sunnudagur, 29. maí 2011

Mál-tíð

Í gær borðuðum við kvöldmat í Þjóðmenningarhúsinu. Í morgun borðuðum við morgunmat á veröndinni



Hvílík dásemd að þurfa ekki lengur að vinna um helgar. Hvílík dásemd að eiga tvo daga í röð til eigin ráðstafana óháð vinnu, eftir hverja 5 vinnudaga samfleytt. Hvílík dásemd að geta legið í bælinu, lesið, drukkið morgunkaffið í rólegheitum og gefið sér góðan tíma í koddahjal með ástinni. Hvílík dásemd að eiga bleika náttsloppinn hennar mömmu sem einnig má nota sem morgunslopp. Hvílík enn meiri dásemd að hlakka til að mæta í vinnuna á morgun.

föstudagur, 20. maí 2011

Gæti hreinlega fallið í yfirlið

er ég bít í danska snúðinn sem fæst í Sandholt, hann er svo dásamlega góður.

Croissantin þar eru líka dásamleg, svona eins og croissantin í útlöndum sem ég elska að úða í mig í morgunmat.

Í gær sagði ég upp í vinnunni minni. Í morgun fékk ég sms um að ég þyrfti ekki að mæta þar meir. Á mánudag byrja ég í nýrri vinnu.

Þar hafið þið það.

Þessi færsla er ekki styrkt af bakaríinu Sandholt

mánudagur, 9. maí 2011

Af ástföngnum göngugarpi

Fór í gær og fékk mér alvöru fjalladrullu á nýju gönguskónna mína


Hitti fallegan hund sem hlunkaðist með forsetann og Dorrit í eftirdragi. Hitti vinnufélaga sem hljóp upp og niður fjallið. Brann á hálsinum. Tók með mér aðra Esjujómfrú sem deildi sömu einörðu markmiðum og ég; að komast upp á topp og klára allt nestið áður en við kæmum aftur niður


Í gær kom svo fimmtugi unglingurinn minn heim úr strákaferðinni sinni af erlendri grundu. Gjafagóssið er gott og flott og fínt



Það jafnast þó ekkert á við að fá ástina aftur heim í fangið.
Það er besta gjöfin.