miðvikudagur, 11. nóvember 2015

Bleikt á bleikt

Þó konan sé skrykkjótt í bloggi þá er eldamennskan í nokkuð stöðugum takti. Í gærkvöld var bleikt á bleikt. Eftir að hafa barið allt vit úr svínasnitzelsneiðum lagði ég svín á svín og bætti osti við áður en ég braut sneiðarnar saman



Svo svona af því við eigum nokkra dunka af brauðraspi af því sá myndarlegi þreytist aldrei á því að safna gömlu brauði í rasp, þá veiddi ég kornfleksrest uppúr skúffu sem ég muldi og saltaði síðan og pipraði. Snitzelsneiðunum dýfði ég því næst í pískuð egg áður en ég dembi þeim í kornfleksið


Eftir að hafa klínt stórri smjörklípu á hverja sneið og hent eldfasta mótinu í ofninn dró ég samansafn af kartöflum úr skúffu í ísskápnum, skar niður, setti í skál og hrærði saman við ólífuolíu, salt og oreganó


30 mínútum splæst á kartöflurnar í ofninum, 40 á snitzelið


Sá myndarlegi var svo huppulegur að koma heim úr ræktinni með rósavönd handa eiginkonunni


sem sómdu sér vel með bjórglöðum snitzelfeðgum


laugardagur, 19. september 2015

Mús í glasi

2 matarlímsblöð sett í kalt vatn og látið standa í korter


150 gr dökkt súkkulaði og 50 gr rjómasúkkulaði fínt saxað, ef þið trúið mér ekki getið þið bara séð fyrir ykkur sjálf hvað það er fínt hjá mér


200 ml rjómi hitaður að suðu


Vatnið kreist úr matarlíminu og því næst dembt í aðsuðuhituðum rjómanum, blandað vel saman og því næst hellt yfir súkkulaðið sem var svo fínt, þið munið


rétt sést hvað súkkulaðið er fínt


Úr þessu er svo ekkert annað að gera en blanda hinni heilögu þrenningu vel saman


Því næst er 300 ml af léttþeyttum rjóma bætt við súkkulaðirjómasuðumatarlímsblönduna


og varlega blandað saman, varlega….


skóflað í glös og fyrst ég átti bláber þá ákvað ég að henda eins og einu á hvern topp


Þá er bara að finna pláss í ísskápnum


fimmtudagur, 17. september 2015

Hlustaðu fordómalaust

25 ár síðan þessi breiðskífa var gefin út



Öllum þessum árum síðar gefur hún ekkert eftir á fóninum. Georg kom almennt ekki fram í myndböndunum sem gerð voru við lög þessarar breiðskífu. Ef þú ýtir hér opnast slóð að myndbandinu sem hann gaf út fyrir fyrsta lag plötunnar. Ég mæli með því að þú gerir það, boðskapur lagsins á engu minna erindi í dag en þá. Meira ef eitthvað er.

miðvikudagur, 16. september 2015

Uppfærð jól

Heyrði jólatónleikaauglýsinguna aftur í dag. Svelgdist reyndar ekkert á kaffinu þar sem ég er nú orðin vön því að eiga von á að heyra auglýsingu tengda jólum eins og sjálfsögðum hlut í miðjum september. Taldi ekki heldur í þetta sinnið hversu oft orðið jól kom fyrir en heyrði voða sætan jólalagstúf sem ég kannaðist við, sönglaði jafnvel glaðbeitt með. Síðan heyrði ég niðurlagið í auglýsingunni og það hljómaði ekki einhvernveginn á þá leið; jólin eru komin. Ég heyrði skýrt og greinilega að niðurlagið er; jólin eru að koma. Og ég sem rauk til og hringdi í karlinn og skipaði honum að sækja jólaskrautið og svo eru jólin bara rétt si svona einhversstaðar á leiðinni! Ekki get ég hringt í karlinn og sagt honum að fara með allt heila klabbið lóðbeint niður í kjallara aftur, ég er búin að skreyta allt heima svo hvað geri ég nú?

þriðjudagur, 15. september 2015

Kvefkvart

Ég er með kvef og það er leiðinlegt. Veit annars einhver hvort svona græja fæst í Ikea?


mánudagur, 14. september 2015

Svelgdist á kaffinu í morgun.

Kvefið? Nehei! Snöggbrá og svelgdist á kaffinu þegar ég heyrði auglýsta jólatónleika í útvarpinu. Sko, JÓLAtónleika. Náði ekki að telja hversu oft þulurinn sagði jól þar sem ég barðist við að hósta kaffisopanum niður, náði rétt svo niðurlaginu í auglýsingunni sem var eitthvað á þessa leið; jólin eru komin. Jahá, það er nefninlega svoleiðis og ekki seinna vænna fyrir konu að fá þessar upplýsingar, ég hringdi að sjálfsögðu lóðbeint í karlinn og sagði honum að hundskast niður í kjallara og sækja allt jólaskrautið. Hver þarf svosem á fallegu hausti að halda þegar hressasti tími ársins er genginn í garð. Nú skal hátíð haldin í bæ


ZzZzZzZz

Vaknaði upp af værum dagdraumi við hvissið í espressóvélinni og ákvað að fá mér ristað brauð með smjöri og hunangi. Með dísætum flugnasykri flögrar hugurinn um sykurlendar dásemdarlífsins sem bílífi einnar konu býður upp á í faðmlagi ástar til myndarlegs manns. Dagdraumar flögra áfram um ambögulausa tilveru, laus við meinfýsnum stingjum, bitru blaðri, hugsýkisþvaðri, taumlausu bílífi biturðar og sjálfsóánægju sem á hvergi heima nema hjá sjálfri sér, kramin ofan í keramik eða kaldastríðsleir.

Best að fá sér ábót á kaffið. 

Daglegt líf í Samtúni













Framkvæmdir ganga



sunnudagur, 13. september 2015

Vaknaði með aðra nösina stíflaða.

 Hafði  mig á lappir og hellti uppá kaffi. Fann fyrir sviða í hinni nösinni sem leiddi uppí slátt í gagnauganu. Drakk kaffið hóstandi með stíflað nefið ofaní bók. Setti í mig síðbúinn síðdegisverð hnerrandi. 

Dreif mig á lappir eftir hressandi síðdegislúr (lesist: 2ja tíma svefn) í leppa og út í haustið. Gekk taktföstum skrefum yfir í Norðurmýri, tók slenið með mér yfir Klambratún, gekk Hlíðar í hægagangi heim.

Er alveg að fíla þessa hauststillu á veröndinni


en ætli það sé ekki skynsamara fyrir kvefaða konu að demba sér í heitt bað með kaffirestinni

fimmtudagur, 10. september 2015

Haustið er ekki á leiðinni kæru landar

það er þegar komið með fallandi laufum


fallegri birtu


og skemmtilegum skuggum


Eftir dásemdar haustheimgöngu dembdi ég svörtu kínóa í pott


mýkti salvíu og lárviðarlauf í smjöri


hveitipúðraði bleika bleikju


og steikti roð í stökkt


Kínóa undir rós


var dálaglegt í félagsskap við bleikjuna


og Heilög Klara fullkomnaði þrenninguna


Prýðis uppskrift að fallegu haustkvöldi.

þriðjudagur, 26. maí 2015

Hvítasummuhelgi

Nú þegar löng helgi er liðin með óeigingjörnu ofáti, evróvisjóni, bílferð á Selfoss, göngutúr í sund, örlitlu sólskini en aðallega rigningu, sumarblómum og bókalestri, almennum hlátri, gráti og gnístan tanna sér kona sér ekki fært um annað en að hlakka til stuttrar vinnuviku.
Og blogga já, mikil ósköp.