fimmtudagur, 22. nóvember 2018

Wake me up

before you go-go ómaði í bílnum í gærmorgunn, ef morgunn skyldi kalla. Lagið vel við hæfi, karlinn var að go-go alla leið til Stokkhólms. Í vinnuferð. Nei, ég nennti ekki að keyra hann alla leið til Keflavíkur, BSÍ varð að duga.

"Nú er að finna uppskriftir" sendi sá myndarlegi mér í sms-i í dag. Þið munið kannski einhver eftir þessari bloggfærslu? Ekki bara er eiginmaðurinn búinn að kaupa sama magn af kantarellum, hann hefur einnig fest kaup á tylft af öðrum sveppum sem jú, ég verð að viðurkenna að líta mjög vel út, en ég hef ekki hugmynd um hvaða tegund af sveppum þetta eru.

Sá myndarlegi kemur heim á morgunn. Þá verð ég farin til Lundúnar. 

föstudagur, 16. nóvember 2018

Silkislök á degi íslenskrar tungu

Þar sem ég kom akandi upp Ægisgötu, reiðubúin að beygja til hægri, sá ég bíl koma upp Túngötuna og steig því á bremsuna sem reyndist svo óþarfi þar sem Túngötubifreiðin beygði án þess að detta í hug að setja á stefnuljós því til kynna. Ökumaðurinn fyrir aftan mig var ekki jafn fljótur að stíga á bremsuna og ég. Út úr bílnum snaraðist skeggjaður ungmaður með afsökunarorð á vörum, reiðubúinn að játa á sig aftanákeyrslusök. 

Sjálf var ég sultuslök, fljótandi af yfirvegun eftir klukkustundaflot í Hydra Float kvöldinu áður. Reyndi að sannfæra ungmanninn um að fall væri fararheill og helgin framundan hlyti að verða okkur báðum góð. Meint aftanákeyrsla reyndist meira núningur og ekki neitt að sjá á bifreiðinni. 

Hlusta núna á ömmudjass og snarkið í kjúklingabringunum á pönnunni. Var búin að lofa þeim myndarlega spakkettíi í kvöld en skipti svo um skoðun í búðinni. Svei mér þá ef ég flýt ekki enn af vellíðan og ró.

Er á því að afslöppun sé vanmetin í nútíma samfélagi. Stefnuljós því miður líka.

föstudagur, 9. nóvember 2018

Annar í Örkinni hans Nóa


Að seinna sinni tók ég enga sjénsa og fylgdi uppskriftinni útí ystu æsar, snéri meira að segja skálinni á hvolf til að vera nú alveg viss um að hafa Mögguþeyting á sykurblönduðum eggjahvítunum. Viti menn, gumsið stóð stíft svo ég var fljót að skófla því í tvö form og henda inní ofn. 

Dró út skúffur og skellti allskyns slikkeríi frá Nóa og Síríus á borðið, að undanskildum kókosbollunum. Sótti jarðarber í ísskápinn. Þeytti rjóma. Fullt af rjóma. 

Morguninn eftir vaknaði ég snemma. Bræddi Nóa rjómakúlur og rjóma í potti. Stakk mér í sturtu meðan bræðingurinn kólnaði.

Eftir sturtu dundaði ég mér við að láta kúlusósuna leka yfir marengsturninn. Dreif mig svo í vinnuna með bombuna í farþegasætinu frammí. Getið sveiað ykkur uppá að vinnufélögunum leiddist ekki vitundar ögn að neyðast til að gúffa þessari dásemd í sig með morgunkaffinu

Fyrir áhugasama get ég staðfest að umrædd marengsterta (í síðustu 2 færslum frúarinnar) er að finna í nýjasta kökubæklingi Nóa-Síríus 

Príma bomba.

sunnudagur, 4. nóvember 2018

Örkin hans Nóa

OK, ég það til að vera óþolinmóð (næstum aldrei samt), þess vegna hugsaði ég nei, Magga systir myndi segja mér að hræra lengur þegar ég var eiginlega viss um að eggjahvítusykurhræringur Kitchen Aid-vélarinnar væri nægur. Svo ég lét þá rauðu snúa áfram þar til mér var allri lokið og ákvað að nóg væri nóg. Uppskriftin segir að hangi stöffið fast í skálinni, sé henni snúið á hvolf, þá séu eggjahvíturnar klárar. Nema ég var ekkert að ómaka mig við slíka smámuni en þar sem ég dreifði þessu í formunum tveimur hugsaði ég andskotakornið, Magga systir hefði nú hrært þetta lengur.

Nú verður ekki aftur snúið, ofninn var orðinn heitur og ég flýtti mér að skella formunum inn. Lyktin sem fyllir húsið er verulega góð en botnarnir sem myndast við að myndast þarna inni líta bara alls ekki neitt út eins og marengsbotnar!

Þessari færslu fylgja því engar myndir heldur þetta lauflétta, hressa lag sem ég mæli með að hlustað sé á til enda