þriðjudagur, 11. ágúst 2020

Fugl, frí, faðir

Vaknaði upp við skræka skræki á undan vekjaraklukkunni í gærmorgunn. Hentist fram úr rúminu og náði í hnakkadrambið á Birtu rétt u.þ.b. sem bróðir hennar hentist inn um kattalúguna. Bæði fengu þau að dúsa inni í gestaherbergi á meðan ég hlúði að fuglsanganum sem hafði sem betur fer skrækt mig á fætur á undan vekjaranum. Anginn var blessunarlega ómeiddur en ofandaði skiljanlega. Eftir sturtu og skál af ab-mjólk sá ég fuglinn hefja flugið út í frelsið, sem betur fer.

Ríflega vikufríi lauk í gærmorgun, fínasta frí, en þar sem ég gerði fjandakornið ekki neitt þá fannst mér hálft í hvoru bara léttir að mæta aftur í vinnuna. Ætlaði mér að elta fossa í 3ja daga göngu með FÍ um Verslunarmannahelgina. 3ja daga gangan var svo stytt í 2ja daga göngu þar til óbermis Covid-táningurinn náði yfirhöndinni og förinni var frestað með öllu. Óttast nú helst að Ferðafélag Íslands sé búið að setja frúna á svartann lista.

Í fríinu afrekaði ég þó að sofa út á hverjum degi, knúsa kisurnar, lesa glás af bókum og elda góðan mat. Fór m.a.s. í göngutúr, alla leið í Spöngina, til að kaupa mér ís í Huppu. Takk fyrir. Labbaði reyndar aftur í Spöngina til að kaupa mér sérbakað vínarbrauð en, það er önnur saga, önnur gönguferð. 

Fór líka í bíltúr, í allt annað bæjarfélag, til að kaupa mér bókahillur. Já, þakka ykkur kærlega fyrir. Hringdi því næst í föður minn til að spyrja um stjörnuskrúfjárn og stöff. Hefði svo sem alveg getað arkað beint í Húsasmiðjuna, það var bara skemmtilegra að heyra í pabba fyrst. Enda hringdi ég lóðbeint í hann aftur þegar ég var heimkomin með litla tösku, fulla af allskyns skrúfjárnum, og hamri að auki. 

Ekki að við pabbi hefðum bara talað um samsetningu bókahillna, onei, við töluðum líka um veðrið, girðingavinnu, vini mína, pólitík, fjölskylduna, garðslátt, Birtu og Bjössa, bílinn minn, fyrrverandi fjölskyldu mína, sveitina og jújú, skrúfjárn og hamar og samsetningu bókahillna. 

Sagði pabba að ég hefði eiginlega ekki gert neitt í báðum fríunum mínum. Pabbi var mér ekki sammála. Pabbi sagði að það væri ekki öllum gefið að geta verið einir með sjálfum sér. Hann telur að þeir sem þurfi sífellt að vera á ferðinni, sífellt að elta aðra, sífellt að kaupa og gera, þeim líði ekki nógu vel. Þeir sem hins vegar geta staldrað við og gert "ekki neitt", þeir sem geta verið "einir" með sjálfum sér og séu sáttir við eigin félagsskap, þeir séu lánsamir. 

Sjálf veit ég fyrir víst að ég er lánsöm að eiga pabba minn fyrir pabba. Legg ekki meira á ykkur.