mánudagur, 30. júní 2008

Elskulegur limur

Ég var orðin svo úthvíld og afslöppuð eftir fríið í gær að heilabúið hrökk snögglega í gang og ég fékk snilldar hugmynd – persónulegir víbratorar; mót tekið af lim elskunnar þinnar (eiginmaður – kærasti – hjásvæfa – viðhald og svo videre) og víbring komið fyrir í apparatinu – meira að segja elskan þín getur ekki annað en glaðst yfir því þó þú víbrir þér sjálf. Frábær viðskiptahugmynd sagði hjásvæfan með skælbrosi á vör; við verðum rík!
Ég var að sjálfsögðu fljót að leiðrétta hann með þetta við enda hugmyndin alfarið mín og ætla í allri minni eigingirni að eiga hana sjálf. Eina sem mig hugsanlega vantar er örlítið brot af allri orkunni sem túttan býr yfir og ég verð rík.

Raunveruleikinn


Ójá – sl. vika var nákvæmlega svona ljúf.

Viðurkenni reyndar að keyrslan frá Skagafirði yfir á Klaustur var doldið löng, en sveittur borgari á Skúlabúllu og hraðasekt á við farmiða til útlanda var þó alveg til að bæta það upp.
Stóð við það að dunda mér við morgunsopann – pískuðum drengjunum út í daglegum gönguferðum – tíðar ferðir í Kjar-val í vatnsblöðruinnkaupum – miðdegislúr á hverjum degi – kom kapalkeppni í gang við hjásvæfuna og skemmti mér konunglega við að hafa yfirhöndina – lét mér ekki nægja að kíma innra með mér yfir Virgli litla hans Ole Lund Kirkegaard, heldur hló upphátt þá klstund sem það tók mig að lesa bókina – heiti potturinn var ráðgáta sem leystist á síðasta degi; lét hann alveg eiga sig þær klstundir sem hann var skítkaldur, en lét mig hins vegar hafa það meðan hann var rétt tæpar 45°, og náði mér í nokkur skipti í viskhendur fyrir vikið – rúsínan í pylsuendanum voru svo frábærir tónleikar á Kirkjuhvoli með Sigurði Flosasyni og Bláu Skuggunum.

Ekki bara er ég aftur tengd við netheima heldur beintengd við raunveruleikann – mætti til vinnu í morgun á slaginu 08:00. Ætla jafnframt að labba héðan út á slaginu 17:00

föstudagur, 20. júní 2008

Nánast bein leið

Aðeins örfáar vikur eru síðan ég hitti hjásvæfuna fyrst á ónefndri ölstofu hér í bæ. Engu að síður er ég á leið á ættarmót með honum um helgina – geri aðrir betur. Jah, á reyndar góða vinkonu sem að öllum líkindum tæki þetta með stæl, og væri hreinlega gift manninum á þetta löngum tíma sem þó liðinn er.
Alla næstu viku ætla ég að dunda mér við að drekka kaffi á morgnana, fá viskhendur í endalausum heita pottsferðum, anda að mér íslenska sumarloftinu og hafa það náðugt með hjásvæfunni og börnunum – sem eru reyndar engin börn.

Myndavélin mín var í tæmingu á Seljavegi – kom þessi líka fína mynd af okkur.


fimmtudagur, 19. júní 2008

Blaðra

Labbaði í bæinn í indælu 17.júní-veðri hönd í hönd við hjásvæfuna. Fékk rauðvín og tánudd á Austurvelli. Borgaði fyrir mig með því að stríða rauðhausnum mínum sem án vafa myndi skaðbrenna í sólskininu. Gáfum lítið fyrir magadans þar sem hvergi glitti í maga. Reyndum svo að hafa hemil á óargadýri í líki Bart Simpson blöðru er við þrömmuðum Laugaveginn til baka - hægara sagt en gert þegar maður er líka upptekinn við að gúffa upp í sig poppi.
Komst að því sem ég svo sem vissi fyrir; grín á kostnað annara er ekki alltaf ókeypis. Meðan hjásvæfan var að mestu laus við roðann í andlitinu deginum eftir, klæjar mig í roðann á bringunni og finn enn sviða í upphandleggjunum.

Indæla hjásvæfan átti svo ammili í gær. Ég matreiddi kjúkling sem legið hafði í legi (þó ekki mínu) á Líbanska vísu og hafði fyrir því að grafa upp Líbanskt rauðvín til stemmingarauka.

Held að afmælisdrengurinn hafi bara verið nokkuð kátur - enda í eðalfélagsskap.


föstudagur, 13. júní 2008

Þrettán

Mér hefur alltaf þótt vænt um töluna þrettán – hugsanlega þar sem ég er fædd 13. og það er samhljóða álit okkar pabba að 13 sé happatala.
Mér hefur líka lengi þótt vænt um föstudaga – eftirvænting eftir helgi byrjar eiginlega strax um morguninn þegar maður hefur sig á lappir, með þá vissu í huganum að loksins sé nú föstudagurinn runninn upp.
Mér þykir þess vegna sérsataklega skemmtilegt þegar Föstudagurinn 13. sýnir sig – enda verð ég víst seint talin hjátrúafull. Hins vegar í tilefni dagsins ætla ég að bjóða bestu vinkonu minni í mat til mín - án efa rekum við nefin út á eftir viðbúnar því að lenda í ævintýrum.

fimmtudagur, 12. júní 2008

1 ársLárus Breki frændi minn á afmæli í dag. Hann er doldið flottur strákur; labbar um eins og herforingi, er handóður, stór og sterkur með 4 tönnslur og mikla matarlyst.
Svo segir hann gúggulúggulú af mikilli mælsku.

Hengill & vín

Fyrst hjásvæfan er í útlöndum að ráðstefnast neyðist maður til að halla sér að vinunum á meðan.

Þriðjudagskvöldið fór ég í gædaða gönguferð um Hengilsvæðið í boði Orkuveitunnar. Það var dágóður hópur af fólki sem hafði rekið augun í sömu auglýsingu og félagar mínir. Við vorum teymd áfram af jarðfræðing og grasafræðingum tveim. Rakst á Signý Sæm við lok ferðar sem færði mér indælar fréttir sem ég hef beðið eftir með nokkurri óþreyju. Reglulega skemmtilegt þrátt fyrir að frjósa á einungis vettlingaklæddum höndum á Tjarnarhnjúk – enda félagsskapurinn ekki af lakara taginu.
Gærkveldinu eyddi ég svo við uppáhalds iðju mína. Unnur María bauð okkur Kalla heim til að dreypa á eðalvíni sent til Unnar af Vín og Mat. Ég persónulega fer nú bara í ríkið og kaupi mitt vín, en það sýnir kannski best hvað Unnur er mun klókari en ég að fá sitt vín sent heim. Að vísu þarf hún að blogga um það og það gæti reynst þrautinni þyngri; okkur Unni líkaði vínið ekkert sérstaklega vel – ekki endilega vont – bara ekki heldur gott.

Okkar bragðskyn skilaði þessum pælingum: vínið kostar annað hvort 1190,- eða 1590,- í vínbúðunum – eðalvín með ódýru bragði – vekur upp grunnskólaminningar – vafalítið ómissanlegt með niðursoðnu bjarndýrakjöti frá Finnlandi.
Öðrum veitingum kvöldsins voru gerð góð skil; finnskt hreindýrasalami, finnskur havartí geitaostur, anda- og hreindýrapaté à la Bergsveinn Símonarson, lakkasulta og finnskir berjalíkjörar – eðalveitingar með rándýru bragði.
Við Kalli héldum svo út í ilhýra sumarnóttina rétt eftir miðnættið – eftir sat Unnur með þá áskorun frá okkur að blogga bara satt og rétt frá: henni fannst bara vínið ekkert spes...

þriðjudagur, 10. júní 2008

Æpod

Þær nætur sem ég vermi ból hjásvæfunnar á ég það til að snúsa minn eiginn vekjara á morgnana, þar til Morgunútvarpið er farið að hljóma í vekjaranum hans.
Einn af þessum morgnum dreif ég mig fussandi á lappir eftir að hafa hlustað á þáttastjórnendurna lýsa því yfir – í kjölfar slyss þar sem ung stúlka beygði hjólandi fyrir bíl, hjálmlaus og með Ipod í eyrunum – hversu hættulegt það væri fyrir gangandi og hjólandi að vera með þessa Ipoda í eyrunum.
Ég fer langflestar mínar leiðir fótgangandi – ég er þessi með stóra svarta Adidas pokann á bakinu sem rúmar auðveldlega 3 rauðvínsflöskur – ég er alltaf með Ipod í eyrunum. Bara svo þið hafið ekki áhyggjur af mér þá nota ég nebbla alltaf AUGUN á ferðum mínum til að horfa vel í kringum mig – sér í lagi áður en ég fer yfir götu.

mánudagur, 9. júní 2008

Dæs

Hjásvæfan reyndist of örmagna til að sýna öll sín bestu tilþrif við straubrettið. Ég veit ekki hvort það var áreynslan við að fara í boltaleiki fyrr um daginn, álagið við að pakka ofan í tösku fyrir vikuferðalag, áhyggjurnar yfir að skilja glænýja Weberinn eftir í heila viku eða Majorkafiskurinn sem ég matreiddi, en maðurinn er svo sannarlega myndarlegur og það reyndist mér auðvelt verk að fyrirgefa honum að veita mér athyglina í stað brettisins. Ég fékk svo þær indælu fréttir að systir mín hefði komið ungviðinu frá sér á met tíma og reyndist það vera stúlka.

Rigningin á laugardag var indæl – bara passlega mikið rok með henni svo hún rann næstum beint niður, tilvalin veðurskilyrði fyrir löngum göngutúr, enn indælla að rífa sig úr blautum leppunum og teygja úr sér í heitu freyðibaði á eftir.
Um kvöldið hitti ég svo fugl ástarinnar, apaköttinn og greifann á Santa María þar sem ljúffengar Lime Margarítur og enn ljúffengari matur rann ofan í okkur. Með fulla maga af mat en þyrstar kverkar færðum við okkur yfir á Boston.
Kvöldið einkendist fyrst og fremst af miklum hlátri og okkur tókst með ágætum það ætlunarverk okkar að haga okkur eins og við værum 17 ára aftur: hlutverkaskipan – karaktertækni – aulahúmor - 3 myndavélar og 1 gsm á lofti til að dokumentera herlegheitin.

Ég fann um leið og ég vaknaði á sunnudeginum við bröltið í kettinum, að það var komið að því að borga fyrir hláturþerapíuna kvöldinu áður – ég borgað glöð með miklum svefni enda hafa allir mikið meira en gott af því að hlægja dátt og innilega. Fór svo í langann göngutúr um kvöldið með greifanum, fengum okkur súpu á Óliver og hristum af okkur restinni af skulda-lægðinni.

Það er doldið síðan ég áttaði mig á því að mánudagar eru ekkert verri dagar en aðrir, mér þótti því indælt að hafa mig fram úr í morgun og byrja nýja viku – hvernig er líka annað hægt þegar maður á indæla vini, indæla hjásvæfu til að sakna næstu 4 dagana, og án vafa indælann nýjann fjölskyldumeðlim sem mig hlakkar mikið til að hitta. Eina sem ég gæti helst óskað mér núna er að indæli kötturinn minn nenni að hanga með mér í kvöld, gæti vel hugsað mér doldið mal og kúr.

föstudagur, 6. júní 2008

BerBar

Hef haft doldið fyrir því að reyna að sannfæra hjásvæfuna um að garðurinn hans hafi meiri þörf fyrir tennisvöll og heitann pott, frekar en hin hefðbundnu garð-blóm sem draga að sér býflugur og önnur kvikindi. Er ég mætti í vinnuna í morgunsárið blöstu við mér tvenn myndaferlíki af já, blóóómum, þó ekki hefðbundnum garð-blómum – IKEA-blómum. Þó nálægðin sé helst til mikil fyrir minn smekk er ég þó þakklát fyrir að snúa baki við þeim yfir daginn. Hjásvæfan er ekki sannfærð um ágæti hugmyndar minnar, en ég hef nú þegar lært að heyra ekki nema 3ja hvert orð af því sem hann masar svo þetta er allt í ágætis farvegi.

Fékk mér hefðbundinn bílstjóra-mat til tilbreytingar í hádeginu - örbylgjuð kjötloka og súkkulaði á eftir. Rifjast upp fyrir mér af hverju ég hætti að borða súkkulaði að mestu – Lion Bar er syndsamlega gott. Með velkta kjötloku í maganum og sæta karamellu á tönnunum fer ég að skilja tilvist bílstjóra-ístrunnar. Af því ég er skynsöm stúlka ætla ég ekki að gera þetta að reglu – held mig bara við berjadjúsinn minn.

Á það skemmtilega verkefni fyrir höndum að dást að hjásvæfunni við straubrettið.