sunnudagur, 24. maí 2020

Frænkuskottin...

...biðu útá gangstétt óþreyjufullar eftir aldraðri frænku sinni, þ.e.a.s. tvær þeirra, sú yngsta var að bíða eftir systur sinni. Sólin sýndi sínar bestu hliðar og dreif stúlkurnar með mér niður í bæ þar sem við byrjuðum á því að fara út að borða, reyndum því næst að gefa öndunum brauð sem gekk betur eftir að við áttuðum okkur á því að ákaft klapp stuggaði máfunum í burtu, að ógleymdu háværu kalli litlu systur minnar; farið þið burt máfar! Sú stutta hefur lungu, skal ég segja ykkur.

Enduðum á kaffihúsi eftir göngu í sólríkum bænum. Yfir kaffi- og kakóbollum komst aldraða frænkan að því að hamborgari væri draumakvöldmáltíð þeirra systra. Heima í Veghúsum urðu fagnaðarfundir með systrunum og Bjössa og Birtu, kisurnar mínar eru jú komnar undan kisu í eigu þeirra systra. Í bænum höfðum við álpast inní bókabúð og fest kaup á litabókum og litum, eftir mikinn leik með kisunum settumst við niður á sólríkri veröndinni og lituðum og spjölluðum og lituðum og bulluðum áður en við áttuðum okkur á því að við værum orðnar svangar. 

Líklega er góður hamborgarastaður nær en ég mundi bara eftir bölvaðri fabríkunni sem er á endanum á götunni þar sem ég bjó og þangað brunaði ég með stelpustóðið. Nema, þar sem við sátum og úðuðum í okkur borgurum og frönskum og kokteil þá mundu frænkur mínar eftir því að ég hafði búið í sömu götu og heimtuðu að fá að heimsækja Pétur og þar sem ég reyndi að koma mér undan því heimtuðu þær enn frekar og þar sem við keyrðum Samtúnið (ég lagði víst við endan á götunni) öskruðu frænkur mínar; þarna er húsið! Á endanum stoppuðum við í innkeyrslunni að Samtúni 8 þar sem systurnar skipuðu mér að fela mig á meðan þær myndu dingla, sem þær og gerðu. Minn fyrrverandi, hann Pétur, varð að sjálfsögðu bara glaður að sjá þessar þrjár snótir á dyratröppunni hjá sér, bauð okkur öllum inn. Eftir að hafa spjallað og gefið stúlkunum epli kvaddi ég minn fyrrverandi sem sagði að heimsóknin hefði bjargað þessu laugardagskvöldi. 

Kvöldið var þó ekki búið, heima hjá mér drifum við stelpurnar okkur í náttfötin og drógum svo húsgögnin til og frá þar til við gátum allar fjórar legið saman með snakk og gos og horft á mynd. Að sjálfsögðu fórum við seint að sofa og sváfum því fram eftir morguninn eftir, allavega á þeirra mælikvarða. Fengum okkur grillaðar samlokur og appelsín í morgunmat, héldum áfram að lita og spjalla og grínast og hlægja þar til kominn var tími á bíóferð sem átti einstaklega vel við í rigningunni. Að bíóferð lokinni reyndu snótirnar að sannfæra mig um að það væri aðeins of snemmt að skila þeim til móður sinnar, nema reyndar sú stutta, hún systir mín, hún var með sitt á tæru; skila þessum tveimur eldri heim til mömmu en hún ætlaði heim með mér og sofa aðra nótt.

Að fá tækifæri til að spilla þessum systrum í stutta stund var sérdeilis skemmtilegt en þegar móðir þeirra sendi mér skilaboð, eftir að hafa fengið haug af myndum í facebook skilaboðum, um að þetta minnti hana á tímana þegar hún var hjá mér sem krakki, þá gladdist ég innilega.

Legg ekki meira á ykkur enda nægur lestur nú þegar.

fimmtudagur, 21. maí 2020

Lofnarblóm á afmælisdegi systur

Sat upp við höfðagaflinn í morgun, las og drakk kaffi. Beygði mig fram og teygði vinstri hendi aftur fyrir bak til að stöðva kláða. Spratt fram úr rúminu og sveigði mig nakin fyrir framan spegilinn í skáphurðinni, ekki bara fékk ég grun minn staðfestann heldur sá ég tvö önnur bit að auki rétt við vinstri mjöðm. Lofnarblóm varð aftur hluti af lífi mínu í dag; búin að setja lavendersápuna í sturtuna mína, lavender húðkremið komið á hillu í baðherbergisskápnum og NOW ilmolíulampinn, sem ég var svo lánsöm að fá í jólagjöf þarna um árið, sprúðlar lofnarblómailmi í svefnherberginu mínu þessa stundina. Og fær að gera það áfram, getið sveiað ykkur uppá það.

Hallveig systir mín á afmæli í dag. Enn einu sinni tókst henni að verða aftur elst. Í tilefni af því að hún fæddist hringdi ég í hana. Stóðst ekki mátið að spyrja hana að því, með tilliti til þess að ég er hugsanlega orðin miðaldra, hvað hún er þá? Eldri borgari svaraði hún hlægjandi, fagna hverju ári bætti hún svo við. Hvorug okkar er þó eldri en Esjan og því ber kannski að fagna. 

Já, svei mér þá, því ekki?