þriðjudagur, 26. júní 2018

Má hálfleikur ekki heita hlé?

Enginn á ferli á göngustígnum meðfram sjónum við Sæbraut nema ég og rokið. Fannst ég sjá álengdar tvær manneskjur við Sólfarið og gekk að því sem vísu að þar myndu erlendir ferðamenn vera á ferð. Við Sólfarið rakst ég samt bara á einn hettumáf svo líklega var þetta huldufólk sem ég sá. Huldufólk sem hefur drifið sig heim að horfa á þennan fótboltaleik sem er víst í sjónvarpinu. 

Á kaffi Haítí hitti ég Eldu vinkonu mína sem malaði stórann poka af dökkum baunum fyrir mig í 2 litla poka og gaf mér því næst fantagóðan og sterkan kapútsjínó. Elda hefur álíka áhuga á fótbolta og ég svo við áttum gott spjall ásamt því að reyna á frönskukunnáttu mína (og veitti ekki af).

Var að bíta í sítrónumakkarónu á Apótekinu. Er þessi leikur annars ekkert að verða búinn?

mánudagur, 18. júní 2018

Áratugur flýgur hjá

Ég kynntist þeim myndarlega fyrsta laugardag janúarmánaðar 2008. Rúmum mánuði síðar stóð hann frammi fyrir því að kaupa afmælisgjöf fyrir þessa nýtilkomnu hjásvæfu sína. Verkið leysti hann snöfurmannlega af hendi eins og hans er von og vísa og kannski segi ég ykkur betur frá því síðar. 

Fjórum mánuðum síðar var komið að mér. Ég gaf þeim myndarlega matreiðslubók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér og ber það skemmtilega heiti Cooking with booze ásamt hressu korti af áttræðri kellu í spíkat (kommon, ég var nú bara 32 ára meðan hann skreið óðfluga á fimmtugsaldur!). Að auki gerði ég dauðaleit að Líbönsku rauðvíni til að skenkja með Líbanska réttinum sem ég eldaði fyrir hann afmælisdaginn þann.

Til að gera langa sögu stutta þá eru tíu ár liðin síðan þá. Í kvöld dembdi ég jarðarberjum og hindberjum í skál og skenkti þeim myndarlega kampavín í tilefni dagsins. Klippti og garnhreinsaði humar. Bræddi saman smjör, hvítlauk og steinselju í potti. Makaði yfir galopinn humarinn og stakk honum því næst undir grillið í 5 mínútur. 

Sá myndarlegi skríður óðfluga yfir á sex-tugsaldurinn. Hann hefur aldrei eldað eina einustu uppskrift uppúr Cooking with booze.

föstudagur, 1. júní 2018

Jú, það er smá gjóla á veröndinni

en sólin skín og fuglarnir syngja og ljúfur jassinn streymir út um verandarhurðina og nágranninn er að mála kofann í næsta garði rauðan svo ég læt mig hafa það.

Í morgun lét ég mig hafa það að rífa mig á lappir í næturmorgunsárið til að keyra þann myndarlega og eldri son hans á Keflavíkurflugvöll. Síðan þá eru þeir feðgar búnir að sitja í vél Icelandair á Schippol í 40 mínútur og þegar þeir loksins komust inn á flugvöllinn sjálfann komust þeir að því að tengifluginu þeirra til Grikklands var frestað um 50 mínútur. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þeir hafi náð því flugi og muni eiga frábæra ferð í vændum, fall er jú faraheill.

Sjálf íhugaði ég að fara bara í ræktina fyrst ég var komin á lappir svona snemma en keyrði svo bara heim og fór beint uppí rúm aftur. Hringaði mig niður í mitt rúmið en í staðin fyrir að sofna fór hugurinn á flug. Fyrsta sem ég hugsaði var; hvar ætli Dagur sé? En í staðinn fyrir að brölta aftur fram úr, til að sækja köttinn, til að hringa okkur saman niður í mitt rúmið, áttaði ég mig á því að ég væri alveg ein. Galein. Bylti mér í rúminu og snúsaði klukkuna þegar hún fór að glymja. Snúsaði þar til ég neyddist til að fara framúr.

Núna sumsé sit ég úti á verönd og sötra kampavín. Mitt uppáhalds kampavín. Karlinn var ekki búinn að fara í tengiflugið þegar búið var að spyrða mig saman við annann mann, nefninlega nafna hans í Melabúðinni, "þið hjónin" var sagt við okkur og við Pési hlógum bara. Hvað annað áttum við svo sem að gera? Við Pési eigum það þó sameiginlegt að elska ekki bara kampavín heldur er Gula Ekkjan í okkar uppáhaldi, okkur þykir vænna um dýr en menn og eigum ekki börn. Þess utan sitjum við jú saman alla virka daga en andskotinn hafi það, er hjónasvipur með okkur?