mánudagur, 12. júlí 2021

Sól, sól skín á mig, lúsmý burt með þig!

Sólbruni á enni, nefi, höku, bringu, handleggjum, læri og hnjám. 32 lúsmýsbit. *Stundum bítur lífið konu í rassgatið. Þá er ekkert annað að gera en að bretta upp ermar og rísa upp yfir erfiðleikana, hverjir svo sem þeir gætu reynst vera. 

Fínt að sofa ein í tjaldi á Kleppjárnsreykjum (fyrir utan lúsmýið reyndar) með A-hýsi foreldra minna á vinstri hönd og tjald Harðardætra á hægri hönd. Fjölskylduútilegan í ár var góð eins og flest önnur ár á undan, fjölskyldan og enda sallafín. Systurnar Sunna og Daney tjölduðu fyrir mig á meðan ég át eðalborgara í boði Björns mágs. Hallveig litla systir mín hljóp yfir tjaldsvæðið til að fljúga upp um hálsinn á Kötlu stóru systur (þrátt fyrir að ég er yngsta stelpan í mínum systkinahópi, ((ég veit, þetta er flókið)). Mamma og pabbi héldu óslitnum kaffiflaumi gangandi ofan í liðið að vanda. Sátum í blíðviðrinu í gær og hlógum og töluðum. Sum okkar brunnu, önnur voru skynsöm og báru á sig sólarvörn. Apótek Magga mágs var opið með Lavanderspreyji til varnar bitum og smyrslum til að slá á kláða eftir bit.

Eftir sólríkan dag snöggkólnaði um kvöldið og úlpur, lopapeysur, húfur og jafnvel teppi birtust. Hálfkalt rauðvín drukkið úr plastglösum á fæti. Íslensk útilega í hnotskurn? Já, er það ekki bara.

Spilaði Kubb í fyrsta skipti á ævinni. Lygi náttúrulega, rámar í að hafa spilað þetta áður í einhverri fjölskylduútilegunni þar sem spilafélagarnir (ekki ég sko) hafi verið töluvert ölvaðir en engu að síður gengið nokkuð vel, allavega mikil stemming (á eftir að fá þetta staðfest). Endaði á að spila 3 leiki og sló svo Kónginn niður með slíkum tilþrifum að hálf fjölskyldan grenjaði af hlátri, hinn helmingurinn pissaði á sig af hlátri.  

Í kjölfar veikinda getur ýmislegt gerst, það veit frúin núna. Á slíkum stundum er fátt betra en að eiga góða fjölskyldu að sem styður við bakið á konu þrátt fyrir aldur og fyrri störf. 


*Hafandi sagt það vil ég taka skýrt fram að engin bit fundust á hvorugri rasskinn frúarinnar.