fimmtudagur, 24. júlí 2008

Pestó

Útbjó heimalagað pestó í fyrsta sinn um daginn. Bústna basilíkuplantan mín er frekar mögur eftir herlegheitin.



Er annars stokkin til Parísar að hitta systur mína – vonandi verður plantan búin að jafna sig þegar ég kem til baka.

miðvikudagur, 23. júlí 2008

Nafna

Sl. helgi hjá mér byrjaði eiginlega á fimmtudagskvöldinu þrátt fyrir að vinna part úr degi á föstudag.
Matreiddi pestólambalundir ásamt ofnbökuðu grænmeti handa okkur Guðmundi á fimmtudagskvöldinu. Eftir að hafa borðað ljúffenga máltíð, drukkið doldið rauðvín, hlustað á Gaye vin okkar, fíflast í kettinum og atast með myndavélina, drifum við Örnu með okkur á Boston að hitta Unni, Helgu Þórey og Kjartan. Kannski ekki það gáfulegasta sem hægt er að gera á fimmtudegi en öfga gaman.
Eftir stutta útgáfu af vinnudegi brunuðum ég og hjásvæfan svo í Þakgil á föstudeginum. Það var vægast sagt indælt að sofa í tjaldi, njóta góða veðursins, bjóða öðru fólki góðann daginn, drekka morgunkaffið undir berum himni, fara í langann göngutúr, hitta furðuverur nátturunnar og alls ekki slæmt að sjá glitta í hana nöfnu mína í fjarska.
Sunnudegi var svo eytt í almennt hangs sem er ljúft með indælli hjásvæfu.




Fórum og hittum kisurnar hennar Unnar í gær, eða jah, yfirskynið var vissulega að heimsækja Unni og þiggja gott kaffi hjá henni, en aðalaðdráttaraflið eru nýja kisa og nýjasta kisa – líklega Ísafold og Piparkaka. Þær eru svo fallegar og mjúkar og yndislegar og sætar og mala svo flott að mér klæjaði í kattarbeinið sem Unnur þvælir stundum um.

Og nú er kominn mið-viku-dagur – lífið er bara svei mér þá ein skrembilukka.

Líflátin

Í nótt dreymdi mig að systir mín hefði verið dæmd til dauða. Hún skyldi hálshöggvin fyrir ósiðsamlegt athæfi. Draumurinn hófst þar sem hún beið í varðhaldi ásamt 2 öðrum konum.
Ég var að allann tímann við að kanna hvað hefði gerst og hvernig væri hægt að sanna annað og breyta dómnum. Ég rakst á margar hindranir, varð vör við hvað aðrir voru passífir og vildu ekki vera með neinn mótþróa og ég varð sjálf að láta í minnipokann á endanum. Ekki bara dreymdi mig að ég hefði verið viðstödd aftökuna skv. hennar ósk heldur hélt draumurinn svo langt að mig dreymdi líf mitt eftir hana líka.
Þetta var einn af þessum draumum sem virðast standa yfir alla nóttina. Ég vaknaði um 2 leytið en hvarf strax til draumsins þar sem frá var horfið og var enn að dreyma er ég vaknaði, dauðþreytt.
Hvernig er hægt að dæma 3 konur til lífláts fyrir að hafa sagt eða gert einhvað sem öðrum þykir ósæmandi.

Þar sem ég lá varla vöknuð og heilinn ekki farinn að skynja mikið meira en faðmlag hjásvæfunnar, varð mér hugsað til þess að þessi fáránlegi draumur minn er því miður staðreynd í lífi of margra kvenna í heiminum í mörgum mismunandi myndum.

Ég hins vegar er svo lánsöm að vera kona á Íslandi, þar sem mín eymd felst í besta falli í krepputali og afborgunum af húsnæðisláni.

fimmtudagur, 17. júlí 2008

PPP

Ég er svo lánsöm að þykja gaman að elda – meira að segja mjög gaman að elda. Skemmtilegast finnst mér að elda eftir uppskrift. Svo gaman að þrátt fyrir að hafa búið ein sl. 1,5 ár elda ég nánast alltaf eftir uppskrift, þó það sé máltíð handa mér einni hugsanlega í félagsskap kattarins. Ég á mér þó letirétt en ég gríp örsjaldan til hans.
Mér þykir eiginlega gaman að öllu ferlinu. Mér þykir gaman að velta mér upp úr uppskriftum og setja saman matar- og innkaupalista. Ég ætla svo sem ekki að halda því fram að Bónus sé neinn skemmtistaður, en ég hef gert margt leiðinlegra en að versla. Minn galdur er einfaldlega sá að vera doldið skipulögð – fara á þeim dögum sem mér henta og versla doldið inn í einu.
Eftir að ég kynntist hjásvæfunni - sem er mjög liðtækur í eldhúsinu - og eyði sífellt meiri tíma með honum, hefur þessi matar rútína mín riðlast svo, að oft á tíðum liggur við að það eina matarkyns sem til er í mínum skápum, er kattamaturinn.
Ég var því ákveðin í að setja saman stutta útgáfu af matarlista, fara í búð og eyða svo tíma með sjálfri mér og kettinum heima hjá mér, í mínum eigin huggulegheitum í gær. Og hvað gerir Frú Sigurbjörg? Jú, eldar letiréttinn!

Pasta, pestó, parmesan. Ekki bara er hann einfaldur, þessi þrjú hráefni þykja mér afskaplega góð. Mikilvægast þó – hann gengur með öllum tegundum af rauðvíni.


Í kvöld verður þó bragarmunur á - ætla að elda góðann mat handa góðum vin.
Hver er annars ykkar letiréttur?

mánudagur, 14. júlí 2008

Fía pía

Ólafía litla frænka mín á afmæli í dag. Ég man vel eftir því þegar þessi stelpa kom í heiminn en það sama sumar byrjaði ég sumarvist hjá systur minni, sem átti eftir að vara nokkur ár eftir það að passa gríslinginn og síðar systur hennar líka. Það var aldrei leiðinlegt að passa þetta litla skott, ef hún var ekki brosandi þá var hún hlægjandi og uppátektarsemina vantaði ekki. Mér er alveg sama þó hún Fía sé 21 árs í dag og eigi 2 fallega drengi með sambýlismanni sínum – hún verður alltaf litla skottið mitt.


Vinir

Eins og ég hef þegar bloggað um þykir mér afskaplega vænt um töluna þrettán. Ekki bara fyrir að ég sjálf sé fædd þrettánda, ég hef líka töluvert af góðu fólki í kringum mig sem fætt er þrettánda. Dagurinn í gær var sérstakur fyrir það að tveir góðir vinir mínir deila þessum afmælisdegi.

Lindu Rós kyntist ég fyrir heilmörgum árum í Hagkaup sem var okkar sameiginlegi vinnustaður. Það hefur verið sérstaklega gaman að fylgja henni Lindu minni, sem þrátt fyrir að hafa bætt á sig árum - eins og við gerum víst öll - og orðin móðir og eiginkona, þá er alltaf eins að hitta hana – alltaf yndisleg, geðgóð, traust og vinur vina sinna. Samverustundirnar mættu gjarnan vera fleiri, en með svona góðann og hlýjann vin í farteskinu er ekki hægt að kvarta.




Guðmundur var áður sambýlismaður minn og elskhugi – lét það yfir sig ganga að vera kynntur sem hjásvæfa fyrstu 2 árin en varð maðurinn minn eftir það. Ég hef ekki fyrr haldið vinskap við “fyrrverandi” en ég er afskaplega ánægð með þennann. Þrátt fyrir að sambúð okkar hafi ekki lukkast er ekki hægt að líta fram hjá því, að Guðmundur er yndislegur drengur með stórt hjarta. Mér þykir gott að halda áfram að þykja vænt um hann og eiga hann sem einn af mínum betri vinum.



Eins og besta vinkona mín orðaði það: hvaða vit er í því að auka í óvinahópnum – miklu skemmtilegra að stækka vinahópinn.

föstudagur, 11. júlí 2008

Purr

Sambýlingurinn hefur vart látið sjá sig. Ég sé á matarskálinni að einhver étur af henni og hef verið að vona það sé hann. Hef samt haft áhyggjur af því hann sé hugsanlega fluttur að heimann, búinn að taka sér búsetu annars staðar og Skaftahlíðin sé eingöngu orðin að hverju öðru útibúi, sem ég er reyndar viss um hann eigi nokkur þar sem skepnan er með eindæmum mannelsk. Hef einnig velt því fyrir mér hvort tíð fjarvera mín af heimilinu eigi þar hlut að máli.
Ég varð því mjög kát að sjá skepnuna koma vælandi á móti mér er ég arkaði Skaftahlíðina heim rétt eftir miðnætti í fyrrakvöld. Ekki bara fylgdi hann mér inn og fékk sér smá snarl, heldur kúrði hann sig upp við mig í rúminu og ég sofnaði með malið í eyrunum – vaknaði svo með skepnuna til fóta. Í gærkveldi er ég kom heim á svipuðum tíma eftir kaffikjaft með indælum vinkonum var skepnan þegar sofnuð í rúminu.
Eins og mér leiðist þegar kvikindið fer á brölt í rúminu um miðjar nætur, og ýtir loppunni á nefið á mér til að vekja mig, veit ég þó fátt indælla en mjúkann kisukroppinn og háa malið hans Dags míns.

Ég ætla samt að kúra hjá hjásvæfunni í kvöld – veit að hann er glaður að vera einstaka sinnum tekinn fram fyrir kött.

miðvikudagur, 9. júlí 2008

Kjölur

Við Unnur María vorum mættar á BSÍ sl. föstudag til að fara með áætlunarbíl SBA norður Kjöl. Kjölur er skemmtileg leið, altjént í glampandi sólskini, og ekki skemmdu fjörugar og athyglisverðar samræður við Ingjald bílstjóra fyrir.
Urður og Ragnar eru höfðingjar heim að sækja og við Unnur vorum dekraðar í mat og drykk.
Fengum einkaleiðsögn safnstjóra um Iðnaðarsafn Akureyrar sem er mjög athyglisvert. Borðuðum pizzur með kartöflumús og pepperoni annars vegar og nautakjöti, frönskum og Bernais sósu hins vegar. Borðuðum á verönd veitingastaðarins Strikinu með fallegt útsýni yfir höfnina, rómantísku gargi máfa yfir höfðum okkar og dáðumst að sjortara-borðinu í lyftunni. Kynntum okkur næturlíf Akureyringa. Tókum ákvörðun seint á Laugardagskvöldi um að dissa áætlunina til baka deginum eftir og húkka okkur bara far í bæinn.
Sem betur fer beilaði ég á þeirri hugmynd og reif mig á fætur. Hafði það mjög heimilislegt í framsætinu hjá Jóni Jaka með sokkaklæddar bífurnar út í framrúðunni, og þakkaði fyrir út í bláinn hvað heilsan væri góð.


Það er fátt sem toppar góðann félagsskap – áhyggjulaust frí – stuttann kjól á sólskindegi.

fimmtudagur, 3. júlí 2008

Dagurinn minn

Var að stússast við matargerð um daginn í sólskinsskapi í sólskininu sem þá var.
Þegar ég sneri mér við blasti sambýlingurinn við mér þar sem hann naut sólarinnar.



Mér þykir ansi vænt um þessa skepnu.

Er annars stokkin norður Kjöl með Unni. Ef allt gengur að óskum mun hún sameinast Auði um helgina.

Brettið

Eftir að hafa dundað sér við tiltekt og þrif allann daginn, ásamt því að bjóða foreldrum sínum, börnum og mér upp á góðann mat, dreif hjásvæfan straubrettið fram í stofu, stillti því upp fyrir framan sjónvarpið, og réðst á krumpaða skyrtubunkann sem hafði beðið hógvær í doldið langann tíma. Ég veit fátt leiðinlegra en að strauja enda á ég hvorki straubolta né straubretti. Vil helst ekki eiga flíkur sem krumpast mikið. Ég var þó ákveðin í að fylgjast vel með myndarskapnum hjá hjásvæfunni og ætlaði mér að sjálfsögðu að dást þessi heljarinnar ósköp að honum. Þegar hann var búinn að strjúka yfir kragann – sem hann byrjar á – fann ég strax að straujun er jafn óspennandi og yfirþyrmandi leiðinleg þó maður standi ekki í því sjálfur. Þegar hann var búinn með helming var þolinmæði mín á þrotum og ég spurði með örlítilli óþreyju í röddinni hvort hann gæti ekki flýtt sér, ég væri nefnilega að skrifa bréf og þó hann væri vissulega myndarlegur þá bara hefði ég ekki tíma fyrir þetta stúss.

Ef ég skyldi ekki vera búin að blogga það upphátt þá er hjásvæfan mín yndislegur maður. Hann lét sér því nægja að brosa sínu blíðasta og rumpaði skyrtufjandanum af.

miðvikudagur, 2. júlí 2008

Systir

Það getur tekið verulega á taugarnar að vera stóra systir.



Annars er litli bróðir minn ósköp ljúfur og góður – enda bældur af 4 eldri systrum.

þriðjudagur, 1. júlí 2008

Apaköttur



Þessi mynd af litla sæta frænda mínum að flassa litla sæta bossanum sínum í aparólunni í Húsdýragarðinum hefur veitt mér ómælda ánægju.