mánudagur, 14. ágúst 2017

Af bréfaskiftum

Bréf frá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar beið mín er ég kom heim í dag. Þar er ég boðin velkomin á fund um breytingu á deiliskipulagi fyrir Borgartún 24. Kynningarfundur haldin á afmælisdegi Madonnu. Sá myndarlegi fékk líka bréf um sama efni enda vissara fyrir borgina að senda sitthvort bréfið, aldeilis ekki sjálfgefið að hjón tali yfirhöfuð saman. 

Fékk líka bleðil frá HR, bækling sneisafullan um allskyns kúrsa sem allir innihéldu orð um einhverskonar viðskipti, markaðsþetta og stjórnunarhitt. Vafalaust gríðarlega spennandi stöff. 

Viðurkenni kinnroðalaust að bréfið frá henni Akvilé, pennavinkonu minni til 17 ára, vakti mestu gleðina. Svona getur fullorðin kona verið skrýtin.

Engin ummæli: