fimmtudagur, 24. desember 2020

Hugheilar allt um kring

Mamma er búin að reka mig í rúmið, ekki af því að ég sé óþekk, ég á að hvíla mig svo ég geti vakað í kvöld til að opna pakka. Þetta kallar hálf fimmtug kona umhyggju í lagi. Nú sit ég því upp við dogg í rúminu undir rauðri sæng, í rauðum náttfötum, með rauðan hitapoka. Það eru nú einu sinni jólin. 

Á jólum í fyrra var ég nýflutt í nýja íbúð, fráskilin og reiðubúin að vinna bug á meinsemdum sem herjað höfðu á líf mitt í meira en áratug, hætt að berja höfðinu við steininn. Það sem mig grunaði ekki þá var að innvortis meinsemdirnar voru ekki einungis andlegar, þær voru líka líkamlegar. Meinið sem ég losnaði við fyrir viku hafði fylgt mér allann tímann, ef ekki lengur. Eftir ársvinnu í sjálfri mér, með sjálfri mér, skaut krabbameinið upp höfðinu og kannski bara á réttum tíma, ég stóð keik uppi, bein í baki, með sjónar á sjálfri mér.

Rétt eins og fyrir ári síðan þá óx mér ásveginn með þéttann vegg fjölskyldu og vina mér að baki. Ástin, hlýjan, kærleikurinn og stuðningurinn hefur verið órjúfanlegur þáttur í lífi mínu frá því ég tók stökkið, með galopin augu, og ómetanleg gjöf sem ég er svo lánsöm að vera minnt rækilega á í valhoppi mínu áfram í gegnum lífið. Fyrir það er kona þakklát og meyr á jólum sem og aðra daga.

miðvikudagur, 23. desember 2020

Sex göt, einn skurður

Æðin í vinstri handleggnum á mér neitaði að sýna samstarfsvilja og mótmælti hástöfum er svæfingalyfið byrjaði að seytla inn í hana. Þetta er ekki góður staður heyrði ég svæfingahjúkkuna segja rétt áður en hún stakk mig í æð við úlnliðinn á mér. Bráðum verð ég sofnuð hugsaði ég og þá þarf ég ekki að velta mér upp úr því. Rétt þar á eftir fann ég þungann í augnlokunum og upplifði einu eiginlegu vímuna á nýhafinni sjúkrahúsvist.

Svaf vel og vaknaði vel. Rifin á lappir, nýkomin uppá deild, til að þramma fram og aftur ganginn með göngugrind á undan mér og hjúkrunafræðing á sitthvora hlið. Eftir annann svipaðan spássitúr var nóg komið, æddi sjálf fram ganginn með dren á hjólum í vinstri hendi og sænskan sálfræðitrylli í þeirri hægri. Milli þess sem ég gekk spítalaganginn og dormaði í spítalarúmi með gluggaútsýni gauluðu garnirnar eins og ólgusjór. Strax morguninn eftir náði ég aðal markmiðinu og gott betur, allt heila kerfið hrökk í gang. Laus við drenið en áfram á fljótandi fæði hélt ég áfram að þramma ganginn, kláraði sænska spennutryllinn og dembdi mér í norkst drama. Iðkaði þakklæti, spreðaði kurteisi, brosti eins og hamslaus bestía og lagði mig eins oft og mig lysti. 

Á þriðja degi fékk ég fyrstu föstu máltíðina, steik í hádegismat takk fyrir, hökkuð í ofanálag, með brúnni sósu og allt. Fékk stuttu síðar að hringja í pabba minn og biðja hann um að sækja mig, formlega útskrifuð með hálfan bókakostinn lesinn og 25 cm minni ristil, illkynja krabbameini léttari.

Síðan er heil vika flogin hjá. Hér heima held ég uppteknum hætti, geng um gólf, spæni í mig bækur, tek lyf samviskusamlega, legg mig eftir þörfum. Mamma og pabbi nostra við umönnunarbómullina og leysa það verk sérdeilis vel af hendi, hlýjan umlykur mig og umhyggjan er þétt ofin. 

Á morgun rennur stóri pakkadagurinn upp en sumar sannar gjafir er ekki hægt að pakka inn.

fimmtudagur, 10. desember 2020

Af fimmtugri frú og köttum

Best að setja blómin í vasann sem þú gafst mér í fyrra í afmælisgjöf sagði systir mín. Með hæfilegri fjarlægð rifjuðu hún og mágur minn upp hliðargötuna í París þar sem þau snæddu kvöldverð fyrir ári síðan. Sjálf minnti ég þau á að ég hefði fylgst með Kókakólalestinni djöflast með hávaða framhjá blokkinni þeirra með blikkandi ljósum frá svölunum. Fyrir ári síðan var lestarverkfall í París og vont veður á Íslandi. Reyndum ekkert að rifja það upp hvenær við hefðum hist síðast enda flaug tíminn hjá í spjalli um eitthvað allt annað og skemmtilegra. 

Af öðrum góðum fréttum dagsins þá eru þessi tvö tveggja ára í dag 


miðvikudagur, 2. desember 2020

Af bakstri og matseld

Þar sem ég stakk forminu inní ofninn mundi ég eftir vanilludropunum sem áttu að fara í deigið. Ekki að það kæmi að nokkurri sök, samstarfsfélagarnir átu hana upp til agna án þess að kvarta. Þ.e.a.s. að undanskildum Kínverjanum sem harðneitaði svo mikið sem að smakka herlegheitin; ég ekki borða köku, ég bara borða *ljómaköku sem mamma þín búa til. Það var og.

Mamma og pabbi komu brunandi í bæinn á föstudagsmorgni til að keyra yngstu dóttur sína í rassaskoðun og sækja hana líka. Mamma eldaði mat og talaði um bækur, pabbi mældi olíuna á bílnum og talaði um pólitík. Saman drukkum við heljarins ósköp af kaffi, töluðum um veðrið og kettina. 

Á mánudegi voru 2 rjómatertur framreiddar á kaffistofu Melabúðarinnar. Á þriðjudagsmorgni sagði mamma mér að fara varlega í hálkunni og pabbi varaði mig við vindhviðum. Sjálf drifu þau sig aftur vestur, á undan vonda veðrinu. Eftir langann vinnudaginn var heldur tómlegt að stíga inní foreldralausa íbúðina mína. Báðir litlu pottarnir mínir voru þau sneisafullir, annar af kartöflustöppu og hinn af drullumalli. Mamma gerði sér lítið fyrir og eldaði fyrir yngstu dóttur sína áður en hún fór.

Í gær var því upphitað sem og í kvöld og verður aftur annað kvöld. Það var og.

*Hafið þið tekið eftir því hvað Kínverjar eiga erfitt með að bera fram err? Ef ekki og þið þekkið íslenskumælandi Kínverja þá ragmana ég ykkur til að biðja sá hinn sama um að segja; rómverskur riddari réðist inn í Rómaborg og hámaði í sig rjómatertu.

fimmtudagur, 26. nóvember 2020

Skítleg færsla

Að pissa með rassinum, það hef ég nú reynt. Jú, víst eru einhverjir þarna úti sem hafa svipaða reynslu. Ristilskoðun á döfinni hjá frúnni, ekki seinna en á morgun. Yfirmaður minn harðbannaði mér að drekka skituseyðið í vinnunni og skipaði mér að drulla mér heim, sagði að ég myndi ekki vilja keyra heim í hægðum mínum. Núna er ég honum þakklát, hann hafði rétt fyrir sér.

Hver hefði getað trúað því að Maggi Suppe buljong væri svona gómsætt? Að kona tali ekki um Lemon Gatorade, bara eins og að drekka eðalvín af stút get ég sagt ykkur. Sumir gera þetta nú bara tvisvar á ári ef ekki oftar sagði mamma í símann, það er víst svo hollt að fara í svona hreinsun. Já, akkúrat.

Þrátt fyrir tæra fæðið hef ég alfarið látið vodkann í frystinum eiga sig. Hvort að það var skynsamleg ákvörðun verður að vera ráðgáta áfram.

sunnudagur, 22. nóvember 2020

Hingað og ekki lengra!

Vaknaði snemma í gærmorgun, allavega fyrir mitt viðmið. Vaknaði enn fyrr í morgun. Klemmdi saman augun og reyndi að halda áfram að sofa en hugurinn fór óðara á flug. Reisti mig upp við dogg, teygði mig í bók á náttborðinu og kveikti á lampanum. Eftir að hafa teygað fyrsta kaffibolla dagsins ákvað ég að titill bókarinnar sem ég var að lesa væri vel við hæfi. Þrátt fyrir malandi og mjúka ketti í bælinu reif ég mig á lappir, sönglaði lagstúf undir sturtunni, neri kremi á allann kroppinn á eftir. Valdi skyrtuna litríku sem ég keypti í London fyrr á árinu, raðaði á mig skartinu frá búðinni við endann á tröppunum í París, setti á mig maskara sem ég keypti í ferjunni frá Buenos Aires til Úrúgvæ og smurði á mig varalit sem mamma gaf mér fyrir einhverjum árum. Smeygði mér í fínu rauðu eightís kápuna hennar mömmu, smellti svarta hattinum hennar ömmu á hausinn á mér og tók svo strætó niður í bæ.

Fékk gluggaborð á Kol þar sem ég snæddi himneskann brunch, hlustaða á vinina á næsta borði rabba um hve mjög þeir söknuðu matarferðanna til London, drakk kampavínsglas, mændi út úm gluggann, stillti mig um að benda félögunum á næsta borði á að prófa Nopi næst er þeir kæmust til Lundúna, pantaði mér annað kampavínsglas, hélt áfram að kýla magann með óstjórnlega góðum mat, las og pantaði mér kaffi. 

Fyrst ég var komin niður í bæ ákvað ég að fá mér göngutúr, margir mánuðir síðan ég flutti til uppsveita Reykjavíkur og langt síðan ég hafði spókað mig um á slóðum sem áður voru mínar heimaslóðir. Fyrsta sem ég heyrði var fuglasöngurinn. Því næst heyrði ég í kyrrðinni. Bærinn sem ég gekk um í dag er ekki sami bærinn og ég gekk reglulega um í fyrir bráðum ári síðan í ríflega 15 ár. Bærinn sem ég var vön að ganga var yfirleitt fullur af fólki, erlendu jafnt sem íslenskum, fólki sem gekk heim eftir vinnu eins og ég, fólki sem spókaði sig um bæinn um helgar í spássitúrum, fólk sem stoppaði til að heilsa vinum eða anda að sér súrefni, mæna í búðarglugga og spá í matseðla, íhuga hvort tími væri til að fá sér kaffi eða glas af víni. 

Þar sem ég stóð og mændi á styttuna af Jóni Sigurðssyni fann ég að mér var mál að pissa. Smeygði mér inní bókabúð og komst að því að á kaffihúsunum þar er einungis hægt að fá kaffi í mál, sumsé til að taka með sér, en mér var mál. Fékk náðarsamlegast að komast á klósett. Fannst ég í framhaldinu skuldbundin til að kaupa bók en þar sem ég eigraði um og skoðaði áhugaverða bókatitla áttaði ég mig á því að það eina sem mig langaði til var að vera uppí rúmi heima, með malandi, mjúka ketti og góða bók.

þriðjudagur, 17. nóvember 2020

Ertu lestrarhestur?

 spurði konan konuna. Já, ég er mikill lestrarhestur svaraði síðarnefnda konan enda nýbúin að vinna sér inn einhverja nýútgefna skruddu með því að hringja inn í þáttinn. Æðislegt svaraði þáttastjórnandinn, þú ert þá vel að gjöfinni komin, hvaða bók er á náttborðinu hjá þér núna? Ja, ég er nú reyndar ekki að lesa neina bók í augnablikinu, svaraði konan. 

Mér til gamans taldi ég bækurnar á náttborðinu mínu þegar ég kom heim, þær reyndust 27 talsins. Ein á dönsku, tvær á ensku, restin á íslensku. 13 skáldsögur (þar af 4 með sögulegu ívafi), 6 krimmar, 4 ljóðabækur (þar af 3 áritaðar af höfundi til yðar einlægrar), 3 barnabækur og 1 raunsæissaga bóksala. Níu bækur eru eftir íslenska höfunda, sex eftir Breta, tvær eftir Svía, Norðmenn, Þýskara og Rússa, ein eftir Dana, Úkraíana (er það orð?) og bóksalinn raunsæi er Skoti. 6 af þessum bókum eru með bókamerki (ég sem lofaði sjálfri mér því að lesa aldrei fleiri bækur en 3 í einu), 3 hef ég lesið áður en ætla mér nú að lesa aftur. Tvær eiga að fara í jólapakka, þrjár hef ég að láni, restina á ég sjálf. 

Eins gott að ég hringdi ekki inn í þennann þátt í dag, ég hef víst ærin bókaverkefni á náttborðinu, annað en þessi kona þarna sem ég heyrði í í útvarpinu í dag, eins gott að hún vann sér inn bók, hún er jú líka svo mikill lestrarhestur. 

fimmtudagur, 29. október 2020

Títanik

Ætli það séu ekki ein 22 ár síðan ég fór með þáverandi kærasta í bíó að sjá stórmyndina Titanic. Svaðaleg stórmynd og svaðalega löng að auki. Engu að síður fór ég aftur í bíó nokkrum dögum síðar að sjá sömu svaðalegu stórmynd með ömmu minni. Eins og það væri nú ekki nóg þá fór ég örfáum dögum enn síðar í 3ja svaðalega sinnið að sjá sömu svaðalegu mynd. Ég veit, svaðalegt alveg, ég meina, við erum að tala um einhverja 9 kltíma allt í allt sem ég gerði mér ferð og greiddi fyrir að sjá Titanic í Háskólabíó. Ekki að ég hafi verið neitt svaðalega svag fyrir að fara í þetta 3ja skipti en amma var svo stórhrifin í hennar fyrsta skipti (mitt annað sumsé) að hún bara varð að komast aftur með Döggu systur sinni sem bara varð að sjá þessa stórmynd. 

Titanic var sýnd í bíóhúsum Reykjavíkur um vetur. Það veit ég vegna þess að ég tifaði yfir snjó og klaka með þær systur hangandi á sitthvorum handlegg. Reykjavíkurdæturnar Hallveig (fædd 1920) og Dagbjört (fædd 1919), báðar með hatt á höfði (enda á leið að sjá stórmynd í kvikmyndahúsi), hlógu sig í keng yfir að ríghalda í 23ja ára stráið mig enda sáu þær systur alveg fyrir sér að ef annarri hvorri þeirra myndi skrika fótur þá myndu þær auðveldlega kippa mér niður um leið.  

Já, frábær minning en eftir þessa 3ju ferð í bíó sór ég þess eið að ég myndi aldrei horfa aftur á Titanic. Hef og enda staðið við það í þessi rúm tuttugu ár. Þ.e.a.s. alveg þar til um síðustu helgi en þá varð mér það á að kveikja á sjónvarpsræflinum (stórhættulegt athæfi) og hvað haldið þið ekki annað en að Titanic hafi verið á dagskrá á DR1. Hugsaði með mér að það væri nú kannski í lagi að rétt kíkja á ræmuna (svona getur kona mildast með aldri). Komin niður í miðja mynd (að ég hélt) var ég farin að bölsótast út í sjálfa mig fyrir að standa aldrei við neitt sem ég segði, ég ætlaði jú aldrei að mæna á þessa sv*<"%**?!! ræmu aftur. Þegar ég ákvað að nú hlyti að fara að sjá fyrir endanum á þessu tók ég ákvörðun um að ég væri búin að horfa of lengi til að hætta við. Það sem ég vissi ekki þá var að enn var klukkutími eftir. 

Nú hef ég svarið þess rándýrann eið að ég muni aldrei, aldrei, horfa aftur á Titanic, það sökkvandi skip. Hlýt að halda það út í önnur tuttugu ár eða svo.

laugardagur, 24. október 2020

Kampavínslegin lifur og bleik læri

Í gær var alþjóðlegur dagur kampavínsins. Eins og alþjóð veit á ég ávallt kalda kampavín inni í ísskáp. Ætlaði því aldeilis að spretta tappa úr Ekkju sem beið mín heima eftir vinnu. Sauð fisk handa kisunum og hugsaði um að drekka kampavín. Kveikti á kertum og las nokkra kafla í bók og hélt áfram að hugsa um að fá mér kampavín. Ætlaði að elda silungsflak í appelsínuengiferchillimaríneringu en endaði á að hita upp plokkfisk. Hugsaði með mér að kampavín væri eflaust engu síðra með plokkfiski og að ég þyrfti ekki að drekka meira en 1 glas þó að ég opnaði flöskuna, því er teskeið fyrir að þakka. Nema sérkennileg þreyta var kampavínslöngun yfirsterkari (ótrúlegt, ég veit) og ég var sofnuð fyrir tíu.

Þar sem ég vil alls, alls, alls ekki að fólk fari að trúa því að ég fái mér ekki kampavín við hvert mögulegt og ómögulegt tækifæri þá spretti ég tappanum af Ekkjunni núna áðan, staðráðin í að fá mér kampavínskokteil fyrir matinn, kokteil sem inniheldur tekíla, ylliblómalíkjör og bleikan greipaldinsafa, hrist saman, og fyllt upp með kampavíni. Nema ég átti ekki bleikan greipaldinsafa. Hins vegar á ég bleikt greipaldin tónik svo ég skellti því bara í kokteilhristarann, smellti á mig rauðu kokteillúffunum, og byrjaði svo að hrista og hristi svo aðeins hressilegar og svo að sjálfsögðu skaust lokið af kokteilhristaranum og blandan puðrast útí loftið og upp um veggi og út um allt eldhúsborð. Jú, það er víst gos í tóniki.

Svo lengist lærið sem lifrin átti minn fyrrverandi til með að segja og kannski eitthvað til í því. Um þessar mundir er heilt ár liðið síðan ég sat með honum á skrifstofu sýslumanns og fór fram á skilnað; ekki af því að ég væri hætt að elska hann, ég var bara búin að átta mig á því að ég yrði að elska mig meira. 

Svo lengist lærið sem lifrin.

sunnudagur, 6. september 2020

Hindberjarunnar tveir dansa með rokinu, rósir drjúpa regnvotar.

Sólin glennti sig í allann gærdag og frúin fór ekki út fyrir hússins dyr. Nema að svaladyrnar teljist með; eyddi deginum að mestu úti á verönd, stússaðist lítillega í blómum en sat að mestu í garðstól með hatt á höfði (keyptum í Úrúgvæ), sólgeraugu á nefi (keyptum á Siglufirði) og þeyttist í gegnum afar áhugaverða bók eftir japanskann rithöfund.

Í dag hamast veðrið við haustið og frúin var að koma úr göngutúr. Ég kann vel að meta veður, beljandi rokið hressir andann og blaut rigninginn hreinsar hugann. Allavega minn. Sit við eldhúsborðið, endurnærð, með kaffi í bolla og kveikt á kertum. Birta og Bjössi liggja makindaleg á bleikum sófa. Rondó ómar lágstillt í eyru frúar með veðurroða í kinnum og værð í hjarta.

Það er eitthvað við veður sem mér þykir svo heillandi, þessi þverstæða að njóta þess að æða út og leyfa roki og rigningu að belja á sér og njóta þess síðan jafn vel að sitja inni í húsi, komin aftur í náttföt með köld læri og kaldar kinnar, hamagang veðurs fyrir utan, róina hið innra.

laugardagur, 5. september 2020

Tikk tokk, tikk tokk

Ég er hætt að líta á klukkuna um helgar þegar ég vakna. Mér kemur tíminn ekki við þegar ég er í fríi. Teygi út hendi í von um mjúkan kisukropp til að strjúka. Hin hendin teygir sig yfir á náttborðið. Það er fátt sem raskar lestrarró nema þá helst kaffiþörf en henni er frúnni ljúft að gefa eftir. 

Það er hungrið sem á endanum hefur mig á fætur, hungur sem farið hefur úr blíðri gælu um að gott væri að nærast yfir í yfirþyrmandi þörf sem malar hærra en kötturinn sem hringar sig upp við mig og æpir yfir orðin sem ég renni yfir á blaðsíðu bókar. 

Búin að vökva beðin í garðinum mínum. Búin að drösla öllum blómum heimilisins út á verönd og vökva og sturta. Búin að tína nýjustu berin beint uppí mig. Búin að dæsa og andvarpa og dæsa svo aftur af óhaminni hamingju af veðri og verönd og veröld sem frúin er að skapa sér sjálf.

Í sambúðinni með sjálfri mér er ég að læra að ég má gera það sem mér einni langar. Ég þarf ekki að gera eitthvað eitt til að gera eitthvað annað. Ég þarf ekki heldur að gera eitthvað annað til að gera svo eitthvað eitt. Ég má einfaldlega gera það sem mér sýnist og það er einmitt það sem ég ætla að gera í dag og líklegast á morgun líka. Legg ekki meira á ykkur. 

þriðjudagur, 11. ágúst 2020

Fugl, frí, faðir

Vaknaði upp við skræka skræki á undan vekjaraklukkunni í gærmorgunn. Hentist fram úr rúminu og náði í hnakkadrambið á Birtu rétt u.þ.b. sem bróðir hennar hentist inn um kattalúguna. Bæði fengu þau að dúsa inni í gestaherbergi á meðan ég hlúði að fuglsanganum sem hafði sem betur fer skrækt mig á fætur á undan vekjaranum. Anginn var blessunarlega ómeiddur en ofandaði skiljanlega. Eftir sturtu og skál af ab-mjólk sá ég fuglinn hefja flugið út í frelsið, sem betur fer.

Ríflega vikufríi lauk í gærmorgun, fínasta frí, en þar sem ég gerði fjandakornið ekki neitt þá fannst mér hálft í hvoru bara léttir að mæta aftur í vinnuna. Ætlaði mér að elta fossa í 3ja daga göngu með FÍ um Verslunarmannahelgina. 3ja daga gangan var svo stytt í 2ja daga göngu þar til óbermis Covid-táningurinn náði yfirhöndinni og förinni var frestað með öllu. Óttast nú helst að Ferðafélag Íslands sé búið að setja frúna á svartann lista.

Í fríinu afrekaði ég þó að sofa út á hverjum degi, knúsa kisurnar, lesa glás af bókum og elda góðan mat. Fór m.a.s. í göngutúr, alla leið í Spöngina, til að kaupa mér ís í Huppu. Takk fyrir. Labbaði reyndar aftur í Spöngina til að kaupa mér sérbakað vínarbrauð en, það er önnur saga, önnur gönguferð. 

Fór líka í bíltúr, í allt annað bæjarfélag, til að kaupa mér bókahillur. Já, þakka ykkur kærlega fyrir. Hringdi því næst í föður minn til að spyrja um stjörnuskrúfjárn og stöff. Hefði svo sem alveg getað arkað beint í Húsasmiðjuna, það var bara skemmtilegra að heyra í pabba fyrst. Enda hringdi ég lóðbeint í hann aftur þegar ég var heimkomin með litla tösku, fulla af allskyns skrúfjárnum, og hamri að auki. 

Ekki að við pabbi hefðum bara talað um samsetningu bókahillna, onei, við töluðum líka um veðrið, girðingavinnu, vini mína, pólitík, fjölskylduna, garðslátt, Birtu og Bjössa, bílinn minn, fyrrverandi fjölskyldu mína, sveitina og jújú, skrúfjárn og hamar og samsetningu bókahillna. 

Sagði pabba að ég hefði eiginlega ekki gert neitt í báðum fríunum mínum. Pabbi var mér ekki sammála. Pabbi sagði að það væri ekki öllum gefið að geta verið einir með sjálfum sér. Hann telur að þeir sem þurfi sífellt að vera á ferðinni, sífellt að elta aðra, sífellt að kaupa og gera, þeim líði ekki nógu vel. Þeir sem hins vegar geta staldrað við og gert "ekki neitt", þeir sem geta verið "einir" með sjálfum sér og séu sáttir við eigin félagsskap, þeir séu lánsamir. 

Sjálf veit ég fyrir víst að ég er lánsöm að eiga pabba minn fyrir pabba. Legg ekki meira á ykkur.

föstudagur, 24. júlí 2020

Þrír mínus einn eru tveir

Rétt ókomin í Borgarnes bað bíllinn mig um að athuga hvort þrýstingurinn í dekkjunum væri ekki réttur. Ég hlýddi að sjálfsögðu og beygði til vinstri, rétt nýkomin af brúnni, lagði bílnum og gekk inní Geirabakarí þar sem ég pantaði mér Cappuchino með tvöföldu kaffiskoti og Napóleonshatt. Rólegan mysing krakkar, auðvitað tjékkaði ég á þrýstingnum, Geirabakarí var bara á leiðinni í dekkjapumpuna.

Í einstaklingsherberginu sem ég hafði pantað mér í Flókalundi reyndust 2 rúm og 1 skrifborð. Á skrifborðinu smurði ég nesti fyrir næstu 3 daga sem áttu að fara í göngu, á öðru rúminu pakkaði ég ofan í bakpokann minn. Í hinu rúminu lagðist ég til svefns. Þrátt fyrir mökk af óreiðukenndum hugsunum var ég fljót að sofna. 

Var líka fljót að vakna, dreif mig í sturtu og morgunmat. Mætti fram í andyri hótelsins kappklædd í gönguföt, regnbuxur og vel reimaða gönguskó. Sá að göngufélagar mínir voru flestir í hversdagsfötum, flestir í strigaskóm, nokkrir í gallabuxum. Allir, fyrir utan einn, voru harðákveðnir í því að fara ekki fet þennann daginn. Pabbi minn hafði nefninlega hárétt fyrir sér; það var ekki göngufært í Arnarfirði þennann daginn. 

Þann daginn sníkti ég far með fólki sem ég þekkti ekki neitt fyrir næsta dag. Fór síðan í göngutúr upp að Surtarbrandsgili með fólki sem ég þekti allt úr fyrri göngum. Prísaði mig sæla að Anna bauð mér að deila 2ja manna herberginu sem henni tókst að fá í uppbókuðum Flókalundi. Þrátt fyrir að hafa rætt hjartans mál í heita pottinum í orlofsbyggð Flókalundar og báðar snætt ljúffengann þorsk á veitingastað hótelsins, þá afréðum við engu að síður að biðja um annað lak svo við gætum aðskilið rúmin. Þrátt fyrir að yfirfara skrínukostinn saman með það í huga að 3ja daga ganga var orðin að 2ja daga göngu, áframtalandi um hjartans mál og hlægjandi, búnar að staðfesta að það var ekki bara 1 ganga á Hornströndum sem við áttum að baki heldur aðra göngu norður á Strandir, þá vorum við ekki reiðubúnar að liggja saman í hjónarúmi. Orðnar nánar en samt ókunnugar. 

Svoleiðis eru þessar göngur, maður er sífellt að hitta nýtt fólk og spjalla við fólk, ganga með fólki og  jafnvel ganga með því oftar en einu sinni. Sumu fólki fer manni að þykja vænt um og svo er líka til fólk sem maður tengist. Allt er það óháð líkamlegu þreki og göngugetu, getið sveiað ykkur uppá það.

miðvikudagur, 15. júlí 2020

Var að finna regnbuxurnar mínar,

ekki seinna vænna. Inni í geymslu, ofan í svartri tösku ásamt svörtu dragtinni hennar ömmu Boggu með loðkraganum, bómullarbolnum hennar ömmu Hallveigar, vindgalla af mömmu og gömlum gallabuxum af mér. Allt fatnaður sem áður dvaldi í kjallara í Samtúni, kjallara sem ég stóð í fyrr í kvöld ásamt eina eiginmanni sem ég hef um ævina átt. Fórum í gegnum útilegudótið okkar, hann nýkominn úr ferð og ég á leið í ferð. 

Rétt nýkomin heim hringdi síminn. Á hinum enda línunnar reyndist faðir minn, nýbúinn að horfa á veðurfréttir kvöldsins; Eru fararstjórarnir hjá Ferðafélaginu ekkert búnir að aflýsa ferðinni? spurði pabbi. Neei, af hverju ættu þeir að gera það? spurði ég á móti. Spáin er nú ekki kræsileg fyrir göngu svaraði pabbi. Þess vegna er nú 85% innihald bakpokans á göngu á Íslandi lög af fatnaði, einmitt til að mæta vondu veðri svaraði ég sposk. Það er ekki bara spurning um að hafa nógu mikið af fatnaði sagði pabbi, þú verður að vera með hlý föt og góð regnföt. Pabbi minn, þetta er nú ekkert í fyrsta skipti sem ég fer í göngu svaraði ég. Þú ert þá komin með tjaldið spurði pabbi, og fer lítið fyrir því? Jájá pabbi minn, það góða við þetta tjald er líka að það er smá fortjald þannig að ef það verður mikil rigning þá er ekkert mál að elda í fortjaldinu. Ertu með prímus? spurði pabbi. Já, hann Pési var svo vænn að láta mig hafa tvo litla prímusa og príma pott sem er líka hægt að hita kaffi í. Þú skalt nú fara varlega með það Katla mín, þessi tjöld eru nú yfirleitt úr þannig efnum sem geta auðveldlega fuðrað upp í eldi. Elsku pabbi, þessi græja sem Pési lánaði mér er nú bara alveg eins og græjan sem við Pétur eigum og höfum oft eldað með í þessu sama tjaldi. Nú jæja, þessir fararstjórar, þú veist hver þau eru? spurði pabbi. Heldur betur pabbi minn, við Pétur fórum margar ferðir með þeim Siggu Lóu og Braga svaraði ég. Sigga Lóa og Bragi? hváði pabbi. Já pabbi minn, þau komu bæði í síðustu menningarnæturveislu okkar Péturs svaraði ég, og töluðu við hana mömmu enda bæði tvö áhugafólk um Hornstrandir. Sigga heyri ég pabba kalla út fyrir símtólið, talaðir þú við einhverja Siggu Lóu og Braga í síðasta borgarapartýi hjá Kötlu og Pétri?

Föður mínum líst sumsé ekkert of vel á að fjórða dóttir hans sé á leið í 3ja daga göngu, með allt á bakinu, í hvassviðri og rigningu. Miklu roki og mikilli rigningu ef ég skildi föður minn rétt. En, ég er búin að finna regnbuxurnar og þá get ég farið að sofa. Legg ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 5. júlí 2020

Að loknum slætti

Var nauðsynlegt að skilja? spurði frúin sjálfa sig þar sem hún skreið um blettinn með glænýjar grasklippurnar. Við hvert snip í skærunum velti hún því fyrir sér af hverju hún hefði ekki líka keypt hrífu í gær þegar hún asnaðist til að kaupa þessar heimskulegu klippur. Þegar svo þumallinn fór að emja undan síendurteknum snip, snipum ígrundaði frúin af fullum þunga hvort það væri einhver smuga að krefjast þess að fá slátturvélina þrátt fyrir að 6 mánuðir væru nú liðnir síðan hún yfirgaf heimili sem var aldrei hennar í raun.

Ekki misskilja mig, klippurnar svínvirka, það er garðelja konunnar sem er að klikka. Það er því einungis tvennt í stöðunni; annað hvort fæ ég mér hross á veröndina eða kem mér í kynni við fjallmyndarlegann karlmann sem er reiðubúinn að slá hjá mér blettinn, ber að ofan, óháð veðri, hvenær sem ég þarf á því að halda.

Eitt get ég sagt ykkur, í fúlustu alvöru, hér eftir verður grasbletturinn minn aldrei kallaður neitt annað en tún. Legg ekki meira á ykkur.

laugardagur, 4. júlí 2020

Graslegnar hljómplötur

Ég hefði getað raðað plötunum upp eftir plötuheiti, en ég gerði það ekki. Ég hefði líka getað raðað erlendum flytjendum eftir eftirnafni og íslenskum eftir nafni, en ég gerði það ekki heldur. Ég raðaði öllum flytjendum, hvort heldur sem íslenskum, erlendum eða hljómsveitum, eftir fyrsta staf í nafni. Ekkert erlent hálfkák hér í íslenskri stafrófsröðun, takk fyrir. Þessu ljóstra ég upp hér vegna gríðarlegs áhuga, heilar 3 manneskjur búnar að spyrja. Takk fyrir.

Unnur vinkona stakk uppá því síðast er hún var í heimsókn að ég myndi bara nota dömurakvél til að slá hjá mér grasblettinn (jújú, hún hefur húmorinn fyrir neðan nefið) en af því ég hlýddi henni ekki strax þá hefur hreint ótrúlegt magn af grasi og stráum vaxið (Birtu og Bjössa til ómældrar gleði) á þessum bletti sem sannarlega ber nafn með rentu, þ.e.a.s. blettur. Í dag fór ég og keypti grasklippur. Ef ég væri enn gift þá væri minn fyrrverandi löngu búinn að klippa grasið í tætlur en af því að ég er skilin þá eru klippurnar enn í umbúðunum. Ég þurfti nauðsynlega að lesa nokkra kafla í bókinni sem ég er að lesa og síðan varð ég að hlusta á nokkrar hljómplötur og þegar þessu var loks nokkurn veginn skammlaust áorkað þá var bara kominn tími til að elda kvöldmatinn. 

Þannig týnist víst tíminn.

mánudagur, 29. júní 2020

Frískil

Í morgun sagði vekjaraklukkan mín skilið við tveggja vikna sumarfrí sem einkenndist af leti. Fyrsta sumarfrí eftir skilnað og ekki hægt að fara til útlanda. Tók mig nokkra stund að átta mig á að ég mátti gera hvað svo sem ég vildi í mínu eigin fríi, þ.m.t. ekki neitt. Eyddi því miklum og góðum tíma á veröndinni minni, sem að stórum hluta seldi mér þessa úthverfaíbúð í fyrra, og stóð sannarlega fyrir sínu. Hristi í glás af kokteilum, las töluvert af bókum, hlustaði á mökk af tónlist, knúsaði Birtu og Bjössa við hvert tækifæri, eldaði góðan mat, snuddaði við hversdagsleg heimilisstörf, fór í frábæra Glymgöngu með sjálfri mér, keypti pottablóm á veröndina, kaus Guðna til forseta, keypti óvart rauðvín í stað hvítvíns, fór í góðan göngutúr um hverfið mitt, fékk vinkonu í næturgistingu og fór með henni út að borða, skipti mér af vinnunni, fór í matarboð, hjólaði niður í bæ, drattaðist loks í Grafarvogslaugina í þar, þar næstu götu við mig, nostraði við intróvertinn í sjálfri mér og hugsaði heilan haug. Eyddi síðustu frídögunum umvafin fjölskyldu.

Að auki raðaði ég plötusafninu mínu í stafrófsröð. Þrettán ár síðan ég afrekaði það. Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 28. júní 2020

Svefnpokahjal

Fínasta fjölskylduútilega að Hlöðum í Hvalfirði að baki, prýðilegasta mæting og veður með besta móti; smávegis rok og síðan meira rok en sluppum að mestu við rigningu.

Svo einkennilega vill til að hin árlega fjölskylduútilega er jafngömul sambandi okkar Péturs, þ.e.a.s. þar til núna. Ég hafði oft á orði við Pétur að í flestum tilvikum stæði fjölskyldan við bakið á manni, ekki síst vegna blóðtengsla og sögu sem slíku fylgir. Það sama á hins vegar ekki við um maka; maka þarf að styðja, vökva og hlúa að ef þú vilt að makinn dvelji. 

Flest fórum við í sundlaugina á staðnum, sum oftar en einu sinni, örfá okkar gengu á Þyril, sumar prjónuðu, krakkarnir léku sér og ærsluðust líka. Öll átum við grillmat og flestir grillaða sykurpúða á eftir. Spjall og spaug, grín og glens, hlátur og alvara, samheldni og virðing, ást og þakklæti.

Að auki get ég sagt ykkur að það var fínt að sofa ein í svefnpoka.

sunnudagur, 21. júní 2020

Ósjálfráð kaup eða fljótfærni?

Stökk fram úr rúminu í gær (rólegann mysing krakkar, auðvitað var ég búin að fá mér kaffi og lesa áður) og setti 3 egg í pott, 2 linsoðin í morgunmat og 1 harðsoðið á majónessinnepssmurða samloku ásamt salati og agúrku. Það var kominn tími til að rífa sig upp af rassgatinu í þessu fríi. 

Kom við í vínbúðinni í Mosfellssveit á leið minni út úr bænum, hugsaði með mér að það yrði dágott að eiga hvítvín með laxinum um kvöldið. Fyrsta skipti sem ég kem inní ríkið í Mosfellsbæ, prýðilegt úrval, fann öll uppáhalds hvítvínin mín en þar sem augun reikuðu um hvítvínsrekkann námu þau staðar við 
Ég hef oft valið mér vín útaf fallegum miða svo ég lét bara vaða, greip flöskuna, vatt mér að kassanum og greiddi með bros á vör.

Flaskan lúrði í aftursætinu á bílnum meðan frúin arkaði Glymhringinn, síðast þegar ég fór var ekki þverfótað fyrir túrhestum og meira að segja löng röð við drumbinn yfir ána. Vissulega var fólk á göngu en í þetta skipti gekk ég leiðina að mestu ein. Var reyndar svo ljónheppin að labba fram á hjón þarna uppi við Botnsá sem buðu mér að vera samferða yfir. Einhversstaðar fyrir miðri á grínaðist maðurinn með hvort það fengist einhver veiði í áni, ég var fljót að benda honum á að hann hefði þegar veitt vel, vaðandi yfir ánna með flottar dömur á báða arma.

Heimkomin henti ég flöskunni inní ísskáp áður en ég byrjaði að tína af mér gönguspjarirnar, setti klakavélina í gang himinlifandi með að hafa rifið sjálfa mig upp af rassgatinu. Hughrifin af fegurð dagsins steikti ég laxbita á pönnu, útbjó salat með gönguþreytu í sælum kroppi. Um það bil að fara að borða dembdi ég nokkrum klökum í hvítvínsglas, reif flöskuna úr ísskápnum, opnaði og hellti. Snarstoppaði er ég áttaði mig á því að vökvinn sem rann í glasið var rauður en ekki hvítur.

Ef ég hefði lesið á miðann, en ekki bara látið glepjast af útliti hans, hefði ég kannski séð Pinot Noir sem stóð þar neðst. Kannski. Legg ekki meira á ykkur.

fimmtudagur, 18. júní 2020

Hjólað í frí

Hjólaði úr Veghúsum á Reykjavíkurflugvöll í dag með vindinn í fanginu allann tímann. Hressandi, vægast sagt. Samt betri kostur en að vakna fyrir allar aldir til að skutla næturgestinum í flug, kona er jú í sumarfríi og veit fátt betra en að sofa út. Gesturinn fékk því bara bíllyklana afhenta fyrir háttinn í gær.

Það sem af er sumarfríi er ég ekki búin að gera rassgat. Ég get vel viðurkennt að mér finnst eins og ég eigi að vera að gera eitthvað voða sumarfríslegt eitthvað en ég er jafn fljót að minna sjálfa mig á að ég má hafa mitt frí eins og mér einni langar til að hafa það. Og hana nú. Að frátöldum þrifum gærdagsins er ég því búin að hamast við að sofa út, dunda mér við lestur og dóla mér við matseld. 

Það er gott að gera ekki neitt í sumarfríi, mæli með því.

miðvikudagur, 17. júní 2020

Hæ hó, jó jó jó!

Hvað getur verið þjóðlegra en að ryksuga og skúra á sjálfan 17.júní? Jú, kannski að klæðast peysufötum langömmu á meðan en, æ, ég nenni bara ekki að flétta á mér hárið. Allar almennilegar húsmæður væru kannski búnar að þrífa heimilið fyrir Þjóðhátíðardaginn en, æ, ég nenni heldur ekki að vera almennileg húsmóðir. 

Síðdegis síðasta sunnudag tók ég strætó til að sækja tíkina mína. Fór út við Smáralind og gekk hægum skrefum gegnum undirgöngin sem ég hljóp of oft í veikri von um að ná strætó eftir lokun í Zöru forðum daga. Missti oft af strætó sem gekk á klukkutímafresti en það er önnur saga. Ég var á leiðinni í Sunnusmára en nýtti að sjálfsögðu ferðina og kaus utankjörstaðar í Smáralind. Sníkti kaffibolla hjá systur minni og mági, sem sýndi snilldar tilþrif í kokteilhristingu kvöldinu á undan, og var svo ljónheppin að enda í upphituðum afgöngum frá matarboðinu kvöldinu áður.

Í gær brunaði ég niður í Hafnarstræti 15 til að sækja mynd sem ég hafði pantað hjá Lóuboratoríum. Fékk stæði á príma stað og lagði með Leggja-appinu. Gekk upp tröppur á þriðju hæð til að sækja eina mynd. Gekk niður sömu tröppur með tvær myndir undir handleggnum. Var búin að dást að nýju myndunum mínum í þó nokkra stund hérna heima þegar ég mundi eftir því að afleggja bílnum í Leggja-appinu. 

Ég treysti vissulega á hina hefðbundnu 17.júnírigningu til að koma mér í gegnum þrif dagsins en auðvitað lætur hún ekki sjá sig þegar fjöldatakmarkanir á samkomum er í gildi, ég meina, 500 manns á Arnarhóli? Tekur því ekki að skella skúr á slíkt. Þess vegna sit ég útá verönd rétt í þessu og hnoða saman pistil enda búin að ryksuga, aldrei að vita nema ég skúri líka.

Eitt get ég þó sagt ykkur öllum í trúnaði, að þrífa klósett í sambúð með karlmanni er verknaður sem ég sakna EKKI. Legg ekki meira á ykkur á sjálfan Þjóðhátíðardaginn.

miðvikudagur, 10. júní 2020

Suma daga,

er ég kem heim úr vinnu, byrja ég á að kveikja á klakavélinni. Flesta aðra daga ríf ég mig úr brjóstahaldaranum og losa mig við skartið áður en ég leiði hugann að þeirri sömu vél. Í dag, er ég kom heim úr vinnu, reif ég mig úr öllu (brjóstahaldara og skarti þar með talið) og steypti yfir mig Marokkókjólnum góða sem ég klæddist alla dagana í Sahara eyðimörkinni þarna um árið. Var búin með hálft glas af frönsku hvítvíni og nokkuð margar blaðsíður af norskri skáldsögu er ég mundi eftir vélinni. Hentist að sjálfsögðu inní eldhús og stakk svartri snúrunni í samband, ýtti því næst á Power takkann. Meðan ég kláraði glasið af franska víninu og drakk í mig fleirri blaðsíður af norsku skáldsögunni heyrði ég klakana hrynja niður í vélina, alla leið útá verönd.

Sem betur fer. Ég beið nefninlega ekki eftir því að yfirmaður minn skipaði mér heim í kokteil á veröndinni í þetta sólskinssinnið heldur stökk ég sjálf uppúr vinnustólnum og kvaddi með þeim orðum að Cosmoinn biði mín. 

Svo Cosmo varð það að vera 

Nei nei, það þarf engann klaka í glasið sjálft , hann fer allur í kokteilhristarann ásamt vodka (sítrusvodka segir uppskriftin en ég nota að sjálfsögðu einungis Kötluvodka), Cointreau, trönuberjasafa og limesafa. Kokteilglasið þarf reyndar að vera kælt. 

Fyrir nánari sýnikennslu og smakk er ykkur velkomið að hafa samband við undirritaða í tölvupósti, síma eða kommentakerfi hér að neðan. Öllum fyrirspurnum verður svarað 

miðvikudagur, 3. júní 2020

Svampkenndir órar

Var komin heim rétt um miðjan dag eftir helgardvölina góðu með mömmu og systrum mínum. Veður var með ágætasta móti svo ég afréð að láta loks verða af því að hreinsa beðin í agnarsmáu garðspildunni sem ég hef hér til umráða í Veghúsum (takið eftir fleirtölu orðinu beðin krakkar, ekki beðið). Í ríflega áratuga sambúð var það alfarið á höndum þess fyrrverandi að sjá um almenna garðhirðu enda lítið farið fyrir garðáhuga frúarinnar. Nema, ég vissi að ég ætti að vera löngu búin að þessu svo ég smellti á mig blómaskreyttum garðhönskum, sem brökuðu af nýjabrumi, setti undir mig hausinn og dembdi mér í beðiIN undir vökulu auga Bjössa sem stökk til og frá, eltist við dauðar greinar sem ég fleygði í grasið, rótaði í gömlum laufum og gerði nokkrar atlögur að blómaskreyttum garðhanskaklæddum höndum frúarinnar. Gott að annað okkar skemmti sér.

Eftir vinnu í dag kom ég við í Húsasmiðjunni til að kaupa mér gluggasköfu. Endaði í Blómavalshluta hússins þar sem gluggahreinsunarsköfurnar leynast og spjallaði við páfagaukinn góða stund, fyrst ég var á annað borð komin alla þá leið. Honum lá ýmislegt á hjarta og milli þess sem hann skrækti og flautaði og blimskakkaði á mig einu hliðarauga í einu vældi hann eins og köttur, ég get svo svarið það. Nema, ég hefði getað verið löngu búin að hreinsa gluggana hjá mér en veðrið var með besta móti svo ég lét sjóðandi vatn renna í bland við Stonewall Kitchen uppþvottalög í rauðu skúringafötuna mína, greip lítinn svamp sem mamma skildi eftir hérna í Veghúsum og smellti á mig gúmmíhanskana. Birta fylgdist áhugasöm með þrifgjörningi frúarinnar, úr hæfilegri fjarlægð. Þegar gluggarnir voru orðnir sápuþvegnir og sköfustroknir lá beinast við að hreinsa gluggakarmana líka ásamt kattalúgunni. 

EF ég aðeins hefði gert hvorutveggja áður, þegar ég vissi að ég ætti að gera þessa hluti, þá hefði ég getað hlíft aumum úlnlið. Get fullvissað ykkur, kæru vinir, að það er ekki hlaupið að því að hreinsa beð með aumann úlnlið og enn síður að beita gluggahreinsunarsköfu með þeim sama úlnlið. Verð þó að játa að úlnliðurinn hefur það betur en svampurinn, hann liggur í ruslatunnunni, gjörsamlega búinn.

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

mánudagur, 1. júní 2020

Af afmælishelgi og úlnlið

Fyrir sléttri viku lá ég flöt á gangstéttinni fyrir framan vinnustaðinn minn. Datt nógu kyrfilega til að krambúlera vel á mér vinstri handlegg og fótlegg. Hvað hægri hliðina snertir slapp ég nánast ósködduð fyrir utan úlnliðinn á mér sem var tiltölulega fljótur að blása út. Ekki að ég léti það neitt á mig fá, setti bara undir mig hausinn og æddi af stað í vinnudaginn, þáði bólgueyðandi töflur hjá prívat apótekaranum mínum og lét sem ekkert væri. Það var ekki fyrr en að vinnudegi loknum að rödd skynseminnar hóf rökræður við þrákelkni stelputuðrunnar sem lét sér að endingu segjast og brunaði niður á Bráðamóttöku með bók í veskinu. 

Eyddi langri helginni í Kolbeinsstaðarhreppi með systrum mínum og móður okkar sem fagnaði enn einu ári. Ein af þremur systrum mínum hafði beðið mig um að hrista í kokteila á komandi afmælishelgi, ég sá glöð um hráefnin í kokteila en umrædd systir neyddist til að sjá um hristinginn. Ekki að við gerðum neitt annað en að drekka kokteila alla helgina, seiseinei, átum glás af ostum og berjum og rjómatertu, þær prjónuðu einhver ósköp og ég fór í göngutúr, eitthvað töluðum við víst líka og hlógum eins og híenur að hinu og þessu, horfðum á Flashdance og létum okkur dreyma um legghlífar og svitabönd, það held ég nú.

Mér sumsé tókst ekki að brjóta á mér hendina, sem betur fer. Þetta er eins og brot en er bara ekki brot sagði læknirinn við mig. Gott og vel. Engu að síður eru ofur hversdagslegir hlutir eins og að ræsa bifreiðina, opna útidyrahurðina, skrifa innkaupalista, skeina sér, hrista kokteila, klæða sig í sokka, hamra á lyklaborð og svo mætti lengi telja ekki jafn þægilegir og áður. Merkilegt hvað ein mannvera getur notað einn úlnlið.

Ég legg bara ekki meira á ykkur, elsku vinir, verandi rétthend.

sunnudagur, 24. maí 2020

Frænkuskottin...

...biðu útá gangstétt óþreyjufullar eftir aldraðri frænku sinni, þ.e.a.s. tvær þeirra, sú yngsta var að bíða eftir systur sinni. Sólin sýndi sínar bestu hliðar og dreif stúlkurnar með mér niður í bæ þar sem við byrjuðum á því að fara út að borða, reyndum því næst að gefa öndunum brauð sem gekk betur eftir að við áttuðum okkur á því að ákaft klapp stuggaði máfunum í burtu, að ógleymdu háværu kalli litlu systur minnar; farið þið burt máfar! Sú stutta hefur lungu, skal ég segja ykkur.

Enduðum á kaffihúsi eftir göngu í sólríkum bænum. Yfir kaffi- og kakóbollum komst aldraða frænkan að því að hamborgari væri draumakvöldmáltíð þeirra systra. Heima í Veghúsum urðu fagnaðarfundir með systrunum og Bjössa og Birtu, kisurnar mínar eru jú komnar undan kisu í eigu þeirra systra. Í bænum höfðum við álpast inní bókabúð og fest kaup á litabókum og litum, eftir mikinn leik með kisunum settumst við niður á sólríkri veröndinni og lituðum og spjölluðum og lituðum og bulluðum áður en við áttuðum okkur á því að við værum orðnar svangar. 

Líklega er góður hamborgarastaður nær en ég mundi bara eftir bölvaðri fabríkunni sem er á endanum á götunni þar sem ég bjó og þangað brunaði ég með stelpustóðið. Nema, þar sem við sátum og úðuðum í okkur borgurum og frönskum og kokteil þá mundu frænkur mínar eftir því að ég hafði búið í sömu götu og heimtuðu að fá að heimsækja Pétur og þar sem ég reyndi að koma mér undan því heimtuðu þær enn frekar og þar sem við keyrðum Samtúnið (ég lagði víst við endan á götunni) öskruðu frænkur mínar; þarna er húsið! Á endanum stoppuðum við í innkeyrslunni að Samtúni 8 þar sem systurnar skipuðu mér að fela mig á meðan þær myndu dingla, sem þær og gerðu. Minn fyrrverandi, hann Pétur, varð að sjálfsögðu bara glaður að sjá þessar þrjár snótir á dyratröppunni hjá sér, bauð okkur öllum inn. Eftir að hafa spjallað og gefið stúlkunum epli kvaddi ég minn fyrrverandi sem sagði að heimsóknin hefði bjargað þessu laugardagskvöldi. 

Kvöldið var þó ekki búið, heima hjá mér drifum við stelpurnar okkur í náttfötin og drógum svo húsgögnin til og frá þar til við gátum allar fjórar legið saman með snakk og gos og horft á mynd. Að sjálfsögðu fórum við seint að sofa og sváfum því fram eftir morguninn eftir, allavega á þeirra mælikvarða. Fengum okkur grillaðar samlokur og appelsín í morgunmat, héldum áfram að lita og spjalla og grínast og hlægja þar til kominn var tími á bíóferð sem átti einstaklega vel við í rigningunni. Að bíóferð lokinni reyndu snótirnar að sannfæra mig um að það væri aðeins of snemmt að skila þeim til móður sinnar, nema reyndar sú stutta, hún systir mín, hún var með sitt á tæru; skila þessum tveimur eldri heim til mömmu en hún ætlaði heim með mér og sofa aðra nótt.

Að fá tækifæri til að spilla þessum systrum í stutta stund var sérdeilis skemmtilegt en þegar móðir þeirra sendi mér skilaboð, eftir að hafa fengið haug af myndum í facebook skilaboðum, um að þetta minnti hana á tímana þegar hún var hjá mér sem krakki, þá gladdist ég innilega.

Legg ekki meira á ykkur enda nægur lestur nú þegar.

fimmtudagur, 21. maí 2020

Lofnarblóm á afmælisdegi systur

Sat upp við höfðagaflinn í morgun, las og drakk kaffi. Beygði mig fram og teygði vinstri hendi aftur fyrir bak til að stöðva kláða. Spratt fram úr rúminu og sveigði mig nakin fyrir framan spegilinn í skáphurðinni, ekki bara fékk ég grun minn staðfestann heldur sá ég tvö önnur bit að auki rétt við vinstri mjöðm. Lofnarblóm varð aftur hluti af lífi mínu í dag; búin að setja lavendersápuna í sturtuna mína, lavender húðkremið komið á hillu í baðherbergisskápnum og NOW ilmolíulampinn, sem ég var svo lánsöm að fá í jólagjöf þarna um árið, sprúðlar lofnarblómailmi í svefnherberginu mínu þessa stundina. Og fær að gera það áfram, getið sveiað ykkur uppá það.

Hallveig systir mín á afmæli í dag. Enn einu sinni tókst henni að verða aftur elst. Í tilefni af því að hún fæddist hringdi ég í hana. Stóðst ekki mátið að spyrja hana að því, með tilliti til þess að ég er hugsanlega orðin miðaldra, hvað hún er þá? Eldri borgari svaraði hún hlægjandi, fagna hverju ári bætti hún svo við. Hvorug okkar er þó eldri en Esjan og því ber kannski að fagna. 

Já, svei mér þá, því ekki?

miðvikudagur, 29. apríl 2020

Systrakokteill

Þegar yfirmaður þinn skipar þér að fara heim til þín, á pallinn, til að fá þér kokteil í sólinni, þá er engin ástæða til að gera neitt annað en að hlýða. Settist út á pall með Bellini í einni hendi og góða bók í hinni hendinni. Rétt búin með drykkinn sá ég athugasemd á facebook frá gamalli nágrannastúlku (sem getur nú varla verið svo gömul, mörgum árum yngri en ég) um að ég yrði nú að skála fyrir yfirmanni mínum. Jú, þið giskuðuð rétt, ég neyddist til að fá mér annann kokteil, konunglegan kokteil í ofanálag enda hinn Péturinn í lífi mínu orðinn að eina Pétrinum í lífi mínu.

Magga systir var fljót að senda mér mynd af sínum drykkjum, Sangríu OG kampavíni. Jújú, hún er nottla töluvert sjóaðri, fimm árum eldri og allt það. Bogga systir var ósköp pen með kaldan bjór í sínu glasi. Verandi það kvikindi sá prakkari sem hún er þá stóðst hún að sjálfsögðu ekki mátið að senda mér myndir af býflugnabúinu sem hún tæklaði þarna um árið. Já, og myndir innan úr því. Af því mér þykir vænt um ykkur, hlustendur góðir, þá ætla ég að hlífa ykkur við þessum myndum. Hvort Boggu systur þyki nokkuð til mín koma má vissulega deila um en hún sagðist vera búin að fara með öll dagblöðin í endurvinnsluna.

Frá Hallveigu systir (þeirri elstu) heyrist ekki múkk. Velti því fyrir mér hvort hún geymi ennþá landa undir eldhúsinnréttingunni. Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, 27. apríl 2020

Svona og svona...

Ætli það séu ekki að verða 20 ár síðan ég var verslunarstjóri í skóversluninni Steinari Waage. Annar tími, annað líf, sannarlega, nema í dag neyddist ég loks til að henda Ecco inniskónum sem ég keypti mér þarna um árið. Bestu inniskór sem ég hef um ævina átt, svo góðir að ég prangaði þeim inn á móður mína, 2 systur og bróður minn. Í gegnum árin hafa svo sem móðir mín, systur og bróðir gengið í gegnum ferlið sem ég gekk í gegnum í dag, þ.e.a.s. að vera búin að ganga inniskóna út og gott betur. 

Af öðrum stórkostlegum breytingum í lífi frúarinnar þá iðaði feit og bústin (er hægt að vera bæði?) býfluga í langa glugganum í eldhúskróknum mínum um daginn. Ég hef fylgst með öðru fólki veiða býflugur og geitunga í glas svo ég áræddi, eftir þó nokkra umhugsun, að sækja stórt glas og greip að auki með mér Kampavínskokteilabók sem ég fékk gefins um daginn. Stappaði í mig stálinu (og fullvissaði sjálfa mig um að ég gæti ekki hringt í neinn) áður en ég dembdi glasinu yfir hana Maju, ríghélt í glasið og renndi því síðan yfir á kampavínskokteilabókina. Hélt hvoru tveggja þétt að hvort öðru og gekk út á verönd þar sem ég sleppti Maju býflugu út um kattagatið á verandargirðingunni minni. Sem betur fer flaug Maja feginn þarna eitthvað allt annað í staðinn fyrir að fyrtast við og RÁÐAST Á MIG! Skjögraði aftur inn um verandardyrnar með gæsahúð um allann kropinn, já, svei mér þá, á tánum líka. 

Eins og það væri ekki nóg þá átti þetta atvik sér stað á afmælisdegi Boggu systur. Boggu systur sem hefði rúllað upp dagblaði og lamið mig í hausinn áður en hún hefði lamið Maju býflugu í hausinn. Boggu systur sem sá sjálf um að losa sig við býflugnabú sem sat áfast við húsið hennar í fyrra (eða hitteðfyrra). Boggu systur sem á líklega eftir að hlægja að gunguskapnum í mér þar til önnur hvor okkar.....ojæja, svona er þetta bara og já, meðan ég man, elsku Bogga mín, innilega til hamingju með daginn! Í tilefni af því að þú fæddist þá fangaði ég feita og bústna (er hægt að vera bæði?) býflugu í glas og hleypti henni svo út í frelsið.... ha?! 

Eftir vinnu í dag fór ég með plast og pappa í ruslageymsluna. Hér í húsum er vel flokkað og ekkert nema gott um það að segja nema samrýndu systkinin ákváðu að elta mig inn í ruslageymslu. Náði svo sem Bjössa nokkuð fljótt og henti út fyrir dyr. Birta hins vegar lét kerlinguna svoleiðis elta sig um alla ruslageymslu meðan bróðir hennar emjaði fyrir utan dyr. Var búin að nota bæði blíðan og reiðan tón áður en ég náði kattarræskninu út. Að auki á Sunna systurdóttir mín afmæli í dag en hún myndi reyndar ekki rúlla upp blaði og lemja mig í hausinn með því.

Legg ekki meira á ykkur að sinni elsku vinir.

þriðjudagur, 21. apríl 2020

Fyrstu kaup

Þegar ég festi kaup á minni fyrstu fasteign skipti staðsetningin mig öllu máli. Úthverfastelpan ég hafði tekið saman við mann sem var að byggja í Grafarholti. Ég flutti því úr úthverfinu mínu í enn meiri úthverfakjálka. Í staðinn fyrir að flytja niður í bæ, eins og mig hafði lengi dreymt um, flutti ég lengra upp eftir. Þegar sú ást var þrotin eftir sandhaug í verðandi stofu, steypuhrærivél á verðandi gangi, 2 eldavélahellum ofan á ofni ömmu minnar í svefnherbergi, kaffikönnu á náttborði og öllu því ryki og plasti sem fylgir nýbyggingu þá sumsé var ég staðráðin í að næst myndi ég flytja niður í bæ, láta drauminn rætast.

Svo ég flutti úr úthverfakjálkanum í gamla úthverfið mitt, nema aftur heim til mömmu og pabba í það sinnið. Leitin að fasteigninni minni tók heila meðgöngu, í 9 mánuði þræddum við pabbi fasteignir í ákveðnum póstnúmerum. Pabbi minn, skynsemdarmaður sem hann er, reyndi að brydda uppá ódýrara húsnæði sem byði uppá meira pláss en dóttirin vildi ekkert slíkt heyra, hún var að fara niður í bæ. 

Niður í bæ fór hún, með sinn kött. Heilt Klambratún sem skildi hana og bestu vinkonuna að. Á þessum stað undi stúlkan sér vel, labbaði til vinnu á virkum dögum og arkaði á Sirkus um helgar. Eitt kvöldið arkaði hún yfir Klambratúnið til vinkonu sinnar, sem hafði boðið henni heim í mat, og arkaði síðan með henni á Ölstofu í staðinn fyrir að fara beina leið á Sirkusinn sinn. Þetta örlagaskref leiddi hana niður brekkuna frá íbúðinni hennar en stúlkan var sátt og ekki bara sátt, hún var ástfanginn. Aftur. 

Það sem beið hennar hafði hún ekki hugmynd um, hefði ekki einu sinni getað ýmyndað sér það. Það þarf alveg sérstakt ýmyndunarafl til að ýmynda sér raunveruleikann, er það ekki?

sunnudagur, 19. apríl 2020

Á páskum og eftir ...

Um páskana 
  • las ég og las og las og las
  • drakk kaffi í rúminu og las
  • lagði mig um miðjan dag með kisunum mínum
  • eldaði helst ekki mat nema eldamennskan tæki að lágmarki 1,5 klstund
  • hlustaði á glás af tónlist sem ég hlustaði á þegar ég var 20+
  • það var gaman
  • hlustaði líka á fullt af jassi eins og Melody Gardot
  • óhlýðnaðist Víði
Af hverju óhlýðnast svo kona á miðjum aldri yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra? Jú, vegna þess að hún hlýðir móður sinni. Af því að mamma vildi fá mig í mat á páskum þá hringdi ég í hjúkrunarfræðing fjölskyldunnar og spurði ráða. Eftir að hafa svarað ýmsum spurningum um möguleg einkenni neitandi fyrirskipaði Bogga systir að ég yrði að fara beint úr sturtu í nýþvegin föt og út. Jújú, ég mátti alveg þurrka mér eftir sturtuna sko en ég nennti samt ekki að blása á mér hárið.

Páskamáltíð mömmu var óneitanlega dásamleg sem og samverustund með foreldrum mínum. Komin í skúrinn tóku þau ekki annað í mál en að ég gisti yfir nótt. Varð það á að segja föður mínum frá einkennilegum hljóðum í bílnum mínum, pabbi var snöggur að skríða undir garminn og finna út úr vandamálinu. 

Á þriðjudagsmorgunn hringdi faðir minn og sagðist vera búinn að gera verðkannanir á varahlutum og að hann væri búin að panta það sem ég þyrfti á hagstæðasta staðnum. Eftir vinnu brunaði ég og sótti það sem til þurfti á nafni föður míns. Eftir vinnu á föstudegi verslaði ég inn eftir uppskrifuðum lista frá móður minni. Brunaði heim í sturtu og nýþvegin föt þar á eftir áður en ég brunaði aðra helgi í röð vestur í skúr til foreldra minna. 

Í þetta skiptið gisti ég í 2 nætur. Mamma fóðraði mig á mat, pabbi gerði við bílinn minn. Legg ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.

laugardagur, 11. apríl 2020

Líf frúar og katta.

Þar sem ég stóð og steytti saman myntulaufum og sykri í kokteilhristara tókst mér að brjóta á mér nöglina á hægri þumalfingri. Ekkert sem skiptir máli, hvað er ein nögl á milli vina? Þar sem ég hamaðist við að kreista safa úr límónu rann hægri hendin á mér til með þeim afleiðingum að nýklippt nöglin á hægri þumalfingri steyptist á vinstri þumal. Rétt fyrir neðan nögl á vinstri þumli gapti blæðandi sár, geri aðrir betur. Sannast sagna eru þetta hefðbundin heimilisslys frúarinnar, þ.e.a.s. heimilisslys sem koma sjaldan fyrir aðra, eins og þetta atvik. 

Auk þess get ég sagt ykkur að mér er meinilla við rifjárn, hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef rifið puttana á mér til blóðs þegar ég á að vera að rífa engifer eða ost með rifjárni. Ostaskerar eru líka skaðræðistól, hef ekki heldur tölu á því hvursu oft ég hef flysjað á mér fingurna við að skera mér ostsneið. 

Birta var að endasendast inn um kattalúguna. Hentist beint ofan í fjölnota Melabúðarpokann sem stendur hér á stofugólfinu. Þar steppaði hún á fjórum loppum í dágóða stund áður en hún lyppaðist niður, fæ ekki betur séð en að hún sé steinsofnuð í græna fjölnota Melabúðarpokanum. 

Bjössi bróðir hennar, sem um daginn sat læstur inní bílskúr í 4 daga, hrökk upp af værum svefni er systir hans stökk inn. Á bleikum sófa fylgdist hann með henni taka sporin og er hún féll í svefn í grænum Melabúðarpokanum stökk hann af sófanum og rauk beina leið upp í rúm frúarinnar. Fæ ekki betur séð en að hann sé steinsofnaður þar.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar, steinsofnið þið bara.

mánudagur, 6. apríl 2020

Í vinnunni í dag, stuttu fyrir hádegi,

fékk ég símtal frá konu sem sagði mér óðamála að hún byggi í bláa húsinu fyrir ofan mig og að þegar maðurinn hennar opnaði bílskúrinn þeirra í morgun hefði stokkið þaðan út köttur sem leit út eins og kötturinn sem ég auglýsti týndann á hverfissíðunni um helgina. Besta símtal dagsins. Pési skipaði mér að skjótast heim þegar ég fór í bankann sem ég glöð gerði. Nema, heima tók Birta á móti mér, enginn Bjössi. 

Svo ég fór í bankann og þaðan aftur til vinnu. Ákvað í lok dags að kaupa fisk til að sjóða handa henni Birtu minni. Hálft í hvoru vonaði ég vissulega að Bjössi yrði líka heima en reyndi jafnframt að segja sjálfri mér að ég yrði líka að vera raunsæ, það væri alls ekki víst að ég myndi sjá Bjössa aftur.

Ég var því ekkert sérlega vongóð er ég steig inn um dyrnar hérna heima en, viti menn, Bjössi kom hlaupandi á móti mér. Það sem ég gladdist og Birta líka, sýndist mér, systkinin eru búin að sleikja hvort annað, leika við hvort annað, sitja í gluggakistunni saman og mæna út og jú, borða þorskhnakka af sama disknum. 

Fæ ekki betur séð en að Bjössi hafi aðeins lagt af á nýja kúrnum, bílskúrskúrnum. Ætli hann verði ekki fljótur að bæta því aftur á sig blessaður, er það ekki einmitt þannig sem flestir megrunarkúrar virka?

sunnudagur, 5. apríl 2020

Strákarnir í Heimilistækjum sögðu mér að þvottavélin væri bara að verja sjálfa sig.

Ef fráskilin kona, sem er ein í heimili, reynir að þvo eina baðmottu þá svo sem þvær vélin hana en þegar kemur að vindingu hrópar tromlan; nei stoppa hér! Það snýst sumsé ekki um vigt heldur fjölda. Tromlan harðneitar að berja og slá til 1 hlut, hún þarf að hafa 2 hluti til að berja og slá jafnt svo henni líði betur. Það var ekki flóknara en það.

Öllu stærra og sárara vandamál er sú staðreynd að ég hef ekki séð Bjössa síðan á fimmtudagsmorgunn. Er búin að auglýsa eftir honum á kattasíðum og íbúasíðum á facebook, búin að fara í nokkra kalda göngutúra eftir ábendingar frá hinum og þessum. Lítur út fyrir að Bjössi, eða einhver svartur og hvítur köttur, hafi sést í flestum hverfum Grafarvogs. Ef þið heyrið Grafarvogsíbúa pískra um konuna í rauðu kápunni sem vafrar um og kallar á Bjössa, þá er það ég.

Birta er ekki minna vængbrotin en frúin, hún fer lítið út þessa dagana, rölti reyndar með mér hring um hverfið í gærmorgunn, situr annars ýmist í kjöltunni á mér eða í næsta stól við hliðina á mér. Liggur í rúminu hjá mér öll kvöld og allar nætur.

Æ Bjössi, komdu nú heim. Mjá.

miðvikudagur, 1. apríl 2020

Aprílgabb?

Æ, nei takk, sama og þegið. Þrátt fyrir að hafa mikið gaman af gríni og glensi þá hefur aprílgabbið aldrei heillað mig, hef aldrei sóst eftir því að gabba nokkurn mann á þessum degi. Hef heldur aldrei spáð í hvaða frétt gæti verið gabbfrétt ársins, fylgist líklega ekki nógu vel með fréttum hvort eð er. Geri þó fastlega ráð fyrir að það verði ekki hlaupið að því að fá fólk til að hlaupa á þessum síðustu og verstu. Aprílgabbið á tímum Covid19.....

Get sagt ykkur grínlaust að mér líður eins og febrúar hafi verið í þar síðustu viku og allt í einu er mars ekki bara kominn, heldur farinn líka. Það er ekki mikilli fjarvinnu fyrir að fara í matvöruverslun svo heimavinna er fyrirbæri sem ég tengi ekki við nema þá helst er ég bruna til vinnu á morgnanna, hef ekki brunað svona fljótt og ljúflega úr húsum á mela síðan í jólafríinu. 

Þvottavélin mín, sem ég vil enn segja að sé ný, harðneitar að vinda þvottinn, dembir á mig blammeringum um "hleðslu ójafnvægi" og ber svo fyrir sig "hléi". Vandamálið er að vélin vatt svona upp á sig í gærkvöldi, það er því engin leið fyrir mig að flokka þetta undir aprílgabb. Ofurhetjan mín er í sjálfskipaðri sóttkví í sveitinni og því eru góð ráð dýr, enginn er heldur eiginmaður til að hlaupa undir bagga. 

Svo hvað gerir nýlega fráskilin kona með nýlega þvottavél með mótþróa? Hún bregður að sjálfsögðu góðri plötu á fóninn, skenkir sér rauðvín í glas, hitar upp rándýra afganga sem tóku 3 tíma af tíma hennar um helgina sem leið og lyktar af rósunum í blómvendinum sem hún keypti handa sjálfri sér þá sömu helgi. 

Legg ekki meira á ykkur, afsakið hlé.

miðvikudagur, 25. mars 2020

Kettir, taska og bréfpoki

Í gærmorgun greip ég systkinin traustataki og tróð þeim ofan í tösku. Reyndist minna basl en ég átti von á. Það var ekki fyrr en í aftursætinu á tíkinni, á bílastæðinu fyrir framan Dagfinn dýralækni, sem baslið við að troða systkinunum aftur ofan í tösku hófst. Dæsti armæðulega og hugsaði með mér að svona væri líf fráskilinnar konu með tvo ketti, setti svo undir mig hausinn og járnviljann og þrjóskuna og oní tösku fóru þau svo ég gæti trítlað með þau örfá skref inn til dýralæknisins. Þar inni tóku tvær enskumælandi og indælar stúlkukindur á móti mér. Bjössi varð fyrri til að vera þuklaður og hlustaður og sprautaður, hann reyndi að streitast á móti ormapillunni en gaf svo eftir í 3ju tilraun. Birta tók þuklinu og hlustuninni og sprautunni með stóískri ró en er kom að ormapillunni kom þvermóðskan upp á yfirborðið. Á endanum gafst dýralæknirinn upp og Birta fékk því aðra sprautu til varnar ormum. Um kvöldið fengu þau systkin svo að sjálfsögðu soðningu.

Töskuna góðu eignaðist ég á níunda áratugnum (sem ég myndi persónulega vilja kalla þann áttunda, en, alltílæ), hún er mjúk og stór, með 2 rennilásum eftir henni endilangri og 2 renndum hólfum á hvorum enda, pastel fjólublá með vatnsbláum röndum. Bróðir minn fékk alveg eins tösku bara í annari eydísar litasamsetningu, líklega var þetta gjöf frá foreldrum okkar. Töskuna góðu hef ég margnotað, ef ekki fjölnotað, í gegnum árin og áratugina, ef út í það er farið. Hún hefur ferðast með mér milli landshluta, farið í ótal útilegur og bústaðaferðir, hjálpað mér við flutninga og nú síðast, hjálpað mér að koma tveimur köttum til dýralæknis. Spurning hvort bróðir minn eigi sína tösku enn.

Í morgun, í fyrsta skipti síðan við Birta og Bjössi hófum sambúð hér í Veghúsum, lágu þau bæði sofandi í rúminu hjá mér er ég vaknaði við vekjarann. Snúsaði oft og lengi. Að auki gladdi Sólveig vinkona mín mig með bréfpoka sem innihélt bókasexu og heimalagað góðgæti 

Það sem ein kona er lukkuleg með vini. Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, 23. mars 2020

Hnitmiðaður orðaforði skrifstofustúlku

Þrátt fyrir að sýsla daglega með uppgjör tókst mér í morgun að demba öllu klinkinu úr einum kassanum á skrifborðið mitt í staðinn fyrir bankapokann. Einungis ein smámynt náði að skoppa niður á gólf en að sjálfsögðu rúllaði hún undir skúffuskápinn undir skrifborðinu mínu. Svo frúin skellti sér á hnén, sveigði andlitið í átt að gólfi og rýndi undir skúffuskápinn. Mér til ómældrar ánægju sá ég 5 krónurnar liggja við hliðina á týnda eyrnalokknum. Lán i óláni er sumsé í alvörunni til. Ég sem var búin að gefa lokkinn upp á bátinn, kona ætti líklega að drífa í því að láta gera við armbandið.

Eins og þetta sé ekki nóg af góðum fréttum dagsins þá átti Birna afmæli í gær og kom því færandi hendi í vinnuna í dag, frosin marengsterta og peruterta með morgunkaffinu. Þar á eftir ofangreindur atburður. Mánudagur til mæðu? Aldeilis ekki.

Var að klára að lesa Hnitmiðaða kínversk-enska orðabók fyrir elskendur í annað sinn. Þegar vel gefin kona, sem aukin heldur er þér velviljuð, lánar þér bók og segir þér að lesa hana tvisvar þá hlýðir þú að sjálfsögðu. Orðabókin átti lestrana vel skilið og gott betur.

Á þessum degi, fyrir ári síðan, var ég ekki bara stödd í París heldur gekk ég Jean Paul Gaultier nánast niður. JEAN PAUL GAULTIER krakkar! Af því tilefni finnst mér vel við hæfi að birta þetta brot úr Orðabókinni góðu

Hnitmiðuð kínversk-ensk orðabók fyrir elskendur eftir Xiaolu Guo í þýðingu Urðar systur, Ingunni Snædal.

laugardagur, 21. mars 2020

Bara við tvö

Hráslagi gærdagsins og grámóða rigningu og roks níztu mig inn að beini, mér var kalt og ég var þreytt. Snjófegurð dagsins og kitlandi sólskin yljuðu mitt litla hjarta. Eftir lestur og kaffi og kisuknús og meiri lestur og ristað brauð dreif ég mig út í góðann göngutúr, kaldur á köflum já en mér var hlýtt af gleði. Er alveg bit á fólki sem finnst að kominn sé tími á vor og aðrir djarfari farnir að vonast eftir sumri, síðan hvenær hefur mars verið nokkuð annað en vetrarmánuður? Og hvað með páskahretið? Þigg birtuna af snjófegurð alla vetrarmánuðina umfram grámyglu rigningargrámans. Þið megið mótmæla mér af krafti en ég tek ekkert mark á ykkur.

Í sárabót er hér lag sem mér finnst alltaf gaman að heyra, vona að það dilli ykkur líka

miðvikudagur, 18. mars 2020

Think about things

Það á ekki af íslensku þjóðinni að ganga. Loksins þegar öruggur sigur Íslendinga í evróvision er í höfn, eftir 36 ára streð og strit, gleði og brostnar vonir, þá er keppnin blásin af. Hvers á þjóðin að gjalda? Að kona tali nú ekki um hann Daða Frey og allt hans gagnamagn? Hópurinn kom, sá og tapaði í fyrstu atrennu og nú þegar þau vinna þá þarf ekkert minna en heimsfaraldur til að koma í veg fyrir að Daði Freyr taki keppnina með trompi þarna ytra. Margir yrðu nú sárir af minna tilefni en þessu, get ég sagt ykkur.

Komst ógrátandi í gegnum sjónvarpsgláp í kvöld. Datt inn í sænska þætti um ljóshærða, miðaldra konu sem á 3 börn og fyrrverandi menn og rekur veisluþjónustu og höndlar ekki alveg að sinn fyrrverandi er kominn með nýja og er að rembast við að fara á stefnumót og svona, soldið eins og ég. Nema ég er náttúrulega dökkhærð , á engin börn og vinn í verslun og er reyndar ekki á Tinder og langar ekki rassgat á stefnumót en, þið sjáið samt alveg líkindin, er það ekki?

Birta var að hendast inn um kattalúguna. Bjössi liggur úrvinda við fætur mér hér á bleika sófanum, hann elti kústinn um alla íbúð og háði djarfar orustur við sópinn allt þar til ég burstaði samtíningnum í fægiskóflu og gekk svo frá kústinum inn í þvottahús. Blessaður karlinn hefur legið í fastasvefni á sófanum síðan. Ég skil hann vel. 

Ætli sé ekki best að hleypa eins og einum stefnumótaþætti af stað fyrir háttinn, maður hefur víst ekkert upp úr því að láta sér hlakka til Eurovision hvort eð er.

þriðjudagur, 17. mars 2020

50,000,000 Elvis aðdáendum getur ekki skjöplast

Í okkar fyrstu ferð til Parísar, við endann á einum af mörgum stigum Montmartre, á leið okkar frá Sacre Coeur, álpuðumst við inn í pínulitla búð og rákumst þar á aðra af tvíburasystrunum sem eiga og reka búðina, sem þrátt fyrir að vera lítil er sneisafull af skarti sem önnur systirin býr til og listaverkum sem hin systirin gerir. Leiddumst út, hönd í hönd, frúin með nýtt hálsmen um hálsinn. Í næstu ferð völdum við armband í stíl. Þar með var heimsókn í bútíkina okkar orðin að hefð og síðan þá höfum við bætt eyrnalokkum í safnið, afmælisgjöf handa mömmu og afmælisgjöf handa Daney systurdóttur. Í síðustu ferð okkar til Parísar keyptum við loks verk af hinni systurinni, sprúðlandi af passjón og festívri gleði, að kona tali ekki um rómans í flöktandi kertaloga
 
Hvarflaði ekki að mér að ferðin sú yrði okkar síðasta til Parísar, saman.

Stuttu fyrir skilnaðinn slitnaði armbandið. Á enn eftir að láta gera við það. Í gær, er ég kom heim eftir vinnu og byrjaði á því að rífa af mér skartið, áttaði ég mig á því að ég var bara með eyrnalokk í vinstra eyranu, hvenær lokkurinn flaug úr því hægra er ekki gott að segja. 

Af öðrum stórmerkilegum tíðindum gærdagsins þá kveikti ég á sjónvarpinu eftir matinn, líklega í 4ja skiptið síðan ég flutti hingað. Dembdi mér beint í Vod-ið og skoðaði hvort áhugaverðir þættir væru í boði. Þaðan tók ég stefnuna á DR1. Á hraðri yfirferð á I-inu, þá gerðist það, alls óforvendis. Skilnaðarsársaukinn hvefldist yfir mig, sár og óvæginn. Hvort það var bölvaður eyrnalokkurinn eða allir þættirnir sem við Pétur vorum vön að horfa á saman sem kom því öllu af stað er ekki gott að segja, en þar sem ég sat í bleikum sófa og barðist við tárin þá ákvað ég að leyfa mér það, leyfa mér að gráta, leyfa mér að sakna græns sófa og tánudds, leyfa mér að hugsa hlýtt til manns með fallegt bros og skakkar tennur, minnast bliks í auga og vonar sem átti aldrei von.

Í kvöld sauð ég fisk handa kisunum mínum og setti í vél. Í staðinn fyrir að kveikja á sjónvarpinu kveikti ég á plötuspilaranum. Undir ærandi diskóplötu frá 1977 hengdi ég upp þvott. 

Legg ekki meira á ykkur smáfuglar fagrir og aðrir vinir.

laugardagur, 14. mars 2020

Kötlumal

Hvað getur einn eftirlaunaþegi í vesturbæ Reykjavíkur upplýst mörg morðmál? var spurning sem ég þeytti út í svefnherbergisloftið í Samtúni þegar ég kláraði lestur á þar síðustu Eddubók Jónínar. Fékk þá veður af því frá eiginmanninum, sem þá lá í hjónasæng með mér, að það væri alls ekki víst að þær yrðu margar í viðbót. Nú vil ég taka það skýrt fram að ég hef notið hverrar einustu Eddubókar (og fyrst ég er byrjuð þá hef ég eingöngu lesið skemmtilegar og góðar bækur eftir Jónínu Leósdóttur) en ég gladdist engu að síður innilega yfir því að Edda leysti hreint ekki málið í síðustu bók, að sjálfsögðu var hún full af afskiptasemi og forvitni og öllu því sem gerir Eddu Frímannsdóttur að Eddu Frímannsdóttur, en mér finnst afar smart hjá Jónínu að breyta aðeins til. Ef þetta reynist síðasta Eddumálið þá kveð ég hana sátt í sinni en ég vona samt ógurlega að þær verði fleiri, textinn hennar Jónínu er svo lipur en líka þéttur og fleytifullur af öllu sem mannlegt er. Það á reyndar líka við um aðrar bækur sem ég hef lesið eftir hana. 

Kvefið á tímum Covid19 yrði líklega bókatitillinn hjá mér ef ég settist niður og reyndi að skrapa saman orðum í skáldsögu, hvað ætti svo sem nýfráskilin kona að segja um ást? 6 vikna kvefið mitt er ekkert nema kvef en að vera með venjulegt kvef á þessum óvenjulegu tímum er auðvitað ekkert venjulegt, eiginlega bara hallærislegt. Geri mitt besta til að kæfa hósta ef ég er stödd annarsstaðar en heima hjá mér og hnerri, herregúd. Er orðin þaulæfð í að bregða fyrir mér olnbogabótinni nema í þetta eina skipti sem ég renndi inn í innri hring á hringtorginu við Háskólann á leið minni til vinnu um daginn, óþægindi við að hnerra undir stýri náði hæstu hæðum á þeim tímapunkti. Rétt náði að setja stefnuljósið á og beygja á réttum stað út úr hringtorginu eftir tvo hnerra. Er annars lífræðilega hægt að hnerra með opin augu?

Legg ekki meira á ykkur elskurnar enda ætla ég að demba mér í Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.

fimmtudagur, 12. mars 2020

Rækjur með fetaosti

Ef eitthvað er að marka Gestgjafann þá er matargerð Kýpurbúa grísk-tyrknesk og á stundum með líbönsku ívafi. Sjálf hef ég ekki komið til Kýpur, og enn síður kynnt mér matarmenningu þeirra, en Garides me fetta er víst ótvírætt grískur að uppruna. Yfirleitt borinn fram sem forréttur eða á smáréttahlaðborði. Léttur aðalréttur já en ég helmingaði nú samt uppskriftina. Ætlaði að kippa með mér baguettu úr Melabúðinni til að hafa með en gleymdi því svo. Á samt helminginn eftir af helmings matreiðslunni. 

Frúin er sumsé ekki bara með nefið ofan í skáldsögum, ég er líka lúsiðin við að blaða í gegnum uppskriftir. Áhuginn, og ánægjan, af matseld hefur ekki yfirgefið mig þrátt fyrir að vera aftur orðin ein í heimili. Þessa dagana er ég á kafi í Miðjarðarhafsblaði Gestgjafans frá árinu 2006. Það árið gerðist ég áskrifandi að Gestgjafanum í 1 ár. Á því ári bjó ég hjá foreldrum mínum eftir slit á 7 ára sambúð, tók heila meðgöngu í að finna mér íbúð sem urðu mín fyrstu íbúðarkaup, og sankaði að mér Gestgjafanum á meðan. Blöðin fóru með mér úr 111 í 105, frá hlíðum í tún, og eru nú í blússandi notkun í húsum í 112. 

Rétt eins og þá nýt ég þess að kveikja á kertum, nostra við matseldina, legg á borð fyrir sjálfa mig og nýt svo afrakstursins

Franskur jazz í bakgrunni. 








Þorri Hringsson mælti með þessu víni með matnum
Fyrsta glasið fór í sjálfan réttinn, tvö glös farin í mig. 

Legg ekki meira á ykkur kæru vinir enda þarf ég að huga að matseld helgarinnar.

þriðjudagur, 10. mars 2020

Af vekjara og bókum

Vekjarinn minn í morgunn sagði góðan daginn elskan mín, ertu vöknuð? Þessum gæða vekjara fylgdi ekki snús. Forsaga málsins er sú að við Pési æddum af stað úr Melabúðinni til að ná fyrir lokun í bílaumboð Pésa, þar sem bíllinn hans beið hans eftir viðgerð. Áttaði mig á því á leiðinni að ég hafði gleymt símanum mínum í vinnunni í æðibunuganginum í okkur. Komin alla leið í eitthvert Kauptún í öðru bæjarfélagi þá datt mér ekki til hugar að renna aftur vestur í bæ fyrir einn símagarm. Brunaði bara heim til mín og hóf leit að vekjaraklukkunni sem ég keypti í Ikea fyrir einum tveimur árum eða svo. Klukkuna fann ég þó hvergi og því voru góð ráð dýr. Nú vill svo til að ég er með heimasíma, ekki síst fyrir þá staðreynd að hann er galókeypis í þeim símapakka sem ég er með, nema mér varð hugsað til þess að einu sinni var hægt að panta hringingu til að láta vekja sig (já krakkar, auðvitað var það löngu á undan gsm) og það var þá sem ég áttaði mig á því að hringja í traustasta fólkið mitt. Mamma tók vel í að hringja í stelpuna sína klukkan sjö morguninn eftir. Það var svo pabbi sem vakti mig með þessum hlýju orðum í morgunsárið. 

Niðri í andyrinu, í blokkinni sem ég bý í, sá ég stafla af bókum til gefins. Án þess að hika hélt ég beint í bílakjallarann, tautaði með sjálfri mér að ég ætti nóg af bókum, huggaði sjálfa mig með því að ég myndi leyfa mér að skoða það sem eftir yrði er ég kæmi heim úr vinnu. Í vinnunni í dag birtist svo Sólveig vinkona mín og gæðablóð með bók fyrir mig að lesa og nokkur eintök af the New Yorker. Ég var því kampakát er ég hélt heim á leið og mér til ósvikinnar gleði (eða ógleði) var bókastaflinn í andyrinu óhreyfður. Ég "neyddist" því til að staldra við hann og jú, þið giskuðuð rétt, ég tók að mér nokkrar bækur, eða öllu heldur, ég skildi nokkrar bækur eftir í andyrinu. 

Ein af mínum uppáhaldsbókum er Hundrað ára einsemd eftir Gabriel García Márquez. Í gærkveldi horfði ég á Ástin á tímum kólerunnar. Velti því fyrir mér af hverju í ósköpunum ég hef ekki lesið fleiri bækur eftir manninn. Ein af bókunum sem ég tók með mér í lyftuna áðan er Af Jarðarför Landsmóðurinnar Gömlu.

Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.

mánudagur, 9. mars 2020

Finnskur flamíngó?

Finnska pennavinkona mín sendi mér skilaboð á föstudeginum um að þau, hjónapörin þrjú, hefðu ákveðið að fara finnsku leiðina kvöldið eftir (þeirra eigin orð), þau væru búin að byrgja sig upp af víni og vildu endilega að ég kæmi í drykkjusamsætið til þeirra og kíkti svo með þeim í bæinn. Það var og. Get ekki sagt, óljúgandi, að ég hefði verið sérlega spennt fyrir þessu tilboði en vissulega langaði mig að hitta pennavinkonu mína aftur enda skemmtileg stelpa og við búnar að skrifast á í rúma tvo áratugi, auk þess sem ég hef tvisvar sótt hana og manninn hennar heim. Ekkert út á félagsskapinn að setja, það var þetta með drykkjuna og djammið sem dróg úr mér. 

Á laugardagskvöldinu er ég rembdist við að hrista af mér heimaværðinni og gíra mig upp í djammgírinn hringdi besta vinkona mín í mig. Við vinkonurnar fórum létt með að kjafta okkur í gegnum rúma 3 klukkutíma og er símtalinu lauk sá ég að pennavinkona mín var búin að senda mér skilaboð allann tímann um hvar þau væru, hvort ég væri ekki að koma og svo að síðustu; að þau væru farin uppá hótel að sofa, flug í fyrra fallinu daginn eftir. Þannig fór það.

Á sunndeginum umpottaði ég blóm í fyrsta skipti á ævinni, Flamingóinn minn var orðinn svo lúpulegur og búin að fella öll rauðu blómin svo ég tók sjénsinn, þvert á kunnáttu og getuleysi í þessum efnum. Hann sperrir sig enn og gerir vonandi áfram. Sólin sperrti sig líka í gær og lokkaði mig út í göngutúr. 

Að auki tók ég mér 5 klukkutíma í matseld. Legg ekki meira á ykkur að sinni.