sunnudagur, 6. september 2020

Hindberjarunnar tveir dansa með rokinu, rósir drjúpa regnvotar.

Sólin glennti sig í allann gærdag og frúin fór ekki út fyrir hússins dyr. Nema að svaladyrnar teljist með; eyddi deginum að mestu úti á verönd, stússaðist lítillega í blómum en sat að mestu í garðstól með hatt á höfði (keyptum í Úrúgvæ), sólgeraugu á nefi (keyptum á Siglufirði) og þeyttist í gegnum afar áhugaverða bók eftir japanskann rithöfund.

Í dag hamast veðrið við haustið og frúin var að koma úr göngutúr. Ég kann vel að meta veður, beljandi rokið hressir andann og blaut rigninginn hreinsar hugann. Allavega minn. Sit við eldhúsborðið, endurnærð, með kaffi í bolla og kveikt á kertum. Birta og Bjössi liggja makindaleg á bleikum sófa. Rondó ómar lágstillt í eyru frúar með veðurroða í kinnum og værð í hjarta.

Það er eitthvað við veður sem mér þykir svo heillandi, þessi þverstæða að njóta þess að æða út og leyfa roki og rigningu að belja á sér og njóta þess síðan jafn vel að sitja inni í húsi, komin aftur í náttföt með köld læri og kaldar kinnar, hamagang veðurs fyrir utan, róina hið innra.

laugardagur, 5. september 2020

Tikk tokk, tikk tokk

Ég er hætt að líta á klukkuna um helgar þegar ég vakna. Mér kemur tíminn ekki við þegar ég er í fríi. Teygi út hendi í von um mjúkan kisukropp til að strjúka. Hin hendin teygir sig yfir á náttborðið. Það er fátt sem raskar lestrarró nema þá helst kaffiþörf en henni er frúnni ljúft að gefa eftir. 

Það er hungrið sem á endanum hefur mig á fætur, hungur sem farið hefur úr blíðri gælu um að gott væri að nærast yfir í yfirþyrmandi þörf sem malar hærra en kötturinn sem hringar sig upp við mig og æpir yfir orðin sem ég renni yfir á blaðsíðu bókar. 

Búin að vökva beðin í garðinum mínum. Búin að drösla öllum blómum heimilisins út á verönd og vökva og sturta. Búin að tína nýjustu berin beint uppí mig. Búin að dæsa og andvarpa og dæsa svo aftur af óhaminni hamingju af veðri og verönd og veröld sem frúin er að skapa sér sjálf.

Í sambúðinni með sjálfri mér er ég að læra að ég má gera það sem mér einni langar. Ég þarf ekki að gera eitthvað eitt til að gera eitthvað annað. Ég þarf ekki heldur að gera eitthvað annað til að gera svo eitthvað eitt. Ég má einfaldlega gera það sem mér sýnist og það er einmitt það sem ég ætla að gera í dag og líklegast á morgun líka. Legg ekki meira á ykkur.