sunnudagur, 28. júní 2009

Lagt í ´ann

Jakkafataráðuneytið er á síðustu metrum undirbúnings fyrir talningu og útsölu. Undirbúningur hefur gengið vel og ég hef fulla trú á því góða og duglega fólki sem ég vinn með. Ég er þó ekki frá því að hafa dulitlar áhyggjur. Af hverju nákvæmlega veit ég ekki alveg. Ég ætla þó að gera mitt besta að henda þeim út um bílgluggann á leiðinni norður. Ég hef ekkert með þær að gera norður á Strandir. Og það er búið að pakka.

laugardagur, 27. júní 2009

So beautiful, but oh so boring

Fórum og viðruðum okkur fyrir kvöldmat. Löbbuðum meðfram ströndinni eins og myndarlegi maðurinn segir. Meðfram sjónum eins og ég segi. Ég var að prufukeyra gönguskóna hennar systur minnar. Heppin ég á eina góða Boggu að sem notar svona líka svipaðar stærðir og ég. Myndarlegi maðurinn prufukeyrði nýju flíspeysuna sína. Fer honum afskaplega vel. Varð nánast rauðhærður aftur í henni. Veðrið var yndislegt og nýja flíspeysan fór honum líka afskaplega vel hangandi yfir annari öxlinni.

Spínatkjúklingakarrí mallar með Einfaldlega Rauðum. Kreppan er bærilegri í góðum félagsskap.

miðvikudagur, 24. júní 2009

Órange

Myndarlegi maðurinn mætti samviskusamlega á slaginu fimm í jakkafataráðuneytið til mín í gær. Fagleg álitsgjöf hans á vali mínu á einkennisfatnaði jakkafataráðherra var ómetanleg. Að auki kom hann mér verulega skemmtilega á óvart með stílista-næmni sinni, en hann valdi heilt skópar galeinnMyndarlegi maðurinn - minn er smekk-maður.

mánudagur, 22. júní 2009

Bæjarins bestu -

Fyrsta helgin með búðina að baki. Ekki erfitt að setja sig í gamlar stellingar. Helgin því nánast tíðindalaus, fyrir utan reyndar að 18 ára stelputetur sagði mér; hún bara þolir ekki þessa helvítis Vinstri græna, eina sem þeir vilja er að allir séu bara jafnir. Mig langaði að slá hana og hrista hana svo, en spurði þess í stað hvort framtíðaráform hennar væru að vera æðri okkur hinum. Fékk lítil svör og efast um hún hafi dottið ofan á þessar pólitísku skoðanir á eigin spýtur. Vona þó sannarlega hún muni í framtíðinni hugsa fyrir sig sjálf og komast raunverulega að því hvað jafnrétti er og þýðir. Að öðrum kosti má hún ílengjast í láglauna búðarstarfi fyrir mér.

Myndarlegi maðurinn bauð mér út að borða á laugard.kvöldið. Biðin var heldur löng eftir matnum en vel þess virði; ég þreytist aldrei á að glápa á þennann myndarlega mann sem nennir að vera kærastinn minn í ofanálag. Maturinn var líka góður.
Ég bætti svo um betur og bauð myndarlega manninum líka út að borða í gærkveldi.

sunnudagur, 14. júní 2009

Endurfundir

Tæmdi uppskriftaeldhússkúffuna og sorteraði í Wham-möppuna mína í kvöld. Kjöt, pasta, grænmeti, sósur, sallöt, brauð, kökur, drykkir. Drullumallið hennar mömmu, kakósúpan hennar ömmu, lasajnað hennar Boggu, jógúrtkökurnar hennar Míu og fullt, fullt meira. Puttana klæjar í að elda og kverkunum þyrstir í rauðvín. Þorstinn gæti þó einnig stafað af kvöldlöngu söngli með hljómplötunum mínum. Dr. Hook, Grease, ABBA, Paul Young, Dido, Jimi Hendrix og George Michael á 45 snúningum. Nærbuxur til þerris á ofninum og grasið hinumegin við gluggan sumargrænt. Indælt.

sunnudagur, 7. júní 2009

Foj!

Fórum að viðra okkur í úðanum í dag. Ætluðum einhverja allt aðra leið en venjulega, en enduðum á Súfistanum sem er ekki lengur Súfistinn. Valdi mér að ég hélt dýrasta blaðið í búllunni, rúmar 4.700,- kr. ljósmyndablað. Með því splæsti myndarlegi maðurinn á mig Sviss Mocca með hvítu súkkulaði. Ég var marskarafrjáls og myndarlegi maðurinn í kattaháraflíspeysu. Ég saup verulega varlega á hvíta súkkulaðinu til að engin hætta yrði á ég sullaði neinu á rándýrt blaðið sem ég tók mér að láni með moccanu. Saup hinsvegar hveljur á útleið er ég uppgvötaði tískublöð sem bera nafnið Details. Eins og nafnið gefur til kynna einblína þau á díteila í tískunni. Þið vitið, stækkuð mynd af vasanum á kápunni sem fyrirsætan á rönvei-inu er í, eða eyrnalokkurinn í eyranu, nælunni í barminum eða líningunni á hanskanum. Alger nauðsyn hverrar konu fyrir aðeins Kr. 7. - 9.000,- tölublaðið.

Sóaði annars 114 mínútum í nótt við Basic Instinct 2 gláp. Ég hafði svo sem ekki gert mér vonir um annað en hún væri slæm. En hún var ekkert slæm. Hún var arfa vond.

föstudagur, 5. júní 2009

Utan-dyra

Dagurinn minn nýtur þess í botn að liggja á fótum myndarlega mannsin, í kjöltunni á mér, rúmum barnanna, ofan á púðum, nýþvegnum dúkum og í gluggakistum. Í þau 10 ár sem ég hef verið samvistum með skepnunni, hef ég þó aldrei vitað til þess hann svæfi utandyra.


Kötturinn Dagur virðist hafa orðið fyrstur í úti-legu af ábúendum og áhöngu Samtúns.
Veðrið var vonandi milt í nótt.