sunnudagur, 5. júlí 2020

Að loknum slætti

Var nauðsynlegt að skilja? spurði frúin sjálfa sig þar sem hún skreið um blettinn með glænýjar grasklippurnar. Við hvert snip í skærunum velti hún því fyrir sér af hverju hún hefði ekki líka keypt hrífu í gær þegar hún asnaðist til að kaupa þessar heimskulegu klippur. Þegar svo þumallinn fór að emja undan síendurteknum snip, snipum ígrundaði frúin af fullum þunga hvort það væri einhver smuga að krefjast þess að fá slátturvélina þrátt fyrir að 6 mánuðir væru nú liðnir síðan hún yfirgaf heimili sem var aldrei hennar í raun.

Ekki misskilja mig, klippurnar svínvirka, það er garðelja konunnar sem er að klikka. Það er því einungis tvennt í stöðunni; annað hvort fæ ég mér hross á veröndina eða kem mér í kynni við fjallmyndarlegann karlmann sem er reiðubúinn að slá hjá mér blettinn, ber að ofan, óháð veðri, hvenær sem ég þarf á því að halda.

Eitt get ég sagt ykkur, í fúlustu alvöru, hér eftir verður grasbletturinn minn aldrei kallaður neitt annað en tún. Legg ekki meira á ykkur.

laugardagur, 4. júlí 2020

Graslegnar hljómplötur

Ég hefði getað raðað plötunum upp eftir plötuheiti, en ég gerði það ekki. Ég hefði líka getað raðað erlendum flytjendum eftir eftirnafni og íslenskum eftir nafni, en ég gerði það ekki heldur. Ég raðaði öllum flytjendum, hvort heldur sem íslenskum, erlendum eða hljómsveitum, eftir fyrsta staf í nafni. Ekkert erlent hálfkák hér í íslenskri stafrófsröðun, takk fyrir. Þessu ljóstra ég upp hér vegna gríðarlegs áhuga, heilar 3 manneskjur búnar að spyrja. Takk fyrir.

Unnur vinkona stakk uppá því síðast er hún var í heimsókn að ég myndi bara nota dömurakvél til að slá hjá mér grasblettinn (jújú, hún hefur húmorinn fyrir neðan nefið) en af því ég hlýddi henni ekki strax þá hefur hreint ótrúlegt magn af grasi og stráum vaxið (Birtu og Bjössa til ómældrar gleði) á þessum bletti sem sannarlega ber nafn með rentu, þ.e.a.s. blettur. Í dag fór ég og keypti grasklippur. Ef ég væri enn gift þá væri minn fyrrverandi löngu búinn að klippa grasið í tætlur en af því að ég er skilin þá eru klippurnar enn í umbúðunum. Ég þurfti nauðsynlega að lesa nokkra kafla í bókinni sem ég er að lesa og síðan varð ég að hlusta á nokkrar hljómplötur og þegar þessu var loks nokkurn veginn skammlaust áorkað þá var bara kominn tími til að elda kvöldmatinn. 

Þannig týnist víst tíminn.

mánudagur, 29. júní 2020

Frískil

Í morgun sagði vekjaraklukkan mín skilið við tveggja vikna sumarfrí sem einkenndist af leti. Fyrsta sumarfrí eftir skilnað og ekki hægt að fara til útlanda. Tók mig nokkra stund að átta mig á að ég mátti gera hvað svo sem ég vildi í mínu eigin fríi, þ.m.t. ekki neitt. Eyddi því miklum og góðum tíma á veröndinni minni, sem að stórum hluta seldi mér þessa úthverfaíbúð í fyrra, og stóð sannarlega fyrir sínu. Hristi í glás af kokteilum, las töluvert af bókum, hlustaði á mökk af tónlist, knúsaði Birtu og Bjössa við hvert tækifæri, eldaði góðan mat, snuddaði við hversdagsleg heimilisstörf, fór í frábæra Glymgöngu með sjálfri mér, keypti pottablóm á veröndina, kaus Guðna til forseta, keypti óvart rauðvín í stað hvítvíns, fór í góðan göngutúr um hverfið mitt, fékk vinkonu í næturgistingu og fór með henni út að borða, skipti mér af vinnunni, fór í matarboð, hjólaði niður í bæ, drattaðist loks í Grafarvogslaugina í þar, þar næstu götu við mig, nostraði við intróvertinn í sjálfri mér og hugsaði heilan haug. Eyddi síðustu frídögunum umvafin fjölskyldu.

Að auki raðaði ég plötusafninu mínu í stafrófsröð. Þrettán ár síðan ég afrekaði það. Nú legg ég aldeilis ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 28. júní 2020

Svefnpokahjal

Fínasta fjölskylduútilega að Hlöðum í Hvalfirði að baki, prýðilegasta mæting og veður með besta móti; smávegis rok og síðan meira rok en sluppum að mestu við rigningu.

Svo einkennilega vill til að hin árlega fjölskylduútilega er jafngömul sambandi okkar Péturs, þ.e.a.s. þar til núna. Ég hafði oft á orði við Pétur að í flestum tilvikum stæði fjölskyldan við bakið á manni, ekki síst vegna blóðtengsla og sögu sem slíku fylgir. Það sama á hins vegar ekki við um maka; maka þarf að styðja, vökva og hlúa að ef þú vilt að makinn dvelji. 

Flest fórum við í sundlaugina á staðnum, sum oftar en einu sinni, örfá okkar gengu á Þyril, sumar prjónuðu, krakkarnir léku sér og ærsluðust líka. Öll átum við grillmat og flestir grillaða sykurpúða á eftir. Spjall og spaug, grín og glens, hlátur og alvara, samheldni og virðing, ást og þakklæti.

Að auki get ég sagt ykkur að það var fínt að sofa ein í svefnpoka.

sunnudagur, 21. júní 2020

Ósjálfráð kaup eða fljótfærni?

Stökk fram úr rúminu í gær (rólegann mysing krakkar, auðvitað var ég búin að fá mér kaffi og lesa áður) og setti 3 egg í pott, 2 linsoðin í morgunmat og 1 harðsoðið á majónessinnepssmurða samloku ásamt salati og agúrku. Það var kominn tími til að rífa sig upp af rassgatinu í þessu fríi. 

Kom við í vínbúðinni í Mosfellssveit á leið minni út úr bænum, hugsaði með mér að það yrði dágott að eiga hvítvín með laxinum um kvöldið. Fyrsta skipti sem ég kem inní ríkið í Mosfellsbæ, prýðilegt úrval, fann öll uppáhalds hvítvínin mín en þar sem augun reikuðu um hvítvínsrekkann námu þau staðar við 
Ég hef oft valið mér vín útaf fallegum miða svo ég lét bara vaða, greip flöskuna, vatt mér að kassanum og greiddi með bros á vör.

Flaskan lúrði í aftursætinu á bílnum meðan frúin arkaði Glymhringinn, síðast þegar ég fór var ekki þverfótað fyrir túrhestum og meira að segja löng röð við drumbinn yfir ána. Vissulega var fólk á göngu en í þetta skipti gekk ég leiðina að mestu ein. Var reyndar svo ljónheppin að labba fram á hjón þarna uppi við Botnsá sem buðu mér að vera samferða yfir. Einhversstaðar fyrir miðri á grínaðist maðurinn með hvort það fengist einhver veiði í áni, ég var fljót að benda honum á að hann hefði þegar veitt vel, vaðandi yfir ánna með flottar dömur á báða arma.

Heimkomin henti ég flöskunni inní ísskáp áður en ég byrjaði að tína af mér gönguspjarirnar, setti klakavélina í gang himinlifandi með að hafa rifið sjálfa mig upp af rassgatinu. Hughrifin af fegurð dagsins steikti ég laxbita á pönnu, útbjó salat með gönguþreytu í sælum kroppi. Um það bil að fara að borða dembdi ég nokkrum klökum í hvítvínsglas, reif flöskuna úr ísskápnum, opnaði og hellti. Snarstoppaði er ég áttaði mig á því að vökvinn sem rann í glasið var rauður en ekki hvítur.

Ef ég hefði lesið á miðann, en ekki bara látið glepjast af útliti hans, hefði ég kannski séð Pinot Noir sem stóð þar neðst. Kannski. Legg ekki meira á ykkur.

fimmtudagur, 18. júní 2020

Hjólað í frí

Hjólaði úr Veghúsum á Reykjavíkurflugvöll í dag með vindinn í fanginu allann tímann. Hressandi, vægast sagt. Samt betri kostur en að vakna fyrir allar aldir til að skutla næturgestinum í flug, kona er jú í sumarfríi og veit fátt betra en að sofa út. Gesturinn fékk því bara bíllyklana afhenta fyrir háttinn í gær.

Það sem af er sumarfríi er ég ekki búin að gera rassgat. Ég get vel viðurkennt að mér finnst eins og ég eigi að vera að gera eitthvað voða sumarfríslegt eitthvað en ég er jafn fljót að minna sjálfa mig á að ég má hafa mitt frí eins og mér einni langar til að hafa það. Og hana nú. Að frátöldum þrifum gærdagsins er ég því búin að hamast við að sofa út, dunda mér við lestur og dóla mér við matseld. 

Það er gott að gera ekki neitt í sumarfríi, mæli með því.

miðvikudagur, 17. júní 2020

Hæ hó, jó jó jó!

Hvað getur verið þjóðlegra en að ryksuga og skúra á sjálfan 17.júní? Jú, kannski að klæðast peysufötum langömmu á meðan en, æ, ég nenni bara ekki að flétta á mér hárið. Allar almennilegar húsmæður væru kannski búnar að þrífa heimilið fyrir Þjóðhátíðardaginn en, æ, ég nenni heldur ekki að vera almennileg húsmóðir. 

Síðdegis síðasta sunnudag tók ég strætó til að sækja tíkina mína. Fór út við Smáralind og gekk hægum skrefum gegnum undirgöngin sem ég hljóp of oft í veikri von um að ná strætó eftir lokun í Zöru forðum daga. Missti oft af strætó sem gekk á klukkutímafresti en það er önnur saga. Ég var á leiðinni í Sunnusmára en nýtti að sjálfsögðu ferðina og kaus utankjörstaðar í Smáralind. Sníkti kaffibolla hjá systur minni og mági, sem sýndi snilldar tilþrif í kokteilhristingu kvöldinu á undan, og var svo ljónheppin að enda í upphituðum afgöngum frá matarboðinu kvöldinu áður.

Í gær brunaði ég niður í Hafnarstræti 15 til að sækja mynd sem ég hafði pantað hjá Lóuboratoríum. Fékk stæði á príma stað og lagði með Leggja-appinu. Gekk upp tröppur á þriðju hæð til að sækja eina mynd. Gekk niður sömu tröppur með tvær myndir undir handleggnum. Var búin að dást að nýju myndunum mínum í þó nokkra stund hérna heima þegar ég mundi eftir því að afleggja bílnum í Leggja-appinu. 

Ég treysti vissulega á hina hefðbundnu 17.júnírigningu til að koma mér í gegnum þrif dagsins en auðvitað lætur hún ekki sjá sig þegar fjöldatakmarkanir á samkomum er í gildi, ég meina, 500 manns á Arnarhóli? Tekur því ekki að skella skúr á slíkt. Þess vegna sit ég útá verönd rétt í þessu og hnoða saman pistil enda búin að ryksuga, aldrei að vita nema ég skúri líka.

Eitt get ég þó sagt ykkur öllum í trúnaði, að þrífa klósett í sambúð með karlmanni er verknaður sem ég sakna EKKI. Legg ekki meira á ykkur á sjálfan Þjóðhátíðardaginn.