laugardagur, 31. desember 2011

Gaml-árs gjöfli

Ligg í rauðum rúmfötum með malandi kött, fallegan fýr, rjúkandi kaffi. Var að klára orðasinfóníu Vigdísar Gríms. Stuttklippt á síðasta degi ársins. Ári sem ég mun kveðja sátt í sinni. Tilhlökkun til þess næsta.
Áramót spila á skemmtilega strengi í brjósti og maga. Strengjasláttur um nýtt upphaf í bland við allt það gamla. 2011, 2012, þrettán eða fjórtán. Skiptir í sjálfu sér ekki máli. Ég vil bara áframhald.

Ástfangin, hamingjusöm, þakklát, glöð.

fimmtudagur, 29. desember 2011

H.E.

Spjölluðum og glöddumst með mömmu og pabba og systrum og bróður, mökum og börnum fyrr í kvöld. Eina sem vantaði var afmælisbarn dagsins.

Hér er amma á níutíu ára afmælisdeginum sínum fyrir ári síðan



með strákunum sínum.

Þessi, þar sem þau gera sig klár fyrir myndatökuna, fær að fylgja með



af því mér þykir hún skemmtileg.

miðvikudagur, 28. desember 2011

Þetta er yndislegt líf

Eftir dásemdir jólanna var vel við hæfi að borða tartalettur fylltar með hangikjöti, kartöflum, grænum baunum og uppstúf í kvöld. Toppaðar með osti og hitaðar í ofni af rétt rúmlega fimmtugum karlmanni sem aldrei áður hefur útbúið tartalettur.

Ætlaði að blogga um allar þessar dásemdir jólanna sem fyllt hafa líf mitt, en ligg þess í stað eins og lufsa á sófanum og hef ekki eyrun af Páli Óskari í sjónvarpinu. Hef dillað mér með flestum, ef ekki öllum stuðlögunum, og fallegu, rólegu lögin eiga greiða leið að ástföngnu hjarta mínu. Rétt eins og bros kærólufsunnar og mal kattarlufsunnar sem fylla sófann með mér.

Jahá, ég trúi svo sannarlega á ástina. Maður lufsast sko ekkert með hverjum sem er.