fimmtudagur, 19. júní 2008

Blaðra

Labbaði í bæinn í indælu 17.júní-veðri hönd í hönd við hjásvæfuna. Fékk rauðvín og tánudd á Austurvelli. Borgaði fyrir mig með því að stríða rauðhausnum mínum sem án vafa myndi skaðbrenna í sólskininu. Gáfum lítið fyrir magadans þar sem hvergi glitti í maga. Reyndum svo að hafa hemil á óargadýri í líki Bart Simpson blöðru er við þrömmuðum Laugaveginn til baka - hægara sagt en gert þegar maður er líka upptekinn við að gúffa upp í sig poppi.
Komst að því sem ég svo sem vissi fyrir; grín á kostnað annara er ekki alltaf ókeypis. Meðan hjásvæfan var að mestu laus við roðann í andlitinu deginum eftir, klæjar mig í roðann á bringunni og finn enn sviða í upphandleggjunum.

Indæla hjásvæfan átti svo ammili í gær. Ég matreiddi kjúkling sem legið hafði í legi (þó ekki mínu) á Líbanska vísu og hafði fyrir því að grafa upp Líbanskt rauðvín til stemmingarauka.

Held að afmælisdrengurinn hafi bara verið nokkuð kátur - enda í eðalfélagsskap.


Engin ummæli: