sunnudagur, 13. ágúst 2017

Af fjallgöngu og leti

Vorum að koma ofan af Skaga. Sóttum skál í skúrinn hennar Kristbjargar sem er í stíl við vasann hennar mömmu og paufuðumst upp á Háahnúk. Mig er lengi búið að langa til að tölta á Akrafjall og var hreint ekki svikin með daginn í dag því veðrið lék við okkur. Álpuðumst að vísu aðra leið upp en sú vanalega, að við teljum, en það var bara gaman að fara allt aðra leið niður. Upp komumst við og alla leið niður aftur. 

Dagarnir eftir frí hafa annars einkennst af mikilli leti eða eiginlega haugaleti. Get víst þakkað vinnunni fyrir að ég hef klætt mig og burstað tennur s.l. 2 vikur. Jújú, ég hef svo sem þvegið haug af þvotti, farið í göngutúra, keypt í matinn, sett í uppþvottavél, farið í sund, tekið úr uppþvottavél, eldað mat, klappað kettinum, brotið saman þvotti og vaskað upp svo sitt lítið sé nefnt en eina sem mig langar til að gera er að lesa. Lesa, lesa, vera löt og lesa svo meira.

Rétt í þessu rignir hann og á morgun er mánudagur. Er að lesa bók um stelpu konu sem hættir í vinnunni af því hún vil reyna að finna út úr því hvað hún vil verða. Konukindin sú er sumsé orðin tuttuguogfimm... en ég skil hana samt vel. 42ja ára veit ég ekki enn hvað ég vil verða en þrátt fyrir yfirgengna leti þessa dagana ætla ég ekkert að hætta í vinnunni, læt mig bara hafa það að vakna á morgun. 

Þótt ég hafi ekki hugmynd um hvað ég vilji verða þá veit ég þó það að sólskin er betra en rigning á fjöllum og heiðskýrt betra en skýjað á fjallstoppum. Ég veit hins vegar ekki af hverju Akranes er eilíflega kallað Skaginn. Svoleiðis er það bara.

Engin ummæli: