staðan raunverulega er, hvað sé raunverulega í stöðunni og hvert eigi að halda. Sem atvinnurekendur eigum við rétt á að vita hvaða starfsmaður stendur sig vel, hvaða starfsmaður stendur sig illa, og reka þann sem ítrekað brýtur gegn hagsmunum fyrirtækisins.
Sem þjóð eigum við rétt á að komið sé fram við okkur eins og fólk. Ekki bara að hanga á brúninni í óvissu og hræðslu um hversu lengi við höngum, og hversu langt og harkalegt fallið verður þegar við missum takið.

Ég er þess fyrir utan afskaplega fegin að Barack Obama er verðandi forseti Bandaríkjana.

mánudagur, 3. nóvember 2008

Mjá

Sl. föstudag labbaði ég heim úr vinnunni með uppsagnarbréf í vasanum. Helgin var engu að síður ekki alslæm. Ég fékk mér rauðvín með bestu vinkonu minni og við fórum út að dansa. Foreldrar mínir gerðu sitt besta til að pakka mér inn í hughreystingarbómul. Ég talaði lengi við systur mína í Horsens. Klappaði kettinum. Fór í langann göngutúr. Horfði á gamla, hugljúfa mynd. Knúsaði myndarlega manninn. Fékk smakk og grænann sun-lolly. Eldaði mat.

Ég er búin að segja það upphátt ég ætli ekki að láta kreppubölsýni ná tökum á mér. Mig langaði samt að halda áfram að sofa í morgun, og spurði kærastann af hverju það væri ekki aftur komin helgi. Hann svaraði einfaldlega; af því þér finnst svo gaman að mánudögum. Og það er alveg rétt, ég hef gaman af mánudögum. Ég hef vinnu næstu 3 mánuðina, fæ útborguð laun og tíma til að leita mér að annari vinnu. Hvað síðan tekur við hef ég ekki nokkura hugmynd. Ekki frekar en nokkur annar á Íslandi í dag. Það sem ég þó veit með vissu er að ég er langt í frá ein; ég á fjölskyldu sem stendur saman í raun, frábæra vini, sætasta kærastann og kött sem malar hátt þegar ég strýk honum. Og ef út í það er farið, þá þykir mér pasta rosalega gott.

sunnudagur, 2. nóvember 2008

ómótstæðilegur



Þarf nokkurn að undra þó ég ráði ekki við sjálfa mig?

Má samt ekki eingöngu hanga utan um hálsinn á myndarlega manninum um helgina, þótt ég vildi. Verð líka að vera dugleg að læra. Og klappa kettinum. Bölvuðum.