mánudagur, 31. maí 2010

Kæra Sigurbjörg Katla

fékk persónulegt bréf frá Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í dag. Hanna Birna borgarstjóri sem ekki virtist geta beint augnaráði sínu að sjónvarpsáhorfendum í kosninga-auglýsingu sinni, virðist fullfær um að senda persónuleg bréf til Reykvískra kvenna. Eða þannig.
Í persónulega bréfinu mínu, þar sem ég er ekki bara "kæra", heldur líka "þér, þín, þínum og þig," biður Hanna Birna mig að setja X við D af því að þau hafa ekki hækkað skatta þar sem fjölskyldurnar mega ekki við meiri útgjöldum, þau hafna niðurskurði sem bitni á börnum og öldruðum, þau standa vörð um störf fastráðinna borgarstarfsmanna og þau gera kröfu um að skólar, leikskólar og þjónusta við eldri borgara sé framúrskarandi.
Hanna Birna Kristjánsdóttir áttar sig ekki á því að kæra Sigurbjörg Katla er einstaklingur. Kæra Sigurbjörg Katla á ekki börn, er ekki í skóla, er ekki borgarstarfsmaður og er ekki á leiðinni á ellilífeyri í náinni framtíð. Mér, mín, mínum og mig skilur ekki hvernig hægt er að komast hjá því að hækka skatta án þess að hækka útgjöldin annarsstaðar, útgjöld sem einstaklingurinn ég þarf e-r að gjalda.
Ég ber vissulega von um velferð öllum til handa og átta mig fyllilega á að ég tilheyri heild. Fjöl-póstur hentar vel til þess að höfða til liðsheildar minnar. Dulbúinn, persónulegur fjölpóstur hinsvegar gerir það ekki.

Fyrir nú svo og utan að kæra Sigurbjörg Katla kaus sl. laugardag, og hvorki hún né mér, mín, mínum og mig X-ar við D-ið.

sunnudagur, 30. maí 2010

SÞF

Mamma mín prjónar, heklar, sníðir, saumar, föndrar og klippir hár jafn auðveldlega og ég drekk eitt vatnsglas. Ég erfði ekkert af þessum eiginleikum frá henni, enda 3 systur á undan mér í röðinni. Ég kann ekki heldur að búa til uppáhaldsmatinn minn, en það gerir ekkert til; soðkökurnar eru einfaldlega langbestar hjá mömmu. Hún gerir líka langbestu rjómatertuna og langbesta drullumallið. Hún nennir líka stundum að gera sér ferð í Smáralindina til að borða með mér hádegismat, leyfir mér að þykjast eiga allar ABBA plöturnar hennar og hún á afmæli í dag

föstudagur, 21. maí 2010

LHL

Hallveig systir mín á afmæli í dag



Hún hefur náð hinum árlega áfanga að verða aftur elst í systkinahópnum. Ekki amalegt það.

sunnudagur, 16. maí 2010

Ariel

Ég hafði mig með einbeittum viljastyrk í gegnum viðlagið, enda lagið á allra stelpna-vörum í Zöru-heimi. Held mér hafi svei mér þá hlakkað meira til að glápa á annan hring af sömu sílikon-syrpunni, en hlusta fram að öðru viðlagi. Ég leyfi mér stórlega að efast um að röddin sé stolin. Ekki bara vegna þess að ásakanirnar komu fram í Skitið og skeint*, og ekki heldur vegna þess að vanillu-bomban svaraði fyrir sig í Fréttablaðinu. Ónei. Af hverju í ósköpunum ætti nokkur sála að stela þessari rödd?! Það má vel vera að vanillu-bomban sé ekki öll alveg ekta, en vitlaus er hún ekki. Ef hún ætlaði sér að stela held ég hún hlyti að stela e-u betra, hún hefur jú stíl.

Svo er ekkert hægt að stela rödd. Ég reyndi það áðan og greip í tómt. Myndarlegi maðurinn masar enn.
Hinsvegar er hægt að gera sér-samning við vondar haf-flyðrur um að láta röddina sína í skiptum fyrir fætur. En þá þarf maður líka að hafa armennilega rödd.

*Séð og heyrt.

fimmtudagur, 6. maí 2010

Veruleikar

Í frí-veruleikanum í Skotlandi þorði ég ekki að spyrja hversu stór Large kaffibolli væri, þar sem Medium var álíka stór og langleitt andlitið á mér


og myndarlegi maðurinn drakk svo mikinn T að hann ummyndaðist í bjór stuttu áður en við yfirgáfum Skot-landið


Vika flogin af raun-veruleikanum. Mér hlýnar í kvöldbirtunni og kitlar af væntanlegu sumri.