þriðjudagur, 22. desember 2009

Hnossg-æti

Fyrir þá sem eiga enn eftir að baka og vantar e-ð fljótlegt. Fyrir þá sem þegar hafa bakað en geta bara ekki hætt. Mest þó fyrir þá sem kunna vel að meta hnossgæti



125 gr smjör
60 gr sykur
180 gr döðlur, skornar smátt

Allt saman hitað í potti á lágum hita, verður að graut.
Aðeins látið kólna.
3 bollar af Rice Krispies hrært saman við.
Smjörpappír settur á plötu og blöndunni dreift á hana. Látið kólna.

300 gr suðusúkkulaði brætt, sett yfir og látið kólna.

Uppskriftin kemur frá mömmu hennar Kristínar Helgu. Hún virðist bara kunna að elda góðann mat og bakar eingöngu góðgæti.

Svo segist maður bara hafa bakað, þó þetta fari aldrei inn í ofn.

föstudagur, 18. desember 2009

Ban-a-na

Í strætó í gærkveldi var ungur maður sem hámaði í sig 4 banana. Frá Smáralindarstoppustöð alla leið upp í Hamraborg. Ég stóðst ekki mátíð að fylgjast með og telja bananana. Harmóneraði vel við gult strætó-involsið og langa vinnudaga í jakkafataráðuneytinu.
Það er gaman að afgreiða glatt fólk í jólagjafainnkaupum. Skemmtilegra þó að vera nýkomin úr jólaboði hjá brósa; borða góðann mat í samveru nánustu fjölskyldu þar sem hver einstaklingur er sannarlega með sínu eigin nefi, inn- jafnt sem útvortis. Miklu skemmtilegra.
Löngu búin að skrifa jólakortin og enn löngu fyrr búin að kaupa jólagjafirnar. Líka búin að brenna döðlur, sykur og smjör í potti.

Á morgun ætla ég að búa til nammi handa skot-fara og jafnvel um-sýslast við upphengingu myndar.

fimmtudagur, 10. desember 2009

Jóla hvað?!

Hangikjötsilmur í eldhúsinu og jóladagatalakertið komið niður á 2. Aðventukertin í Samhlíð orðin að mánudagskertum, meðan aðventukerti Skaftatúns brenna hraðar. Afmælisdagur systur minnar runninn upp og henni til heiðurs stend ég vaktina til tíu í kvöld. Jólin eru nebla byrjuð í Zöru-heimi.

fimmtudagur, 26. nóvember 2009

Þrjú í Túni

Að mylja nachos-flögur í eldfast form er skemmtilegt. Rauður litur salsa-sósunnar er flottur í bland við gulann lit osta-sósunnar. Að hella hrísgrjónum í bolla úr sneisafullum glerdunk er skaðræði. Það má vera að til sé sérstök taktík við slíkar kringumstæður. Ég kann hana ekki. Enda set ég bara þvottaklemmu á endann á hrísgrjónapokanum í eldhúsinu mínu.

Flasa, nánast fullkomun, Pop-tarts, Kool-aid, heimaverkefni og skyndibiti voru allt lystaukandi umræður, þó klárlega hafi vantað einn. Maturinn og enda bærilegur


þriðjudagur, 24. nóvember 2009

Tjáning

Las í Fréttablaðinu í gær að kettir noti mal til að fá sínu framgengt. Við Sam-tún-endur látum þá speki ekki slá okkur út af laginu. Mjálm og mal eru ekki einu tjáninga-leiðir kattarins til að fá sínu framgengt





miðvikudagur, 18. nóvember 2009

Innflutt útlenska

Rakst á þetta í innfluttu eplahrúgunni í Hagkaup



Tvennt sem kemur til greina; pólitískur áróður eða lausnin á krossgátunni.
Hlýtur að styttast í pólitískan áróður DO í sunnudags-gátunni.

sunnudagur, 15. nóvember 2009

Gnauðar

Í hvínandi rok-kulda er notalegt að eiga bleika, fóðraða inniskó frá mömmu, kaffi frá Haiti, baka sandköku, fá góða gesti í kaffi, leggja sig, malla heita mexíkó-súpu, eiga myndarlegasta kærastann sem hlýjar manni inn að beini, hlý teppi og kúr á sófanum

miðvikudagur, 11. nóvember 2009

Blússandi

Fékk sætt sms sem hlýjaði mér inn í bein í dag er ég stóð i Eymundsson og fletti sætri skruddu. Myndarlegi maðurinn færði mér rauðar rósir er ég kom heim eftir vinnu. Drengirnir völdu hjartalagaðar piparkökur í búðinni. Ég færði skruddu að gjöf. Blússandi rómantík á heimilinu



Í ofanálag gerði myndarlegi maðurinn sér lítið fyrir og flamberaði kvöldmatinn eins og enginn væri morgundagurinn.

sunnudagur, 8. nóvember 2009

Lakkrís-draumur

Dreymdi í nótt ég ætti lakkrís. Glænýjann og girnilegann lakkrís. Litla svarta bita, rörbita með gulu og bleiku marsípani að utan, og lakkrís í laginu eins og lítil hús með bleikum og gulum marsípanröndum á. Ég hafði í mikið meir en nógu að snúast, þurfti að flokka pappíra og fara yfir talnarunur, afgreiða í búð og kenna Möggu systur minni að coordinate-a, leysa ráðgátu og leggja sjálfa mig í lífshættu, fara sem nemi til Danmerkur með lest og keyra þaðan til Bandaríkjanna. Ég komst að lokum aftur að skrifborðinu mínu og sá að það var bara kltími eftir af vinnudeginum. Ákvað að tími væri kominn á lakkrís. Valdi tvo litla svarta bita og stakk þeim upp í mig. Byrjaði að tyggja og... - var vakin af kærastalufsunni! Og nei, hann var ekki að færa mér kaffi í rúmið. Sem er líklegast ágætt miðað við kaffi-aðferðir gærdagsins.

Hebði betur kaupt mér lakkrís í Kolaportinu í gær.

laugardagur, 7. nóvember 2009

Kaffi kaffi kaffi



Eftir að hafa hellt upp á rjúkandi kaffi og hent könnunni þar á eftir í gólfið



er myndarlegi maðurinn búinn að komast að því að það er ekki sársaukalaust að fá sjóðandi kaffi yfir leggina á sér



að kærastan gleðst yfir óförum annara



og að kaffi gengur með okkur mest allt lífið, en skilur sjaldnast eftir sig spor

fimmtudagur, 5. nóvember 2009

Starfs-lýsing

"Stundum hélt ég, að hún væri blátt áfram búðarstúlka, sem væri að reyna að leika eitthvert undraæfintýri, - láta menn halda, að það væri eitthvað afar dularfult við sig, gengi á það lagið, að dularfult kvenfólk dregur ómótstæðilega að sér athygli karlmanna, en við nánari og rólegri athugun sannfærðist ég um, að hún væri snyrtikona, að líkindum af háum stigum, og að einhverskonar sorgarsaga lægi eins og rauður þráður í gegn um alt samtal hennar við mig og væri orsök þess, að hún duldi mig þess, hver hún var."

NJÓSNARINN MIKLI
Skáldsaga

miðvikudagur, 4. nóvember 2009

Frij

Hef vafrað um netið, sungið með ABBA-plötunum hennar mömmu og hugsað um að læra. Drukkið mikið af kaffi, vaskað upp og dáðst að nýjustu Skafta-framkvæmdunum. Spáð í uppskriftir, labbað lengri leiðina í búðina og bakað kókos brownies. Verið baðmjúk, þegið tánudd og látið mig dreyma. Frí eru fyrirtaks fyrirbæri.

mánudagur, 26. október 2009

Steiktar kjötbollur

Nýju gleraugun löngu komin í hús og myndarlegi maðurinn búinn að fara á mánudagsfund með borðfót, gera við sófaborð, festa upp vegglampa og búa til lauksósu.

föstudagur, 16. október 2009

Það var og

Kom að því e-r riði á vaðið og segði e-ð um manngarminn. Óbeint ef til vill, en dugar. Biðin orðin ó-þreyju-full og piffið orðið óþægilegt.
Frétti af krúttu í Mexíkó sem varla getur lesið bloggið mitt sökum væmni. Ég hef aðeins eitt að segja mér til varnar; ég blogga þó. Af og til. Og nýt þess að vera ástfangin. Og er búin að fá mér ný stígvél. Og biðin eftir nýju gleraugunum hefur styst um helming.

föstudagur, 9. október 2009

Íslensk veðrátta

Kærastinn - SMS - kl. 08:27:
Gleraugun fuku af mér við turninn og ég finn þau ekki.
Kærastan - SMS - kl. 08:30:
Kúrekastígvélin fuku af mér en ég hafði það af inn í Smáralind.

Annað okkar var víst ekki að grínast.

sunnudagur, 4. október 2009

laugardagur, 3. október 2009

Príorití-bið

Síðan myndarlegi maðurinn fór erlendis á burstuðum skóm hef ég;
- Lagt mig aftur og grjótsofið.
- Farið í vinnuna og Bónus.
- Sungið hástöfum með öllum uppáhaldslögunum mínum á æpodnum.
- Poppað.
- Glápt á Sex.
- Boðið foreldrunum í mat.
- Klappað kettinum.
- Lesið ókunnra manna blogg.
- Skolfið af kulda undir sænginni.
- Gefið kettinum grátt slátur.
- Saknað hans mikið og hlakkað til að fá hann aftur heim.

Aftansöngur undir sænginni og breik á stofugólfinu færist yfir á myndarlega kærastann, þar sem ég hef ekki lengur svigrúm til að klára galein-heima listann.

föstudagur, 2. október 2009

Fegruðu bankar stöðuna?

Mamma kom færandi hendi í mat í gærkveldi og fegraði líf mitt



Fréttaveitan er erlendis svo ég neyðist víst til að fletta blöðunum sjálf. "Ein erfiðustu fjárlögin, Unga fólkið að vonum svekkt, Búsáhaldabylting í andarslitrunum, Kaupmáttur rýrnar og við förum tíu ár aftur í tímann." Gott að eiga fallega rós til að koma kaffinu og ristaða brauðinu niður.

þriðjudagur, 29. september 2009

Jordgubb



Myndarlegi maðurinn kláraði jarðaberjasafann. Situr enda kampakátur á sófanum með vískí og skóáburð. Dugar ekki að fara á óburstuðum skóm til útlanda, jafnvel þó það sé einungis vinnuferð til Danmerkur. Velti möguleikum mínum, galeinni, heima hjá honum, fyrir mér;
- Get sungið hástöfum með öllum uppáhaldslögunum mínum á æpodnum.
- Glápt á Sex & the City.
- Klappað kettinum.
- Prumpað undir sænginni.
- Breikað á stofugólfinu.
- Saknað hans og hlakkað til að fá hann aftur heim. Það þarf jú líka að klára melónu-ananas-safann.

sunnudagur, 27. september 2009

Baun-laus

Var að koma úr bústað. Gisti heila nótt með Zöru-stjórum. Bústaðurinn er í Grímsnesinu og í gervi einbýlishúss. Haustlitirnir eru yndis-fallegir og samstarfskonur mínar eru yndis-legar. Dekruðum við okkur í mat og drykk, en lögðum ekki í 11°"heitann heita" pottinn. Sinnti hlutverki aldursforseta hópsins og bauð góða nótt upp úr miðnætti, klöngraðist upp á 4 dýnur og svaf miklu, miklu betur en prinessan á bauninni.

Það er gott að koma heim með útkýlda vömb af 6 rétta brönch, í heitt kaffi og von-Somtime-tertur. Best af öllu þó að knúsa uppáhalds jafnaldrana mína

föstudagur, 25. september 2009

Höfði brennur

Það logar í Höbða og reykurinn er þykkur og grár. Flutningabílarnir sem ferja eiga Höbða-góss, eru jafn margir slökkviliðsbílum. Rokið snýr í fangið og rigningin sömuleiðis. Mér er enn illt af tilhugsuninni um nýja ritsjóra Morgunblaðsins. Kötturinn er órólegur.

Þetta er S. Katla Lárusdóttir í Samtúninu.

mánudagur, 21. september 2009

Sætasta húsamúsin

Þegar mýsnar fara á stjá, fer kötturinn að sofa í hausinn á sér*



*Fyrir samheitaorðabókafólk; að sofa í hausinn á sér er Ólafíuíska.

sunnudagur, 20. september 2009

Merkt & klístrug

Myndin var óseld en er nú merkt mér. Ég hef vel fram í október til að ákveða hvar ég eigi að hengja hana upp. Þar sem stærðfræðin vofir yfir höfði mér eins og óður púki með þrjú andlit, er ég búin að fara í langann göngutúr með myndarlegann mann mér við hlið, kíkja á bókamarkað, lesa í nýju bók kærastans, dorma í heitu baði og baka breskann verðlaunabúðing

laugardagur, 19. september 2009

Um-sláttur

Hef slegið um mig í allann dag. Fór á myndasýningu og reyndi í framhaldinu að festa kaup á mynd. Pantaði herrafatnað fyrir margar, margar evrur á glansandi rauðum hælaskóm. Ýtti við viðkvæmni með lélegu gríni. Byrjaði á nýju bók kærastans meðan hann dormaði í bjútiblundinum á sófanum. Kaupti tvenna poka af kasjúhnetum og trönuberjasafa. Át síðasta tyrkneska piparinn úr dollunni.

Mig óar fyrir hvar þetta muni allt saman enda, en tel þó nokkuð víst að Borgarahreyfingin, eða hin eða hvers eða hvurs, verði ekki valkostur á næsta kjörseðli. Mér þykir annars afskaplega ósmekklegt þegar ópersónukjörnir þingmenn, fara með atkvæði flokks síns eins og þeim einum hentar.

föstudagur, 18. september 2009

Dænastí-flækja

Uppgvötaði Dænastí á Skjá1 um daginn. Datt niður í miðjann þátt og sat stjörf yfir þeim hræðilegustu hárgreiðslum, axlarpúðum, skikkjukápu og olíubornu bringuhárum sem ég hef augum litið. Í Dænastí er illskan uppmáluð í gervi Joan Collins, og góðmennskan í gerfi hennar þarna með ljósa blævængjatoppinn sem skríður ofan í ljós-ljós-ljósbláu augun. Í Dænastí spilar maður tennis upp á æru sína vegna svikinna tryggða eiginkonu, og getur orðið nánast sturlaður af að anda að sér málningunni á skrifstofunni sinni sem mamma manns á e-a sök af. Þ.e.a.s. ef mamma manns er Joan Collins. Fyrrverandi eiginmaður hennar, og núverandi þessarar góðu, keyrir töluvert um í limmósínu.

Ætlaði að komenta hjá Parísardömunni um að ég hefði aldrei gengið með barn, en uppgvötaði svo að ég hef gengið með barn. Í fanginu. Mörg börn. Mislangar, eða stuttar, leiðir. Sætti mig á að skrifa ég hefði aldrei verið ófrísk, en ég hef heldur ekki alltaf verið frísk. Joan Collins veit pottþétt um hvað ég er að tala, en það er þessi góða þarna sem mun sýna mér samúð.

þriðjudagur, 15. september 2009

Skitið og skeint

Varð það á að rýna í nýjasta tölublað Séð og Heyrt. Tók eftir því að sambands-slits-fyrirsagnirnar eru ekki lengur á þá leið að Ástin hafi slökknað, nú er það Fegurðin sem dofnaði.
Þokkadís Íslands virðist hafa gengið í hnappelduna, en skv. öruggum heimildum S&H grétu margir menn þarna um árið sem eiginmaðurinn nældi sér í hana. Hreinlega grétu.

Ég er auðvita bara hundöfundsjúk. Þokki minn, sem þó drýpur af mér, hefur hingað til ekki grætt menn. Og engum hefur dottið til hugar að kalla misheppnuð ástarsambönd mín dofnandi fegurð. Í ofanálag stínka ég í stærðfræði. Piff.

mánudagur, 14. september 2009

stæ-l

Eftir uppsögn og launa-taugaáfall stakk ég mér á bólakaf í blöndu af ofmetnaði og hofmóð. Ég reiddi fram nokkra tugi þúsundkalla í þeirri drambsömu vissu um, að nú yrði eigin akkilesarhæll yfirbugaður. Hef síðan þá verið í felum m.a. í skjóli utanlandsferðar og þagnar þegar kærastinn spyr hvernig miði. Habði mig loksins í að festa kaup á útjaskaðri, notaðri skruddu í gær með ólundarsvip og innvortis nöldri. Lokaði mig inni í herbergi til að líta í hana. Smellti henni jafnharðann aftur með enn frekari ólund og kvíðahnút ofan á innvortis nöldrið. 16 ár eru liðin síðan ég gafst upp og ákvað endanlega að stærðfræði væri með ömurlegustu fyrirbærum sem ég vissi um. Svei mér þá, ef hún er ekki bara ömurlegri en ég hélt.

Sat öfugu meginn í strætó í morgun. Umhverfið var fallegt frá öðru sjónarhorni. Haustið er gott.

laugardagur, 12. september 2009

Brönch



Er það ekki annars kallað brönch þegar árdegisverðurinn er etinn korter í tólf?
Styttist í síðdegiskaffið og innkaupalistinn ekki orðinn klár. Hmm.

fimmtudagur, 3. september 2009

Félagslyndi


Eftir að hafa smakkað til sósuna fyrir okkur, sá kötturinn um að skemmta góðum gestum sem heimsóttu okkur með myndasýningu í tölvunni


miðvikudagur, 2. september 2009

Mann-sal

Vinnudegi gærdagsins lauk snögglega um 2,5, ef ekki 3 klst fyrr, en áætlað var. Örlögin eru þó sjaldnast umflúin, ég loka búðinni í kvöld í staðinn. Myndarlegi maðurinn gerir sig breiðann og þykist ætla að toppa mig í fylltri svínakjötseldamennsku. Það mun honum að öllum líkindum ekki takast, þar sem nýtt svínakjöt verður varla verra en frostskemmt ársgamalt svín. Ég vona altjént ekki.

Fletti sparhefti sem borið var í hús í gær. 2 fyrir 1 á stórum kranabjór og aðgangseyri á Goldfinger. Heyrði í morgunútvarpinu að rannsókn hérlendis staðfestir að mannsal eigi sér stað á Íslandi. Stærstur partur, þó ekki allur, í kynlífsiðnaði.

þriðjudagur, 1. september 2009

Húsblanda

Átti svínakjöt í frysti sem ég ákvað loksins að gera e-ð við í gær. Tróð sneiðarnar fullar af furuhnetum, pestó, hvítlauk, steinselju og salvíu af miklum myndarskap. Fékk svo myndarlega manninn til að velta þeim upp úr hveiti og loka* á pönnu. Þaðan lá leið þeirra inn í ofn ásamt tómötum og lauk. Fyllingin fyllti vitin af ljúfri lykt en kjötið var ónýtt. Helst til mikið haft fyrir kvöldmat sem á endanum varð steiktar kartöflur, og síðar popp til að fylla upp í rúmið sem meðlætið náði ekki að metta.

Vinnudagurinn mun hefjast á Verslunarstjórafundi og enda e-r milli hálftíma til klst eftir lokunartíma búðar. Þar til nýt ég kaffisins, hlusta á vælið í kettinum og reyni að upphugsa góða afmælisgjöf handa góða pabba mínum.

*fínt kokkaorð yfir að steikja.

mánudagur, 31. ágúst 2009

Kjafta-vaðall

Austurlenski réttur gærdagsins varð að austurlenskri kássu kvöldsins, og aðsúgur gerður að Hannesi Hólmstein í vikunni sem leið. Ég á ekki mikla samleið með fólki sem mótmælir Æseif, en get ekki annað en tekið hattinn ofan fyrir fólkinu sem hrelldi kjaftaskúminn. það á að láta Hannes Hólmstein finna fyrir því hversu mikið samfélagsmein hann er.

Var annars að koma af stórfínum jazz-tónleikum á Rósenberg. Stórsveit Reykjavíkur flutti lög Toshiko Akiyoshi. Ætla að voga mér að vera doldið bjartsýn og láta mig dreyma um fjölmiðlabann á Hannes Hólmstein Gissurarson. Við eigum ekki að þurfa að þola eina spýju í viðbót úr vaðandi trantinum á honum.

laugardagur, 29. ágúst 2009

Húðleti

Bakarísmorgunmatur, sterkt kaffi og myndarlegi maðurinn. Kisuklapp, Bónus, bæjarrölt, pulsa með næstum öllu, súkkulaðikaka, bækur og myndarlegi maðurinn. Austurlensk eldamennska, kertaljós, heitt bað og myndarlegi maðurinn. Lítill sófi, faðmur, nasl og myndarlegi maðurinn.

Það er gott að vera latur þegar maður er búinn að ákveða að vera latur. Og það er gott að eiga góða kærastann minn sem myndarlega manninn.

miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Prieka

Habði mig á fætur til að borða morgunmat með jakkafataklæddum myndarlega manninum. Fór í rauðu hælana eins og alltaf fyrir morgunmat, en uppgvötaði í lyftunni ég hafði gleymt að greiða mér. Ég lét það ekki slá mig út af laginu og gúffaði í mig petite - croissants og vondu kaffi.

Er annars að hafa það ofsalega gott í Riga sem er "lítil" borg* og vinaleg. Búin að vígja rauðu Zöruskónna mína á opnunarkvöldi ráðstefnunar. Er í stuttbuxum dag hvern í brakandi sólinni. Búin að þræða allar litlu hliðargöturnar, dást að art nouveouinu, borða hefðbundinn Lattneskann mat, skrifa nokkur póstkort, fara í siglingu og á safn. Reyni að gleyma vaðandi trantinum á Hannesi Hólmsteini.

Fleiri söfn eftir. Best að kyssa vinnandi kærastann jakkafataklæddann með bindi, í NVF-bás í ráðstefnuhöllinni, áður en ég tek strikið yfir brúnna.

*auðvelt að rata

laugardagur, 22. ágúst 2009

Riga

Í tilefni af afmæli bróður míns er ég rokin til Riga á rauðum skóm.
Myndarlegi maðurinn ætlar að vinna, ég ætla að skemmta mér.

föstudagur, 21. ágúst 2009

Stella

Að öðrum og miklu skemmtilegri tíðindum. Þessi litla skotta hefur ekki bara fengið gott heimili hjá góðu fólki, hún hefur líka fengið skottunafnið Stella. Hún er ógó* sæt.

*Fyrir samheitaorðabókafólk: ógó er Vestmannaeyska.

fimmtudagur, 20. ágúst 2009

Fyrirgefðu

Vaknaði við hlægjandi Dr. Gunna að biðjast afsökunar í Morgunútvarpinu á 50.000,- kr. myntkörfuláninu sínu. Las svo bakhliðar-hrunleiðarann hans í Fréttablaðinu með Seriósinu. Mér finnst Dr. Gunni skemmtilegur og er löngu búin að jafna mig á útlitsbreytingum hans í kjölfar megrunar. Finnst satt best að segja eins og hann hafi aldrei litið öðruvísi út. Bara með skalla og rautt yfirvaraskegg.

Ég er þó hvergi nærri byrjuð að jafna mig á því siðleysi og spillingu sem vellur upp úr útrásargraftarkýlum fyrrum víkinga. Ég er hinsvegar komin nokkuð langt frá því að bíða, né heldur vilja afsökunarbeiðni frá einum né neinum. Innantómar afsökunarbeiðnir hafa öngva merkingu. Og siðleysingjar kunna ekki að iðrast. Ég vil sakfellingar. Og dóma. Og fyrrv. einræðisherra okkar í stofufangelsi. Svona eins og Pinochet Argentínu. Hann kemst þá ekki á mótmæli á meðan.

þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Lúffur & lax

Nændís er mætt í ráðuneytið. Já, Nændís, litla systir hennar Eydísar. Ég hef heyrt af því að tískan fari í hringi. Jafnvel þóst upplifa það. Veit samt ekkert hvernig ég á að bregðast við tískunni frá því ég var ung. Eða er það ekki örugglega bara tískan frá því ég var yngri..

Stend mig altjént að því að fletta hverri flíkinni af annari með hroðbjóðsgrettu á andlitinu. Og langar í aðra hvora flík.

fimmtudagur, 13. ágúst 2009

strætó.is

Ég er svo lánsöm að eiga myndarlegann kærasta sem á gyllta eðalkerru og nennir að sækja mig í vinnuna. Sér í lagi þar sem fimmtudagsopnun til 21:00 er aftur orðin að veruleika í Smáralind. Hefði annars orðið að bíða eftir 22:27 strætó-num. Væri ekki einu sinni komin heim.

Strætó er handónýtt, fokdýrt apparat.

laugardagur, 8. ágúst 2009

Petals

Nennti ekki að vera mætt 50 mín. fyrr í vinnuna í morgun. Ég ákvað því í stað þess að taka tvistinn minn eins og venjulega, að leggja í för með 15 og 24, sem skv. leiðarkerfi straeto.is áttu að koma mér í Smáralindina 12 mín. fyrir tilsettann tíma.
Leið 15 var á réttum stað á réttum tíma og bílstjórinn afskaplega kumpánlegur og hjálpsamur, lýsti ítarlega fyrir mér staðsetningu skýlisins Straums við Birtingarkvísl, þar sem aftur skv. leiðarkerfi straeto.is, ég átti einungis að þurfa að bíða í 4 mín. eftir leið 24.
Í Straum hitti ég fyrir konu á miðjum aldri og þar sem ég var á ókunnugum strætó-stöðum, ákvað ég að bjóða góðann daginn og spyrja út í ferðir 24. Konan tjáði mér að 24 væri nýfarinn. Ég leit á klukkuna sem sýndi að enn væri heil mín. í að 24 ætti að vera við Straum. Undrunin, vonbrigðin og örvæntingin hlýtur að hafa sést á smettinu á mér, því konan fór að spyrja mig hvert ég væri að fara og í áframhaldi að ég kæmist með fimmuni í Smáralindina.
Ég hljóp því af stað í næsta skýli eingöngu til að komast að því, að fimman væri ekki væntanleg fyrr en 6 mín. yfir heila tímann. Heila tímann sem ég varð að vera mætt í vinnuna til að opna ráðuneytið sem ég ber ábyrgð á þessa helgina.
Korter til stefnu og ég hljóp á appelsínugulu hælunum á N1 þar sem ég hringdi á Hreyfil-Bæjarleiðir og pantaði bíl. Ég þarf víst varla að taka fram að meðan á öllu stóð dembdi niður rigningu eins og skollin væri á kreppa. Hárið á mér var klesst aftur og bleiku gallabuxurnar límdar við lærin á mér er leigubílinn renndi að eftir skamma bið. Ég var komin á áfangastað 2 mín. í með óveðurský rjúkandi upp úr hausnum á mér, en sem betur fer aðeins 1 skjátu í bið eftir mér fyrir utan ráðuneytið.
Ég hélt ég hefði hrist af mér árans skýið með því hugarfari að fall væri faraheill og mín biði skemmtilegur dagur. Við vorum hinsvegar undirmönnuð í dag og allir sem ekki voru staddir á gay pride, voru staddir í Smáralind. Eins og dagurinn hefði ekki verið nógu pakkaður á opnunartíma, var að sjálfsögðu fólk skv. íslenskri hefð, að dóla sér við tuskuskoðun og hugsanleg innkaup langt fram eftir lokun ráðuneytisins. Ég varð því aftur að taka sprettinn á appelsínugulu hælunum eftir uppgjör dagsins.
Óskaði þess heitt ég hefði verið með myndavélina á mér er ég hlunkaðist niður í sætið í tvistinum mínum. Við fætur mér lá falleg hrúga af appelsínugulum rósablöðum, rétt si svona í stíl við fótabúnaðinn og blés endanlega óveðurskýinu úr hausnum á mér.

Hef og enda haft það afskaplega gott með kettinum í kvöld. Sakna þess að vera heima hjá mér, en sakna myndarlega mannsins þó enn og meira.

miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Bullíska

Enska, franska, íslenska og norska töluð í heita pottinum nr. 38 í Laugardalnum í kvöld.
Enska og langue d´Oc notuð í bókinni sem ég er að lesa.

Ætli þau haldi áfram að misnota þæfísku á þinginu eftir helgi..

mánudagur, 3. ágúst 2009

Minn frídagur.

Búin að drekka gott kaffi, nota hvíta pilsið mitt óspart, syngja í eldhúsinu, halda 3ja rétta matarboð, fara í göngutúr í Elliðaárdalnum, borðaði rjómavöfflur bakaðar í tilefni 57 ára brúðkaupsafmælis, kaupa bland í poka, horfa á danska mynd með íslenskum texta, nenna ekki á tónleika, drekka Euroshoppergos, fara í sund, koma hjólinu mínu í gott gagn, baka möffins, fara í bíltúr á Korputorginu,hafa gott fólk í kringum mig, lesa, lesa og lesa svo aðeins meira, setja myndir á fésið og borða tvo hamborgarara. *

Ég hef aldrei farið á þjóðhátíð í Eyjum og finnst lagið frekar korní, en svei mér ef lífið er ekki bara yndislegt.

*Rétt að taka fram að upptalingin á við líðandi helgi og er ekki í röð.

þriðjudagur, 28. júlí 2009

Helgin leið

Sumar freistingar er ekki hægt að standast, þrátt fyrir slæmar spár


sem er gott, ekkert hægt að kvarta undan veðrinu


mánudagur, 20. júlí 2009

Orð



List, erótík og tekíla 1959 er ekki sama og list, erótík og tekíla 2009.

laugardagur, 18. júlí 2009

Hárspennur

eru ekki bara brúklegar fyrir hár, til að halda saman blöðum og loka kaffipokum. Þessi ágæta spenna sá til þess ég kæmist á jazztónleikana á Jómfrúnni í góða veðrinu í dag, og alla leið heim aftur. Fótgangandi að sjálfsögðu.

sunnudagur, 28. júní 2009

Lagt í ´ann

Jakkafataráðuneytið er á síðustu metrum undirbúnings fyrir talningu og útsölu. Undirbúningur hefur gengið vel og ég hef fulla trú á því góða og duglega fólki sem ég vinn með. Ég er þó ekki frá því að hafa dulitlar áhyggjur. Af hverju nákvæmlega veit ég ekki alveg. Ég ætla þó að gera mitt besta að henda þeim út um bílgluggann á leiðinni norður. Ég hef ekkert með þær að gera norður á Strandir. Og það er búið að pakka.

laugardagur, 27. júní 2009

So beautiful, but oh so boring

Fórum og viðruðum okkur fyrir kvöldmat. Löbbuðum meðfram ströndinni eins og myndarlegi maðurinn segir. Meðfram sjónum eins og ég segi. Ég var að prufukeyra gönguskóna hennar systur minnar. Heppin ég á eina góða Boggu að sem notar svona líka svipaðar stærðir og ég. Myndarlegi maðurinn prufukeyrði nýju flíspeysuna sína. Fer honum afskaplega vel. Varð nánast rauðhærður aftur í henni. Veðrið var yndislegt og nýja flíspeysan fór honum líka afskaplega vel hangandi yfir annari öxlinni.

Spínatkjúklingakarrí mallar með Einfaldlega Rauðum. Kreppan er bærilegri í góðum félagsskap.

miðvikudagur, 24. júní 2009

Órange

Myndarlegi maðurinn mætti samviskusamlega á slaginu fimm í jakkafataráðuneytið til mín í gær. Fagleg álitsgjöf hans á vali mínu á einkennisfatnaði jakkafataráðherra var ómetanleg. Að auki kom hann mér verulega skemmtilega á óvart með stílista-næmni sinni, en hann valdi heilt skópar galeinn



Myndarlegi maðurinn - minn er smekk-maður.

mánudagur, 22. júní 2009

Bæjarins bestu -

Fyrsta helgin með búðina að baki. Ekki erfitt að setja sig í gamlar stellingar. Helgin því nánast tíðindalaus, fyrir utan reyndar að 18 ára stelputetur sagði mér; hún bara þolir ekki þessa helvítis Vinstri græna, eina sem þeir vilja er að allir séu bara jafnir. Mig langaði að slá hana og hrista hana svo, en spurði þess í stað hvort framtíðaráform hennar væru að vera æðri okkur hinum. Fékk lítil svör og efast um hún hafi dottið ofan á þessar pólitísku skoðanir á eigin spýtur. Vona þó sannarlega hún muni í framtíðinni hugsa fyrir sig sjálf og komast raunverulega að því hvað jafnrétti er og þýðir. Að öðrum kosti má hún ílengjast í láglauna búðarstarfi fyrir mér.

Myndarlegi maðurinn bauð mér út að borða á laugard.kvöldið. Biðin var heldur löng eftir matnum en vel þess virði; ég þreytist aldrei á að glápa á þennann myndarlega mann sem nennir að vera kærastinn minn í ofanálag. Maturinn var líka góður.
Ég bætti svo um betur og bauð myndarlega manninum líka út að borða í gærkveldi.

sunnudagur, 14. júní 2009

Endurfundir

Tæmdi uppskriftaeldhússkúffuna og sorteraði í Wham-möppuna mína í kvöld. Kjöt, pasta, grænmeti, sósur, sallöt, brauð, kökur, drykkir. Drullumallið hennar mömmu, kakósúpan hennar ömmu, lasajnað hennar Boggu, jógúrtkökurnar hennar Míu og fullt, fullt meira. Puttana klæjar í að elda og kverkunum þyrstir í rauðvín. Þorstinn gæti þó einnig stafað af kvöldlöngu söngli með hljómplötunum mínum. Dr. Hook, Grease, ABBA, Paul Young, Dido, Jimi Hendrix og George Michael á 45 snúningum. Nærbuxur til þerris á ofninum og grasið hinumegin við gluggan sumargrænt. Indælt.

sunnudagur, 7. júní 2009

Foj!

Fórum að viðra okkur í úðanum í dag. Ætluðum einhverja allt aðra leið en venjulega, en enduðum á Súfistanum sem er ekki lengur Súfistinn. Valdi mér að ég hélt dýrasta blaðið í búllunni, rúmar 4.700,- kr. ljósmyndablað. Með því splæsti myndarlegi maðurinn á mig Sviss Mocca með hvítu súkkulaði. Ég var marskarafrjáls og myndarlegi maðurinn í kattaháraflíspeysu. Ég saup verulega varlega á hvíta súkkulaðinu til að engin hætta yrði á ég sullaði neinu á rándýrt blaðið sem ég tók mér að láni með moccanu. Saup hinsvegar hveljur á útleið er ég uppgvötaði tískublöð sem bera nafnið Details. Eins og nafnið gefur til kynna einblína þau á díteila í tískunni. Þið vitið, stækkuð mynd af vasanum á kápunni sem fyrirsætan á rönvei-inu er í, eða eyrnalokkurinn í eyranu, nælunni í barminum eða líningunni á hanskanum. Alger nauðsyn hverrar konu fyrir aðeins Kr. 7. - 9.000,- tölublaðið.

Sóaði annars 114 mínútum í nótt við Basic Instinct 2 gláp. Ég hafði svo sem ekki gert mér vonir um annað en hún væri slæm. En hún var ekkert slæm. Hún var arfa vond.

föstudagur, 5. júní 2009

Utan-dyra

Dagurinn minn nýtur þess í botn að liggja á fótum myndarlega mannsin, í kjöltunni á mér, rúmum barnanna, ofan á púðum, nýþvegnum dúkum og í gluggakistum. Í þau 10 ár sem ég hef verið samvistum með skepnunni, hef ég þó aldrei vitað til þess hann svæfi utandyra.


Kötturinn Dagur virðist hafa orðið fyrstur í úti-legu af ábúendum og áhöngu Samtúns.
Veðrið var vonandi milt í nótt. 


mánudagur, 25. maí 2009

Lhasa de Sela

Fór á sallafína tónleika í gærkveldi. Á ballstaðnum Nasa. Ég er alveg sátt við að dilla mér á dansgólfi Nasa á balli með td. Páli Óskari eða Sálinni. Mér leiðist hinsvegar ógurlega að vera boðið upp á að standa af mér tónleika á ballstað. 
Tónleikarnir í gær voru jafnljúfir og þeyttur bláberjarjómi. Eitt uppklapp í viðbót og ég hefði gengið út. Mínir 34 ára gömlu fætur voru alveg búnir að fá upp í klof.

þriðjudagur, 19. maí 2009

Mont - pont

Þrátt fyrir að hafa sótt Söngskólann óreglulega og háð veiklulegt einvígi við lágdeyðuna, komst ég að því í gær ég væri önnur hæsta í 1. stiginu með einkunina níu. (lesist: já, þetta er mont)
Mér var einnig boðin stöðuhækkun í vinnunni. 1.júlí nk. tek ég formlega við verslunarstjórastöðu jakkafataráðuneytisins (lesist: deildarstjóri herradeildar) og næ að jafna 40% launatapið.

Verð þó enn að bíða til mánaðarmóta til að komast raunverulega að því, hversu mjög lukka mín hefur styrkst með hækkandi sól. Maður á víst að vera viss um þegar allt gengur of auðveldlega, að maður sé ekki að fara niður hæðina. 

miðvikudagur, 13. maí 2009

To -

Myndarlegi maðurinn aftur erlendis. Sem betur fer bara yfir nótt.
Skrýtið þegar tilvera manns snýst um eina ákveðna manneskju.
Ég er lánsöm að tilvera mín snúist um myndarlega manninn.

þriðjudagur, 12. maí 2009

VR

Þegar ég var 17 ára og vann sem hlutastarfsmaður á kassa í ónefndri verslun, voru orð eins og; "það er ætlast til" og "þú verður" óspart notuð til að fá okkur til að bæta á okkur frekari vinnu. Þetta virkaði í e-n tíma þegar ég var 17 ára. Passlega lengi þó. 
Nú, þegar ég er orðin 34 ára, er ég búin að komast að því að þessir frasar eru enn til innann verslunargeirans, og óspart notaðir. Það vill bara svo illa til að ég læt ekki segja mér hvað ég verð að gera.

mánudagur, 11. maí 2009

orða-vant

Taldi u.þ.b. 480 mínútur í dag. Bara 2.200 eftir fram að næsta frídegi. Langt síðan ég hef upplifað ömurleika mánudags.

Nauðsynlegt geðheilsunnar vegna að eiga sætasta kærastann, sem bíður manns brosandi í glugga í rigningu og roki.

sunnudagur, 3. maí 2009

Væl

Á morgun fer ég í 1.stigs söngpróf í Söngskólanum. Mig kvíðir fyrir. Hef í sjálfu sér ekki mestar áhyggjur af söngnum, heldur tónfræðinni og nótnalestrinum. Frá því ég byrjaði upphaflega hafa allar forsendur fyrir náminu breyst. Ný atvinna með nýjum vinnutíma og nýrri staðsetningu, hefur gert mér nánast ókleift að stunda námið sem skyldi. Mér hefur tekist að hitta söngkennarann minn og undirleikarann fyrir elskulegheit þeirra, og vilja til að hagræða tíma sínum fyrir mig. Allt annað hefur mætt afgangi, sem hefur því miður ekki verið mikill. Þar af leiðandi er ég á morgun að undrbúa mig fyrir 1.stigið, en ekki grunndeildarpróf, sem ég annars var farin að stefna að. Hætt að syngja Haydn og Brahms. Einfaldar vögguvísur og Óli og hundspottið hans tekið við. Mig langar að vera bjartsýn og uppörvandi og helst af öllu hlakka til líka, en átta mig á því betur og betur hversu lítið ég raunverulega er farin að melta allar breytingarnar. Er í raun bara enn að gleypa þær. 

Í ofanálag hef ég svo áhyggjur af svínaflensueinkennum sem farin eru að hrjá mig. Er að vísu ekki farin að hrína enn, en ét eins og svín nánast hvern dag. 

sunnudagur, 26. apríl 2009

afi

I´m laid down to rest
under a bed of flowers
I don´t want to let go
but it´s not in my power
I want to see the apples
that have cherised my eyes
I ache to see the apples
that are growing as I die

I´ve had my share of luck
I´ve made all the mistakes
It´s now time for a journey
in a world without hate
I´ll watch over my apples
& stroke away their tears
ready with my open arms 
to greet them when their here

So I lay myself to rest
under a bed of roses

föstudagur, 24. apríl 2009

sunnudagur, 19. apríl 2009

laugardagur, 18. apríl 2009

muuuu

Hef hingað til ekki verið sérlega impóneruð af mjólkur-fernu-ljóðunum, en þessi finnst mér ágætur



(pisst - smelltu á myndina til að lesa ljóðið)

föstudagur, 17. apríl 2009

Raunverulegur raunveruleiki

Þjóðkirkjufrídagarnir voru reglulega indælir



Er enn að reyna að jafna mig á launa-tauga-áfallinu

fimmtudagur, 2. apríl 2009

Ofur-laun-in

Fékk 126.000,- útborgað. Greiðsluþjónustan heimtaði 137.000,- Ég myndi ekki endilega kalla mig bjartsýnismanneskju. Svartsýnismanneskja er ég hinsvegar ekki. Þess vegna skar ég niður rauðlauk, hvítlauk, grænar ólafíur, tómata, rauða papriku og sveppi í staðinn fyrir að skera mig á púls. Mallaði þessu saman við túnfisk, dósatómötum með basil, spaghetti, væli kattarins og íslenskum djassi. Borið fram með parmeson, heitu brauði og rauðvíni. Notið í félagsskap myndarlega mannsins. 

Enda átti ég smá aur á reikningnum mínum sem brúaði bilið. Í þetta sinn. 

mánudagur, 30. mars 2009

Teen-inspírismi

In youth it was a way I had
& do my best to please
to change with every passing lad
to suit his theories 

But now I I know the things I know
& do the things I do
& if you do not like me so
to hell my love with you

Dorothy Parker

föstudagur, 13. mars 2009

snip

Mér fannst komið nóg af neikvæðum breytingum í lífi mínu. Svo ég ákvað að búa til eina skemmtilega.



Af því það er kreppa fékk ég mömmu til verksins. Breytingar eru góðar. Sér í lagi ef maður ákveður þær sjálfur.

föstudagur, 6. mars 2009

Dejligt

Fyrir tveimur vikum, upp á dag, skrapp ég til útlanda. Ég þurfti að viðhalda ákveðinni afmælishefð ákveðinnar frök-enar. Af því það er kreppa lét ég myndarlega manninn vinna fyrir fargjaldinu. Lá svo inni á hálaunuðum leiksólakennara sem fóðraði mig á öl og rjóma. Það var indælt.

Er annars upptekin við lestur á appelsínugulri mörgæs frá föðurbróður mínum, milli þess sem ég mæti í jakkafataráðuneytið og dæsi yfir mannkostum kærastans. 

þriðjudagur, 3. mars 2009

Moi

Myndarlegi maðurinn og ég eigum einn hlut sameiginlegann; við erum bæði hrifin af mér.

mánudagur, 2. mars 2009

why?

Var rétt passlega að teygja hendina í nýlagað kaffið, þegar ég uppgvötaði að strætókortið hefði líklegast orðið eftir í Skaftahlíðinni í gær, í úlpuvasanum á úlpunni sem ég klæddist í síðustu viku. Ekki bara rauk ég frá ósnertu kaffinu með hárið ógreitt, ég þurfti líka að skafa af bíl myndarlega mannsins sem ég tók í fyrirfram vitandi leyfi í leyfisleysi, til að bruna á milli húsa. Það er vandlifað að eiga svona sætann kærasta sem maður sogast að eins og tappi við tíkars-rassgat. En kaffið er gott.

Sat límd yfir svikamyllu Enron í gærkveldi. Komst ekki hjá því að finna óþægilega samlíkingu. Komst ekki heldur hjá því að velta því fyrir mér af hverju menn eru ekki enn látnir bera ábyrgð og svara fyrir gjörðir sínar. Rétt eins og Enron-dúddarnir þurftu að lokum að gera fyrir sína svikamyllu.
Eins og ég er búin að eyða orku í að hneykslast á framferði Davíðs Oddsonar, er ég þegar upp er staðið, ánægð með það hafi þurft að svæla hann út úr Seðlabankanum, að hann skyldi sýna sitt sanna einræðisherra-andlit til loka. Ég leyfi mér að vona ég þurfi aldrei að sjá andlit hans í samhengi við pólitík aftur. Og fyrst ég er byrjuð að vona, þá vona ég það sama eigi við um Hannes Hólmstein.

miðvikudagur, 25. febrúar 2009

húmbúkk

Vann til 19:00 í gær í jakkafataráðuneytinu. Missti af strætó. Hringdi í sæta kærastann minn sem bjargaði mér frá því að sitja í kltíma á strætóbekk. Inni í bíl myndarlega mannsins ómaði talandi fallandi einræðisherra. Ég reyni á hverjum degi að hugsa sem minnst um þá staðreynd að kreppan beit mig óþægilega í báðar rasskinnarnar í formi uppsagnarbréfs á sl. ári. Uppsagnarbréf sem hefur það í för með sér að þrátt fyrir að hafa keypt íbúð á skynsamlegu verði, eigi ekki bíl og borgi ekki afnotagjöld, þá mun 40% launatap gera það að verkum að ég mun ekki halda íbúðinni minni með neinum góðum hætti. Þess fyrir utan að vera dottin aftur um ein 15 ár í tíma, vinnulega séð, og sjái mér ekki fært að halda söngnámi mínu áfram, en það var vissulega eitt af bruðlinu mínu í öllu neyslufylleríinu sem ég þarf nú að bera ábyrgð á.

Nú bíð ég spennt eftir því að fjölmiðlar, af einhverskonar óþreytandi þrá, dragi hinn síþreytandi Hannes Hólmsteinn fram í kastljósið landanum til sí-endurtekinnar skemm-tun-ar. Þá ætla ég að gleðjast sérstaklega yfir því að eiga ekki sjónvarp. 

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Þriðji í afmæli

Gestgjafinn mælti með Betty Crocker í bústaðinn. Ég hlýddi og greip þurrefnapakkablöndu með í afmælis-bústaðar-helgina við Meðalfellsvatn. Afraksturinn kúventi öllum mínum tilbúnumamerískummatvörumípakka-fordómum, og súkkulaði-Bettí sómdi sér vel sem afmælisterta tveggja vatnsbera í eftirrétt á Valentínusarkvöldi



Á milli þess sem ég fór í pottinn, las  Ofsa, spilaði Sequence og naut félagsskaparins, át ég eins og skollin væri á kreppa og hver máltíð væri mín síðasta. Afskaplega ljúft.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Ha?

Sl. laugardag mætti myndarlegi maðurinn án mín á mótmælin á Austurvelli. Ég var bundin við nýju vinnuna mína. Ég var ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort ég myndi  mæta á mótmælin við Seðlabankann kl. 08:00 í fyrramálið, en ég hreinlega sé mér ekki annað fært!

Geð-veiki er enn eina orðið sem mér dettur til hugar. Að öðru leiti orðlaus.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Strætó.is

Í strætó í dag var miðaldra kona á hækjum. Hún fór inn á sömu stoppustöð og ég. Hún skakklappaðist aftast eins og ég. Hún fór út á stoppistöðinni á undan mér. Ég hugsaði með mér hvað hún væri dugleg að ferðast svona ein í strætó, á hækjum. Ég var líka ein á ferð, enda á leið í vinnuna. Ég var í rauðu kúrekastígvélunum mínum. Mér tókst að detta út úr strætó á minni stoppistöð. Kylliflöt. Velti því svo fyrir mér í allann dag hvaða gæfa hlyti að bíða mín handan við hornið. Og viti menn, myndarlegi kærastinn minn sótti mig í vinnuna, óumbeðinn, 3ja daginn í röð, fór með mig í bíó og kaupti stærsta poppinn handa mér. Þess fyrir utan skellihlæ ég ennþá er ég hugsa um sjálfa mig að hrynja út úr tvistinum. 

Ætla að spara mér hinn brandara dagsins sem átti sér stað þegar kötturinn datt ofan í baðkarið hjá mér fyrr í kvöld. 

mánudagur, 2. febrúar 2009

Fleh

Sl. 4,5 ár hef ég unnið á karlavinnustað þar sem hlutfallið var einfaldlega; ég var eina konan.
Í dag byrjaði ég á nýjum vinnustað þar sem hlutfallið er einfaldlega; við erum allar konur.
Það er doldil breyting.

föstudagur, 30. janúar 2009

SBA

Það er skrýtin tilfinning að taka til í tölvunni "sinni" eftir 4,5 ár.
Það er líka skrýtin tilfinning að vera sagt upp, þó ástæðan sé ekki "persónuleg".
Bakpokinn minn er líka þyngri en venjulega eftir tiltektina í skrifborðinu "mínu".

Gott að geta labbað beint héðan í tíma með undirleikaranum og fá hálftíma söng-þerapíu.
Í kvöld ætla ég síðan að elda góðann mat, drekka gott rauðvín og halda upp á þetta allt saman með myndarlega manninum.

miðvikudagur, 28. janúar 2009

Nýtt lýðveldi

Það snjóar og snjóar og snjóar, og Davíð situr og situr og situr.
Það lítur út fyrir að tími Jóhönnu Sigurðar sé kominn, en við þurfum klárlega áhrifameiri breytingar en einungis kosningu í vor.

þriðjudagur, 27. janúar 2009

Mörður týndi tönnum

Meira að segja bleiki slúðurhaninn segir frá falli ríkisstjórnarinnar.

Ég hefi annars enga eirð í mér til að óttast hvað nú taki við hjá blessaðri tíkinni. Er of upptekin við að óttast ekki bara þá staðreynd að ég syng á námsmatstónleikum í kvöld, heldur bauð ég líka myndarlega manninum á þá.

föstudagur, 23. janúar 2009

fimmtudagur, 22. janúar 2009

JBJ

Sjálfstæðismenn ættu að þakka Jóhannesi Birgi Jenssyni persónulega fyrir að vera flokksbundinn, og taka þor hans sér til fyrirmyndar.

þriðjudagur, 20. janúar 2009

Like a Virgin

Af hverju má Madonna ekki líta út eins og hún sé fimmtug?
Rosalega er ég leið á því það sé ekki í lagi að eldast.
Ég var svo leið á að heyra sífellt þann lélega brandara um að; ú, ég væri að verða þrítug eins og ég fengi e-a holskeflu í andlitið við að færast yfir á annann tug, að ég ákvað að halda ekki upp á það. Hins vegar hélt ég upp á 31 árs afmælið mitt með pompi og prakt til að fagna því, ég væri loksins komin á fertugsaldurinn. Ég veit ég er enn bara þrjátíuoge-ð, en ég er samt búin að ákveða að taka hverri hrukku fagnandi og halda áfram að hlægja eins og ég get, þrátt fyrir hlátur-hrukkurnar sem gætu setið eftir við það. Ég bíð ennþá spennt eftir fyrsta gráa hárinu mínu og skil reyndar ekkert í því af hverju það lætur bíða svona eftir sér. Ég ætla nefnilega að halda góða veislu þegar það birtist.
Það að bera aldur sinn vel þýðir ekki að vera svona unglegur þrátt fyrir aldur. Það þýðir að bera aldur sinn með reisn. Í mínum heimi altjént þýðir það það.

Ég er annars rokin í söngtíma og þar á eftir þramma ég beina leið niður á Austurvöll!

sunnudagur, 18. janúar 2009

Mót-mæli

Eftir mótmælin á Austurvelli í gær fór ég í útskriftarveislu bróður míns. Þar var maður sem hélt því fram að mótmælin væru tilgangslaus; hann hefði heyrt allar ræðurnar, það væri sífellt verið að nota sömu ræðumenn, uppástóð að Lárus Páll Birgisson hefði þegar talað 3-4 sinnum á Austuvelli og hvatt til ofbeldis. Maðurinn var með þetta allt á hreinu. Samt hafði hann aðeins mætt á 2 fundi. Af 15. Annar maður í veislunni fannst mótmælin líka tilgangslaus; hann heldur því fram það skipti ekki máli hvort eða hvenær við kjósum, við fáum bara það sama. Þessi maður hefur aldrei mætt á mótmælin. Enda hlýtur það að segja sig sjálft að meðan þú-hann-hún-við-þið gerum ekki neitt, þá einmitt gerist nákvæmlega ekki neitt.

Ég er annars afskaplega stolt af litla bróður mínum, sem útskrifaðist frá Háskóla Reykjavíkur í gær. Mér fannst Arndís Hulda dásamleg á útskriftartónleikunum sínum. Poppið í Háskólabíó var gott með fallega útsýninu í Refnum & barninu, og það var notalegt að sötra bjór með myndarlega manninum í notalega sófanum á Café Rosenberg á leiðinn heim.

þriðjudagur, 13. janúar 2009

Hvaða sími?

Myndarlegi maðurinn gaf mér dagbók í gær. Mér finnst voða gott að eiga svona skruddu yfir árið, punkta niður hvað eina sem mér dettur í hug, en sem betur fer hef ég líka vit á að fleygja þeim þegar notagildið er búið.

Einu sinni fór ég í skólann en gleymdi skólatöskunni heima.
Ég hef líka farið með erlenda pennavinkonu mína í Bláa Lónið og gleymt sundfötunum mínum heima. Uppgvötaði það að sjálfsögðu ekki fyrr en ég var búin að týna af mér hverja spjör og stóð allsber inní klefa. Sem minnir mig reyndar á það að síðast þegar ég fór í Sundhöllina og var komin undir sturtuna, þá uppgvötaði ég að ég hafði gleymt sundfötunum í klefanum. Þegar ég fór aftur til að sækja þau uppgvötaði ég svo að ég hafði farið í allt annann klefa en lykilinn "minn" gekk að. Sem betur fer hafði ég ekki gleymt handklæðunum í læstum klefanum líka.
Ég var líka fremur gjörn á að gleyma lyklunum mínum í útidyrahurðinni í Hólaberginu, föður mínum til mikillar gleði. Tók mig mörg ár að venja mig af því. Þegar það loksins tókst byrjaði ég að gleyma þeim heima, föður mínum til mikillar gleði, sér í lagi þegar ég var að koma heim af djamminu. Vorum reyndar komin með ágætis sístem sem ýmist snérist um að hann fleygði húslyklum hálfsofandi út um gluggann þegar ég dinglaði, eða það var tiltækt skrúfjárn rétt innann við þvottahúsgluggan svo ég gæti skreiðst þar inn.
Í dag tek ég þetta nánast allt út á síma-appartinu mínu. Blessunarlega veit ég sjaldnast hvar hann er og heyri því í fæstum tilvikum í honum þegar hann hringir. Hins vegar finnst mér alveg skelfileg vanræksla af hálfu kærastans, að gefa mér ekki skýr svör í hvert skipti sem ég spyr: hvar er síminn minn??

Annars held ég ég sé bara nokkuð minnug. Man altjént ekki eftir öðru.