mánudagur, 10. október 2022

Netraup er varðar lög

Ef að það er einhver klisja um Parísarbúa sönn þá er það þessi

Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð baguettu af þessari stærðargráðu en ég heft oft séð fólk skondrast um göturnar með fjórar, sex og jafnvel átta stykki af bagettum í fanginu. Ein baguetta undir handlegg er nú bara lágmark. Það er heldur ekki óalgeng sjón að sjá Parísarbúa maula bagettue, hálfa eða heila, á göngu í borginni. 

Mér skilst að veitingastöðum sé skylt að veita fólki ókeypis vatn ef það biður um það. Veit ekki hvort það sama á við um baguettuna en undantekningarlaust er hún borin á borð, niðurskorin, í körfu, hvort sem beðið er um vatn eða ekki. Stundum gæði ég mér á einum baguettubút en oftar en ekki snerti ég ekki brauðið, ekki af því að baguettan er ekki góð, mon dieu, sú besta sem fæst í gervöllum heimi! Nei, ástæðan er frekar sú að ég er yfirleitt södd áður en ég næ að klára matinn. 

Önnur algeng sjón í París er þessi

Þrátt fyrir tíðar ferðir til Parísar í gegnum tíðina hef ég reyndar aldrei séð dúfur kjassa hvor aðra og allra síst fyrir framan Eiffelturninn, en vissulega eru þær víða blessaðar, líka fyrir framan turninn. Síðan ég flutti fyrir mánuði síðan hef ég ansi oft farið út að borða, á tímabili á hverjum degi í hádegi og kvöldmat og einstaka sinnum morgunmat líka. Í hvert skipti hef ég vafið 2-3 bagettubútum inn í servíettu og gefið dúfum sem á leið minni verða eftir að ég yfirgef veitingastaðinn. Ég segi sjálfri mér að ég sé ekki að stela bagettubútunum, þeir eru jú bornir á borð fyrir mig, en engu að síður er ég ósköp laumuleg er ég lauma þeim í servíettuna sem síðan hverfur ofan í töskuna mína. 

Um daginn datt mér í hug að gúggla hvað dúfum í París þætti gott að borða. Kemur þá ekki í ljós að það er bannað með lögum að gefa dúfum í París að borða! 450€ sekt að viðurlagi við slíku hátterni, takk fyrir! Veit ekki hvort ég fengi nokkra sekt fyrir að taka baguettubút með mér af veitingastað en líklega hef ég verið heppin fyrir að engin lögregla var nærri þegar ég gaf dúfunum brauð í allann þennann tíma, ekki fór ég laumulega með það.

Mon dieu, c'est la vie og allt það og nú legg ég bara aldeilis ekki meira á ykkur.

föstudagur, 7. október 2022

Les chats

Mánuður floginn hjá á nýjum stað og tvennt gerðist í dag sem undirstrikaði ákveðinn endanleika sem varð við þá ákvörðun frúarinnar að segja skilið við fyrra líf og hefja annað hér á Parísarslóðum.

Fékk myndir og fréttir af elsku Birtu og Bjössa sem fluttu austur í Landeyjar tveimur dögum áður en ég flutti til Parísar. Ég hefði ekki getað óskað mér betri aðstæður fyrir elsku kisurnar mínar en þau búa núna hjá yndislegum hjónum, heldri ketti og hundi. Hjónin hitti ég þegar ég fór með yndin mín til þeirra og af þeim stafaði heiðarleiki, gleði og mikill kærleikur til dýra. Fréttir dagsins voru á þá leið að nú væru Birta og Bjössi, sem fyrst um sinn fengu heilt herbergi fyrir sig til að venjast nýjum aðstæðum, komin með samastað hjá Gosa (heldri kisunni á bænum) og að allt gengi vel. Birta og Bjössi hafa frjálsræði til að valsa út og inn af heimilinu, hafa heila sveit til að flandra um og án vafa þiggja blíðar strokur elskulegra mannvera. Eins mikið og ég er óendanlega þakklát fyrir að vita af þeim tveimur hjá slíku sómafólki er ég að sama skapi jafn sorgmædd yfir að hafa skilið við þau.

Fékk símtal frá pabba þar sem hann stóð fyrir utan fasteignasölu, nýkominn frá því að undirrita kaupsamning vegna sölu á íbúðinni minni, sem er eiginlega ekki lengur mín. Í íbúð 103 tókst ég á við röð áfalla í lífi mínu sem á tveimur árum tók dembur og dýfur og kollhnísa af slíkum stærðargráðum að frúin sem flutti þangað inn var ekki sama frúin og flutti þaðan út. Ég tók mér góðann tíma í að horfast í augu við að ég myndi selja fasteignina því þrátt fyrir áföll þá leið mér alltaf vel í Veghúsum, þrátt fyrir að margt af mínu drasli hefði aldrei farið lengra en inn í geymslu þá var Veghús sannarlega mitt heima. Þrátt fyrir fjölbýlið má segja að íbúð 103 sé einbýli í fjölbýli með sinn afgirta garð og stæði í bílskýli. Upphaflega ætlaði ég mér að leigja íbúðina og snúa aftur eftir árs dvöl í París. Hugsanaferlið sem síðan fór í gang endaði með sölu og ég get ekki neitað því að það er enn pínu skrýtið að íbúð 103 sé ekki lengur mín. Sölunni fylgir þó enginn tregi.

Treginn felst í því að ég mun ekki lengur heyra Bjössa mjálma af veröndinni og Birtu þjóta í gegnum kattalúguna. Ég mun ekki lengur vakna með mjúka Birtu sofandi á upphandleggnum og ekki heldur fara fram úr til að strjúka mjúkann Bjössakvið á bleikum sófa áður en ég helli uppá kaffið.