föstudagur, 8. mars 2013

Vetrarnasl

Arkaði slabb og  snjó í gær. Hitnaði á göngunni í rigningunni. Kom heim með andlitið vindbarið og hárið blautt. Þurr í fæturna.

Sá myndarlegi hristi fram heitan rétt sem fékk roða fram í kinnar 

Sjá uppskrift hér.

Sá myndarlegi vildi setja eina tsk af chilli í stað 4, ég fékk mínu fram með 2. Ein hefði verið fullnóg en fyrir vikið varð heiti chilirétturinn að heitum chilirétti.

Eftir ark alla aðra daga vikunar kom ég bílandi heim í kvöld með lambafillé í töskunni sem sá myndarlegi saltaði og pipraði. Slatti af grófu salti sett á fituröndina og sú hlið steikt á pönnu í 3-4 mín og rétt örlítið steikt á hinni hliðinni áður en kjötið var sett inn í ofn í 5-10 mín


Með þessari dásemd bar sá myndarlegi fram bragðmikið kartöflugratín sem toppaði máltíðina. Ogjújú, salvíusveppasósunni sem sá myndarlegi hefur í ófá skiptin gert og fæst ekki linkur á hér því sú uppskrift skröltir í haus þess myndarlega.

Þannig er nú það.

mánudagur, 4. mars 2013

Já, blástu bara

Meira sem það var hressandi að arka heim úr vinnunni. Að koma heim með eldrautt andlit og kuldabarða leggi. Heppin að hafa lappir sem bera mig og seiglu til að berjast við veðrið. Frekar myndi ég 57 sinnum í röð vilja arka garrann mér til hreyfingar heldur en hamast inni í líkamsræktarstöð. Þakklát mömmu sem endalaust nennir að prjóna handa mér fallegar lopapeysur.

Sit og hlusta á gnauðið. Inni í hlýleika kerta og myndarlegs manns. Skítt með það þó enn sé kuldahrollur í tám og fingrum. Lífið er fjári gott þótt hann blási


laugardagur, 2. mars 2013

Góð grjón

Ég þekki menn sem finnast hrísgrjón ekki vera matur. Þegar ég segi menn þá meina ég karlmenn, ég þekki enga konu sem fussar og sveiar við hrísgrjónum. Sjálf get ég vel hugsað mér hrísgrjón sem máltíð ein og sér. Oft langar mig þó að gera einhvað meira með grjón, poppa þau upp eins og sagt er


Í vikunni dró ég fram uppskrift sem ég prentaði af femin.is fyrir líklega um áratug síðan, uppskrift að kanilkrydduðum túnfiski sem ég skellti í lög og lét liggja yfir nótt. Fyrir meðlætið skar ég 35 gr af þurrkuðum apríkósum smátt og setti í skál ásamt 40 gr af rúsínum. Hellti sjóðandi vatni yfir og lét standa í 15 mín. Því næst hellt í sigti og geymt


25 gr af smjöri brætt í potti og 150 gr af hrísgrjónum (ósoðnum) blandað vel saman við. 3,5 dl af grænmetissoði bætt út í smám saman (rísottólegt já) og hrært vel í á meðan. Grjónin síðan soðin í korter. Furuhnetur og sólblómafræ (40 gr) ristuð á þurri pönnu


Ávöxtunum, niðurskornum blaðlauk og ristuðu fræunum blandað saman við grjónin sem borin eru fram heit


Hrísgrjónin átum við upp til agna. Hins vegar var ég ekki alveg nógu hrifin af túnfisknum. Hráefnin í kryddlögin voru öll góð og túnfiskurinn var ekki þurr, lítið steiktur á grillpönnu og rauður í miðju eins og talað er um að steiktur túnfiskur eigi að vera. Er helst á því að ég einfaldlega fíli ekki túnfisksteik. Hverju svo sem sætir þá gladdist kötturinn við leifarnar af mínum disk