þriðjudagur, 10. apríl 2012

Sá myndarlegi mundi eftir að stilla vekjaraklukkuna í gær

Samviskusamur þessi elska. Neyddist því til að mæta í vinnuna.
Nei annars, ég er að ljúga, var vöknuð löngu á undan vekjaraklukkunni. Nennti reyndar ekki á fætur en það var ekki vinnunar vegna því þar leiðist mér aldrei.

Páskafríið var líka gott. Fórum á Snæfellsnesið og skoðuðum okkur um í þokunni, þáðum kapalkennslu og matarkrásir í bland við góðan félagsskap í Ólafsvík. Steiktum læri í 18 klstundir og fengum góða gesti í hádegismat á páskadag. Kláruðum að ganga frá í eldhússkápana og töluðum út í geim um framkvæmdir. Lágum eins og klessur á sófanum og lásum eins og við fengjum fimm þúsund kall borgaðan fyrir hverja lesna síðu. Röltum um borgina og héldumst í hendur. Borðuðum páskaegg og mændum ástföngnum augum á hvort annað.

Í dag skein sólin og í kvöld byrjuðum við að tilfæra dót. Mænum enn ástföngnum augum á hvort annað og höldum áfram að tala út í geim um framkvæmdir.

Páskafríið er búið


mánudagur, 9. apríl 2012

Margir þvælast í bandi

Ef ég ætti mann sem gæfi mér Mergur Málsins eftir áratugahjónaband, myndi ég íhuga alvarlega hvort mergur hjónabandsins væri á traustum grunni. Ef maðurinn eftir annan áratug tæki upp á sitt einsdæmi að festa kaup á lazyboystól fyrir einn, myndi ég fara fram á skilnað.

laugardagur, 7. apríl 2012

Pottur og hola

Dró þann myndarlega upp úr framkvæmdaholu heimilisins vestur á nes


Kaffi og kökur, systur og sæt börn, hryggur og hjónakapall, hola og fjara




Nennti ekki að velta mér upp úr dularfullu hvarfi steikingarpotts heimilisins er heim var komið. Hellti mér heldur í dularfullan heim Flaviu de Luce.

Læri morgundagsins líka löngu komið í ofninn.