fimmtudagur, 24. nóvember 2011

Ólafsvíkurvaka

Fór til Ólafsvíkur um helgina og knúsaði nýju frænku mína sem er álíka létt og tvistpoki og sæt sem sykurpúði. Fór líka og skemmti mér dáyndisvel í Röstinni á Hellissandi, söng og tjúttaði með systrum mínum og dáðist að myndarlega manninum mínum á dansgólfinu.

Það er gott að eiga glás af góðum systrum



og ekki síðra að fara með sætasta stráknum af ballinu heim


Heim á næsta hótel þar sem ég svaf eins og grjót meðan rokið og rigningin hamaðist í dansi. Fékk mér svo svínahamborgarhrygg í morgunmat.

Og aftur líður að helgi. Merkilegt nokk. Næstum jafn merkilegt og að ég ætli til Ólafsvíkur aðra helgina í röð.

miðvikudagur, 16. nóvember 2011

Kjúklingur smjúklingur

E-n í vetur var ég í matarboði með ágætu fólki c.a. 14-15 árum eldra en ég. Eins og oft meðal vina var talað um liðna tíð. Mér fannst athyglisvert að heyra hvað allt þetta ágæta fólk talað um tíma "þegar ég var ung/ur". Aldrei tala ég um "þegar ég var ung". Ég segi alltaf "þegar ég var yngri". Mér hugnast það vel og líka betur en hitt. Og já, ég ætla líka að halda áfram að hugnast það betur og nota þegar ég verð orðin c.a. 14-15 árum eldri en ég er nú. Enda spríng tjikken.

fimmtudagur, 10. nóvember 2011

Fiskur á fisk ofan

Sá myndarlegi sá um matseld kvöldsins enda myndarkokkur mikill. Hann hefur býsnarinnar ánægju af að elda "upp úr sér" og gerir það af mikilli lyst. Í kvöld eldaði hann samt eftir uppskrift. Hann er nefninlega líka ansi lunkinn í þeirri listinni



Sjáið þið ekki öll fiskinn sem gapir í fiskréttinum?

miðvikudagur, 9. nóvember 2011

Mér leiðist pólitík

næstum því jafn mikið og mér leiðist kapítalistalið. Svona, þar hafið þið það. Þið getið þá hermt það upp á mig síðar.

Bananaþrái.

Ætlaði að baka kökuna sem ég bakaði ekki síðustu helgi í kvöld. Fann hvergi bananana sem ég er búin að nostra við í stífu þroskunarferli. Grunar að hreindýrinu okkar hafi fundist það þjóðþrifaverk að fleygja þeim. Allavega tveimur, ekki ólíklegt að sá þriðji hafi sjálfur skriðið í tunnuna enda elstur og orðinn mikið bóhem.

Ég neyddist því til að steikja bollur og sjóða spaghettí. Engin kaka í kvöldmat hér


Svona er að þrífa ekki sitt eigið heimili.

mánudagur, 7. nóvember 2011

Mann-rétt-indi

Ætlaði að baka köku um helgina. Las í staðinn 2 bækur og fór 2 í bíó.

Amnesty er með (Ó)sýnilega kvikmyndadaga þessa dagana. Eða réttara sagt þessi kvöldin. Kvikmyndir sem allir hafa gott af að sjá, þó ekki væri nema eina.

Sá myndarlegi stendur sína Amnestyvakt með sóma og er nokkuð lunkinn í að fá fólk til að taka þátt í herferð Amnesty. Herferð sem krefst þess eins að þú skrifir nafnið þitt. Ég verð alltaf jafn hissa þegar ég sé manneskjur staldra við, spjalla við þann myndarlega, kynna sér herferðina, en neita svo að skrifa nafnið sitt á eins og einn snepil. Snepil sem getur haft heilmikil og mikilvæg áhrif. Ef þú ert svo lánssöm/samur að eiga val á að hripa nafnið þitt niður, mannréttindum til handa, áður en þú svo lullar þér í sjoppuna að kaupa þér popp og kók, af hverju gerir þú það þá ekki? Mannréttindi eiga að vera sjálfsögð en ekki forréttindi.

Mannréttindi eru ekki bara fyrir okkur sem getum leyft okkur að baka köku um helgar, lesa bækur og fara í bíó. Mannréttindi eru fyrir ALLA.