föstudagur, 22. júlí 2016

Á fák og flugi

Síðustu helgi, í miðjum samræðum við mömmu, gleypti ég flugu í fyrsta skipti á minni stuttu ævi. Hóstaði heljarinnar ósköp og þrátt fyrir að langa ekkert sérstaklega til að kyngja bévítans flugunni þá vildi ég samt ekkert heitar en koma henni niður svo ég gæti skammlaust klárað setninguna sem ég var á miðju kafi í er ósköpin dundu yfir.

Nú þegar konan er orðin svona sigld, enda formlega komin á fimmtugsaldur (ekki seinna vænna), ákvað ég að draga fram hjólið mitt. Hjólið sem fyrrverandi sambýlismaður minn gaf mér þegar konan var enn á þrítugsaldri. Hjólið sem staðið hefur í Buckingham palace skúr mest allan tímann sem konan var á fertugsaldri. Hjólið sem eiginmaðurinn, sem aldrei hjólar, dröslaði til Dr. Bike til yfirferðar. Hjólið sem fékk bara prýðis læknisúrskurð og endaði aftur inni í skúr.

Dustaði áratuga gamalt ryk af hjálminum mínum, hnýtti á mig hvítu, ljótu strigaskónna mína og steig á pedalann (sem er reyndar bara hálfur hægra megin). Heyrði kallinn kalla; helduru jafnvægi? á eftir mér út heimreiðina. Steig báða pedalana og þóttist ekki heyra í honum. Áður en ég vissi af var ég komin til móts við Glæsibæ. Tók snögga vinstri beygju og hjólaði gegnum Laugardalinn, stefnan sett á heim. Hjólaði framhjá fótboltaleik, hrúgu af indverskum piltum, feðgum að elta Pókemon, styttu af mjólkandi móður og fallegum blómum. Steig pedalana fastar upp brekkur, brosti og naut þess að finna vindinn í eyrunum. 


Núna er karlinn uppfullur af því að ég hafi hjólað alla þessa leið án þess að skipta um gír í eitt einasta skipti. Sjálf er ég uppfull af ánægju yfir því að hafa ekki gleypt eina einustu flugu á leiðinni, hef heyrt ægilegar sögur af fólki sem gleypir kynstrin öll af flugum í hjólatúrum. Kannski skipti ég um gír í næstu ferð. Kannski.

fimmtudagur, 21. júlí 2016

Súpufín súpa frá frú Matarkistu

Hér gefur að líta olíukraumandi lauk í potti (það er yfirleitt ágætis byrjun á eldamennsku)


Ein af ofurfæðunum mínum eru kartöflur (þýðir ekki ofurfæða annars einhvað sem er hrikalega gott?) svo ég henti þeim glöð í bragði ofaní pottin þar sem laukurinn kraumaði hvissandi


Gulrætur og sellerí voru næstar í olíubaðið, finnst bæði gott en þó ekki ofur gott eins og kartöflur, enda eru þær ein af ofurfæðunum mínum eins og þið kannski munið


Það átti víst líka að vera hvítlaukur þarna en ég steingleymdi honum. Mundi sem betur fer eftir Túrmerikinu


Mundi líka eftir því að sækja brauð í frystikistuna og að kveikja á ofninum, skvetti smá vatni á brauðið áður en ég skvetti því inní ofninn


Þessu næst skvetti skvettan (nú er ég auðvitað byrjuð að ýkja) kjúklingakrafti yfir grænmetisblönduna í pottinum. Eftir einhverja soðningu var það kókosmjólk sem var skvett saman við


Smátt skornu spínati blandað saman við alveg í restina, *hvítur pipar og örlítið salt notað til að bragðbæta og brauðin orðin klár í ofninum


stökt og gullinbrúnt og flott, enda vatnsskvett af skvettunni.
Sólarlaus rjómablíða og ekki til setunnar boðið en úti á verönd


Feðgarnir líka súpufínir. Og súpan já, mikil ósköp


*Gruna hana Sigurveigu vinkonu mína um hvít pipar blæti. Uppskrift fengin frá henni.

fimmtudagur, 14. júlí 2016

Blá ber og gul sól

Labbaði heim eftir vinnu í blíðskaparveðri í fyrradag með bláber og klettasalat í töskunni. Með kalt hvítvín í glasi dembdi ég mér útá verönd þar sem ég skar niður iceberg, blandaði klettasalati saman við og naut sólarylsins


Inni í eldhúsi dembdi ég sólblómafræum, hörfræum, möndluflögum og bananaflögum á þurra pönnu, stakk trýninu útá verönd og gáði til sólar og hvítvíns þar til hörfræin fóru að smella á pönnunni


Í ísskápnum leyndust afgangar af grilluðum kjúklingabringum og gráðaosti sem ég tók til við að brytja niður og demba yfir salatblönduna ásamt vænni lúku af bláberjum. Ristaðri fræflögublöndu dreift í reiðuleysi yfir ásamt möluðum pipar og vænni skvettu af ólífuolía og voilá; salatið var klárt


Kjúklingurinn var kryddaður með einhverri Cajun BBQ kryddblöndu sem bragð var af og bauð uppá skemmtilega bragðlaukaveislu. Aukaskammtur af bláberjum og hvítvíni skemmdi svo ekki fyrir


Í dag rigndi á mig er ég labbaði heim eftir vinnu. Haustgrámi í skýum á miðju sumri. Það er líka allt í lagi. Í gær brostum ég og sólin við myndarlega manninum mínum yfir kokteil á Austurvelli áður en við trítluðum yfir á Hornið þar sem við fengum okkur fantagóða pítsu sem vert er að mæla með. Það má alveg rigna meðan kona hefur sól í hjarta


Uppskrift fengin úr eigin höfði

sunnudagur, 10. júlí 2016

Bananasúkkulaðisæla

Átti banana sem voru komnir á síðasta snúning og mig langaði ekki til að gera enn eitt bananabrauðið svo ég blandaði 175 gr af sykri, 175 gr af hveiti, tsk af lyftidufti, 1/2 tsk af matarsóda, 4 msk af kakódufti og 100 gr af súkkulaðibitum saman í skál


Stappaði bananana vel saman og dembi einu eggi saman við, eggi sem reyndist vera fúlegg. Alla mína daga! Hef heyrt um svoleiðis en aldrei lent í slíku sjálf. Þegar fúlegg ber undir er gott að luma á öðru setti af vel þroskuðum bönunum í frystikistunni


Frystikistubönunum skellt í afþiðnun í ofninn, stappað saman ásamt heilu ófúlu eggi og 2 eggjarauðum, 100 ml af ólífuolíu og 50 ml af mjólk hrært þvínæst saman við


Bananablöndu dembt útá þurrefnablöndu og öllu blandað vel saman


Eggjavítunum tveimur frá eggjarauðunum sem fóru í bananahræringinn voru stífhrærðar, helming blandað vel saman við alla hina hræruna og seinni helming blandað varlega saman við með sleif


Því næst skellt í smurt form enda nóg komið af hræringu. Blástur á 160 í kltíma og korter


Meðan kakan, sem ilmaði afar vel bara svo þið vitið það, kólnaði í forminu setti ég 100 gr af súkkulaði í skál ásamt 100 ml af sýrðum rjóma


Brætt yfir vatnsbaði og hrært vel í (þið hélduð þó ekki að konan væri hætt að hræra?). Þegar vel samanhrærð var blöndunni stungið inní ísskáp til kælingar þar til kremhæf


Þá var þeirri hræru sem orðin var að kremi, enda konan hætt að hræra, smurt yfir kalda kökuna og þurrkuðum bananabrotum fleygt í óreiðu yfir


og ekkert annað eftir en að hella uppá kaffi og njóta


Uppskrift fengin héðan.

Humarrest

Litli bróðir þess myndarlega var í hálfs mánaðar heimsókn hjá okkur. Kærkominni heimsókn alla leið frá Ástralíu. Af því tilefni tók sá myndarlegi sér frí og flandraðist með áströlsku fjölskylduna um Íslands koppagrundir, dembdi þeim í heimsóknir til ættingja og vina, sló upp hamborgara- og pylsupartýi, hristi kokteila, tók tappa úr og galdraði fram hinar ýmsu kræsingar af sinni alkunnu list.

Síðasta heimsóknarkvöldið grilluðum við eðal humar úr Melabúðinni. Sátum eftir með smotterís afgang sem ég skar niður í munnbitastærðir í morgun og kryddaði með smávegis Cayennepipar


Sló saman 4 eggjum ásamt hæfilegu magni af fáfnisgrasi


Bræddi dágóðan slatta af smjöri á pönnu og velti humrinum þar um í 2-4 mín. Dembdi síðan eggjahrærunni yfir og hrærði þar til úr varð dásemdar humareggjahræra


Kælda kamapavínið í ísskápnum hefði verið flott með en við létum ristað brauð og vatn úr krananum nægja. Að þessu sinni.

Uppskrift fengin héðan.