laugardagur, 30. apríl 2011

Sólskin í hjarta

Sauðurinn mallar sauðaböku, dillandi skönkum í takt við Ofurdruslu. Glaður notar hann afurðir "úr garðinum"


Þrátt fyrir að sumarið eigi formlega að vera hafið, liggur snjóábreiða yfir garðinum. Gulu blómin og græna grasið standa þó sperrt, jafn viss og ég um að bráðum, bráðum kemur sumarið með sólina


Á meðan dafnar garðurinn okkar þolinmóður í gluggakistunni


Sólskinið er í hjörtum okkar beggja.

þriðjudagur, 26. apríl 2011

Páskaeggjaafunda

Hef s.l. 5 ár ekki haft áhuga á að borða páskaeggin sem mér hafa verið færð. Hef hingað til ekki þurft að hafa áhyggjur, alltaf e-r til staðar til að "njóta" fyrir mig. Í ár ákváðum við myndarlegi að kaupa eitt páskaegg handa okkur, m.a. vegna þess að fyrirsjáanlegt væri að mitt myndi enda ofan í ístrubelg þess myndarlega. Ég ákvað þó að breyta til og valdi lakkrís páskaegg, enda lakgrís mikill og því jafnvel von um ég myndi nú herða upp páskahugann, og ráðast á súkkulaðið. Páskaeggið stendur enn óhreyft. Sá myndarlegi er svo veikur að hann hefur ekki lyst á lakkrís. Ég hef ekki lyst á páskaeggi. Sá veiki tuldrar að það komi páskar eftir þessa páska, en skv best fyrir höfum við rétt 2 mánuði til stefnu.

Ég gæti haft áhyggjur en kýs þess í stað að gúffa í mig klístrugum lakkrís sem ég keypti af tónskáldi. Sá veiki treður í sig panodil með malti. Spurning um að vera forsjál á næsta ári og kaupa páskaeggið eftir páska á niðursettu verði.

mánudagur, 25. apríl 2011

Óvissa og glaðningur í veðráttunni

Þar sem ég var nokkuð örugg um að eiga frí þá daga sem búðin var lokuð yfir páskana, tók ég mig til og skipulagði smá óvissu-glaðning fyrir þann myndarlega. Pantaði herbergi á flottu hóteli og skipulagði göngu í nágrenni þess. Sá myndarlegi tók sig til og er búinn að vera veikur alla páskana. Ég lét það ekki stoppa mig. Pakkaði ofan í tösku meðan sá myndarlegi lagði sig á páskadagsmorgun, og kom henni fyrir í skottinu á bílnum. Beið svo, og beið, þar til sá myndarlegi vaknaði stynjandi af veikindum. Íhugaði að hætta við allt saman, af því veðurspáin var nú líka slæm, en ákvað svo að sá myndarlegi gæti allt eins legið veikur á hótelherbergi eins og heima, enda allar búðir lokaðar og ég ekki búin að kaupa í páskamatinn.

Göngutúr var úr sögunni en þeim myndarlega bauð ég í bíltúr, sér til hressingar, með útúrdúrum sem endaði á áfangastað. Fyrri pottferðin hefur pottþétt séð til þess að þeim myndarlega forskalaðist. Seinni pottferðin hefur örugglega slegið hann út. Ferðin var indæl og páskamáltíðin ljúffeng. Nú liggur sá myndarlegi örmagna á sófanum og mun að öllum líkindum ekki mæta til vinnu á morgun.

sunnudagur, 24. apríl 2011

laugardagur, 23. apríl 2011

Búðasaga

Fyrir slatta af árum vann ég á kassa í Hagkaup ásamt því að stunda nám í fjölbrautaskóla. Eitt sinn afgreiddi ég miðaldra hjón sem ég mun líklega aldrei gleyma. Ég var búin að taka eftir því að konan var að borða af vínberjum sem hún var með í poka í innkaupakörfunni. Þetta var á þeim tíma sem fólk þurfti sjálft að vigta inni í grænmæti og líma verðmiðann á pokann. Konan setti pokann með vínberjunum síðast upp á kassann hjá mér, og lítið orðið eftir nema stöngullinn með tveimur, þremur berjum á. Þegar ég ætlaði að fara að skanna nánast tómann pokann kom í ljós að enginn verðmiði var á honum. Ég lét því út úr mér e-ð á þá leið að: það virðist sem það hafi gleymst að vigta vínberin... Konan, með ferskt berjabragð í munninum, var fljót að taka afstöðu. Hún brjálaðist. Hún jós úr sér skömmum yfir mig fyrir helvítis dónaskapinn sem ég sýndi henni, hvað ég væri ömurlegur starfsmaður, hún hefði aldrei lent í öðru eins og hún ætlaði sko að kvarta yfir mér við yfirmenn mína. Ég man enn í dag hvernig hjartað í mér skrapp saman, maginn herptist í hnút og ég seig niður í sætið mitt. E-ð blöskraði manninum framferði konunnar, hann ýtti henni til hliðar, sagði henni að þegja og var fljótur að draga upp veskið. Ég tók svo gott sem tómann pokann til hliðar og kláraði afgreiðsluna. Eins og þetta væri svo ekki nóg ákvað konan að byrja að skammast yfir því af hverju í andskotanum viðskiptavinurinn ætti svo sem sjálfur að bera ábyrgð á því að vigta grænmeti og ávexti, hún væri sko ekki fjandans starfsmaður hjá Hagkaup. Maðurinn dró hana í burtu. Ég sat eftir með samviskubit yfir að hafa ekki rukkað fyrir vínberin, sem voru græn, og í stórum mínus yfir skömmunum.

Á þeim 20 árum sem eru að verða liðin síðan, hef ég fengið að kynnast allskyns útgáfum af þessari konu, dónaskap af hálfu viðskiptavina ýmisa verslana, væntanlega venjulegs fólks eins og þú og ég, fólk sem býr e-r, á maka, foreldra, börn, stundar vinnu eða nám, á sér áhugamál og jafnvel vini. Fólk sem leyfir sér að sleppa lausum taumnum í argasta dónaskap við ókunnugt fólk sem hefur það fyrir starf að vinna í búð. Ég er hætt að síga niður í sætinu en þrátt fyrir áratuga gamla búðabrynju, á maginn það til að herpast í hnút og hjartað að skreppa saman.

Ég segi stundum að það ætti að vera þegnskylda að starfa í verslun. Margir hefðu altjént gott af því að afgreiða sjálfa sig á góðum degi.

föstudagur, 22. apríl 2011

Lukku Stjarna

Píslargöngu dagsins er lokið, búin að taka til og þrífa ísskápinn. Létt verk, dillandi skanka í takt með heilagri Madonnu. Trúleysinginn lét það eftir sér að syngja hátt með á hinum langa degi. Syndaaflausnin lætur ekki bíða eftir sér, eftir tiltekt var þeim myndarlega stillt upp við vegg; annaðhvort kemur hann útruninni mjólkinni í góð not sem Túnmeðlimir geta allir notið, eða hann drekkur hana alla í einum teyg úr löngu, mjóu glasi. Brátt mun indæll pönnukökuilmur fylla vitin.

Lífið er sérdeilis ljúft þegar búðum er lokað.

þriðjudagur, 19. apríl 2011

Dagur í dag.

Í dag er dagur sem ég hef beðið eftir. Ég er glöð að dagurinn í dag er dagurinn í dag, því í dag er líka afmælisdagurinn hennar Unnar. Í dag er dagur fyrir Burning Up þó að sjálftúpan sé ekki sammála mér. Maður fær víst ekki allt. Í einu altjént. Maður kemst þó assgoti langt. Því komst ég að í dag.

mánudagur, 18. apríl 2011

Hvenær er frí frí?

Í gær var ég svo gott sem í fríi, rétt rak inn nefið í verslanirnar og svaraði nokkrum símtölum. Ég fór líka í kaffi og þáði ljúffenga tertu og góðan félagsskap hjá systur minni, fór í Bónus og Blómaval með þeim myndarlega, lagði mig á sófanum og eldaði svo kvöldmatinn.

Hausinn á mér er enn fullur af allskyns hræringum og pælingum. Ég læt mér þó ekki detta til hugar að vonast eftir góðu vori, og því síður sumri, fyrr en eftir páskana. Ég leyfi mér samt að hlakka til að fara með þessa félaga út í garð

föstudagur, 15. apríl 2011

Ég er þreytt í fótunum.

Finn þreytuverki seytla frá tábergi í iljar upp í kálfa í hné upp í læri í mjöðm. Stingur í baki af og til. Hugsanlegt að sm-ellin sé farin að segja til sín, enda búin að finna gráa hárið aftur. Ekki ólíklegt heldur að ég vinni of mikið. Meira en fæturnir blessaðir eru reiðubúnir að taka við.

Ég er líka þreytt í sálinni. Geri mitt besta til að standa keik mót rógburði sem beinist að mér. Sjálfið er þó óneitanlega dulítið beyglað. Getur tekið á að vera mannlegur.

Hausinn er fullur af hugsunum, pælingum, spekúlasjónum, hugmyndum, vonum, vilja, efa og ótta. Ég sofna hugsandi, dreymi um hugsanirnar og vakna hugsandi. Með þreytta fætur.