þriðjudagur, 30. september 2008

Oní-skúffu

Kæró var góður með sig eftir kæró-færsluna og uppástóð ég væri löngu komin með skúffu, þar sem ég stæli sokkum frá honum án þess að blikna.
Sokkastuld hefur fylgt mér lengi; var strax á táningsaldri búin að ákveða með sjálfri mér að ég og pabbi ættum sömu sokkaskúffuna, þ.e.a.s. hans inn í svefnherbergi foreldra minna. Ég er orðin svo sjóuð í sokkastuld að ég er ekki enn þá búin að átta mig á því, hvernig ég fór að því að stela sokkum af Birni mág mínum.
En þar sem ég er ekki lengur táningur heldur orðin að ungling, á ég orðið þó nokkuð safn af mínum eigin herra-sokkum, í minni eiginni skúffu í eigins svefnherbergi.
Það sem kæró í fyrstu virtist ekki átta sig á, en ég benti honum að sjálfsögðu góðfúslega á er, að ég tek sokka ÚR skúffunni hans og set Í mína skúffu. Sem aftur þýðir að kæró-lumman er komin mun lengra en ég í þessu sambandi, og þegar kominn með skúffu í minni ponkuskons sýnishorn af íbúð.

Svona svipað og að telja sig viðskiptavin ónefnds banka, en vakna svo upp við það að vera orðinn einn af mörgum eigendum hans..

mánudagur, 29. september 2008

Hnútur

Ég er kvíðin. Veit ekki alveg af hverju.
Ekki heldur hvort það er slæmt eða gott.

fimmtudagur, 25. september 2008

miðvikudagur, 24. september 2008

Lúða

Var heima í gær. Eina gáfulega sem ég gerði var að gefa kattar-ræskninu túnfisk. Honum virtist líða vel.







Í morgun beið mín svo stráheilt músar-rahgat fyrir utan svefnherbergisdyrnar. Að öllum líkindum hefur hjartað svikið hana og hún í kjölfarið gefið upp öndina. Kæmi mér þó ekki á óvart ef kattar-skömmin hefur komið þar við sögu.

En – ég átti þetta skilið.

mánudagur, 22. september 2008

Klukk - kukl

4 störf sem ég hef unnið
Markaðsfulltrúi - SBA Norðurleið
Verslunarstjóri - Steinar Waage
Verslunarstjóri - Mango
Framkvæmdastjóri - Myndstef

4 bíómyndir
Fast Forward
The Little Mermaid
Play it Again Sam
Desperately Seeking Susan

4 staðir sem ég hef búið á
Ólafsgeisli
Hólaberg
Marlboro
Gröf

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar
Sex & the City
Family Guy
The Simpsons
Forbrydelsen

4 síður sem ég skoða daglega fyrir utan blogg
mbl
Facebook
Flickr
Söngskólinn

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum
Rekavík bak Látur
Nýfundnaland
Den Haag
San Francisco

4 matarkyns
Soðkökur
Appelsínur
Pasta
Kartöflur

4 bækur
Meistarinn og Margaríta - Mikhaíl Búlgakov
Ofvitinn - Þórbergur Þórðarson
Skræpótti Fuglinn - Jerzy Kosinski
Sagan Endalausa - Michael Ende

4 óskastaðir akkúrat núna
Péturs-faðmur
Íbúðin mín
Skúrinn
Í nuddi

4 bloggarar sem ég skora á að svara þessari könnun
Magga systir mín
Tómas
Kalli
Urður

Takk fyrir klukkið Ragna!

föstudagur, 19. september 2008

Ótrúlegt!

Var ágætlega undir-búin fyrir tímann með undir-leikaranum mínum. Kórtíminn á eftir var skemmtilegur. Hjásvæfan mín var yndislegur eins og hann á að sér að vera, og eldaði fyrir mig kvöldmat þegar skólinn var búinn. Ég nennti þó ekki að skrölta með honum á Ölið að hitta Ara frænda. Ég hugsaði mér gott til glóðarinnar, tók með mér rauðvín og bók í rúmið og hrúgaði öllum 3 koddunum undir hausinn á mér. Eftir 2 rauðvínssopa og u.þ.b. heila málssgrein var ég sofnuð.

Þau sem þekkja mig vita, að orðatiltækið allt er vænt sem vel er rautt hentar mér prýðisvel. Ekkert skrýtið í sjálfu sér að hjásvæfunni hafi brugðið við þessa sjón í morgunsárið.


fimmtudagur, 18. september 2008

Súpa

Eftir allt góða yfirlætið í boði hjásvæfunnar, og þá staðreynd að ég mundi ekki lengur hvenær ég hefði síðast eldað, ákvað ég að ganga úr skugga um ég kynni enn þá list að elda eftir uppskrift. Fiskisúpa Eddu systir hennar Rögnu varð fyrir valinu. Rögnu kann ég miklar þakkir fyrir góða hjálp og fiskisúpan, sem er sú fyrsta sem ég hef mallað en þó ekki sú síðasta, var ljúffeng!
Ég ákvað að dekra köttinn í leiðinni með soðnum fisk og smotterís humar. Afslappelsið á eftir var algjört – enda fiskur hollur og góður:



Er annars stokkin heim í upphitaða fiskisúpu og smotterís æfingar, verð að vera vel undir-búin fyrir undir-leikarann í kvöld.

mánudagur, 15. september 2008

Hreinlega

þoli ekki þegar þetta gerist u.þ.b. – akkúrat – nákvæmlega þegar ég er við það að pressa mér fulla könnu af rjúkandi kaffi!



Kann samt ágætlega við Mánudaga.

laugardagur, 13. september 2008

Túr-hestur

Laugardag fyrir viku var mér boðið að fljóta með í Gullhring. Þau eru ekki ófá tilboðin sem ég hef gefið í akkúrat þennann hring, svo ég þáði boðið og brá mér í gervi túrista. Vegagerðin var rausnarleg sem fyrr og bauð þessum annars indæla hóp Skandinava, upp á eðal íslenska náttúru.


föstudagur, 12. september 2008

Talandi um bréf

þá fékk ég ansi skemmtilegann snepil frá KB banka um daginn. Þeir vildu nebbla endilega fá að gera tilboð í bankaviðskipti mín. Sérdeilis elskulegt af þeim, sér í lagi þar sem ég seldi Landsbankanum sálu mína fyrir ríflega ári síðan í formi fasteignalána.
Ég er ekki nógu mikil bjartsýnismanneskja til að ýmynda mér að KB banki bjóðist til að borga upp öll mín lán, mér að kostnaðarlausu. Sé því fram á að láta féfletta mig áfram þar sem ég er.

fimmtudagur, 11. september 2008

Trú-boð?

Ég hef heyrt margar sögur af ýtnum vottum í dyragættum heimila. Ég hef hins vegar aldrei heyrt talað um Votta sem skilur eftir handskrifað bréf. Þetta beið mín þó í póstkassanum er ég kom heim í gær:




Ég efast um að Gerda viti að ég stend utan trúfélaga og hafi þess vegna ákveðið að skrifa mér bréf. Mig grunar frekar að þar sem nafnið mitt stendur eitt og sér á bjöllu, ýmyndi Gerda sér að þessi eymingjans einstæðingur þrái ekkert frekar, en hlýða orðum biflíunnar í einmannaleika sínum.

Gerda mín/minn, ég vona þú fáir þín sölulaun á himnum. Ég hins vegar er of upptekin við að mæta í skólann og hanga utan um háls hjásvæfunnar, til að sitja heima og bíða eftir þér.

miðvikudagur, 10. september 2008

Lopi

Blautir sokkar á ofninum og frúin komin í ullarsokka.



Sumarið er búið. Finn best fyrir því í fingrunum.

þriðjudagur, 9. september 2008

Veit fátt óþægilegra

en að hnerra undir stýri.

Man enn hversu sársaukafullt það var að hnerra með brákað bringubein.

mánudagur, 8. september 2008

Hamingja - í hnotskurn..

Var spurð í gær hvort ég væri hamingjusöm.
Í stað einfalds jáeðanei-svars svaraði ég fyrir mig með spurningu, sem ég reyndar geri doldið oft og er eiginlega frekar leiðinlegur ávani.

Er hamingja gleði eða er gleði staðgengill hamingju. Er hamingja að vera sáttur við og með sjálfa-nn sig. Er hamingja tilfinning sem aðrir veita manni. Er hamingja að vera glaður með hlutskipti sitt. Er maður hamingjusamari ef maður hugsar ekki svona mikið um hvað nákvæmlega hamingjan snýst.

Hvernig veit maður að maður er hamingjusamur?

þriðjudagur, 2. september 2008

Dui, dui, dui -

Það að labba úr skemmtilegum en krefjandi tíma, í yndislegu September-veðri aftur í vinnuna, gerir restina af deginum svo mun ánægjulegri. Held það hafi einhvað með gleði að gera.

Nema það hafi verið allt jóðlið í gær.

mánudagur, 1. september 2008

LGL

Ég var einu sinni spurð að því hver væri uppáhalds ofurhetjan mín. Ég var ekki lengi að hugsa mig um og svaraði; pabbi minn.
Ástæðan er einföld - pabbi minn hefur alltaf gert allt sem hann getur fyrir mig. Hann leyfir manni alltaf að bleyta mola í kaffinu sínu, skríða uppí á morgnana til að kúra, hjálpar manni að flytja, þurkar manni í framan með tóbaksklút ef maður grenjar, gerir við þvottavélina manns og er óspar á faðmlög. Svo hefur hann líka gaman af því að syngja Gunna var í sinni sveit þegar hann rakar sig. Það besta er að þó ég stækki er ég enn þá litla stelpan hans.

Í dag á pabbi minn afmæli – og hann er enn uppáhalds ofurhetjan mín.