sunnudagur, 16. nóvember 2014

39 ára jæf

Meðan myndarlegi maðurinn puðar í skítagallanum í málningarvinnu hjá tengdaforeldrum sínum dró ég fram jafnöldru mína sem dillaði mér á náttkjólnum í gegnum uppvask, innkaupalistaskrif og kaffisötur


Jævið talar á Broadway nóttum og ástina skal fara um með mjúkum höndum. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það.


sunnudagur, 9. nóvember 2014

Jóla-roð

Þrátt fyrir að vera yfir mig hneyksluð á jólalögunum sem byrjuð eru að hljóma í útvarpinu í byrjun nóvember leyfði ég hinu eina sanna jólalagi að hljóma í æfón-vasadiskóinu mínu er ég arkaði heim á leið í dag með svarta bakpokann fullan af matvörum. Er ekki frá því að göngulagið hafi orðið léttstígara enda glitti í eitt og eitt lítið hvítt korn. Svona er nú konan tvöföld í jóla-roðinu

þriðjudagur, 1. júlí 2014

Skar niður lauk

og steikti í olíu og góðri dúnku af paprikukryddi


Fyrst ég var búin að óhreinka hnífinn skar ég líka niður hvítlauk, paprikur og gulrætur. Skolaði rauðar linsubaunir og skemmti mér við að teyga skrýtnu lyktina af þeim


Henti þeim í pottinn og örlítið á gólfið þegar allt hitt var farið að mýkjast nógu vel til að renna nógu ljúflega niður skoltinn á pilti á þrítugsaldri sem losnaði við þrjá endajaxla nokkrum tímum fyrr


Dós af tómötum og fullt, fullt af kjötsoði til að malla á móti rigningu, pipar að vildarlægð


Príma vetrarsúpa á sumri sem telur sig haust. Þar hafið þið það.

Það skiptast á skin og skúrir

sagði eitthvert gáfumennið á einhverjum tíma og síðan þá hafa mannskepnurnar hér á fróni keppst við að endurtaka frasann. Skyldi engann undra, sannleikur nokkur í þeim orðunum eins og veðrið keppist við að sýna okkur, að maður kona tali ekki um sjálft lífið.

Síðan síðast er ég búin að lesa 3 sæmilegar bækur eftir Íslending og ævintýralega sérstakar sögur eftir Spánverja, eftirstríðssögu í Hamborg eftir Breta og gamaldags krimma í Svíþjóð eftir Dana. Hugsa enn til frú Holst. Daninn sá hefur hæfileika til að skrifa sögur, óháð skini og skúrum.

fimmtudagur, 19. júní 2014

Af afmælisdreng og stúlkunni hans

54 ára stundi sá myndarlegi rétt búinn að glenna upp glyrnurnar í morgunsárið, hvað er það? Hvernig í ósköpunum á svo kornung stúlka eins og ég að svara þeirri spurningu?

Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur hún margsinnis heyrt aldursmun hafðan í flimtingum í sín eyru, heyrt háð á tungum eldri kvenna, brosað að gamansemi á tungum vina, hnussað yfir biturri andúð fordóma og leyft særindum ritaðra orða að særa sig. Margsinnis velt því fyrir sér af hverju aldursmunur skiptir svona marga máli og þá helst þá sem aldrei hafa reynt aldursmun á eigin skinni.

Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur stúlkan flutt búferlum, skipt um vinnur, klippt á sér hárið og farið í skóla. Stúlkan hefur lært mikið og heilmargt um hamingju, ást og gleði. Lifað fábrotin augnablik þar sem fallegt bros og blik í auga er lífið  og engin dásemd meiri en heit ást í hjarta. Stúlkan hefur líka lært að mótlæti er sjaldan langt undan og meinfýsnir vindar til sem blása henni ekki í hag. Stúlkan hefur lært að láta vinda mótlætis blása sér í brjóst hugrekki, hugrekki til að blása sjálf á særindi sem hljótast af ljótum tungum.

Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur maðurinn lætt sér yfir á annan tug. Stúlkan og maðurinn hafa lært að standa saman ekki bara í blíðu heldur þétta bilið í stríðu líka, fylla upp í vinda mótlætis með brosi og fálæti, fálæti á því hvað öðrum líður og vissu með það hvað okkur líður. Það má liggja í fleti og hugsa aumt um 54 ár og annað sem því fylgir, en þegar upp er staðið þarf að standa á eigin fótum hvursu gamlir sem þeir fætur eru.

Frá þeim tíma er stúlkan tók saman við sér eldri mann hefur stúlkan lært og lifað að ekkert af ofantöldu hefur neitt með aldursmun að gera. Sjálf hefur stúlkan aldrei fundið fyrir aldursmun í ástinni, brosi þess myndarlega, hamingjunni eða gleðinni í hversdeginum. Og þrátt fyrir að aldursmunur sé tíður á tungum annara hefur stúlkan ekki heldur fundið neinn aldursmun í þeirri biturð, öfund og depurð sem hrjáir allar illar tungur. 

Stúlkan stendur því keik enn á sínum áratug og heldur ótrauð áfram með 54 ára gamlan manninn upp á arminn, viss í sinni sök að maðurinn er eldri og stúlkan er yngri hvernig sem á það er litið.

Það er heldur engin önnur leið en áfram. Sú leið er líka óháð aldursmun.

mánudagur, 24. mars 2014

Malt í kássunni

Vorum vakin með látum af morgunútvarpinu með fréttum af vitfirrtum Rússlandsforseta, slagsmálum í miðbæ borgarinnar og ófærð og snjóflóð á vegum landsins. Meiri lætin alltaf í þessu blessaða mannfólki. Já, og veðri líka sem þó er einfaldara að sætta sig við en grimmd mannskepnunnar.

Sjálf var ég spök um helgina sem leið með nefið á kafi ofan í bók. Rétt leit upp til að sýna samstöðu á samstöðufundi, elda kjúklingarétt frá Palestínu, hella kaffi ofan í foreldra mína, baka marengs, sjóða kartöflur í mjólk og bræða súkkulaði í malti. Nærandi og styrkjandi. Gefur hraustlegt og gott útlit. Bætir meltinguna. 
Þar hafið þið það. 

fimmtudagur, 20. mars 2014

Hálfur nakinn sannleikur

Skaust aftur niður á neðri hæðina eftir sturtuna í morgun. Ekki búin að brjóta saman úr balanum. "Fannst þér öruggara að fara í brjóstahaldara" spurði sá myndarlegi sem sat og brosti að kærustunni við morgunverðarborðið. "Já" svaraði ég komin með hreinar nærbuxur í hendurnar "þó það sé líklega ekki þörf á því, afar ólíklegt að þeir komi tvo daga í röð til að tæma ruslið." Með enn breiðara brosi svaraði sá myndarlegi; "þeir voru nú bara að tæma bláu tunnuna í gær."

Átti útrunnið rauðrófu, epla- og piparrótarchutney sem ég smellti á svínalund sem ég síðan skellti inn í ofn ásamt rest af sætri kartöflu. Ég braut líka saman og gekk frá þvottinum. 
Þar hafið þið það. 

miðvikudagur, 19. mars 2014

Nakinn sannleikurinn

Skaust niður á neðri hæðina eftir sturtuna í morgun eftir hreinum nærbuxum sem ég vissi af í þvottabala inni í herbergi. Herbergi með glugga sem snýr út að götunni og innkeyrslunni að húsinu okkar. Glugga sem mér varð litið út um er ég stóð þarna í morgunsárið. Á öskukarlinn sem stóð og starði opinmynntur á kviknakta kerlinguna með hreinar nærbuxur í höndunum. Þannig var það og lítið við því að gera svo ég brosti bara til aumingja stráksins sem tók leiðina að tunnunum niðurlútur í nokkrum stökkum. 
Þar hafið þið það.

sunnudagur, 16. mars 2014

Sam-suða

Eftir samstöðufund á Austurvelli í gær dembdi ég mér peningalaus inn í Kolaportið. Kom heim með átta plötur. Með stynjandi diskódrottningu dembdi ég mér í örlitla tiltekt



Þó Donna vinkona mín hafi stunið heila A-hlið þýddi lítið fyrir mig að stynja, tiltekt tekur sig sjaldnast til sjálf og ég hlakkaði til næsta verkefnis



grátlaus laukskurður, gulróta- og sellerískurður ásamt hæfilegu magni af hvítlauk og ókjarnhreinsuðu chillí, niðurskurður sem vit er í


teygaði dásemdar angann sem brýst fram þegar kóríanderfræ eru mulin


henti kanilstöng út í dásemdina og því næst hellti ég slatta af rauðvíni yfir sem mér þykir næstum því jafn skemmtilegt og að hella rauðvíni í sjálfa mig


Með mexíkóskri matargerð, fengin frá íslending í Svíþjóð, leitaði ég til Grænhöfðaeyja til að fá seiðandi sveiflu í matinn og dillandi takt í mjaðmir


Borið fram með haug af sýrðum rjóma í sætri skál sem ég fór með heim um daginn úr Húsi Fiðrildanna 


Ekki síður nauðsynlegt að hafa aukaskammt af nachos nærtækt, borið fram í sósuskálinni úr dásemdarstellinu okkar sem við höfðum með okkur heim þarna um árið úr Húsi Fiðrildanna


Skv læknisráði teyguðum við svo rósavín frá Faustino vini okkar sem brást okkur ekki frekar en fyrri daginn, þið megið giska á hvar við fengum glösin...


Þann myndarlega fann ég á ónefndri ölstofu úti í bæ fyrir einum sex árum síðan, að drösla þeirri elsku inn í líf mitt eru margfalt betri kaup en matarstell og rósavín.

sunnudagur, 9. mars 2014

Matur & fjör

Talandi um mat þá drifum við foreldra mína á Food & Fun um helgina síðustu. Komum á þéttsetinn staðinn rétt fyrir níu og hófum kvöldið á fordrykk í setustofunni þar sem borðið okkar var ekki laust. Rúmum hálftíma síðar skáluðum við í freyðivíni sem var það fyrsta sem borið var á borð þegar okkur var loks vísað til borðs. Borð lengst inni í horni í enda veitingastaðarins. Tveimur borðum frá voru vinir okkar, Þóra og Svavar, að klára síðasta kaffisopann. Meðan þau stóðu við borðið okkar að spjalla birtist þjóninn með forréttinn. Allt í einu fer Þóra að hósta. Og hósta. Og hóstar svo meira og pabbi hnerrar og Pétur byrjar að hósta og síðan mamma og ég tek eftir því að flestir á staðnum eru hóstandi og hnerrandi og helmingur búinn að bera servíettuna fyrir vitin og þá byrja ég að finna fyrir fáránlegri ertingu í hálsinum, ertingu sem lætur ekki að sér hæða en lætur mig hósta og hósta án þess að ég fái nokkru ráðið. Áður en ég veit af er ég líka búin að hnerra og bera servíettuna fyrir vitin og Pétur er kominn langleiðina út sem og hálfur veitingastaðurinn. Þjónarnir labba um og ráðleggja fólki að fara út fyrir. Úti á gangstétt er fólk hissa og ringlað en gleðst þó fljótt er þjónarnir birtast með glös og freyðivínsflöskur og skenkja eins og óðir menn með heilan veitingstað á gangstéttinni. Allir virðast komnir út; matargestir, þjónar, kokkar og útlenski gestakokkurinn. Kátína hleypur um sig í kuldanum í bland við stóru spurninguna; hvað var þetta? Enginn veit svarið en þjónarnir halda áfram að skenkja og brosa og bera út bjór í ofanálag ofan í liðið sem dregið hefur athygli húsráðenda í kring út í glugga með furðusvip, skyldi engan undra


  
Eftir að búið var að lofta út eins og hægt var, m.a. með því að opna allt upp á gátt, var okkur í annað sinn þetta kvöld boðið til borðs á borði beint á móti útidyrahurðinni. Inni í horni í enda veitingastaðarins þar sem við áður sátum var ekki vinnandi vegur að vera og ekki á neinum öðrum borðum þar í kring. Tveimur af þremur klósettum staðarins var lokað og enn eimdi eftir af þessu sem enginn veit hvað var í loftinu. Vorum ánægð með opna hurðina beint á móti okkur og ekki síður ánægð að geta loks bragðað á forréttinum hálf ellefu um kvöld. Þjónarnir héldu eftir sem áður áfram að skenkja fríkeypis freyðivín í glösin og þjóna gestum með stakri prýði og bros á vör þrátt fyrir þessa óvæntu uppákomu, uppákomu sem væntanlega verður aldrei útskýrð, að minnsta kosti ekki fyrir matargestum 

Eftir prýðilega máltíð og töluverðar vangaveltur erum við nokkuð viss um að þegar við verðum löngu búin að gleyma matseðlinum eða hvernig príma matseld útlenska Food&Fun kokksins bragðaðist, þá munum við seint gleyma þessu kvöldi



fimmtudagur, 6. mars 2014

Upp úr mér

Það er ekki bara útlitið sem myndarlegi maðurinn minn hefur með sér, honum er margt til lista lagt. Og já, lysta líka. Hann er nefninlega fjári fínn kokkur. Þykir skemmtilegast að elda upp úr sér og á satt best að segja ekki gott með að gera bara eins og uppskrift segir til um. Galdrar fram kryddblöndur úr kryddum sem hann þurrkar sjálfur, hristir fram úr erminni eðal brauð sem hann hnoðar í eins og atvinnubakari og eldar dýrindis máltíðir í rólegheitum fyrir matargesti eins og það sé jafn einfalt og að sötra eitt rauðvínsglas í mestu makindum. 

Eftir að hafa marga kjötbolluna sopið (formað, steikt og etið) skilst mér að manninum hafi  tekist að toppa sjálfan sig með beztu kjötbollum sem hann hefur á áratuga ferli sínum í matseld mótað, steikt og borðað. Mér skilst að samsetning og magn krydda hafi gert trixið. Sjálf var ég hæstánægð með fetaostinn sem gægðist út úr bollunum og kitlaði ánægða bragðlauka


Merkilegt hvað margt gott kemur upp úr rauðhærðum slána sem alinn er upp á Hvolsvelli.

sunnudagur, 23. febrúar 2014

Kona fór á bókamarkað í dag

"Nei, þú þarft ekki annan Kundera, þú ert þó ekki búin að gleyma þessum þremur sem þú keyptir á síðasta bókamarkaði eftir hann sem eru allar enn í plastinu" hvíslaði hún að sjálfri sér. "Góða láttu ekki eins og þig vanti þessa skruddu eftir hana Vigdísi Gríms, þú sem átt þær svo gott sem allar" tuldraði hún í barminn.

Full af festu og ákveðni valdi konan aðeins þær tvær bækur sem kitluðu hjarta hennar hvað mest á markaðnum


Jú, það má svo sem vera að eldhúsið sé vel klyfjað kokkabókum og að Hodja vinur hennar hafi ratað með henni heim frá Kaupmannahöfn fyrir nokkrum árum, en það er jú konudagurinn í dag svo kona gerir það sem kona vil gera. 
Og hana nú!

fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Stúlkan á afmæli í dag


Afmæliskvöldinu sem og megninu af afmælishelginni verður sólundað í félagsskap bestu vinkonunnar á hátíð tónlistar. Stúlkan gerir ráð fyrir kröftugum dansi og trylltum takti, hávaða hlátri og skínandi skvaldri.

Blóm og kransar vinsamlega afþakkaðir en vingjarnlegar hugsanir og kátar kveðjur vel þegnar. 
Oghananú!

laugardagur, 8. febrúar 2014

Ó ljúfa matarlíf

Eftir langan vinnudag í gær fór frúin og keypti nýbrennt og ilmandi kaffi og fyllti gullvagninn af bensíni með kjúklingaleggi í töskunni. Er heim var komið grýtti hún kjúklingnum í karlinn sem tók á móti henni vælandi á sófanum með malandi kött og bók um hvað hann væri búinn að bíða lengi eftir ástinni sinni. Hvorugu varð meint af enda karlinn prýðiskokkur sem vippaði fram dýrindis kvöldverð úr grýttum kjúklingaleggjum að viðbættum lauk, paprikukryddi, appelsínuþykkni, púðursykri, soja, engifer, sérrí, salt og pipar eins og hendi væri veifað 


enda hlær sá myndarlegi bara að frúnni þegar hún lætur illa full meðvitaður um að frúin stenst ekki dásamlegt bros þess myndarlega


Eins og sá myndarlegi sé ekki nógu einstakur fyrir ofantalda eiginleika þá gerði hann sér lítið fyrir, eftir að hafa fært frúnni kaffi í rúmið, að blanda saman því litla sem til var í ísskápnum


kartöflum, blaðlauk og engifer, kryddað með tandúrí og túrmerik, hrærð egg og undir vökulu auga ásamt næmni kokksins


varð úr dásemdar spænsk ommeletta með asísku ívafi


hrist framan úr sloppermi þess myndarlega, borin fram með ristuðu brauði og upprúllaðri parmaskinku


Lífið. Ó lífið. Með myndarlegum manni.

sunnudagur, 26. janúar 2014

Barnaafmælistízkan í ár

Fórum í afmæli í gær. Alvöru afmæli með blöðrum, tertum, afmælissöng og kertablæstri


Barnaafmæli eru til margs fróðleg, t.d. komst ég að því að strigaskór með ljósum eru ofursvalir og legghlífar eru að koma aftur í tízku


Ekki amalegt það. Sjálf ætla ég að vera með þeim fyrstu til að kaupa strigaskó með ljósi þegar framleiðendur drattast til að skapa slíka ánægju í fullorðinsstærðum. Sé til með legghlífarnar.

fimmtudagur, 16. janúar 2014

Dæs

Ætlaði að vera dugleg að læra í kvöld en eftir þéttskipaðan vinnudag, pilatespúl, dásamlega máltíð og heita sturtu var ég svo löt að ég nennti ekki einu sinni að greiða á mér hárið eftir steypibaðið. Sit á sófanum í bleika sloppnum hennar mömmu með bífurnar upp á borði, læt mér líða vel. Nægur tími til að læra undir próf, ennþá. Svo sem búin að vera dugleg í kvöld; knúsa þann myndarlega, skipuleggja matseld fyrir matarboð, klappa kettinum, sötra soldið rauðvín, tala um að taka niður jólaskrautið, dæsa doldið af ánægju, fá þann myndarlega til að bera krem á fæturna á mér og nudda dálítið tærnar í leiðinni. Skítt með próf. Löngu búin að finna út úr því að stóru plönin hjá mér eru til að kollvarpa þeim. Skítt með að hárið á mér þornaði út í allar áttir ógreitt, sá myndarlegi hefur áreiðanlega séð það verra. Letin segir mér að það skynsamasta í þessari stöðu er að bæta örlítið meira í rauðvínsglasið, lesa aðeins meira af Fiskum sem hafa enga fætur, hjúfra sig þéttar að myndarlegum manni og leggja svolítinn metnað í ánægjudæsið.

föstudagur, 10. janúar 2014

Tíma-tal

Á nýju ári langar mig að trúa ykkur fyrir því að ég er kona með fortíð. Fortíð af fjölskyldu og vinum, kærustum og hjásvæfum, sambýlismanni og köttum. Fortíð af uppeldi og æsku, asnaprikum og axarsköftum. Fortíð af hamingju og gleði, særindum og sút, kátínu og skvaldri, sigrum og ósigrum. Það er gott að ylja sér við góðar minningar, minningar sem tengjast órjúfanlegum böndum meðan önnur bönd rofna og aðrar minningar dofna. Ég hef þó ekki áhuga á að dvelja í fortíðinni, kýs fremur að horfa til framtíðar. Fortíðarþrá getur breyst í fortíðarþráa á örskotsstundu.

Á einhverjum óljósum tímapunkti eftir að ég fór að elska þann myndarlega tók ég eftir því að tíminn í dag er stundin sem skiptir máli. Tilhlökkun til framtíðar nær ekki lengra en örfáar stundir fram í tímann, klukkutímar sem líða þar til ég nýt samvista við þann myndarlega. Nýt líðandi stundar á deginum í dag.

Ástin er mínúturnar í klukkustundunum mínum. Innihald klukkustundanna í sólarhringnum. Uppistaða sólarhringanna í vikunum. Vikunum í mánuðunum og mánuðunum í árinu. Krafturinn sem þeytir tímanum áfram og áfram, tímalaust. Vakna í janúar 2008, fer fram úr í febrúar 2009. Klæði mig í maí 2010, fer í vinnuna í ágúst 2011. Kem heim í september 2012, fer að sofa í nóvember 2013. Vakna í janúar 2014.

Tek varla eftir æðibunugangi tímans. Alsæl með ástina sem stenst tímans tönn.

Helgarmorgnar

Á helgarmorgnum 
- liggjum við í rúminu
-förum ekki á fætur fyrr en í lengstu lög
- förum helst ekki á fætur nema til að hella upp á könnuna
- drekkum kaffi í rúminu
- á helgarmorgnum viljum við njóta
- á helgarmorgnum er tilvalið að klára síðustu dreggjar kampavíns frá kvöldinu áður, skála fyrir ástinni og borða kryddað súkkulaði
- hvísla ástarorð að hvort öðru
- njóta hvors annars

Helgarmorgnar er okkar tími.