mánudagur, 10. október 2022

Netraup er varðar lög

Ef að það er einhver klisja um Parísarbúa sönn þá er það þessi

Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð baguettu af þessari stærðargráðu en ég heft oft séð fólk skondrast um göturnar með fjórar, sex og jafnvel átta stykki af bagettum í fanginu. Ein baguetta undir handlegg er nú bara lágmark. Það er heldur ekki óalgeng sjón að sjá Parísarbúa maula bagettue, hálfa eða heila, á göngu í borginni. 

Mér skilst að veitingastöðum sé skylt að veita fólki ókeypis vatn ef það biður um það. Veit ekki hvort það sama á við um baguettuna en undantekningarlaust er hún borin á borð, niðurskorin, í körfu, hvort sem beðið er um vatn eða ekki. Stundum gæði ég mér á einum baguettubút en oftar en ekki snerti ég ekki brauðið, ekki af því að baguettan er ekki góð, mon dieu, sú besta sem fæst í gervöllum heimi! Nei, ástæðan er frekar sú að ég er yfirleitt södd áður en ég næ að klára matinn. 

Önnur algeng sjón í París er þessi

Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð dúfur kjassa hvor aðra og allra síst fyrir framan Eiffelturninn, en vissulega eru þær víða blessaðar, líka fyrir framan turninn. Síðan ég flutti fyrir mánuði síðan hef ég ansi oft farið út að borða, á tímabili á hverjum degi í hádegi og kvöldmat og einstaka sinnum morgunmat líka. Í hvert skipti hef ég vafið 2-3 bagettubútum inn í servíettu og gefið dúfum sem á leið minni verða eftir að ég yfirgef veitingastaðinn. Ég segi sjálfri mér að ég sé ekki að stela bagettubútunum, þeir eru jú bornir á borð fyrir mig, en engu að síður er ég ósköp laumuleg er ég lauma þeim í servíettuna sem síðan hverfur ofan í töskuna mína. 

Um daginn datt mér í hug að gúggla hvað dúfum í París þætti gott að borða. Kemur þá ekki í ljós að það er bannað með lögum að gefa dúfum í París að borða! 450€ sekt að viðurlagi við slíku hátterni, takk fyrir! Veit ekki hvort ég fengi nokkra sekt fyrir að taka baguettubút með mér af veitingastað en líklega hef ég verið heppin fyrir að engin lögregla var nærri þegar ég gaf dúfunum brauð í allann þennann tíma, ekki fór ég laumulega með það.

Mon dieu, c'est la vie og allt það og nú legg ég bara aldeilis ekki meira á ykkur.

föstudagur, 7. október 2022

Les chats

Mánuður floginn hjá á nýjum stað og tvennt gerðist í dag sem undirstrikaði ákveðinn endanleika sem varð við þá ákvörðun frúarinnar að segja skilið við fyrra líf og hefja annað hér á Parísarslóðum.

Fékk myndir og fréttir af elsku Birtu og Bjössa sem fluttu austur í Landeyjar tveimur dögum áður en ég flutti til Parísar. Ég hefði ekki getað óskað mér betri aðstæður fyrir elsku kisurnar mínar en þau búa núna hjá yndislegum hjónum, heldri ketti og hundi. Hjónin hitti ég þegar ég fór með yndin mín til þeirra og af þeim stafaði heiðarleiki, gleði og mikill kærleikur til dýra. Fréttir dagsins voru á þá leið að nú væru Birta og Bjössi, sem fyrst um sinn fengu heilt herbergi fyrir sig til að venjast nýjum aðstæðum, komin með samastað hjá Gosa (heldri kisunni á bænum) og að allt gengi vel. Birta og Bjössi hafa frjálsræði til að valsa út og inn af heimilinu, hafa heila sveit til að flandra um og án vafa þiggja blíðar strokur elskulegra mannvera. Eins mikið og ég er óendanlega þakklát fyrir að vita af þeim tveimur hjá slíku sómafólki er ég að sama skapi jafn sorgmædd yfir að hafa skilið við þau.

Fékk símtal frá pabba þar sem hann stóð fyrir utan fasteignasölu, nýkominn frá því að undirrita kaupsamning vegna sölu á íbúðinni minni, sem er eiginlega ekki lengur mín. Í íbúð 103 tókst ég á við röð áfalla í lífi mínu sem á tveimur árum tók dembur og dýfur og kollhnísa af slíkum stærðargráðum að frúin sem flutti þangað inn var ekki sama frúin og flutti þaðan út. Ég tók mér góðann tíma í að horfast í augu við að ég myndi selja fasteignina því þrátt fyrir áföll þá leið mér alltaf vel í Veghúsum, þrátt fyrir að margt af mínu drasli hefði aldrei farið lengra en inn í geymslu þá var Veghús sannarlega mitt heima. Þrátt fyrir fjölbýlið má segja að íbúð 103 sé einbýli í fjölbýli með sinn afgirta garð og stæði í bílskýli. Upphaflega ætlaði ég mér að leigja íbúðina og snúa aftur eftir árs dvöl í París. Hugsanaferlið sem síðan fór í gang endaði með sölu og ég get ekki neitað því að það er enn pínu skrýtið að íbúð 103 sé ekki lengur mín. Sölunni fylgir þó enginn tregi.

Treginn felst í því að ég mun ekki lengur heyra Bjössa mjálma af veröndinni og Birtu þjóta í gegnum kattalúguna. Ég mun ekki lengur vakna með mjúka Birtu sofandi á upphandleggnum og ekki heldur fara fram úr til að strjúka mjúkann Bjössakvið á bleikum sófa áður en ég helli uppá kaffið. 

laugardagur, 24. september 2022

Connoisseur

Hálfur mánuður liðinn í París, gerðist í gær. Í tilefni dagsins fór ég í bíó (ÉG af öllum), fyrsta skipti á ævinni sem ég fer ein í bíó. Tók metróinn í fyrsta skipti síðan ég flutti. Kom upp við Sigurbogann, steinsnar frá hótelinu sem ég gisti á þegar ég fór í fyrsta skipti ein til Parísar í fyrrasumar. 

Lost in frenchlation er fyrirtæki sem var stofnað af tveimur vinum sem vildu auðvelda fólki að læra frönsku og njóta franskrar kvikmyndagerðar. Frakkland er eitt af "dubb"löndunum, sumsé talsetur allar kvikmyndir, og því lítil von um að franskar myndir séu textaðar hér. Nema Lost in frenchlation leggur sig fram um að hafa regluleg bíókvöld með frönskum myndum með enskum texta. Myndirnar eru sýndar í litlu, kósí kvikmyndahúsi með þægilegum rauðum sætum, rauðum veggjum og litlum bar. Ef Rumba la vie ratar í kvikmyndahús heima þá mæli ég sannarlega með því að þið farið og sjáið þá innilega fyndnu og einlægu ræmu.

Eftir tveggja vikna dvöl á hóteli er frúin búin að rölta flestar götur í nágrenninu og jafnvel snæða bæði miðdegis- og kvöldverði á flestum brasseríum hverfisins. Ekki laust frá því að ég hafi fundið fyrir þreytu í fótum er ég arkaði af stað, enn eina ferðina, í ætisleit í kvöld. Var eiginlega ákveðin í því að fá mér bara einfalt salat og snúa svo aftur "heim" sem fyrst. Að sjálfsögðu arkaði ég þar til ég sá blikkandi ljós og settist niður á stað sem var heldur fínn fyrir hornstað í hverfinu, mynd af kokkinum og allt á matseðlinum. Pantaði mér steik og kartöflumús og eins og það væri ekki nóg þá fékk ég mér ostaköku í eftirrétt. Staðurinn var "petite" á franska vísu og smekkfullur eftir því, þjónninn á þönum. Reyndar var staðurinn svo lítill að það lá við að ég sæti í kjöltunni á manninum á borðinu fyrir aftan mig. Ef ekki hefði verið fyrir örlitla upphækkun á næsta borð við hliðina á mér hefði ég eins getað setið til borðs með fólkinu sem sat þar; karl og kona (par) og önnur kona til. Sem betur fer var ég með skrifbókina mína í veskinu því samræður og háttalag þeirra þriggja varð til þess að ég skrifað sex blaðsíður í skrifbókina. Þjónninn vinalegi hafði greinilega tekið eftir skrifæði frúarinnar því á hlaupunum leit hann yfir til mín og spurði með bros á vör; hefur staðurinn svona mikil áhrif á sköpunargáfu þína? 

Ef ég væri rithöfundur þá væri ég núna að hefja söguna af þessu fólki á næsta borði við mig, nóg punktaði ég niður og ýmyndaði mér um aðstæður þeirra, fyrra og núverandi líf, hver þau væru, hvernig þau þekktust og allt þar fram eftir öllum götum. En, ég er ekki rithöfundur svo í staðinn blogga ég bara um allt og ekkert og líklegast ekki um neitt. Nema þá helst sjálfa mig.

föstudagur, 16. september 2022

Vikugömul í París

Vika síðan ég flutti til Parísar. Búin að fara í nokkra tíma í skólanum, hitta kennara og samnemendur, fara í siglingu á Signu í boði skólans, senda nokkur póstkort og eitt bréf, borða kvöldmat á mismunandi veitingastöðum, rölta um göturnar og er farin að kannast ágætlega við mig í hverfinu. Engu að síður er ég enn ekki fyllilega búin að átta mig á því að ég er flutt en ekki í enn einu fríi hér í Parísarborg. Ekki ólíklegt með öllu að dvöl á hóteli espi upp frífílinginn í frúnni en líklega síast daglega lífið inn með hverjum deginum sem líður. Þetta kemur allt með kalda vatninu eins og vitur kona sagði eitt sinn við mig.

Búin að hitta og spjalla við flesta af hinum skiptinemunum. Allt flott og frambærilegt ungt fólk, eftir því sem ég best fæ séð, fætt árið 2000 og síðar. Skemmtilegt sjónarhorn; þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, sem au-pair til Ameríku, var ekkert þeirra fætt. Þegar ég kom aftur heim, óperuári síðar, voru enn 5 ár í að elsta þeirra fæddist. Ekkert þeirra kemur þó fram við mig eins og þann ellismell sem ég er í þeirra hópi, öll eru þau opin, brosmild, skemmtileg og áhugaverð. Ég er eina mannneskjan sem minni sjálfa mig á það að ég er nógu gömul til að geta verið mamma þeirra allra, ég sem veit manna best að aldur er afstæður. C'est la vie.

sunnudagur, 11. september 2022

Talið yður frönsku?

Rúmir tveir sólarhringar síðan ég flutti til Parísar, borgarinnar sem ég hef margoft heimsótt og miklu oftar dreymt um að búa í. Hér hef ég ófá póstkort skrifað og sent og þrátt fyrir að þessi ferð sé frábrugðin að því leyti að vera flutningur en ekki frí þá er ég að sjálfsögðu þegar búin að skrifa nokkur póstkort. 

Vippaði mér inn í Tabac til að kaupa frímerki og spurði afgreiðslumanninn á nokkuð góðri frönsku "parlez-vous francais? Jú, auðvita ætlaði ég að spyrja manninn hvort hann talaði ensku, en ekki frönsku, en í kjölfarið af þessu fórum við bæði að skellihlægja og áttum skemmtilegt samtal um frímerki, hvaðan ég er og frönsku kunnáttu mína, svo eitthvað sé nefnt, á frönsku!

Hver hefur svo sem ekki lent í því í útlöndum að vippa sér inn í búð og spyrja heimamanninn á bak við afgreiðsluborðið að því hvort hann tali sitt eigið tungumál? Ég bara spyr!

föstudagur, 26. ágúst 2022

Örsaga af sögu

Einn kafli eftir og mig langar ekki til að klára. Búin að fara fram úr og opna út á verönd, klappa Bjössa sem liggur makindalega á bleikum sófa, fá mér kaffi og ristað brauð með eggi og agúrku. Önnur aðalsöguhetjan er látin, sem hlýtur að flokkast sem ákveðinn endanleiki, samt vil ég ekki að bókin endi. Dásamleg saga sem hreyfir við frúnni með húmor og sorg, togstreitum lífsins, hef hlegið dátt og tárast og nú eru 12 bls eftir. Einn kafli. Endir.

Er nýlega hætt að ganga að skenknum til að sækja eða ganga frá einhverju, skenkurinn prýðir nú heimili ungra hjóna í Kópavogi. Frammi í stofu blasa vínilhillurnar tómar við mér. Það gleður mig mikið að hugsa til þess að systir mín eigi eftir að spila eyrað af mági mínum með plötusafninu, sem hefur fylgt mér um áratugi, en það er óneitanlega spes að hafa ekki eina einustu plötu í íbúðinni. Tómu naglarnir undan málverkunum plaga mig síður, helst þessi í svefnherberginu sem starir tómeygur á móti þegar ég vakna.

Sögur. Kaflaskil. Endir en líka upphaf.

miðvikudagur, 3. ágúst 2022

Skjálftaglóð

Hér í efri byggðum Reykjavíkurborgar hefur frúin ekki fundið fyrir einum einasta jarðskjálfta. Nei, ekki svo mikið sem lélegum titring í lítilli tá. Það þýðir þó ekki að líf frúarinnar sé með öllu hreyfingalaust, aldeilis ekki. Skjálftarnir hið innra hafa skekið frúna allt frá því hún sagði skilið við mann sem hún þá elskaði enn, gekkst við illkynja krabbameini og tókst á við lyfjameðferð, hóf háskólanám og sagði upp áratugalöngu starfi. Tilfinningasveiflur, skynjanir og hræringar á jarðskjálftakvörðum mannveru.

Nú er farið að gjósa og skyldi engan undra, frúin ber jú eldfjallanafn með rentu. Enda hefur hún leyft sér að dreyma og þora að ekki bara dreyma heldur ætlar hún sér einnig að láta drauma rætast. Skrefin eru misstór og misþung og á stundum hefur frúin stigið heldur varlega til jarðar og tekið sér langan umhugsunarfrest. Það er ekki alltaf einfalt að synda á móti straumnum og oftar en ekki er stærsta hindrunin enginn önnur en kona sjálf. Því hefur frúin nú ákveðið að stinga sér til sunds og láta reyna á sundgetuna. 

Ekki seinna vænna, fyrstu lesgleraugun eru komin í hús 
Það koma nefninlega tímar í lífi konu þar sem þarf að stíga stóru skrefin. 

Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur hlustendur góðir, nóg er víst komið af skjálftavaktinni.

þriðjudagur, 19. júlí 2022

DS

Rétt í því sem ég dembdi matskeið af hveiti út í pottinn til að þykkja sósuna birtist í hugarfylgsni mínu mynd af mömmu að hrista hveiti saman við vatn áður en hún dembdi því í pottinn til þykkingar. Jújú, það urðu kekkir til hjá mér, mikil ósköp. 

Brá mér undir sturtuna eftir að hafa grýtt eldfasta mótinu í ofninn. Hallaði höfðinu aftur undir heita bununa og nuddaði á mér augun. Grátsviðinn sem ég fékk í augun við nuddið var vel 3ja lauka niðurskurðar virði.

Skrapp í vikuferðalag á gamlar óperuslóðir. Gamli kærastinn minn frá Amríku fór með mig á staðinn þar sem við kynntumst, skemmtistaðinn sem við sóttum, barinn sem við drukkum oft á, hann sýndi mér húsið sem ég bjó í og húsið sem hann bjó í, fór með mig að hitta vini sem mundu enn eftir mér. Tuttugu og sex árum síðar mundi ég ekki neitt eftir neinu. Allt var mér ókunnuglegt, líka fólkið sem sagðist vera ánægt að hitta mig aftur eftir allann þennan tíma. Fórum á ströndina, í magnaðann styttugarð, á sædýrasafn, í frægann garð þar sem fræg orrusta við Breta átti sér stað, sáum páfuglsunga og fórum í lautarferð, svo eitthvað sé nefnt. Eins gott að ég mundi eftir honum, gamla kærastanum. Hefði annars líklega orðið frekar vandræðaleg stund þegar hann sótti mig á flugvöllinn.

Heimkomin skellti frúin sér í markvissa tiltekt er hún dró fram Gestgjafablöðin, fletti hverju einu og einasta vitandi fyrir víst að þau væru á leið í Sorpu. Á öðrum degi Gestgjafaflettinga tókst henni að dúndra vinstri fæti (óvart) í hraukinn með þeim afleiðingum að hún datt fram fyrir sig og skartar nú mörðum tám og ökkla (jú, þetta var í alvöru óvart!). Þrátt fyrir að hafa ekki flett Gestgjafablaði, og því síður eldað upúr því, í marga mánuði er ótrúlega erfitt að losa sig við þau. Prísa mig sæla að þau eru þó komin af eldhúsborðinu í ruslatunnuna. Nú er bara eftir að henda þeim fyrir alvöru.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, elskurnar.

þriðjudagur, 21. júní 2022

Enn míga himnarnir

og hvorki köttum né kerlingu út sigað hefði ekki verið fyrir læknatímann. Dýralæknatímann. Prísaði mig sæla fyrir að hafa loks látið verða af því að kaupa kattabúr undir kettina, vissi að það væri komið að árlegri skoðun og kunni hvorki við að ræsa út aðra mannveru til að halda á öðrum kettinum eða að mæta með systkynin í gömlu eighties ferðatöskunni minni. Nýja búrið minnir reyndar um margt á tösku en kettirnir sjá þó í það minnsta út um net á hliðum og toppi.

Eftir vel ríflega áratuga hollustu við sömu dýralæknastofuna ákvað ég að færa mig (eða ætti ég frekar að segja kettina?) nær heimabyggð. Rogaðist með samtals 11 kg. af kattartvennu og komst að því að gamli staðurinn var ekki búinn að senda skýrslur kattana á nýja staðinn. Ekki að það kæmi að sök, systkynin voru þukluð og hlustuð og sprautuð og gefin ormapilla, þ.e.a.s. Bjössa var gefin pilla, Birta sat við sinn þrjóskukeip og dýralæknirinn á nýja staðnum gerði það sama og dýralæknirinn á gamla staðnum; gafst upp og gaf henni sprautu.

Í dag komst ég að því að örmerki geta færst til í dýrum og til eru tilfelli þar sem örmerki hreinlega hverfa úr einstaka skepnum. Ekki algengt en þó þekkt sagði dýralæknirinn þar sem hún strauk Bjössa með örmerkjalesaranum hátt og lágt. Sótti annann lesara og hélt áfram að "nudda" Bjössa sem virtist njóta þess að fá strokurnar. Þegar ekkert fannst í Birtu heldur sóti hún annan dýralækni til að leita til öryggis líka. Það er afar ólíklegt að tveir kettir, örmerktir sama daginn, týni báðir örmerkjunum sem búið er að koma undir húðina á þeim. Engu að síður er örmerkjun skráð frá 2019 og ég sannarlega greiddi fyrir hana á sínum tíma. Konan sem tók á móti mér á gamla staðnum viðurkenndi að þetta væri jú skrýtið en hún væri nú bara í afgreiðslunni og eigandinn yrði að svara fyrir þetta. Eigandinn er svo að sjálfsögðu staddur erlendis en hún lofaði mér því að hún myndi hringja í mig í næstu viku.

Kettirnir mínir, sem skv. öllum líkindareikningum voru aldrei örmerktir þarna um árið, verða því bara að halda áfram að dóla sér óörmerktir hér í efri byggðum. Nema hann haldi áfram að rigna. Vonandi ekki þó. Sjálf get ég látið mér hlakka til símtals í næstu viku. Eða ekki. Kemur í ljós.

sunnudagur, 19. júní 2022

Mér finnst rigningin góð

Hringdi í mömmu til að tala við hana um veðrið. Einhverjum gæti þótt það tíðindalítið en þó er ekkert tíðindasnautt við regnið sem ýmist úðast fínt en þétt eða hreinlega hrynur af skýjum ofan. Eftir skammlaust sólarhangs á veröndinni í gær ýfði rigningin upp í mér löngun til að fara í sund, veit fátt betra en að synda í rigningu. Húðlæknirinn sem fjarlægði tvo fæðingabletti af mér í vikunni sem leið bannaði mér að fara í sund næstu tvær vikurnar. Sagði mömmu að mig langaði í göngutúr en að ég myndi líklegast hanga inni í allan dag. Þú ferð bara í regnföt sagði mamma. Æ, ég nenni ekki að hengja upp regnvot regnföt til þerris svaraði ég, ætli ég fari ekki bara að lesa. Stuttu eftir símtalið við mömmu stytti upp og ég herti upp hugann, leitaði uppi regnbuxurnar og jakkann, arkaði út um dyrnar vopnuð vongóðu. Gekk góðan hring um hverfið og fór svo annan hring því hvað haldið þið? Það rigndi ekki einum dropa á meðan frúin gekk!

Var rétt nýbúin að týna af mér regnplöggin og knúsa kisurnar þegar regnið steyptist niður að nýju. Rétt eins og mér þykir gott að synda í regni þá finnst mér að sama skapi ákveðinn sjarmi við að þramma í rigningu. Var samt glöð að sleppa við steypiregnið í dag og enn glaðari að ná góðri göngu sem nærir hjarta og sál.

Regnið vökvar garðinn, ganga vökvar mig.

mánudagur, 23. maí 2022

Dansandi doppur á laxi

Þar sem ég brunaði út úr bænum s.l. föstudag bað ég þess heitt út í kosmósið að lögreglan myndi ekki stöðva mig á leið minni til Hvolsvallar. Ástæðan er sú að rétt áður en ég brunaði af stað í heimsókn til systur minnar kom ég að sjálfsögðu við í Ríkinu og festi kaup á rauðvíni við okkar systrahæfi, nema rétt lögð af stað brotnaði botninn undann annarri rauðvínsflöskunni og aftursætið í bílnum tók hraustlegra á móti veigunum en okkur systrum hefur nokkru sinni tekist. Ég keyrði því á Hvölsvöll með "ámu" í aftursætinu og er hreint ekki viss um hver útkoman hefði orðið hefði ég verið stoppuð og látin blása.

Það er óhætt að segja að talandinn á okkur systrum hafi eingöngu hvílst yfir blánóttina meðan við sváfum enda flugu klukkutímarnir frá okkur eins og um magrar mínútur væri að ræða. Ekki að við systur hefðum ekki gert neitt annað en að blaðra, við drukkum ósköpin öll af kaffi, fórum í Valdísi og í Krónuna í tvígang, röðuðum á pizzur, fórum í gegnum fataskáp systur minnar, rifjuðum upp mökk af minningum, hlógum oftar en ekki eins og hýenur, hringdum í elstu systur okkar til að óska henni til hamingju með afmælið, drukkum flösku af kampavíni, horfðum á heila kvikmynd (bannaða innan 12 ára!) með dætrum hennar, fylgdumst með ferðum mágs míns á Jakobsveginum í myndum og myndsamtölum, löbbuðum góðan hring í brakandi blíðu í Tumastaðaskógi (þeim himneska stað), fíruðum upp í grilli heimilisins, hituðum sykurpúða yfir kertaljósi, heimsóttum Auðkúlu og knúsuðum Birnu vinkonu mína. Það eru forréttindi að þekkja fólk sem kona getur talað tæpitungulaust við um drauma og þrár, ótta og væntingar, mistök jafnt sem velgengi. Ekki verra þegar vinkonan sem þú getur átt hispurslaus skoðanaskipti við er blóðtengd þér í ofanálag. OK, OK, við drukkum víst eitthvað af rauðvíni líka, lies in the eyes upstairs!

Hugsanlega væri ég enn á Hvolsvelli að blaðra ef ég hefði ekki verið búin að panta borð á Sushi Social í gærkveldi. Brunaði heim með örlítið daufari áfengislykt í bílnum og rétt náði að henda mér í sturtu áður en ég rauk niður í bæ til fundar við hana Maríu*, önnur vinkona af þeirri gerðinni þar sem flest (ef ekki allt) er látið flakka í bland af gleði og alvöru með góðum skvettum af hlátri. Það ER mikil gæfa að þekkja fólk sem þú þarft ekki stöðugt að hugsa vel fyrirfram hvað þú segir við, fólk sem tekur þér eins og þú ert og hlustar á þig hvort heldur sem er í blíðu sem stríðu. 

Úttektin á fatskáp systur minnar kom út í gróða fyrir mig, Bogga systir gaf mér þrjá kjóla. Einn af þessum kjólum er laxableikur með hvítum doppum. Ég fór í honum út að borða í gærkveldi. Ég fór aftur í hann í morgun til að arka í strætó til að komast niður í bæ í blóðprufu á Landspítalanum. Þaðan arkaði ég framhjá Hallgrímskirkju niður á Grettisgötu þar sem ég kíkti inn í Verzlanahöllina. Þaðan arkaði ég síðan með plötu undir handleggnum áleiðis í bílastæðahúsið á Hverfisgötu og sótti bílinn minn frá kvöldinu áður. 

Rétt í þessu sit ég á veröndinni í blíðu þessa mánudags, enn á laxableika kjólnum. Ef ekki væri fyrir veðurblíðuna er hugsanlegt að ég væri nú búin að ryksuga íbúðina í þessum sama kjól, ég meina, hver veit hvað gerst getur, ha? Platan góða hringsnýst á fóninum, rúllandi errin hans Georges Brassens hljóma í takt við rúllandi klakana í hvítvínsglasinu mínu.

*Áhugaverð staðreynd; æsku- og eilífðarvinkoa mín heitir líka María.

þriðjudagur, 18. janúar 2022

Rás 2

Í gær gekk ég inn í Hörpu, ekki til að fara á tónleika heldur til að fara í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í hraðpróf. Fyrsta skipti sem ég fer í Covid-19 próf í Hörpu. Engin röð, ekki svo mikið sem önnur sála að fara í hraðpróf á sama tíma og ég í Hörpu. Lá við að ég fengi niðurstöðurnar áður en ég gekk út úr húsinu. Þrátt fyrir að hafa ekki farið í hraðpróf áður þá hef ég farið í Covid-19 próf á Suðurlandsbraut. Oftar en einu sinni, oftar en tvisvar. Hef alltaf staðið í röð. Langri röð.

Fyrir Covid-táninginn var jákvæðni betri en neikvæðni. Í dag er það neikvæð niðurstaða sem er hvað jákvæðust. Böl heimsins og allt það. 

Nei, ég fór ekki í hraðpróf af því að ég væri að fara til Parísar. Ég fór í hraðpróf af því að ég er nemandi í Fjölmiðlafærni hjá henni Sirrý og þrátt fyrir Covid-táningin er Sirrý ákveðin í að koma nemendum sínum sem mest, og best, í vettvangsferðir í raunheimum fjölmiðla eins og kostur er. Sigríði Arnardóttur tókst sumsé að koma mér og 2 öðrum Biffum í Poppland með hinum landskunna Óla Palla, geri aðrir betur. Bifrastar þríeykið mætti tímanlega, með neikvæðar Covid-niðurstöður og grímur, reiðubúnar til að fylgjast með og læra. 

Fullar af tilhlökkun, og lausar við Covid, fylgdumst við með Óla Palla skipuleggja þátt dagsins. Fylgdum honum grunlausar inn í stúdíó þar sem við héldum að við yrðum þöglir áhorfendur að því hvernig kaupin gerast á RÚV-eyrinni, en, nei, Ólafur Páll hafði annað í huga. Áður en við vissum af vorum við orðnar þáttakendur í Popplandi, kynntar oftar en einu sinni (og jafnvel oftar en tvisvar) sem sérstakir gestir frá Háskólanum á Bifröst. Þrátt fyrir algjört reynsluleysi af að tala í útvarpi held ég að flæðið hafi verið ansi gott og má þar líklega þakka grandaleysi, okkur gafst lítill tími til að stressa okkur yfir því að eiga að mæla í útvarpi allra landsmanna (rótgrónu Popplandi aukinheldur) og úr varð því nokkuð afslappað samspil þaulreynds útvarpsmanns og þrigga óþaulreyndra Biffa. 

Að auki fengum við svo einkaleiðsögn Andra Freys úr síðdegisútvarpinu sem arkaði með okkur um leyndar lendur RÚV og sparaði hvergi orðaflauminn. Góð rúsína í pylsuenda.

sunnudagur, 16. janúar 2022

Algjör sveppur

Eftir að ég skildi tók það mig margar vikur, ef ekki mánuði, að hætta að kaupa sveppi þegar ég keypti í matinn. Sjálf er ég enginn sérstakur aðdáandi sveppa þó ég borði þá alveg (þó ALLS EKKI sveppi úr DÓS), og kaupi þá vissulega ef þeir eru í uppskrift sem ég ætla að elda, en það er maðurinn minn fyrrverandi sem var svo svaðalega svag fyrir sveppum að í ríflega áratug fór ég varla í matvöruverslun án þess að kaupa sveppi. Öll erum við skepnur vanans og það tók mig sumsé nokkrar vikur (sem jafnvel urðu að mánuðum) að venja mig af þessu og í kjölfarið fann ég aragrúa uppskrifta sem innihéldu sveppi, ekki gat ég látið þá fara til spillis.

Í fyrsta skipti síðan ég skildi keypti ég ferskan kóríander. Gerðist í fyrradag og ég eldaði Harira (kjúklingabauna-, lamba- og kóríandersúpu). Hitaði hana upp í gærkvöld. Aftur er það maðurinn minn fyrrverandi sem hafði þessi áhrif á mig, eins mikið og hann elskaði sveppi þá hataði hann ferskan kóríander, kvartaði sárum yfir því viðbjóðsbragði sem þessi hroðbjóður byggi yfir og ég trúði honum og snarhætti að kaupa kóríander. Og ég trúi honum enn, það er víst slatti af fólki sem finnur einfaldlega sápubragð, eða þaðan af verra, þegar það lætur kóríander inn fyrir sínar varir. Nema, þar sem ég fletti uppskriftabók í fyrradag áttaði ég mig á því að það eru ríflega 2 ár síðan ég fór fram á skilnað og þar af leiðandi mér ekkert að vanbúnaði annað en að æða í uppskrift með kóríander sem eitt af aðal hráefnunum. Kominn tími til, líklega orðin rífleg 13 ár síðan ég festi síðast kaup á ferskum kóríander. Súpan og enda fantafín.

Talandi um mat þá tók ég loksins jólaskrautið niður í kvöld. Það var ekki einungis sökum leti, jólatréið hélt sér svo vel og ilmaði svo dásamlega að ég hreinlega tímdi ekki að taka það niður og henda bara af því dagatalið sagði að jólin væru yfirgengin. Í ár, sem og önnur á undan, var það þessi glaðlegi sveinn sem æskuvinkona mín gaf mér í jólagjöf á 9. áratugnum sem mér fannst leiðinlegast að slökkva á og pakka niður 

Nú veit ég fullvel að það á víst ekki að tala um að elska neitt nema lifandi veru en má þá að sama skapi ekki hata neitt nema það sem er lifandi? 

sunnudagur, 9. janúar 2022

Amerískar vöfflur að belgískum sið

Gleymi því sennilega seint er ég stóð andspænis kartöfluflögurekka í Ameríku í fyrsta sinni og upplifði svæsnasta valkvíða sem yfir mig hefur komið. Árið var 1994 og ég var komin til Irmo í Suður Karólínu til að passa 3 fordekraðar stelpuskjátur í STÓRU húsi á einkavegi sem lá niður að vatni með einkabryggju, sundlaug í garðinum, 2 hundar og 3 kettir á heimilinu. Hér heima samanstóð kartöfluflöguúrvalið af hinu sígilda Bögglís, salt&pipar og papriku Maruud, Stjörnupoppi og jú, hið galíslenska Þykkvabæjarnasl. Sjálf hafði ég aldrei farið til útlanda áður, steig í 1. skipti upp í flugvél er ég flaug frá Fróni til að gerast Ópera í Ameríku í eitt heilt ár. Skyldi engan undra þó stelputuðru hafi fallist hendur við að standa andspænis heilum gangi i matvöruverslun sem helguð var einu af hennar uppáhalds hráefnum; kartöfluflögum.

Systurnar elskuðu peanutbutter&jelly sandwishes (samlokur með hnetusmjöri og sultu) en þrátt fyrir að hafa daglega smurt slíkar samlokur ofan í þær komst ég aldrei upp á bragðið og líkar ekki enn þann dag í dag. Skv. könnun frá 2002 má áætla að meðal ameríkani láti ofan í sig 1500 slíkar samlokur áður en hann lýkur gagnfræðanámi. Það er ekki nokkur leið að vita hversu margar Pop-Tarts ég ristaði fyrir stúlkurnar og þær voru ófáar bragðtegundirnar af Kool-Aid sem ég blandaði ofan í þær líka. Skv. leiðbeiningum aftan á 1 bréfi af Kool-Aid skal demba einum bolla af sykri út í u.þ.b. 2 lítra af vatni.

Kool-Aid var ágætt, og Pop-Tarts svo sem líka, en það var Caffeine-free Diet Coke sem gerði útslagið fyrir mig og varð minn uppáhalds drykkur. Hef reyndar ekki smakkað hann síðan 1995 er ég var heimkomin í síðasta mánuði þess árs. Það var þó tvímælalaust Trix sem festi sig í sessi í mínum heimi, enn þann dag í dag er Trix uppáhalds morgunkornið mitt. Að vísu er það bannað hér á Fróni en þá skiptir líka sköpum að festa kaup á því við hvert tækifæri sem gefst en síðasta tækifæri gafst sumar 2019 í Tigre í Argentínu.

Á amreískum dögum í Hagkaup í gegnum árin hef ég oft brosað í kampinn er ég renni yfir vörurnar og kannast við hitt og þetta og ýmislegt hef ég prófað og iðulega orðið fyrir vonbrigðum, að Trixi undanskildu, að sjálfsögðu. Í gærkveldi hentist ég inn í Hagkaup í Spönginni til að grípa oststykki og konfektkassa. Við mér blasti urmull amerískra vara og ég stóðst að sjálfsögðu ekki mátið að skoða. Þurfti hreint ekki að hafa mikið fyrir því að standast Twizzlers eða Sour Patch Kids  en ég endaði samt á að grípa eina vöru með mér heim 

Stelpurnar elskuðu svona litlar kanilvöfflur, sem vissulega fengust í Hagkaup, en mig minnti að þessar hefðu mér þótt góðar.

Þegar ég loks reif mig upp úr bókinni í morgun og drattaðist á lappir þá henti ég tveimur af þessum eðal frosnu amerísku vöfflum í ristavélina, hellti uppá kaffi og hrúgaði síðan hlynsírópi yfir stökkar vöfflurnar sem skoppuðu uppúr ristinni. Merkilegt nokk þá voru vöfflurnar góðar. Jafnvel mjög góðar. 

Þar sem ég sat við eldhúsborðið og undraðist þá staðreynd að ég hefði ekki orðið fyrir vonbrigðum með vöfflurnar varð mér litið út um gluggann og sá Birtu skíta í beðið þar sem jarðarberjaplönturnar eru. Þegar hún hafði lokið sér af gróf hún í gríð og erg yfir. Því leita ég nú til vizku ykkar, frómu lesendur; er kattaúrgangur heppilegur áburður fyrir jarðarberjaplöntu?