föstudagur, 26. ágúst 2022

Örsaga af sögu

Einn kafli eftir og mig langar ekki til að klára. Búin að fara fram úr og opna út á verönd, klappa Bjössa sem liggur makindalega á bleikum sófa, fá mér kaffi og ristað brauð með eggi og agúrku. Önnur aðalsöguhetjan er látin, sem hlýtur að flokkast sem ákveðinn endanleiki, samt vil ég ekki að bókin endi. Dásamleg saga sem hreyfir við frúnni með húmor og sorg, togstreitum lífsins, hef hlegið dátt og tárast og nú eru 12 bls eftir. Einn kafli. Endir.

Er nýlega hætt að ganga að skenknum til að sækja eða ganga frá einhverju, skenkurinn prýðir nú heimili ungra hjóna í Kópavogi. Frammi í stofu blasa vínilhillurnar tómar við mér. Það gleður mig mikið að hugsa til þess að systir mín eigi eftir að spila eyrað af mági mínum með plötusafninu, sem hefur fylgt mér um áratugi, en það er óneitanlega spes að hafa ekki eina einustu plötu í íbúðinni. Tómu naglarnir undan málverkunum plaga mig síður, helst þessi í svefnherberginu sem starir tómeygur á móti þegar ég vakna.

Sögur. Kaflaskil. Endir en líka upphaf.

miðvikudagur, 3. ágúst 2022

Skjálftaglóð

Hér í efri byggðum Reykjavíkurborgar hefur frúin ekki fundið fyrir einum einasta jarðskjálfta. Nei, ekki svo mikið sem lélegum titring í lítilli tá. Það þýðir þó ekki að líf frúarinnar sé með öllu hreyfingalaust, aldeilis ekki. Skjálftarnir hið innra hafa skekið frúna allt frá því hún sagði skilið við mann sem hún þá elskaði enn, gekkst við illkynja krabbameini og tókst á við lyfjameðferð, hóf háskólanám og sagði upp áratugalöngu starfi. Tilfinningasveiflur, skynjanir og hræringar á jarðskjálftakvörðum mannveru.

Nú er farið að gjósa og skyldi engan undra, frúin ber jú eldfjallanafn með rentu. Enda hefur hún leyft sér að dreyma og þora að ekki bara dreyma heldur ætlar hún sér einnig að láta drauma rætast. Skrefin eru misstór og misþung og á stundum hefur frúin stigið heldur varlega til jarðar og tekið sér langan umhugsunarfrest. Það er ekki alltaf einfalt að synda á móti straumnum og oftar en ekki er stærsta hindrunin enginn önnur en kona sjálf. Því hefur frúin nú ákveðið að stinga sér til sunds og láta reyna á sundgetuna. 

Ekki seinna vænna, fyrstu lesgleraugun eru komin í hús 
Það koma nefninlega tímar í lífi konu þar sem þarf að stíga stóru skrefin. 

Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur hlustendur góðir, nóg er víst komið af skjálftavaktinni.