þriðjudagur, 7. ágúst 2018

Já vindur, blástu bara!

Létum loksins verða af því að ganga Glymhring. Við tvö og allir hinir túrhestarnir. Vorum heppin að fá stæði á bílaplaninu. Stóðum í röð til að komast að trjádrumbnum. Sættum lagi að taka myndir, túrhestalausar myndir þ.e.a.s. Gleyptum í okkur náttúrudýrðina og veðrið. Maður minn, hvílíkt veður! Á heimleiðinni leyfðum við okkur að hlakka til að setjast útá verönd og halda áfram að njóta blíðunnar en nei, ó nei, vindurinn tók hvínandi á móti okkur, gnauðaði í okkur hálfgerðan vetrarhroll og blés okkur í svefn um kvöldið.

Á mánudags þriðjudegi get ég alveg sagt ykkur að löng helgin var alveg svakalega fín. Fór út að borða með vinkonu minni. Fór líka með henni á svaðalegt djamm. Svakalegt stuð. Þar til ég vaknaði daginn eftir. Timburmenn á fimmtugsaldri eru hreint ekkert spennandi, segi ykkur það satt. Fór líka í feikn góðan bíltúr með ektamanninum, las tvær bækur, fór aftur út að borða, mændi á Netflix, hámaði í mig hnetur frá Grikklandi, gaf heilsurækt og heimilisstörfum langt nef, drakk kaffi í rúminu.

Labbaði heim eftir vinnu með vindinn í fanginu. Ætla enn og aftur út að borða í kvöld.

þriðjudagur, 31. júlí 2018

Papa don't preach!

Oftar en ekki nota ég meiri hvítlauk en tiltekinn er þegar ég elda eftir uppskrift. Eiginmaðurinn setur alltaf meira krydd. Hinsvegar kreistum við iðulega minna af sítrónusafa þrátt fyrir að nýkreistur sítrónusafi á fingrum sé himneskur ilmur. 


Í kvöld skar ég sítrónu á stærð við appelsínu í tvennt og kreisti annann helminginn yfir rauðlauk, kjúklingabaunir, hvítlauk, edamamebaunir, cumin og papriku frá Marokkó, Ketjap Manis, Tabaskó og ólafíuolíu. Úr varð hið prýðilegasta salat. Baunasalat. 

Meðan eiginmaðurinn grillaði eggaldin og Halloumi ost dýfðum við Unnsa ofnbökuðu pítubrauði í himneskann hummus þess myndarlega og teyguðum bjór.

Töluðum um ketti og Hamingjuhöll og bækur og ketti og skáldskap og Hamingjuhöll og drauga og félagsheimili og fjallasýn og sirkus og Grund og æsku og Hamingjuhöll.

Hinn helminginn af sítrónunni kreisti ég útí ólafíuolíu, Tabaskósósu, salt og smátt skorinn hvítlauk. Prýðis dressíng sem við ýrðum yfir grillað eggaldinið og Hallúmíostinn. Drukkum rauðvín með stjörnum á miðanum.

Karlinn fleygði sér á sófann og við vinkonurnar opnuðum aðra flösku, skiptum út stjörnum fyrir engil. Héldum áfram að skála fyrir Hamingjuhöll og skáldskap og köttum og óráðinni framtíð og hvorug okkur leiddi hugann að því að við gætum endað á Grund.

Rétt í þessu var vinkona mín að stinga sér út í rigninguna. Eftir þrjá daga ætlum við að fara saman út að borða. Hverjum er ekki líka sama, eftir þriggja áratuga vináttu, hvort við endum í Hamingjuhöll eða á Grund?þriðjudagur, 24. júlí 2018

Vil frekar rósir en byssur

Vaknaði spræk í gærmorgunn og mætti aftur til vinnu eftir frí (ef frí skyldi kalla). Ég hlakkaði til að fara í jógatíma eftir daginn, ætlaði svoleiðis að fetta úr mér 7 daga erfiða gönguferð, teygja úr mér 8 km fjörugönguna sem ætlaði mig lifandi að drepa, leyfa túrhestastöðunum að flæða úr vitund minni og hylla gestrisni mína. Djúp öndun og slökun og nei, aldeilis ekki, níræðir foreldrar eiginmannsin lentu í pati með sjónvarpið og von á syninum í fréttum svo að sjálfsögðu rauk hann af stað. Lái honum hver sem vill. 

Sjálf rauk ég af stað í göngu, gekk hratt, sveiflaði höndum og andaði hraustlega inn um nefið. Gekk ranghala Laugardalsins og rakst á treilerinn þeirra þarna í Byssum og Rósum. Kom mér á óvart hvað glugginn þeirra er hlýlegur, áreiðanlega heilbrigðir og bjartsýnir þessir amerísku piltar. 

Var töluvert minna spræk í morgunn. Nennti ekki í göngutúr eftir vinnu. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og lét orð þess myndarlega um að nota nú gírana sem vind um eyru þjóta er ég þeysti út heimreiðina. Steig pedalana af meiri krafti en vinnuelja dagsins gaf í skyn að ég byggi yfir. Rann framhjá lengju af liði í röð, sveigði framhjá fjölda af fógangandi fólki með bjór í hönd, miðaldra kellur á hælum með rauða tóbaksklúta bundna um höfuð, ekki minna miðaldra karlar með ístrur í Byssum og Rósum bolum. Jú, get ekki neitað því að ákveðin lög eins Paradísarborg, Nóvember rigning, Ó mitt blíða barn og Þolinmæði fá mig stundum til að hækka í útvarpinu, sér í lagi í bílnum. Er samt ekkert sérstaklega þessi þungarokkstýpa, meira svona Eydísarpoppdíva, þið vitið. Já, auðvitað var ég með reiðhjólahjálminn á mér

þriðjudagur, 26. júní 2018

Má hálfleikur ekki heita hlé?

Enginn á ferli á göngustígnum meðfram sjónum við Sæbraut nema ég og rokið. Fannst ég sjá álengdar tvær manneskjur við Sólfarið og gekk að því sem vísu að þar myndu erlendir ferðamenn vera á ferð. Við Sólfarið rakst ég samt bara á einn hettumáf svo líklega var þetta huldufólk sem ég sá. Huldufólk sem hefur drifið sig heim að horfa á þennan fótboltaleik sem er víst í sjónvarpinu. 

Á kaffi Haítí hitti ég Eldu vinkonu mína sem malaði stórann poka af dökkum baunum fyrir mig í 2 litla poka og gaf mér því næst fantagóðan og sterkan kapútsjínó. Elda hefur álíka áhuga á fótbolta og ég svo við áttum gott spjall ásamt því að reyna á frönskukunnáttu mína (og veitti ekki af).

Var að bíta í sítrónumakkarónu á Apótekinu. Er þessi leikur annars ekkert að verða búinn?

mánudagur, 18. júní 2018

Áratugur flýgur hjá

Ég kynntist þeim myndarlega fyrsta laugardag janúarmánaðar 2008. Rúmum mánuði síðar stóð hann frammi fyrir því að kaupa afmælisgjöf fyrir þessa nýtilkomnu hjásvæfu sína. Verkið leysti hann snöfurmannlega af hendi eins og hans er von og vísa og kannski segi ég ykkur betur frá því síðar. 

Fjórum mánuðum síðar var komið að mér. Ég gaf þeim myndarlega matreiðslubók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér og ber það skemmtilega heiti Cooking with booze ásamt hressu korti af áttræðri kellu í spíkat (kommon, ég var nú bara 32 ára meðan hann skreið óðfluga á fimmtugsaldur!). Að auki gerði ég dauðaleit að Líbönsku rauðvíni til að skenkja með Líbanska réttinum sem ég eldaði fyrir hann afmælisdaginn þann.

Til að gera langa sögu stutta þá eru tíu ár liðin síðan þá. Í kvöld dembdi ég jarðarberjum og hindberjum í skál og skenkti þeim myndarlega kampavín í tilefni dagsins. Klippti og garnhreinsaði humar. Bræddi saman smjör, hvítlauk og steinselju í potti. Makaði yfir galopinn humarinn og stakk honum því næst undir grillið í 5 mínútur. 

Sá myndarlegi skríður óðfluga yfir á sex-tugsaldurinn. Hann hefur aldrei eldað eina einustu uppskrift uppúr Cooking with booze.

föstudagur, 1. júní 2018

Jú, það er smá gjóla á veröndinni

en sólin skín og fuglarnir syngja og ljúfur jassinn streymir út um verandarhurðina og nágranninn er að mála kofann í næsta garði rauðan svo ég læt mig hafa það.

Í morgun lét ég mig hafa það að rífa mig á lappir í næturmorgunsárið til að keyra þann myndarlega og eldri son hans á Keflavíkurflugvöll. Síðan þá eru þeir feðgar búnir að sitja í vél Icelandair á Schippol í 40 mínútur og þegar þeir loksins komust inn á flugvöllinn sjálfann komust þeir að því að tengifluginu þeirra til Grikklands var frestað um 50 mínútur. Ég geri því fastlega ráð fyrir að þeir hafi náð því flugi og muni eiga frábæra ferð í vændum, fall er jú faraheill.

Sjálf íhugaði ég að fara bara í ræktina fyrst ég var komin á lappir svona snemma en keyrði svo bara heim og fór beint uppí rúm aftur. Hringaði mig niður í mitt rúmið en í staðin fyrir að sofna fór hugurinn á flug. Fyrsta sem ég hugsaði var; hvar ætli Dagur sé? En í staðinn fyrir að brölta aftur fram úr, til að sækja köttinn, til að hringa okkur saman niður í mitt rúmið, áttaði ég mig á því að ég væri alveg ein. Galein. Bylti mér í rúminu og snúsaði klukkuna þegar hún fór að glymja. Snúsaði þar til ég neyddist til að fara framúr.

Núna sumsé sit ég úti á verönd og sötra kampavín. Mitt uppáhalds kampavín. Karlinn var ekki búinn að fara í tengiflugið þegar búið var að spyrða mig saman við annann mann, nefninlega nafna hans í Melabúðinni, "þið hjónin" var sagt við okkur og við Pési hlógum bara. Hvað annað áttum við svo sem að gera? Við Pési eigum það þó sameiginlegt að elska ekki bara kampavín heldur er Gula Ekkjan í okkar uppáhaldi, okkur þykir vænna um dýr en menn og eigum ekki börn. Þess utan sitjum við jú saman alla virka daga en andskotinn hafi það, er hjónasvipur með okkur?

mánudagur, 28. maí 2018

Mmmmmmmmaaaaangó Tttttttttttttjötney

Munið þið eftir því þegar þriðja hver uppskrift, ef ekki önnur hver, var með mango chutney? Þriðjungur allra kjúklingauppskrifta, helmingur allra fiskuppskrifta, hver ein og einasta laxuppskrift. Finnst eins og þetta hafi verið í fyrradag en þegar ég íhuga það betur finnst mér líka að ég hafi einmitt búið ein (með Degi) í Skaftahlíð þegar mangó tjötney var uppá sitt besta og fyrst ég er komin þangað þá gæti verið að sirka tugur sé síðan þó það hljómi vissulega jafn fáránlega og að ég hafi rétt í þessu litið út um gluggann og séð bleikan einhyrning fljúga í gegnum skýin með Whitney Houston á bakinu.

Nema ég fann krukku af mangó chutney inní skáp um daginn. Keypti fisk í vinnunni minnug allra þessara fiskuppskrifta á chutney-tímabilinu. Var ekki með neina sérstaka uppskrift í huga, steikti bara það grænmeti sem ég gat dregið fram úr ísskápnum og smellti í ofnast mót ásamt þorskinum. Átti jarðarberjajógúrt á síðasta snúning og ákvað að demba chötneyinu útí hana ásamt karrídufti og shriracha-sósu. Dembdi þessu á fiskinn og grænmetið og sáldraði rifnum osti yfir. Sauð hrísgrjón meðan þetta mallaði í ofninum. Príma máltíð skal ég segja ykkur.

Nema krukkan af mango chutneyinu var svona löng og mjó og ég náði ekki að klára hana svo hún endasendist inní ísskáp. Í kvöld var ég ekki heldur með neina uppskrift og nennti ekki heldur að kaupa neitt í matinn. Meðan sá myndarlegi púlaði í ræktinni rýndi ég í ísskápinn. Skar niður og steikti kartöflur, rauða papriku og skinku, dembdi afgangi af soðnum hrísgrjónum yfir ásamt karrímangókryddi og JÁ, þið giskuðuð á það! Mango chutney!! Dró krukkuna fram og skellti vænum matskeiðum útá pönnuna. Þegar sá myndarlegi kom heim braut ég 4 egg út á herlegheitin og hrærði vel saman.

Úr varð hinn prýðilegasti réttur nema ég er ekki enn búin að klára mangó tjötneyið! Já, þessi krukka ER löng og mjó og mín spurning er; hvað á ég eiginlega að gera við restina? Svör óskast.