Þar sem ég stóð og steytti saman myntulaufum og sykri í kokteilhristara tókst mér að brjóta á mér nöglina á hægri þumalfingri. Ekkert sem skiptir máli, hvað er ein nögl á milli vina? Þar sem ég hamaðist við að kreista safa úr límónu rann hægri hendin á mér til með þeim afleiðingum að nýklippt nöglin á hægri þumalfingri steyptist á vinstri þumal. Rétt fyrir neðan nögl á vinstri þumli gapti blæðandi sár, geri aðrir betur. Sannast sagna eru þetta hefðbundin heimilisslys frúarinnar, þ.e.a.s. heimilisslys sem koma sjaldan fyrir aðra, eins og þetta atvik.
Auk þess get ég sagt ykkur að mér er meinilla við rifjárn, hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef rifið puttana á mér til blóðs þegar ég á að vera að rífa engifer eða ost með rifjárni. Ostaskerar eru líka skaðræðistól, hef ekki heldur tölu á því hvursu oft ég hef flysjað á mér fingurna við að skera mér ostsneið.
Birta var að endasendast inn um kattalúguna. Hentist beint ofan í fjölnota Melabúðarpokann sem stendur hér á stofugólfinu. Þar steppaði hún á fjórum loppum í dágóða stund áður en hún lyppaðist niður, fæ ekki betur séð en að hún sé steinsofnuð í græna fjölnota Melabúðarpokanum.
Bjössi bróðir hennar, sem um daginn sat læstur inní bílskúr í 4 daga, hrökk upp af værum svefni er systir hans stökk inn. Á bleikum sófa fylgdist hann með henni taka sporin og er hún féll í svefn í grænum Melabúðarpokanum stökk hann af sófanum og rauk beina leið upp í rúm frúarinnar. Fæ ekki betur séð en að hann sé steinsofnaður þar.
Legg ekki meira á ykkur elskurnar, steinsofnið þið bara.
1 ummæli:
Það er svo gaman að lesa skrifin þín vinkona, auðvitað gleðst ég ekki yfir óförum þínum en veit að sárin gróa áður en þú giftir þig <3
Hafðu það sem best þangað til næst. Þórunn
Skrifa ummæli