mánudagur, 31. janúar 2011

Í-gildi

Í gær hitti ég góðar og skemmtilegar vinkonur á kaffihúsi. Eftir gott spjall og mikla kaffidrykkju kíktum við í bókabúð. Þar eyddi ég peningum í nokkrar bækur. Jafn miklum peningum og ég eyddi á útsölunni í Skífunni í vikunni á undan.

Á laugardaginn buðum við góðum gestum í vanillumatarboð. Eyddum ígildi bóka og geisladiska í trakteringar. Fengum blóm að launum en enga kransa. Gott að eiga góða blómálfavini sem fúslega aðstoða við líkjörsgrynkingar.

sunnudagur, 30. janúar 2011

Plástur á glæp brúðar

Í morgun gugnaði ég á því að rífa sjálf af sáraplásturinn plastlausa, sem ég skarta á enninu þessa dagana. Ég þjáist ekki af neinum plástra-komplexum og mamma þurfti aldrei að klípa mig um leið og hún reif af mér plástur. Myndarlegi maðurinn kleip mig ekki heldur, kippti bara.

Var að lesa sextíu texta, víraða og fagra, um giftingar og finnst hreint og beint óviðeigandi að sjá 2006 tappann, Pál Magnússon, lesa fréttir um glæpastarfsemi bankanna.

þriðjudagur, 25. janúar 2011

Eru asnar raunverulega þrjóskir?

Ætla rétt að vona að þið sem álpist inn á síðuna mína, ranghvolfi í ykkur augunum þegar þið hafið jafnað ykkur á appelsínugulu ofbirtunni, sem hlýtur að hafa skorið ykkur í augasteinana við nýja útlitið á síðunni minni. Þannig leið mér allan síðasta vetur er ég leit í bölvaðar stærðfræðibækurnar. Er enn fremur snefsin yfir að hafa tapað komentunum mínum þegar ég ákvað í fyrsta skipti, rétt fyrir áramótin, að breyta útlitinu á síðunni. Svo fyrst ég er byrjuð (þó ekki að jafna mig á komentatapinu) mun ég halda áfram (hótun?). Er ekki búin að gera það upp við mig hvort ég nenni svo mikið sem að hugsa um að finna mér betra komentakerfi í stað þess sem troðið var inn á og upp á mig við skiptin. Er hins vegar rétt enn og einu sinni búin að segja grábölvaðri stærðfræðinni stríð á hendur.

Meðfram stríðsrekstri dagsins stússast ég í brauðbakstri og súpugerð. Óska þess oft að geta bara vippað mér í eldamennsku án þess að þurfa að snurfusa eldhúsið fyrst.

Gott annars að geta borið fyrir sig þrjósku í stað þess að játa upp á sig nautheimsku.

mánudagur, 24. janúar 2011

Gemsa gemlingur

Í Lundúnaferð minni í þar síðustu viku tapaði ég mér í nærbuxnadeildinni í Primark. Ég áttaði mig ekki á hversu töpuð ég var fyrr en einn morguninn, er ég dró út nærfataskúffuna, og valkvíðinn helltist yfir mig. Það kemur ekki oft fyrir mig að fyllast kvíða yfir að velja. Nema þegar kemur að því að velja gsm síma. Þá nær kvíðinn yfirhöndinni. Þá kemur sér líka sérdeilis vel að eiga mömmu mína fyrir mömmu, sem birtist færandi hendi í búðinni hjá mér í morgun og færði mér nettan, nánast ónotaðan gsm fyrir gemsa eins og mig. Síminn sem hún reddaði mér síðast þegar mig vantaði síma, er nefninlega farinn að gefa sig.

Við nánari íhugun held ég barasta ég hafi aldrei keypt mér gsm. Fyrsti gemsinn sem ég eignaðist keypti Bogga systir mín fyrir mig; hann var doldill hlunkur, en rauður og einfaldur í notkun. Hentaði mjög vel. Næsti gemsi þar á eftir reddaði pabbi mér; hann var líka rauður og einfaldur í notkun, en jafnframt nettasti gsm sem ég hef átt. Hentaði sérdeilis mjög vel. Þar á eftir fylgdi gsm sem þáverandi keypti handa mér; hann var með skemmtilegum takka í miðjunni, sem reyndist líka vera það sem gaf sig í þeim síma. Eftir það hefur svo mamma séð um mín gemsamál.

Það er annars sérdeilis indælt að deila sokka- og nærbuxnaskúffu með manninum sem ég elska.

sunnudagur, 23. janúar 2011

Hjartslættir í Íslandsklukkum

Vorum að koma úr Þjóðleikhúsinu. Fórum að sjá Íslandsklukkuna. Sem betur fer. Langt síðan ég hef séð jafn gott stykki, og þá á ég við LANGT síðan. Uppsetningin, sviðsmyndin og leikur; hrein leikhúsunun. Sérstakt hrós frá mér fær Brynhildur Guðjónsdóttir fyrir frábæra túlkun sína á Jóni Grindvíkingi. Jafnvel Björn Thors líka fyrir kúvendinguna niður stigann í salnum og flottan lík-stífleika.

Yfir kaffisopanum í morgun hugsaði ég með mér hvað mig langaði til að gera með þeim myndarlega, sem sat á móti mér við eldhúsborðið með úfið hárið, gleraugnalaus í slopp. Áður en ég náði að koma orðum að hugmyndum mínum var sá myndarlegi búinn að stinga upp á þeim. Ekki veit ég hvort hann les hugsanir eða hvort Íslands-klukkur okkar slá svona vel í takt, en ég elska að elska myndarlega manninn minn.

fimmtudagur, 20. janúar 2011

Sam-loka

Í gærmorgun smurði ég mér samloku með smjöri og eggjum til að eiga í hádegismat í vinnunni. Eggjasamlokur eru í sérlegu dálæti hjá mér og fara í ofanálag sérlega vel með kaffisopa. Ég endaði engu að síður í súpu á mmmmm í hádegi gærdagsins, og labbaði því aftur heim með smurðu samlokuna. Ég hugsaði mér aftur gott til eggjaglóðarinnar í morgun, og ásetti mér að eiga samloku gærdagsins til hádegismatar núdagsins. Auðvita gleymdi ég samlokunni heima. Svona virkar þetta bara og er í góðu lagi mín vegna. Ég er nefninlega ástfangin. Alla daga. Jafnt og þétt. Svo á ég líka heilan pakka af FigRolls að narta í.

föstudagur, 7. janúar 2011

Góð gjöf

Þessi góða jólagjöf, frá foreldrum mínum, er alveg að bjarga lífi mínu þessa dagana!