Sat upp við höfðagaflinn í morgun, las og drakk kaffi. Beygði mig fram og teygði vinstri hendi aftur fyrir bak til að stöðva kláða. Spratt fram úr rúminu og sveigði mig nakin fyrir framan spegilinn í skáphurðinni, ekki bara fékk ég grun minn staðfestann heldur sá ég tvö önnur bit að auki rétt við vinstri mjöðm. Lofnarblóm varð aftur hluti af lífi mínu í dag; búin að setja lavendersápuna í sturtuna mína, lavender húðkremið komið á hillu í baðherbergisskápnum og NOW ilmolíulampinn, sem ég var svo lánsöm að fá í jólagjöf þarna um árið, sprúðlar lofnarblómailmi í svefnherberginu mínu þessa stundina. Og fær að gera það áfram, getið sveiað ykkur uppá það.
Hallveig systir mín á afmæli í dag. Enn einu sinni tókst henni að verða aftur elst. Í tilefni af því að hún fæddist hringdi ég í hana. Stóðst ekki mátið að spyrja hana að því, með tilliti til þess að ég er hugsanlega orðin miðaldra, hvað hún er þá? Eldri borgari svaraði hún hlægjandi, fagna hverju ári bætti hún svo við. Hvorug okkar er þó eldri en Esjan og því ber kannski að fagna.
Já, svei mér þá, því ekki?
Engin ummæli:
Skrifa ummæli