fimmtudagur, 14. júlí 2016

Blá ber og gul sól

Labbaði heim eftir vinnu í blíðskaparveðri í fyrradag með bláber og klettasalat í töskunni. Með kalt hvítvín í glasi dembdi ég mér útá verönd þar sem ég skar niður iceberg, blandaði klettasalati saman við og naut sólarylsins


Inni í eldhúsi dembdi ég sólblómafræum, hörfræum, möndluflögum og bananaflögum á þurra pönnu, stakk trýninu útá verönd og gáði til sólar og hvítvíns þar til hörfræin fóru að smella á pönnunni


Í ísskápnum leyndust afgangar af grilluðum kjúklingabringum og gráðaosti sem ég tók til við að brytja niður og demba yfir salatblönduna ásamt vænni lúku af bláberjum. Ristaðri fræflögublöndu dreift í reiðuleysi yfir ásamt möluðum pipar og vænni skvettu af ólífuolía og voilá; salatið var klárt


Kjúklingurinn var kryddaður með einhverri Cajun BBQ kryddblöndu sem bragð var af og bauð uppá skemmtilega bragðlaukaveislu. Aukaskammtur af bláberjum og hvítvíni skemmdi svo ekki fyrir


Í dag rigndi á mig er ég labbaði heim eftir vinnu. Haustgrámi í skýum á miðju sumri. Það er líka allt í lagi. Í gær brostum ég og sólin við myndarlega manninum mínum yfir kokteil á Austurvelli áður en við trítluðum yfir á Hornið þar sem við fengum okkur fantagóða pítsu sem vert er að mæla með. Það má alveg rigna meðan kona hefur sól í hjarta


Uppskrift fengin úr eigin höfði

Engin ummæli: