þriðjudagur, 30. júlí 2019

Sólin var að brjótast fram...

...úr dökkum skýum. Næstum 20 stiga hiti á mælinum og regndropar á bílrúðunni er ég keyrði heim úr vinnu. Núna er klukkan að verða níu að kvöldi og ég sit úti á verönd á stuutermabol, berfætt, 19 stiga hiti og Trump Bandaríkjaforseti trúir ekki á loftslagsbreytingar.

Í lok vikunnar verðum við myndarlegi komin til Argentínu. Þar mun vera síðasti mánuður vetrar. Við þurfum því að pakka fötum fyrir hitastig sem mætti búast við á hefðbundnu íslensku sumri.

 það er nefninlega það.

sunnudagur, 28. júlí 2019

Regndropar falla

Hvíta og svarta læðan mín var að skjótast út um gluggann, tiplaði hratt og örugglega á hvítum loppum út í örfína rigninguna. Svarti og hvíti fressinn minn liggur makindalegur í bleikum stól inní stofu, sefur vært og veit ekki af rigningardropunum sem færast í aukana fyrir utan gluggann. Fyrrum rauðhærði eiginmaðurinn minn er með sína eigin rigningu á hlaupabretti í ræktinni í næsta hverfi, hvort sú rigning er fínleg er ekki gott að segja, líklega spurning um á hvaða km hann er staddur blessaður. 

Sjálf var ég að setja uppþvottavélina af stað, trompettónar Chets Baker úðast eins og frískandi rigning um eldhúsið. Ætti auðvita að vinda mér í fleiri heimilisstörf en þá er nú skárra að blogga, getið sveiað ykkur uppá það.

fimmtudagur, 18. júlí 2019

Í veðri sem þessu slægi ég ekki hendinni á móti Parísarkaffiís

Bjallan á ísbílnum glumdi í næstu götu og það rifjaðist upp fyrir mér að einhverju sinni var til kynlífstækjabíll sem keyrði á milli hverfa, rétt eins og ísbíllinn. Ekki að ég hafi neina reynslu af slíkri bifreið, ónei, minnir að ég hafi lesið um þetta í einhverju blaði á góðæristímabilinu heimsfræga þegar einhleyp kona eins og ég varð allt í einu fær um að festa kaup á íbúðarskonsu undir sjálfa sig án nokkurra ábyrgðarmanna. Jú, svei mér ef þetta var ekki bara grein í Fréttablaðinu. Nei andskotakornið, mig hefur varla dreymt þetta. 

Þegar ísbílsbjallan glumdi í minni götu mundi ég eftir nýju vegan íspinnunum sem ég gleymdi að setja inn í kerfið áður en ég fór úr vinnunni áðan. Hringdi í ofboði í hinn Péturinn í lífi mínu en lét það alveg vera að minnast á kynlífstækjabílinn.

Í sumarfríinu nýafstaðna notaði ég hvert tækifæri sem gafst til að fá mér ís; einu sinni, tvisvar, já, allt upp undir þrisvar  á dag. Hvort heldur sem var í Frakklandi, Ítalíu eða Sviss þá var það ávalt kaffiísinn sem stóð uppúr.

Í kvöld ákvað ég að fylgja leiðbeiningunum aftan á Sólgætis Kínóapakkanum: "Látið standa í 5-10 mínútur. Sjálf megið þið sitja." Hver fær staðist slíka hnyttni spyr ég nú bara?