Sjálf rauk ég af stað í göngu, gekk hratt, sveiflaði höndum og andaði hraustlega inn um nefið. Gekk ranghala Laugardalsins og rakst á treilerinn þeirra þarna í Byssum og Rósum. Kom mér á óvart hvað glugginn þeirra er hlýlegur, áreiðanlega heilbrigðir og bjartsýnir þessir amerísku piltar. Var töluvert minna spræk í morgunn. Nennti ekki í göngutúr eftir vinnu. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og lét orð þess myndarlega um að nota nú gírana sem vind um eyru þjóta er ég þeysti út heimreiðina. Steig pedalana af meiri krafti en vinnuelja dagsins gaf í skyn að ég byggi yfir. Rann framhjá lengju af liði í röð, sveigði framhjá fjölda af fógangandi fólki með bjór í hönd, miðaldra kellur á hælum með rauða tóbaksklúta bundna um höfuð, ekki minna miðaldra karlar með ístrur í Byssum og Rósum bolum. Jú, get ekki neitað því að ákveðin lög eins Paradísarborg, Nóvember rigning, Ó mitt blíða barn og Þolinmæði fá mig stundum til að hækka í útvarpinu, sér í lagi í bílnum. Er samt ekkert sérstaklega þessi þungarokkstýpa, meira svona Eydísarpoppdíva, þið vitið. Já, auðvitað var ég með reiðhjólahjálminn á mér

Engin ummæli:
Skrifa ummæli