laugardagur, 24. september 2022

Connoisseur

Hálfur mánuður liðinn í París, gerðist í gær. Í tilefni dagsins fór ég í bíó (ÉG af öllum), fyrsta skipti á ævinni sem ég fer ein í bíó. Tók metróinn í fyrsta skipti síðan ég flutti. Kom upp við Sigurbogann, steinsnar frá hótelinu sem ég gisti á þegar ég fór í fyrsta skipti ein til Parísar í fyrrasumar. 

Lost in frenchlation er fyrirtæki sem var stofnað af tveimur vinum sem vildu auðvelda fólki að læra frönsku og njóta franskrar kvikmyndagerðar. Frakkland er eitt af "dubb"löndunum, sumsé talsetur allar kvikmyndir, og því lítil von um að franskar myndir séu textaðar hér. Nema Lost in frenchlation leggur sig fram um að hafa regluleg bíókvöld með frönskum myndum með enskum texta. Myndirnar eru sýndar í litlu, kósí kvikmyndahúsi með þægilegum rauðum sætum, rauðum veggjum og litlum bar. Ef Rumba la vie ratar í kvikmyndahús heima þá mæli ég sannarlega með því að þið farið og sjáið þá innilega fyndnu og einlægu ræmu.

Eftir tveggja vikna dvöl á hóteli er frúin búin að rölta flestar götur í nágrenninu og jafnvel snæða bæði miðdegis- og kvöldverði á flestum brasseríum hverfisins. Ekki laust frá því að ég hafi fundið fyrir þreytu í fótum er ég arkaði af stað, enn eina ferðina, í ætisleit í kvöld. Var eiginlega ákveðin í því að fá mér bara einfalt salat og snúa svo aftur "heim" sem fyrst. Að sjálfsögðu arkaði ég þar til ég sá blikkandi ljós og settist niður á stað sem var heldur fínn fyrir hornstað í hverfinu, mynd af kokkinum og allt á matseðlinum. Pantaði mér steik og kartöflumús og eins og það væri ekki nóg þá fékk ég mér ostaköku í eftirrétt. Staðurinn var "petite" á franska vísu og smekkfullur eftir því, þjónninn á þönum. Reyndar var staðurinn svo lítill að það lá við að ég sæti í kjöltunni á manninum á borðinu fyrir aftan mig. Ef ekki hefði verið fyrir örlitla upphækkun á næsta borð við hliðina á mér hefði ég eins getað setið til borðs með fólkinu sem sat þar; karl og kona (par) og önnur kona til. Sem betur fer var ég með skrifbókina mína í veskinu því samræður og háttalag þeirra þriggja varð til þess að ég skrifað sex blaðsíður í skrifbókina. Þjónninn vinalegi hafði greinilega tekið eftir skrifæði frúarinnar því á hlaupunum leit hann yfir til mín og spurði með bros á vör; hefur staðurinn svona mikil áhrif á sköpunargáfu þína? 

Ef ég væri rithöfundur þá væri ég núna að hefja söguna af þessu fólki á næsta borði við mig, nóg punktaði ég niður og ýmyndaði mér um aðstæður þeirra, fyrra og núverandi líf, hver þau væru, hvernig þau þekktust og allt þar fram eftir öllum götum. En, ég er ekki rithöfundur svo í staðinn blogga ég bara um allt og ekkert og líklegast ekki um neitt. Nema þá helst sjálfa mig.

föstudagur, 16. september 2022

Vikugömul í París

Vika síðan ég flutti til Parísar. Búin að fara í nokkra tíma í skólanum, hitta kennara og samnemendur, fara í siglingu á Signu í boði skólans, senda nokkur póstkort og eitt bréf, borða kvöldmat á mismunandi veitingastöðum, rölta um göturnar og er farin að kannast ágætlega við mig í hverfinu. Engu að síður er ég enn ekki fyllilega búin að átta mig á því að ég er flutt en ekki í enn einu fríi hér í Parísarborg. Ekki ólíklegt með öllu að dvöl á hóteli espi upp frífílinginn í frúnni en líklega síast daglega lífið inn með hverjum deginum sem líður. Þetta kemur allt með kalda vatninu eins og vitur kona sagði eitt sinn við mig.

Búin að hitta og spjalla við flesta af hinum skiptinemunum. Allt flott og frambærilegt ungt fólk, eftir því sem ég best fæ séð, fætt árið 2000 og síðar. Skemmtilegt sjónarhorn; þegar ég fór í fyrsta skipti til útlanda, sem au-pair til Ameríku, var ekkert þeirra fætt. Þegar ég kom aftur heim, óperuári síðar, voru enn 5 ár í að elsta þeirra fæddist. Ekkert þeirra kemur þó fram við mig eins og þann ellismell sem ég er í þeirra hópi, öll eru þau opin, brosmild, skemmtileg og áhugaverð. Ég er eina mannneskjan sem minni sjálfa mig á það að ég er nógu gömul til að geta verið mamma þeirra allra, ég sem veit manna best að aldur er afstæður. C'est la vie.

sunnudagur, 11. september 2022

Talið yður frönsku?

Rúmir tveir sólarhringar síðan ég flutti til Parísar, borgarinnar sem ég hef margoft heimsótt og miklu oftar dreymt um að búa í. Hér hef ég ófá póstkort skrifað og sent og þrátt fyrir að þessi ferð sé frábrugðin að því leyti að vera flutningur en ekki frí þá er ég að sjálfsögðu þegar búin að skrifa nokkur póstkort. 

Vippaði mér inn í Tabac til að kaupa frímerki og spurði afgreiðslumanninn á nokkuð góðri frönsku "parlez-vous francais? Jú, auðvita ætlaði ég að spyrja manninn hvort hann talaði ensku, en ekki frönsku, en í kjölfarið af þessu fórum við bæði að skellihlægja og áttum skemmtilegt samtal um frímerki, hvaðan ég er og frönsku kunnáttu mína, svo eitthvað sé nefnt, á frönsku!

Hver hefur svo sem ekki lent í því í útlöndum að vippa sér inn í búð og spyrja heimamanninn á bak við afgreiðsluborðið að því hvort hann tali sitt eigið tungumál? Ég bara spyr!