sunnudagur, 27. ágúst 2017

Óróleiki grasekkju

Vaknaði rétt fyrir ellefu í morgun og spratt fram úr rúminu. Sólin skein inn um gluggann á efri hæðinni en þegar ég kíkti út um gluggan á neðri hæðinni sá ég þykka, fíngerða rigninguna. Brosti með sjálfri mér er ég dembdi baunum í kaffikvörnina, eins og ég geti ekki hellt uppá hugsaði ég meðan ég malaði dýrindis kaffið. Var ekki alveg jafn sjálfsörugg þegar ég mældi vatnið og fylltist óöryggi er ég fylgdist með kaffinu hrynja niður í könnuna. Hvað haldið þið svo? Jú, kaffið var lapþunnt. Kaffioflæti þess myndarlega í gegnum árin er búið að gjörspilla mér. Hvað veldur því svo að ég er að rembast við að hella uppá á sunnudagsmorgni en ekki hann gætuð þið spurt. Jú, ég nefninlega vaknað í nótt til að keyra karlinn á Keflavíkurflugvöll, hann er því fjarri öllu kaffigamni. Með Finnbogaráð í handraðanum hellti ég kaffinu aftur í gegn og drakk svo rótsterkt kaffi úr bolla sem við myndarlegi keyptum í antíkverslun í smábæ í Englandi.

Eftir 7 ára sambúð með þeim myndarlega fyllist ég enn eirðarleysi þegar hann er erlendis og ég er ein heima. Já, ég sakna hans þegar við erum ekki saman og já, líklega hefur mér aldrei fundist þetta heima vera mitt heima. Hvað sem því líður eru nokkrir hlutir sem ég gæti gert til að slá á eirðarleysið


  1. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
  2. Blastað Prodigy á hæsta styrk
  3. Skúrað gólfin en líklegast mun ég ekki nenna því
  4. Horft á allar Dynasti seríurnar sem sá myndarlegi gaf mér í jólagjöf og drukkið kampavín með
  5. Sópað moldina úr stiganum fyrir utan og tæmt pottana af dauðum blómum
  6. Sleppt því með öllu að kveikja á sjónvarpinu
  7. Drukkið kampavínsflösku á hverjum degi
  8. Spilað ABBAplöturnar hennar mömmu og sungið eins og síkátur skúnkur með
  9. Endurraðað öllu innandyra
  10. Falið allar nærbuxurnar hans
Smávinir fagrir, treysti á ykkur að koma með fleiri góðar uppástungur fyrir grasekkjuna (aðrar en að reykja gras) í fjarveru þess myndarlega. Koma svo!

föstudagur, 25. ágúst 2017

Síðla kvölds

Seint á föstudagskveldi get ég sagt ykkur að síðan síðast hef ég
  1. hugsað um að skúra en ekki nennt því
  2. étið hamborgara tvö kvöld í röð
  3. þróað með mér hlýjar tilfinningar til nuddtækis sem samstarfskona mín lánaði mér
  4. geispað ævintýralega mikið í vinnunni
  5. sagt við sjálfa mig að nú verði ég að fara að skila nuddtækinu en hef ekki látið verða af því enn
  6. sagt kallinum að mér þyki hann SVO sætur
  7. skrifað þrjátíuogfimm þakkarkort
  8. hjólað í vinnuna og úr vinnunni 
  9. setið í garðinum hjá Unni vinkonu og týnt jarðaber beint uppí mig og drukkið freyðivín með
  10. hjólað heim frá Unni með hausinn freyðandi af freyðivíni
  11. drukkið kvöldkaffi hjá tengdaforeldrum mínum með leifar af freyðandi freyðivínsbubblum í hausnum
  12. hlustað á magnaðan fyrirlestur í Háskóla Íslands
Þakka þeim sem hlýddu.

mánudagur, 21. ágúst 2017

Menning smenning

Foreldrar, vinir, systkin, börn, ferðafélagar, frænkur, vinnufélagar, frændur og já, yfirmenn líka. 78 nautahamborgarar, 3 grænmetisborgarar og 20 pylsur grillaðar. 101 brauð hitað í ofni. Slatti af iceberg, gúrkum, tómötum og lauk niðurskorið. Haugur af bjór í bala, hvítvín á klaka í handgerðri skál af frúnni. Rauðvín líka, mikil ósköp. Hjartalaga gestabók tekin í gagnið. Inn á heimilið voru bornar rauðvínsflöskur, hvítvínsflöskur, kampavínsflaska, líkjör, vínglös, diskar, bollar, danskur lakkrís, kampavínskerti, blóm í Saharasandi, bækur og falleg kort. Erum alveg bit yfir gjafmildi vina okkar enda átti hvorugt okkar afmæli, buðum bara fólki í menningarnæturgrill, fólki sem okkur langaði til að hitta, gefa að éta og drekka og gera okkur glaðan dag með. Vorum heldur ekki svikin af gleði, meira hvað við Pétur erum lukkuleg með skyldfólk og vini, skil satt að segja bara ekkert í því hvernig allt þetta skemmtilega fólk nennir að hanga með okkur, en gaman var það!

Verð að viðurkenna að við vorum jú örlítið rykug í gær en alveg ofsalega sátt með allt þetta frábæra, glaða fólk sem hjálpaði okkur að gera góða veizlu. Vorum líka ansi lukkuleg að hafa foreldra mína í næturgistingu í gær og geta steikt fleiri hamborgara. Annars var fólki tíðrætt um hve hamborgararnir voru góðir og ég stenst ekki mátið að upplýsa ykkur um að hamborgararnir eru algjört eðal, pressaðir úr príma hakki af Tobba kóngi á laugardagsmorgninum í Melabúðinni. Ef þið vissuð það ekki nú þegar þá er hakkið í Melabúðinni 100% gott og hamborgararnir eftir því. 

Södd og sæl leikur okkur annars forvitni á að vita hverjum var svona í nöp við blómapottana, ég meina, var þetta í alvöru svona villt partý? 



laugardagur, 19. ágúst 2017

Til-vera

Stúlkan Konan í bókinni er aftur farin að vinna á staðnum sem hún hætti á. Reyndar ekki búin að fastráða sig aftur, vinnur svona frílans eins og sagt er. Hún er líka búin að rífast við sambýlismann sinn og sættast við hann aftur, hitta slatta af vinum á börum og hanga heil heiljarinnar ósköp á kaffihúsum. Að sjálfsögðu hamast hún svo líka við að finna sinn stað í tilverunni.

Sjálf tæmdi ég kattadallinn, þurrkaði af og ryksugaði í gær. Í dag ætla ég að lakka á mér neglurnar og hamast við að vera glöð. Hvað það segir um minn stað í tilverunni verður bara að koma í ljós.

miðvikudagur, 16. ágúst 2017

Afmælisskál!

Var svo áfjáð í kaffi í morgun í vinnunni að ég hellti því ekki bara upp í mig heldur yfir hökuna líka þar sem það lak niður á bolinn minn og skvettist svo á hendurnar á mér og á gallabuxurnar mínar þegar ég brást við þessum ósköpum. Eins og rjúkandi nýlagaður kaffiilmur er nú góður þá get ég alveg staðfest það hér og nú að köld kaffilykt í fatnaði er töluvert síðri. Það væri auðvitað voða gott að geta bara kennt axlarverknum um en líklega var það bara kaffigræðgin í konunni sem tók alla stjórn. Svo væri alveg hugsanlegt líka að kenna þessum Melabræðrum um fyrir að hafa svona svívirðilega gott kaffi á boðstólum en fjandinn hafi það, ætli fullorðin kona eins og ég verði ekki að axla sína ábyrgð á eigin gjörðum. Mætti annars í vinnuna í morgun í næfurþunna skæslega jakkanum mínum enda veðrið eftir því, sólbjart og fallegt. Mígandi rigning þegar ég ætlaði að labba heim. Gat skeð. Hinn Péturinn í lífi mínu aumkaði sig yfir mig og skutlaði mér heim að dyrum. Jájá, það er ekki allt á afturfótunum í henni veröld.

Sit við eldhúsborðið með fullt mjólkurglas af vodka. Er svo skrambi heppin með gott skyldfólk sem er örlátt á góð ráð. Ekki bara benti hún Inga frænka mér á að sterkt áfengi væri líklega betra en hvítvín, hún bað mig einnig um að ofgera mér ekki á glasalyftingum og nota bara rör. Að sjálfsögðu læt ég undan slíkri umhyggju. Sá myndarlegi er á deiliskipulagsfundi vegna Borgartúns 24, var að senda mér sms; hitafundur, stendur enn. Ætti kannski að vera að elda kvöldmat en æ, ég nenni því ekki, hann getur bara fengið sér vodka eins og ég þegar hann kemur heim.

Af öðrum merkilegum viðburðum dagsins get ég deilt því með ykkur að Madonna á afmæli í dag. Eftir því sem ég frómast veit mun það eiga sér stað einu sinni á ári.
Skál fyrir því!

þriðjudagur, 15. ágúst 2017

Á háu stigi sjálfsvorkunar

Plís, ekki hringja í lögguna en djöfull væri ég til í að vera í vímu núna, þ.e.a.s. einhverri betri en sársaukavímunni sem hrjáir mig. Vaknaði í gærmorgun með þvílíkan verk í hægri öxlinni, verk sem teygði sig uppí háls og smaug á stundum niður í handlegg. Verk sem gerir það að verkum að ég sný mér allri til hliðar ef ég ég þarf að snúa höfðinu til hægri. 

Þrátt fyrir verki er ég búin að taka úr uppþvottavélinni, smjörsteikja þorskhnakka og fara í sjóðandi heitt bað. Sá myndarlegi er búin að tala út í geim um að ég þurfi að panta mér tíma hjá sjúkraþjálfara og helst að fá einn til mín í vinnuna til að sýna mér hvernig ég eigi að bera mig að við skrifstofustörfin. Að auki er hann búinn að nudda og þrýsta og kremja og kreista og segja; já, þetta á að vera vont, síðan verður það gott. Ég læt mér nægja að súpa hveljur. Sit reyndar núna við eldhúsborðið og sýp á hvítvíni frá Bordeaux. Sá myndarlegi segir að ég eigi frekar að taka Voltaren töflur nema við eigum engar slíkar töflur til, bara Voltaren krem.

Það má vel vera að áfengisvíma geri ekkert fyrir verkinn en ég prísa mig sæla að geta yfirhöfuð lyft glasinu að vörum mér. Á tímum sem þessum biður kona ekki um mikið meira.

mánudagur, 14. ágúst 2017

Ég er í vímu.

Víman er græn og samanstendur af rósmaríni, oreganói og salvíu. Ilmurinn smýgur upp um nasirnar og skapar himneska harmóníu í hausnum. Heimaræktað stöff, að sjálfsögðu.

Kona ætti auðvitað ekkert að vera að raupa í rafheimum í annarlegu ástandi en fjandinn hafi það, ég er víst örugglega búin að skrifa nógu marga bloggpistla edrú. Þess vegna leita ég nú á náðir hlustenda og spyr, þekkir einhver haus eða fætur á þessum kvikindum?
P.s. Sjáið þið ekki alveg örugglega líka pöddur á þessari mynd?

Af bréfaskiftum

Bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar beið mín er ég kom heim í dag. Þar er ég boðin velkomin á fund um breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgartún 24. Kynningarfundur haldin á afmælisdegi Madonnu. Sá myndarlegi fékk líka bréf um sama efni enda vissara fyrir borgina að senda sitthvort bréfið, aldeilis ekki sjálfgefið að hjón tali yfirhöfuð saman. 

Fékk líka bleðil frá HR, bækling sneisafullan um allskyns kúrsa sem allir innihéldu orð um einhverskonar viðskipti, markaðsþetta og stjórnunarhitt. Vafalaust gríðarlega spennandi stöff. 

Viðurkenni kinnroðalaust að bréfið frá henni Akvilé, pennavinkonu minni til 17 ára, vakti mestu gleðina. Svona getur fullorðin kona verið skrýtin.

sunnudagur, 13. ágúst 2017

Af fjallgöngu og leti

Vorum að koma ofan af Skaga. Sóttum skál í skúrinn hennar Kristbjargar sem er í stíl við vasann hennar mömmu og paufuðumst upp á Háahnúk. Mig er lengi búið að langa til að tölta á Akrafjall og var hreint ekki svikin með daginn í dag því veðrið lék við okkur. Álpuðumst að vísu aðra leið upp en sú vanalega, að við teljum, en það var bara gaman að fara allt aðra leið niður. Upp komumst við og alla leið niður aftur. 

Dagarnir eftir frí hafa annars einkennst af mikilli leti eða eiginlega haugaleti. Get víst þakkað vinnunni fyrir að ég hef klætt mig og burstað tennur s.l. 2 vikur. Jújú, ég hef svo sem þvegið haug af þvotti, farið í göngutúra, keypt í matinn, sett í uppþvottavél, farið í sund, tekið úr uppþvottavél, eldað mat, klappað kettinum, brotið saman þvotti og vaskað upp svo sitt lítið sé nefnt en eina sem mig langar til að gera er að lesa. Lesa, lesa, vera löt og lesa svo meira.

Rétt í þessu rignir hann og á morgun er mánudagur. Er að lesa bók um stelpu konu sem hættir í vinnunni af því hún vil reyna að finna út úr því hvað hún vil verða. Konukindin sú er sumsé orðin tuttuguogfimm... en ég skil hana samt vel. 42ja ára veit ég ekki enn hvað ég vil verða en þrátt fyrir yfirgengna leti þessa dagana ætla ég ekkert að hætta í vinnunni, læt mig bara hafa það að vakna á morgun. 

Þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað ég vilji verða þá veit ég þó það að sólskin er betra en rigning á fjöllum og heiðskýrt betra en skýjað á fjallstoppum. Ég veit hins vegar ekki af hverju Akranes er eilíflega kallað Skaginn. Svoleiðis er það bara.

sunnudagur, 6. ágúst 2017

Bókaskattur og morgunarfi

myndarlegi lætur eins og við séum enn stödd í Frakklandi, skaust í bakaríið í gærmorgun til að færa frúnni ilmandi nýtt krossant í árbít. Í morgun sauð hann linsoðin egg og bar fram ásamt steinbökuðu súrdeigsbrauði. Ekki amalegur morgunskattur, að kona tali nú ekki um blessað Haití kaffið hennar Eldu. 

Eyddi bút úr degi á hnjánum útí garði, reytti arfa eins og kona með græna fingur en í rauninni voru þeir bara moldarbrúnir. Á árum áður hefði ég fremur kosið að dansa húlla í helvíti en að stunda garðvinnu af neinni sort, svona þroskast nú kona með aldri. Eða ekki.

Ég sem ætlaði að liggja sem mest í leti þessa helgina er allt í einu, já, rétt si svona, komin á kaf í 2 bækur. Get reyndar ekki fett neinn fingur út í það, fyrir mig er lestur príma afslöppun og andleg næring. Hvaða bók ert þú annars að lesa?

föstudagur, 4. ágúst 2017

Föstudagssvimi

10 hamborgarar steiktir á heimilinu í kvöld, 8 nautaborgarar, 2 grænmetis. Allir runnu þeir ljúflega niður í liðið hans Péturs, mig þar á meðal.

Ligg eins og skata á sófanum. Þrátt fyrir þá samlíkingu líður mér samt eins og steiktum borgara. Letin umvefur mig eins og steikingarbræla, daglega lífið eins og bráðinn ostur á herðunum. Sumarfrís(angur)værð eins og hnausþykkur þokuhnykill í hausnum á mér.

Gleðst innilega og fölskvalaust yfir þeirri staðreynd að núna er föstudagskvöld og ég þarf ekki að vakna til vinnu fyrr en á þriðjudag. Ef guð lofar.

fimmtudagur, 3. ágúst 2017

Heima er bezt

Kreisti límónu og komst að því að ég er með blaðskurð á vísifingri. Lét sem ekkert væri þrátt fyrir stingandi sviða, hélt bara áfram með eldamennskuna. Soldið eins og að byrja aftur að vinna eftir undursamlega dásamlegt sumarfrí. Finnst eins og fingurnir séu stirðir er ég hamra inn tölur í uppgjörum liðinna daga. Vanalegur músarfimleiki fremur óliðugur. Sumarfrísleti hríslast um kroppinn, sumarfrísværð eins og þoka í höfðinu. Hélt í allan gærdag að það væri þriðjudagur. Allur dagurinn í dag var fimmtudagur, á morgun ætti því að vera föstudagur.

Sá myndarlegi heldur því fram að einhver hafi einhverntíma sagt einhvað á þá leið að allar ferðir séu ferðir heim. Hvað svo sem til er í því þá er alveg rétt að það er alltaf gott að koma heim þó að heim þýði að þá þurfi að mæta í vinnuna, skúra gólfin, versla í matinn og allt hitt daglega snöflið. Heim þýðir líka ískalt og gott vatn úr krananum, klapp og kúr með kærasta kettinum, frískandi súrefni í hausinn á góðri göngu ásamt svo mörgu öðru sem er hreint ekki sjálfgefið en oftar en ekki sjálftekið.

Að auki er fáránlega gott að vefja sér inní sína eigin sæng.