mánudagur, 19. júlí 2010

Einn af fjórum

Í 16.5 °C hita langar mig ekki hreint neitt í vinnuna þó ég sé í stuttbuxum og blóma-gollu. Ég vil bara áframhald á Þingvallahelgi í Parísar-kjól Urðar, pikknikk með myndarlega manninum, lestur og límonaði á veröndinni. Fjóla segir mér það fari ekki alltaf saman það sem manni langi og það sem maður þarf að gera. Alltaf skynsöm stúlkan sú. Ég mun arka í strætó með eydísar-gleraugun á nefinu, hávaða í eyrunum og örvæntingafullt bros yst í munnvikunum.

Niðurtalning í sumarfrí formlega hafin.

þriðjudagur, 13. júlí 2010

Hug-mynd-ir

Myndarlegi maðurinn er hálfnaður með takmarkið. "5,1 km á 30 mín" gortar hann kot-rosk-inn á fésinu sínu. Svo roskinn að nú er næsta takmark að; "geta gert það tvisvar í röð." Ekki kvarta ég. Mun betri hugmynd en að púla sveittur á hlaupabretti inni í húsi á miðju sumri. Hann er líka hættur að vera styrktaraðili kvenna í þrifþjónustu. Brugðum út af Íslendingum og réðum erlent farandverkafólk til verka. Ég klappa saman höndum og hrín af kæti í hvert sinn sem ég uppgvöta tandurhreint heimilistæki.

Myndarlegi maðurinn er þó ekki uppfullur af einungis góðum hugmyndum. Þessa dagana hótar hann því að láta sér vaxa yfirvaraskegg ef ég hætti ekki að tala um Tom Selleck. Það er ekki góð hugmynd.

fimmtudagur, 8. júlí 2010

Sm-ellin

Sá á strimlinum úr Bónus að ég keypti appelsínur frá Afríku, sítrónur frá Spáni, vorlauk frá Bandaríkjunum, snjóbaunir frá Kenya, gulrætur frá Frakklandi, lime frá Brasilíu og vínber frá Suður Afríku. Myndi glöð þiggja þessar strimlaupplýsingar inni í versluninni. Gæti haft áhrif á val mitt.

Keypti strigaskó framleidda í Kína með adidas merki á. Þeir kostuðu sitt enda ekki keyptir í Bónus. Þeir eru hundforljótir en afskaplega þægilegir. Er væntanlega að færast á þann aldur þar sem ég get búist við að taka sveiflukenndar, en meðvitaðar, ákvarðanir um að taka þægindi fram yfir útli. Einu sinni skar ég mig líka á gleri í lófann. Fékk upphleypt og vel sjáanlegt ör sem nú felur sig auðveldlega innan um hrukkur í lófanum. Ellin er smellin.

mánudagur, 5. júlí 2010

Killers

Fórum í bíó í kvöld. Ég átti boðsmiða fyrir einn sem var orðinn ársgamall og fannst tími til kominn að nota hann. Lét framan af fingri til að kaupa miða handa myndarlega manninum svo hann kæmist með mér. 10 mín fyrir sýningartíma var byrjað að rúlla auglýsingum. Og þær rúlluðu. Og rúlluðu. Til tuttugu mín yfir sýningartíma. Hálftíma-auglýsingapakki á uppsprengdu verði. Og hvenær hætti stór popp að vera stór popp?!

Ræman var reyndar ágæt. Tom Selleck var í henni; einn örfárra manna sem komast upp með yfirvaraskegg. Mér líður öngvu að síður eins og ég hafi verið höfð að fífli. Bíó-fífli.