þriðjudagur, 31. júlí 2018

Papa don't preach!

Oftar en ekki nota ég meiri hvítlauk en tiltekinn er þegar ég elda eftir uppskrift. Eiginmaðurinn setur alltaf meira krydd. Hinsvegar kreistum við iðulega minna af sítrónusafa þrátt fyrir að nýkreistur sítrónusafi á fingrum sé himneskur ilmur. 


Í kvöld skar ég sítrónu á stærð við appelsínu í tvennt og kreisti annann helminginn yfir rauðlauk, kjúklingabaunir, hvítlauk, edamamebaunir, cumin og papriku frá Marokkó, Ketjap Manis, Tabaskó og ólafíuolíu. Úr varð hið prýðilegasta salat. Baunasalat. 

Meðan eiginmaðurinn grillaði eggaldin og Halloumi ost dýfðum við Unnsa ofnbökuðu pítubrauði í himneskann hummus þess myndarlega og teyguðum bjór.

Töluðum um ketti og Hamingjuhöll og bækur og ketti og skáldskap og Hamingjuhöll og drauga og félagsheimili og fjallasýn og sirkus og Grund og æsku og Hamingjuhöll.

Hinn helminginn af sítrónunni kreisti ég útí ólafíuolíu, Tabaskósósu, salt og smátt skorinn hvítlauk. Prýðis dressíng sem við ýrðum yfir grillað eggaldinið og Hallúmíostinn. Drukkum rauðvín með stjörnum á miðanum.

Karlinn fleygði sér á sófann og við vinkonurnar opnuðum aðra flösku, skiptum út stjörnum fyrir engil. Héldum áfram að skála fyrir Hamingjuhöll og skáldskap og köttum og óráðinni framtíð og hvorug okkur leiddi hugann að því að við gætum endað á Grund.





Rétt í þessu var vinkona mín að stinga sér út í rigninguna. Eftir þrjá daga ætlum við að fara saman út að borða. Hverjum er ekki líka sama, eftir þriggja áratuga vináttu, hvort við endum í Hamingjuhöll eða á Grund?



þriðjudagur, 24. júlí 2018

Vil frekar rósir en byssur

Vaknaði spræk í gærmorgunn og mætti aftur til vinnu eftir frí (ef frí skyldi kalla). Ég hlakkaði til að fara í jógatíma eftir daginn, ætlaði svoleiðis að fetta úr mér 7 daga erfiða gönguferð, teygja úr mér 8 km fjörugönguna sem ætlaði mig lifandi að drepa, leyfa túrhestastöðunum að flæða úr vitund minni og hylla gestrisni mína. Djúp öndun og slökun og nei, aldeilis ekki, níræðir foreldrar eiginmannsin lentu í pati með sjónvarpið og von á syninum í fréttum svo að sjálfsögðu rauk hann af stað. Lái honum hver sem vill. 

Sjálf rauk ég af stað í göngu, gekk hratt, sveiflaði höndum og andaði hraustlega inn um nefið. Gekk ranghala Laugardalsins og rakst á treilerinn þeirra þarna í Byssum og Rósum. Kom mér á óvart hvað glugginn þeirra er hlýlegur, áreiðanlega heilbrigðir og bjartsýnir þessir amerísku piltar. 

Var töluvert minna spræk í morgunn. Nennti ekki í göngutúr eftir vinnu. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og lét orð þess myndarlega um að nota nú gírana sem vind um eyru þjóta er ég þeysti út heimreiðina. Steig pedalana af meiri krafti en vinnuelja dagsins gaf í skyn að ég byggi yfir. Rann framhjá lengju af liði í röð, sveigði framhjá fjölda af fógangandi fólki með bjór í hönd, miðaldra kellur á hælum með rauða tóbaksklúta bundna um höfuð, ekki minna miðaldra karlar með ístrur í Byssum og Rósum bolum. Jú, get ekki neitað því að ákveðin lög eins Paradísarborg, Nóvember rigning, Ó mitt blíða barn og Þolinmæði fá mig stundum til að hækka í útvarpinu, sér í lagi í bílnum. Er samt ekkert sérstaklega þessi þungarokkstýpa, meira svona Eydísarpoppdíva, þið vitið. Já, auðvitað var ég með reiðhjólahjálminn á mér