miðvikudagur, 25. febrúar 2009

húmbúkk

Vann til 19:00 í gær í jakkafataráðuneytinu. Missti af strætó. Hringdi í sæta kærastann minn sem bjargaði mér frá því að sitja í kltíma á strætóbekk. Inni í bíl myndarlega mannsins ómaði talandi fallandi einræðisherra. Ég reyni á hverjum degi að hugsa sem minnst um þá staðreynd að kreppan beit mig óþægilega í báðar rasskinnarnar í formi uppsagnarbréfs á sl. ári. Uppsagnarbréf sem hefur það í för með sér að þrátt fyrir að hafa keypt íbúð á skynsamlegu verði, eigi ekki bíl og borgi ekki afnotagjöld, þá mun 40% launatap gera það að verkum að ég mun ekki halda íbúðinni minni með neinum góðum hætti. Þess fyrir utan að vera dottin aftur um ein 15 ár í tíma, vinnulega séð, og sjái mér ekki fært að halda söngnámi mínu áfram, en það var vissulega eitt af bruðlinu mínu í öllu neyslufylleríinu sem ég þarf nú að bera ábyrgð á.

Nú bíð ég spennt eftir því að fjölmiðlar, af einhverskonar óþreytandi þrá, dragi hinn síþreytandi Hannes Hólmsteinn fram í kastljósið landanum til sí-endurtekinnar skemm-tun-ar. Þá ætla ég að gleðjast sérstaklega yfir því að eiga ekki sjónvarp. 

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Þriðji í afmæli

Gestgjafinn mælti með Betty Crocker í bústaðinn. Ég hlýddi og greip þurrefnapakkablöndu með í afmælis-bústaðar-helgina við Meðalfellsvatn. Afraksturinn kúventi öllum mínum tilbúnumamerískummatvörumípakka-fordómum, og súkkulaði-Bettí sómdi sér vel sem afmælisterta tveggja vatnsbera í eftirrétt á Valentínusarkvöldi



Á milli þess sem ég fór í pottinn, las  Ofsa, spilaði Sequence og naut félagsskaparins, át ég eins og skollin væri á kreppa og hver máltíð væri mín síðasta. Afskaplega ljúft.

sunnudagur, 8. febrúar 2009

Ha?

Sl. laugardag mætti myndarlegi maðurinn án mín á mótmælin á Austurvelli. Ég var bundin við nýju vinnuna mína. Ég var ekki alveg búin að gera það upp við mig hvort ég myndi  mæta á mótmælin við Seðlabankann kl. 08:00 í fyrramálið, en ég hreinlega sé mér ekki annað fært!

Geð-veiki er enn eina orðið sem mér dettur til hugar. Að öðru leiti orðlaus.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Strætó.is

Í strætó í dag var miðaldra kona á hækjum. Hún fór inn á sömu stoppustöð og ég. Hún skakklappaðist aftast eins og ég. Hún fór út á stoppistöðinni á undan mér. Ég hugsaði með mér hvað hún væri dugleg að ferðast svona ein í strætó, á hækjum. Ég var líka ein á ferð, enda á leið í vinnuna. Ég var í rauðu kúrekastígvélunum mínum. Mér tókst að detta út úr strætó á minni stoppistöð. Kylliflöt. Velti því svo fyrir mér í allann dag hvaða gæfa hlyti að bíða mín handan við hornið. Og viti menn, myndarlegi kærastinn minn sótti mig í vinnuna, óumbeðinn, 3ja daginn í röð, fór með mig í bíó og kaupti stærsta poppinn handa mér. Þess fyrir utan skellihlæ ég ennþá er ég hugsa um sjálfa mig að hrynja út úr tvistinum. 

Ætla að spara mér hinn brandara dagsins sem átti sér stað þegar kötturinn datt ofan í baðkarið hjá mér fyrr í kvöld. 

mánudagur, 2. febrúar 2009

Fleh

Sl. 4,5 ár hef ég unnið á karlavinnustað þar sem hlutfallið var einfaldlega; ég var eina konan.
Í dag byrjaði ég á nýjum vinnustað þar sem hlutfallið er einfaldlega; við erum allar konur.
Það er doldil breyting.