þriðjudagur, 28. júní 2011

Vetur safnar liði

Ákvað að bíða ekki heldur bjóða þrátt fyrir að sá myndarlegi væri ekki erlendis. Hann sat við hliðina á mér meðan ég bauð í hans nafni. Jesúsaði sig og hótaði að tala við Símann og láta loka fyrir aðgang að uppboðssíðunni. En ég sá glampann í augunum á honum. Uppboðsglampann. Má vera að hann sé ekki alveg jafn kræfur, en ég hef enn aðgang að síðunni.

Sá myndarlegi segir að ég fái allt sem ég vil. En það er ekki þannig sem það var. Í þetta sinn fór ég og skoðaði verkið áður en ég hófst handa við að bjóða. Um leið og ég sá það ákvað ég að ég ætlaði að kaupa hana. Og það er þannig sem það er. Ég stend við ákvarðanir mínar.

Ég var líka búin að ákveða staðinn fyrir hana


Svo nú þegar sá myndarlegi hefur loks losað sig við fingurbjargarsafnið er ég farin að safna. Veturliða. Safnið mitt tekur meira pláss en það er líka meira fyrir augað. Og það er fljótlegra að dusta rykið af safninu mínu.

laugardagur, 25. júní 2011

Ég á ekki einu sinni afmæli


Bara besta mann í öllum heilum heiminum.

Með ábót og ábót ofan



Og það er ekkert bara bara.

fimmtudagur, 23. júní 2011

Hörður

Fyrir ríflega tveimur áratugum hringdi drengstauli dyrabjöllunni á æskuheimili mínu og spurði eftir Möggu systur minni. Ég skildi hann eftir úti á stéttinni og gólaði á systur mína að það væri feitur, sköllóttur kall að spyrja eftir henni.

Síðan þá höfum við ekki losnað við hann. Tengdasynirnir hafa komið og farið. Jafnvel komið aftur og farið aftur. Tengdasonur nr. 1 á nafnbótina skilið fyrir að standa keikur og láta engan bilbug á sér finna. Honum hefur þó hvorki tekist að verða sköllóttum né feitum, en í dag tókst honum að verða fertugur.

Og áfram lætur hann engan bilbug á sér finna; vippar sér í stúdentspróf og háskólanám langt genginn á fertugsaldur, hefur óbifandi metnað í Risk og heldur áfram að leika sér að bílum


miðvikudagur, 22. júní 2011

Flat-ey

Fór með þann myndarlega í óvissuferð til Flatey til að fagna því að hann væri kominn á sextugsaldurinn. Hokinn af hugsanlegri 9 tíma bið í Flatey, roki og trúleysi studdi sá gamli sig við skriftir í kirkju staðarins


Eftir dágóðann hádegisverð og innskráningu á fallegt og hlýlegt hótel eyjunnar var fimmtugi unglingurinn sprækur sem lækur


og kampakátur sem kóngur í hásæti


enda missir maður ekkert húmorinn við það að rétt silast yfir hálfa öld


og ekki á hverjum afmælisdegi sem maður fær súkkulaðitertusneið með kakófugli


Flatey er líka flott og fín


og rokið skiptir engu máli þegar ástin heldur manni hlýju



fimmtudagur, 16. júní 2011

Spott á sportprís

Sá myndarlegi gerir grín að mér fyrir að segja (og skrifa) sportprís. Skv. honum á þetta að vera spottprís. Heyr nú á endemi, ég hef aldrei heyrt annað eins. Sá myndarlegi segir líka "er ekki kominn tetími" í staðinn fyrir kaffitími. Uppástóð að þannig væri það þó enginn sem ég kannast við þekki annað fyrirbæri en kaffitíma. Já, líka amma mín níræð. Enda drekkur sá myndarlegi aldrei te. Svo kallar hann líka safa djús og djús safa. Hnuss. Oseiseinei, ég fer nú ekki að taka mikið mark á þessu þvaðri. Enda vitum við öll að; á baki hvers manns liggur góð kona. Allavega ég. Og Magga systir mín.

Talandi um 17.júní, þá er hann á morgun. Í fyrsta skipti í milljón, billjón ár ætla ég hvorki niður í miðbæ Reykjavíkur né á Rútstún. Ekkert þjóðhátíðarpopp þetta árið, seiseinei. Við höfum öðrum skemmtilegri hnöppum að hneppa.

Jibbíjeyoghæhó.

miðvikudagur, 15. júní 2011

Mál-verk

Málverkin okkar sóma sér bara vel uppi á vegg. Mikill léttir. Mér láðist nefninlega að nefna það í færslunni á undan að við vorum bara búin að skoða málverkin á veraldarvefnum. Fórum sko ekkert í galleríið til að bera þau berum augum. Ég var því ósköp fegin að fá góðu tilfinninguna fyrir myndunum þegar ég sótti þær daginn eftir; þessa þarna góðu sem fær mann til að laðast að listaverki. Og sú þriðja og kostnaðarsamasta og sem ég hafði mestu spennuna fyrir og sá myndarlegi reitti fagurt hár sitt fyrir á hótelherbergi í útlöndum, er æði. Sjónrænn segull. Príma falleg og fríð.

Hjúkket.

Talandi um mat, þá bakaði ég hana þessa fyrr í kvöld


Baka með kúrbít og geitaosti með ösku. Þeytt egg, mjólk, salt, pipar og timían eins og hleyptir lúxus ábrestir á milli. Hún er líka æði. Sjónrænn segull (sjáið bara sprungurnar íostinum og hrukkurnar í kúrbítnum, mana ykkur í að smella á myndina til að stækka). Príma falleg og sérdeilis góð.

Hjúkket.

þriðjudagur, 14. júní 2011

Lyst á list.

Fyrir rúmri viku síðan sat ég stjörf yfir uppboði á netinu. Listmunauppboði. Við Pétur höfum oft talað um það að prófa að bjóða í verk, kannski bara smotterísboð svona rétt til að sjá hvað myndi gerast. Höfum nefninlega oft séð flottar myndir slegnar á sportprís. Sá myndarlegi var erlendis á tilsettum lokadegi uppboðs svo ég sat hér ein við tölvuna og byrjaði að bjóða. Fyrstu tvær fékk ég nokkuð auðveldlega á fínum prís. Þegar kom að þeirri þriðju, og jafnframt þeirri mynd sem ég ágirntist mest, fór e-r rækallans kalli að bjóða á móti mér. Ég reyndi að leiða hjá mér þá tilhugsun að hugsanlega væri galleríið að bjóða á móti mér; þetta hlyti að vera búttaður miðaldra maður, með svargrátt hár skipt í miðju, með yfirvaraskegg, í beigelituðu prjónavesti með doppótta þverslaufu um hálsinn.

Og ég bauð. Og bauð. Og beið. Og beið. Því í hverst sinn sem ég bauð lengdist tíminn um 4 mín. svo hægt væri að bjóða á móti. Og ekki bara bauð ég og bauð, heldur bauð ég í Péturs nafni, sem sat og beið á hótelherbergi í Kaupmannahöfn og jésúsaði sig og ákallaði heilagan viskífleyg yfir hverjum tölvupóstinum sem birtist í ipadnum um boð og mótboð. Sms-in sem ég fékk frá honum fóru frá því að vera "glaður og spenntur yfir að hafa eignast tvö málverk með þér", yfir í að "ég get ekki skilið þig eina eftir heima kona".
Ég var í ham. Uppboðsham. Var farin að velta því fyrir mér hvort það væri svona sem spilafíklum liði. Bara leggja aðeins meira undir...

Mér til þæginda hætti kallinn með þverslaufuna að bjóða akkúrat þegar ég gaukaði fram upphæðinni sem ég var búin að ákveða áður en uppboð hófst, að yrði mitt hámark. Ég mun því ekki komast að því að þessu sinni hvort ég er raunverulegur uppboðsfíkill.

Og nú er aftur uppboð á vefnum. Og við erum aftur búin að skoða allar myndirnar. En ég mun ekkert bjóða í þetta sinn. Pétur er heima og ekkert á leiðinni erlendis næstu vikurnar.

Reyndar ein mynd sem ég er rosalega hrifin af. En ég býð ekkert. Bíð bara.

Held ég.

mánudagur, 13. júní 2011

Kókóskakan

með hindberjamaukinu endaði með rifsberjasultu, árgangi 2009


Gestirnir sendir með sultu heim enda nóg af tauinu í kjallaranum. Jafnvel tau frá tíma sem enginn nennir að muna. Er það ekki annars ómunatíð?

Ónefndi pésinn heldur áfram að sulla



Á morgun er aftur kominn tími til að mæta í vinnuna.
Í heila þrjá daga í röð.

Lífið er ljúft.

sunnudagur, 12. júní 2011

Annasamur dagur

þessi hvítasunnudagur


Erum búin að vera kafupptekin af hvort öðru við kaffidrykkju, skipulagningar innanhúss sem utan, lestur, búðarferðir, leikhús, matseld og afmælisboð svo e-ð sé nefnt. Eins gott að helgin er löng, ég á enn eftir að baka kókósköku með hindberjamauki og fá yndislegar vinkonur í kaffi. Í ofanálag á ég líka eftir að hlægja svo miklu meira að e-m sem tókst að hella dollu af málningu á veröndina



Nefni engin nöfn...

mánudagur, 6. júní 2011

Þriggja

Sá myndarlegi er farin erlendis. Aftur.

Ég er farin að hitta afmælisstelpu

sunnudagur, 5. júní 2011

Fórum í dag í Gerðarsafn og stóðum andaktug yfir hverju einu og einasta verki Barböru Árnason sem þar eru til sýnis í aldarminningu hennar


Þið ykkar sem ekki hafa lagt leið ykkar í Kópavoginn að hitta köttinn Randver, Narfakotssystkinin, strákana í Melaskólanum og skoða borgarljósin skuluð drífa ykkur. Strax.


Sýningunni hefur verið framlengt til 15.júní og hún er stórkostleg.