sunnudagur, 17. nóvember 2019

Samviskulaus sunnudagur

Gekk hnarreist inn í bókabúð gærdagsins og beina leið að ljóðabókastaflanum sem ég staldraði örlítið við í gær. Rigsaði út með ekki bara eina, heldur tvær ljóðabækur. Já, að sjálfsögðu er önnur ljóðabók gærdagsins og já, það má vel vera að hin hafi slæðst með sökum samviskubits. 

Frá bókabúðinni gekk ég yfir götu og inn á kaffihús þar sem ég pantaði mér kampavínsglas og eggin hans Benedikts. Engin sneypt yfir því. Gúffaði ljóðabók gærdagsins í mig aftur og skolaði hinni í mig með cappuchinoi með tvöföldu kaffiskoti.

Frá kaffihúsinu rölti ég niður að tjörn þar sem ég virti fyrir mér endur semja ljóð í svanasöng og dúfnakurri. Hvítur snjór, stilla og kuldi. Skrefin heim léttari en í gær.

laugardagur, 16. nóvember 2019

Stuldur í bókabúð

Stóð í bókabúð síðdegis í dag og gleypti í mig ljóðabók. Ég ætlaði bara rétt að kíkja í hana en áður en ég vissi af var ég búin með hana. Var hálf skömmustuleg er ég lagði hana frá mér, leið eins og ég yrði að kaupa hana en gerði það ekki, setti undir mig hausinn og arkaði út úr búðinni, út í Reykvíska dimmuna. Arkaði beinustu leið heim, þjökuð af samviskubiti yfir stolnum orðum. 

Ég ætlaði ekki að gera þetta gæti ég sagt, orðin voru svo falleg að ég gat ekki hætt gæti ég líka sagt. Oscar Wilde sagði víst að besta leiðin til að losna við freistingu væri að falla fyrir henni en hvort hann átti við orðastuld er ég hreint ekki viss um. 

þriðjudagur, 12. nóvember 2019

Hjólaði í vinnuna í morgun

Kom við í Sandholti og keypti krossant handa mér og hinum Pétrinum í lífi mínu, klædd í regnjakka og regnbuxur. Rigndi tvisvar á leiðinni.

Á heimleiðinni steig ég pedalana í lægsta gír með rokið og rigninguna í fangið, með fisk og kartöflur í  bakpokanum. Rokóratorían við Hörpu var svaðaleg en ég klauf hana á háa céinu. Í rigndumrokbarning á hjólabrautinni við sjávarsíðuna sá ég loks glitta í Höfða og fann til léttis, loksins að komast á áfangastað. Var búin að gleyma Turninum, skrímslinu sem vofir yfir Túnbyggðinni. Þar sem ég setti í herðarnar og bjóst til átaka við vindinn fann ég hviðuna hefja mig á loft, steig pedalana útí tómið, ríghélt í stýrið á hjólinu þar sem turnhviðan feykti mér hærra og hærra, svo hátt að ég glitti í Brad Pitt og Gwyneth Paltrow í lúxus íbúðinni á turnhæðinni eða nei, var þetta ekki Jennifer Aniston eða nei, djók! 

Ég setti bara undir mig hausinn og steig pedalana. Hjólið og kartöflurnar báru mig alla leið í Samtún þar sem ég steikti þær og fiskinn og fleira góðgæti sem ég fann í ísskápnum. Príma súrefnisinntaka, getið sveiað ykkur uppá það.

mánudagur, 11. nóvember 2019

Sa Ta Na Ma

Var að koma heim úr rúmlega klukkustunda löngum hugleiðslugöngutúr í Grasagarðinum. Gekk í hópi regnfataklæddra kvenna, æfðum hugleiðslustöður, handahreyfingar og fórum með möntrur, vorum duglegar að teygja og einbeita okkur að öndun. Príma súrefnisinntaka get ég sagt ykkur.

Fann ekki fyrir kulda þrátt fyrir rigningarúðann í útiverunni en þar sem ég ligg núna berfætt undir sæng finn ég að mér er kalt á tánum. Lauklykt í loftinu, eiginmaður sýslar við mat. Þar til kallið kemur held ég áfram með Tilfinningabyltinguna.

föstudagur, 1. nóvember 2019

Frunsan er farin

Löngu farin. Hirti upp sinn stakk og hélt útí buskann. Í staðinn kom kvefið með kláða í nefi og hóstakjöltur, kitl í hálsi og raddbandaráma. Líka kominn nóvember og styttist í páska. Tíminn bíður ekki eftir neinum. Skuldar heldur engum eitt né neitt. 

Doðinn biður heldur ekki afsökunar. Kvefinu er alveg sama um doðann. Gott ef frunsan var ekki sama sinnis.