miðvikudagur, 29. apríl 2020

Systrakokteill

Þegar yfirmaður þinn skipar þér að fara heim til þín, á pallinn, til að fá þér kokteil í sólinni, þá er engin ástæða til að gera neitt annað en að hlýða. Settist út á pall með Bellini í einni hendi og góða bók í hinni hendinni. Rétt búin með drykkinn sá ég athugasemd á facebook frá gamalli nágrannastúlku (sem getur nú varla verið svo gömul, mörgum árum yngri en ég) um að ég yrði nú að skála fyrir yfirmanni mínum. Jú, þið giskuðuð rétt, ég neyddist til að fá mér annann kokteil, konunglegan kokteil í ofanálag enda hinn Péturinn í lífi mínu orðinn að eina Pétrinum í lífi mínu.

Magga systir var fljót að senda mér mynd af sínum drykkjum, Sangríu OG kampavíni. Jújú, hún er nottla töluvert sjóaðri, fimm árum eldri og allt það. Bogga systir var ósköp pen með kaldan bjór í sínu glasi. Verandi það kvikindi sá prakkari sem hún er þá stóðst hún að sjálfsögðu ekki mátið að senda mér myndir af býflugnabúinu sem hún tæklaði þarna um árið. Já, og myndir innan úr því. Af því mér þykir vænt um ykkur, hlustendur góðir, þá ætla ég að hlífa ykkur við þessum myndum. Hvort Boggu systur þyki nokkuð til mín koma má vissulega deila um en hún sagðist vera búin að fara með öll dagblöðin í endurvinnsluna.

Frá Hallveigu systir (þeirri elstu) heyrist ekki múkk. Velti því fyrir mér hvort hún geymi ennþá landa undir eldhúsinnréttingunni. Legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, 27. apríl 2020

Svona og svona...

Ætli það séu ekki að verða 20 ár síðan ég var verslunarstjóri í skóversluninni Steinari Waage. Annar tími, annað líf, sannarlega, nema í dag neyddist ég loks til að henda Ecco inniskónum sem ég keypti mér þarna um árið. Bestu inniskór sem ég hef um ævina átt, svo góðir að ég prangaði þeim inn á móður mína, 2 systur og bróður minn. Í gegnum árin hafa svo sem móðir mín, systur og bróðir gengið í gegnum ferlið sem ég gekk í gegnum í dag, þ.e.a.s. að vera búin að ganga inniskóna út og gott betur. 

Af öðrum stórkostlegum breytingum í lífi frúarinnar þá iðaði feit og bústin (er hægt að vera bæði?) býfluga í langa glugganum í eldhúskróknum mínum um daginn. Ég hef fylgst með öðru fólki veiða býflugur og geitunga í glas svo ég áræddi, eftir þó nokkra umhugsun, að sækja stórt glas og greip að auki með mér Kampavínskokteilabók sem ég fékk gefins um daginn. Stappaði í mig stálinu (og fullvissaði sjálfa mig um að ég gæti ekki hringt í neinn) áður en ég dembdi glasinu yfir hana Maju, ríghélt í glasið og renndi því síðan yfir á kampavínskokteilabókina. Hélt hvoru tveggja þétt að hvort öðru og gekk út á verönd þar sem ég sleppti Maju býflugu út um kattagatið á verandargirðingunni minni. Sem betur fer flaug Maja feginn þarna eitthvað allt annað í staðinn fyrir að fyrtast við og RÁÐAST Á MIG! Skjögraði aftur inn um verandardyrnar með gæsahúð um allann kropinn, já, svei mér þá, á tánum líka. 

Eins og það væri ekki nóg þá átti þetta atvik sér stað á afmælisdegi Boggu systur. Boggu systur sem hefði rúllað upp dagblaði og lamið mig í hausinn áður en hún hefði lamið Maju býflugu í hausinn. Boggu systur sem sá sjálf um að losa sig við býflugnabú sem sat áfast við húsið hennar í fyrra (eða hitteðfyrra). Boggu systur sem á líklega eftir að hlægja að gunguskapnum í mér þar til önnur hvor okkar.....ojæja, svona er þetta bara og já, meðan ég man, elsku Bogga mín, innilega til hamingju með daginn! Í tilefni af því að þú fæddist þá fangaði ég feita og bústna (er hægt að vera bæði?) býflugu í glas og hleypti henni svo út í frelsið.... ha?! 

Eftir vinnu í dag fór ég með plast og pappa í ruslageymsluna. Hér í húsum er vel flokkað og ekkert nema gott um það að segja nema samrýndu systkinin ákváðu að elta mig inn í ruslageymslu. Náði svo sem Bjössa nokkuð fljótt og henti út fyrir dyr. Birta hins vegar lét kerlinguna svoleiðis elta sig um alla ruslageymslu meðan bróðir hennar emjaði fyrir utan dyr. Var búin að nota bæði blíðan og reiðan tón áður en ég náði kattarræskninu út. Að auki á Sunna systurdóttir mín afmæli í dag en hún myndi reyndar ekki rúlla upp blaði og lemja mig í hausinn með því.

Legg ekki meira á ykkur að sinni elsku vinir.

þriðjudagur, 21. apríl 2020

Fyrstu kaup

Þegar ég festi kaup á minni fyrstu fasteign skipti staðsetningin mig öllu máli. Úthverfastelpan ég hafði tekið saman við mann sem var að byggja í Grafarholti. Ég flutti því úr úthverfinu mínu í enn meiri úthverfakjálka. Í staðinn fyrir að flytja niður í bæ, eins og mig hafði lengi dreymt um, flutti ég lengra upp eftir. Þegar sú ást var þrotin eftir sandhaug í verðandi stofu, steypuhrærivél á verðandi gangi, 2 eldavélahellum ofan á ofni ömmu minnar í svefnherbergi, kaffikönnu á náttborði og öllu því ryki og plasti sem fylgir nýbyggingu þá sumsé var ég staðráðin í að næst myndi ég flytja niður í bæ, láta drauminn rætast.

Svo ég flutti úr úthverfakjálkanum í gamla úthverfið mitt, nema aftur heim til mömmu og pabba í það sinnið. Leitin að fasteigninni minni tók heila meðgöngu, í 9 mánuði þræddum við pabbi fasteignir í ákveðnum póstnúmerum. Pabbi minn, skynsemdarmaður sem hann er, reyndi að brydda uppá ódýrara húsnæði sem byði uppá meira pláss en dóttirin vildi ekkert slíkt heyra, hún var að fara niður í bæ. 

Niður í bæ fór hún, með sinn kött. Heilt Klambratún sem skildi hana og bestu vinkonuna að. Á þessum stað undi stúlkan sér vel, labbaði til vinnu á virkum dögum og arkaði á Sirkus um helgar. Eitt kvöldið arkaði hún yfir Klambratúnið til vinkonu sinnar, sem hafði boðið henni heim í mat, og arkaði síðan með henni á Ölstofu í staðinn fyrir að fara beina leið á Sirkusinn sinn. Þetta örlagaskref leiddi hana niður brekkuna frá íbúðinni hennar en stúlkan var sátt og ekki bara sátt, hún var ástfanginn. Aftur. 

Það sem beið hennar hafði hún ekki hugmynd um, hefði ekki einu sinni getað ýmyndað sér það. Það þarf alveg sérstakt ýmyndunarafl til að ýmynda sér raunveruleikann, er það ekki?

sunnudagur, 19. apríl 2020

Á páskum og eftir ...

Um páskana 
  • las ég og las og las og las
  • drakk kaffi í rúminu og las
  • lagði mig um miðjan dag með kisunum mínum
  • eldaði helst ekki mat nema eldamennskan tæki að lágmarki 1,5 klstund
  • hlustaði á glás af tónlist sem ég hlustaði á þegar ég var 20+
  • það var gaman
  • hlustaði líka á fullt af jassi eins og Melody Gardot
  • óhlýðnaðist Víði
Af hverju óhlýðnast svo kona á miðjum aldri yfirlögregluþjóni hjá ríkislögreglustjóra? Jú, vegna þess að hún hlýðir móður sinni. Af því að mamma vildi fá mig í mat á páskum þá hringdi ég í hjúkrunarfræðing fjölskyldunnar og spurði ráða. Eftir að hafa svarað ýmsum spurningum um möguleg einkenni neitandi fyrirskipaði Bogga systir að ég yrði að fara beint úr sturtu í nýþvegin föt og út. Jújú, ég mátti alveg þurrka mér eftir sturtuna sko en ég nennti samt ekki að blása á mér hárið.

Páskamáltíð mömmu var óneitanlega dásamleg sem og samverustund með foreldrum mínum. Komin í skúrinn tóku þau ekki annað í mál en að ég gisti yfir nótt. Varð það á að segja föður mínum frá einkennilegum hljóðum í bílnum mínum, pabbi var snöggur að skríða undir garminn og finna út úr vandamálinu. 

Á þriðjudagsmorgunn hringdi faðir minn og sagðist vera búinn að gera verðkannanir á varahlutum og að hann væri búin að panta það sem ég þyrfti á hagstæðasta staðnum. Eftir vinnu brunaði ég og sótti það sem til þurfti á nafni föður míns. Eftir vinnu á föstudegi verslaði ég inn eftir uppskrifuðum lista frá móður minni. Brunaði heim í sturtu og nýþvegin föt þar á eftir áður en ég brunaði aðra helgi í röð vestur í skúr til foreldra minna. 

Í þetta skiptið gisti ég í 2 nætur. Mamma fóðraði mig á mat, pabbi gerði við bílinn minn. Legg ekki meira á ykkur að sinni, elsku vinir.

laugardagur, 11. apríl 2020

Líf frúar og katta.

Þar sem ég stóð og steytti saman myntulaufum og sykri í kokteilhristara tókst mér að brjóta á mér nöglina á hægri þumalfingri. Ekkert sem skiptir máli, hvað er ein nögl á milli vina? Þar sem ég hamaðist við að kreista safa úr límónu rann hægri hendin á mér til með þeim afleiðingum að nýklippt nöglin á hægri þumalfingri steyptist á vinstri þumal. Rétt fyrir neðan nögl á vinstri þumli gapti blæðandi sár, geri aðrir betur. Sannast sagna eru þetta hefðbundin heimilisslys frúarinnar, þ.e.a.s. heimilisslys sem koma sjaldan fyrir aðra, eins og þetta atvik. 

Auk þess get ég sagt ykkur að mér er meinilla við rifjárn, hef ekki tölu á þeim skiptum sem ég hef rifið puttana á mér til blóðs þegar ég á að vera að rífa engifer eða ost með rifjárni. Ostaskerar eru líka skaðræðistól, hef ekki heldur tölu á því hvursu oft ég hef flysjað á mér fingurna við að skera mér ostsneið. 

Birta var að endasendast inn um kattalúguna. Hentist beint ofan í fjölnota Melabúðarpokann sem stendur hér á stofugólfinu. Þar steppaði hún á fjórum loppum í dágóða stund áður en hún lyppaðist niður, fæ ekki betur séð en að hún sé steinsofnuð í græna fjölnota Melabúðarpokanum. 

Bjössi bróðir hennar, sem um daginn sat læstur inní bílskúr í 4 daga, hrökk upp af værum svefni er systir hans stökk inn. Á bleikum sófa fylgdist hann með henni taka sporin og er hún féll í svefn í grænum Melabúðarpokanum stökk hann af sófanum og rauk beina leið upp í rúm frúarinnar. Fæ ekki betur séð en að hann sé steinsofnaður þar.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar, steinsofnið þið bara.

mánudagur, 6. apríl 2020

Í vinnunni í dag, stuttu fyrir hádegi,

fékk ég símtal frá konu sem sagði mér óðamála að hún byggi í bláa húsinu fyrir ofan mig og að þegar maðurinn hennar opnaði bílskúrinn þeirra í morgun hefði stokkið þaðan út köttur sem leit út eins og kötturinn sem ég auglýsti týndann á hverfissíðunni um helgina. Besta símtal dagsins. Pési skipaði mér að skjótast heim þegar ég fór í bankann sem ég glöð gerði. Nema, heima tók Birta á móti mér, enginn Bjössi. 

Svo ég fór í bankann og þaðan aftur til vinnu. Ákvað í lok dags að kaupa fisk til að sjóða handa henni Birtu minni. Hálft í hvoru vonaði ég vissulega að Bjössi yrði líka heima en reyndi jafnframt að segja sjálfri mér að ég yrði líka að vera raunsæ, það væri alls ekki víst að ég myndi sjá Bjössa aftur.

Ég var því ekkert sérlega vongóð er ég steig inn um dyrnar hérna heima en, viti menn, Bjössi kom hlaupandi á móti mér. Það sem ég gladdist og Birta líka, sýndist mér, systkinin eru búin að sleikja hvort annað, leika við hvort annað, sitja í gluggakistunni saman og mæna út og jú, borða þorskhnakka af sama disknum. 

Fæ ekki betur séð en að Bjössi hafi aðeins lagt af á nýja kúrnum, bílskúrskúrnum. Ætli hann verði ekki fljótur að bæta því aftur á sig blessaður, er það ekki einmitt þannig sem flestir megrunarkúrar virka?

sunnudagur, 5. apríl 2020

Strákarnir í Heimilistækjum sögðu mér að þvottavélin væri bara að verja sjálfa sig.

Ef fráskilin kona, sem er ein í heimili, reynir að þvo eina baðmottu þá svo sem þvær vélin hana en þegar kemur að vindingu hrópar tromlan; nei stoppa hér! Það snýst sumsé ekki um vigt heldur fjölda. Tromlan harðneitar að berja og slá til 1 hlut, hún þarf að hafa 2 hluti til að berja og slá jafnt svo henni líði betur. Það var ekki flóknara en það.

Öllu stærra og sárara vandamál er sú staðreynd að ég hef ekki séð Bjössa síðan á fimmtudagsmorgunn. Er búin að auglýsa eftir honum á kattasíðum og íbúasíðum á facebook, búin að fara í nokkra kalda göngutúra eftir ábendingar frá hinum og þessum. Lítur út fyrir að Bjössi, eða einhver svartur og hvítur köttur, hafi sést í flestum hverfum Grafarvogs. Ef þið heyrið Grafarvogsíbúa pískra um konuna í rauðu kápunni sem vafrar um og kallar á Bjössa, þá er það ég.

Birta er ekki minna vængbrotin en frúin, hún fer lítið út þessa dagana, rölti reyndar með mér hring um hverfið í gærmorgunn, situr annars ýmist í kjöltunni á mér eða í næsta stól við hliðina á mér. Liggur í rúminu hjá mér öll kvöld og allar nætur.

Æ Bjössi, komdu nú heim. Mjá.

miðvikudagur, 1. apríl 2020

Aprílgabb?

Æ, nei takk, sama og þegið. Þrátt fyrir að hafa mikið gaman af gríni og glensi þá hefur aprílgabbið aldrei heillað mig, hef aldrei sóst eftir því að gabba nokkurn mann á þessum degi. Hef heldur aldrei spáð í hvaða frétt gæti verið gabbfrétt ársins, fylgist líklega ekki nógu vel með fréttum hvort eð er. Geri þó fastlega ráð fyrir að það verði ekki hlaupið að því að fá fólk til að hlaupa á þessum síðustu og verstu. Aprílgabbið á tímum Covid19.....

Get sagt ykkur grínlaust að mér líður eins og febrúar hafi verið í þar síðustu viku og allt í einu er mars ekki bara kominn, heldur farinn líka. Það er ekki mikilli fjarvinnu fyrir að fara í matvöruverslun svo heimavinna er fyrirbæri sem ég tengi ekki við nema þá helst er ég bruna til vinnu á morgnanna, hef ekki brunað svona fljótt og ljúflega úr húsum á mela síðan í jólafríinu. 

Þvottavélin mín, sem ég vil enn segja að sé ný, harðneitar að vinda þvottinn, dembir á mig blammeringum um "hleðslu ójafnvægi" og ber svo fyrir sig "hléi". Vandamálið er að vélin vatt svona upp á sig í gærkvöldi, það er því engin leið fyrir mig að flokka þetta undir aprílgabb. Ofurhetjan mín er í sjálfskipaðri sóttkví í sveitinni og því eru góð ráð dýr, enginn er heldur eiginmaður til að hlaupa undir bagga. 

Svo hvað gerir nýlega fráskilin kona með nýlega þvottavél með mótþróa? Hún bregður að sjálfsögðu góðri plötu á fóninn, skenkir sér rauðvín í glas, hitar upp rándýra afganga sem tóku 3 tíma af tíma hennar um helgina sem leið og lyktar af rósunum í blómvendinum sem hún keypti handa sjálfri sér þá sömu helgi. 

Legg ekki meira á ykkur, afsakið hlé.