miðvikudagur, 30. janúar 2013

Rísottóást

Miðað við þau ógrynni af rísottógrjónum sem ég hef þegar innbyrt fannst mér kominn tími til að hræra í aborrogrjónum sjálf. Sannreyndi þá visku að rísottógerð sé í raun einföld en krefjist þolinmæði. Hélt í heiðri ítölsku reglu Margrétar systur minnar og drakk glas af víni með matseldinni. Góð regla það.

Byrjaði á að velta 20 kirsuberjatómötum upp úr olíu og pipraði. Bakaði síðan í ofni í næstum því hálftíma, eða þar til þeir voru orðnir mjúkir


Skar lauk smátt og mýkti í 3 msk af smjöri og 1 msk af ólífuolíu. Þegar laukurinn var orðinn fallega glær setti ég 400 gr af rísottógrjónum í pottin og hrærði vel saman í ca 2 mín. Hellti því næst 125 ml af þurru hvítvíni í pottinn, lét sjóða og og hrærði stöðugt í meðan vínið sauð niður


Bætti 400 gr af niðurskornum tómötum úr dós í pottinn og lét malla í ca mínútu. Þá er komið að þolinmæðispartinum; 1,5 ltr (já, 1,5 ltr) af kjúklingasoði er blandað saman við og honum er ekkert hellt neitt útí sko, heldur er einni ausu af soði hellt útí pottinn í einu og hrært svo gott sem stöðugt í á meðan það sýður niður alveg þar til soðið er búið, ein ausa í einu


Ég notaði lágan hita allan tímann til að ofsteikja ekki laukinn og brenna ekki grjónin við í botninum í allri þessari suðu. Það er nefninlega alveg satt að það er ekkert erfitt að búa til ljúffengt rísottó en það krefst sannarlega þolinmæði. Ég smakkaði grjónin af og til meðan á matseld stóð og fannst gaman að finna hvað þau voru lengi að verða mjúk, en þau mega þó ekki verða lin. Eins á rísottóið ekki að vera of þykkt og því sauð ég ekki niður síðustu ausuna


 Í restina er 1 msk af smjöri hrært saman við, piprað að vild og uppáhaldshráefnunum mínum hent yfir; söxuð fersk basilíka og rifinn parmesanostur


Borið fram með tómötunum sem ég bakaði þarna einhverntímann í byrjun og leyfði að malla í ofni meðan ég byrjaði á rísottódásemdinni


Í mínum heimi er fátt sem jafnast á við rauðan lit, himneska lykt af saxaðri basilíku og dásemdarbragð parmesansostsins, nema þá helst ánægjubros míns myndarlega


 Bon appétit !


Aborriogrjón eru rísottógrjón. Uppskriftina klippti ég út úr e-u blaði fyrir nokkrum árum síðan en man því miður ekki hvaðan eða hvenær. 

mánudagur, 21. janúar 2013

Fyrirsögn óskast

Komst að því um daginn þegar rigndi hvað mest að trampskórnir mínir eru ekki vatnsheldir. Fór því í gær og keypti mér nýja skó. Mátaði voða þægileg plein svört stígvél sem hefðu líklega gengið við allt og allt og flest og helst, en hver fær staðist bomsur í eskimóastíl í lit og með rauðum reimum? Ekki konan hún ég


Viti menn, nú þegar konan er bomsuð til að arka blauta rigningu og brakandi snjó er eins og við manninn mælt að hvorki fellur korn af snjó né dropi af rigningu. Ég fór samt í nýju skónnum í vinnuna í morgun. Kom svona líka kampakát heim með funheitar tær og hlýar iljar 



þriðjudagur, 15. janúar 2013

Hversdagurinn

Í gær hitaði ég upp blómkáls og kartöflusúpuna góðu


braut saman fjalli af þvotti


og grúfði mig því næst niður í grautfúlt bókhald


Í kvöld nostraði ég við ástina


ástina sem gerir allt þetta hitt svo miklu bærilegra og allt annað þess virði.


mánudagur, 7. janúar 2013

Fimm


Lágum í heita pottinum og mændum á stjörnur á þeldökkum himni. Sötruðum kampavín með stjörnur í augum. Stjörnur í augum á deginum okkar. Laugardegi eins og þá

þriðjudagur, 1. janúar 2013

Hugheil hugleiðing


Ef þú spúir óvild og dónaskap að öðru fólki átt þú þá rétt á að viðkomandi aðilar komi ávalt kurteislega fram við þig?
Ef þú ert maka þínum ótrú/r, átt þú þá rétt á að halda framhjá honum aftur svo lengi sem makinn kemst ekki að því eða fyrirgefur?
Ef þú átt barn/börn átt þú þá rétt á því að ákveða hvernig sá einstaklingur á að vera, þrátt fyrir að barnið sé í raun fullorðið, af því þú ert foreldri?
Ef þú ert í sambandi þar sem þú gætir komið betur fram við maka þinn en gerir ekki, átt þú þá rétt á að segja að sambandið hafi bara ekki verið gott þegar því lýkur?
Ef þú ert stjórnsöm átt þú þá rétt á því að skipta þér af öllu/m í kringum þig og gagnrýna þá sem hafa aðrar skoðanir en þú af því þú vilt hafa hlutina eftir þínu höfði og þínu höfði einu?

Hef það fyrir satt að 13 er happatala. Heimsins bestu nýárskveðjur til þín sem lest, óháð því hvaða hvatir báru þig hingað.