miðvikudagur, 2. desember 2020

Af bakstri og matseld

Þar sem ég stakk forminu inní ofninn mundi ég eftir vanilludropunum sem áttu að fara í deigið. Ekki að það kæmi að nokkurri sök, samstarfsfélagarnir átu hana upp til agna án þess að kvarta. Þ.e.a.s. að undanskildum Kínverjanum sem harðneitaði svo mikið sem að smakka herlegheitin; ég ekki borða köku, ég bara borða *ljómaköku sem mamma þín búa til. Það var og.

Mamma og pabbi komu brunandi í bæinn á föstudagsmorgni til að keyra yngstu dóttur sína í rassaskoðun og sækja hana líka. Mamma eldaði mat og talaði um bækur, pabbi mældi olíuna á bílnum og talaði um pólitík. Saman drukkum við heljarins ósköp af kaffi, töluðum um veðrið og kettina. 

Á mánudegi voru 2 rjómatertur framreiddar á kaffistofu Melabúðarinnar. Á þriðjudagsmorgni sagði mamma mér að fara varlega í hálkunni og pabbi varaði mig við vindhviðum. Sjálf drifu þau sig aftur vestur, á undan vonda veðrinu. Eftir langann vinnudaginn var heldur tómlegt að stíga inní foreldralausa íbúðina mína. Báðir litlu pottarnir mínir voru þau sneisafullir, annar af kartöflustöppu og hinn af drullumalli. Mamma gerði sér lítið fyrir og eldaði fyrir yngstu dóttur sína áður en hún fór.

Í gær var því upphitað sem og í kvöld og verður aftur annað kvöld. Það var og.

*Hafið þið tekið eftir því hvað Kínverjar eiga erfitt með að bera fram err? Ef ekki og þið þekkið íslenskumælandi Kínverja þá ragmana ég ykkur til að biðja sá hinn sama um að segja; rómverskur riddari réðist inn í Rómaborg og hámaði í sig rjómatertu.

fimmtudagur, 26. nóvember 2020

Skítleg færsla

Að pissa með rassinum, það hef ég nú reynt. Jú, víst eru einhverjir þarna úti sem hafa svipaða reynslu. Ristilskoðun á döfinni hjá frúnni, ekki seinna en á morgun. Yfirmaður minn harðbannaði mér að drekka skituseyðið í vinnunni og skipaði mér að drulla mér heim, sagði að ég myndi ekki vilja keyra heim í hægðum mínum. Núna er ég honum þakklát, hann hafði rétt fyrir sér.

Hver hefði getað trúað því að Maggi Suppe buljong væri svona gómsætt? Að kona tali ekki um Lemon Gatorade, bara eins og að drekka eðalvín af stút get ég sagt ykkur. Sumir gera þetta nú bara tvisvar á ári ef ekki oftar sagði mamma í símann, það er víst svo hollt að fara í svona hreinsun. Já, akkúrat.

Þrátt fyrir tæra fæðið hef ég alfarið látið vodkann í frystinum eiga sig. Hvort að það var skynsamleg ákvörðun verður að vera ráðgáta áfram.

sunnudagur, 22. nóvember 2020

Hingað og ekki lengra!

Vaknaði snemma í gærmorgun, allavega fyrir mitt viðmið. Vaknaði enn fyrr í morgun. Klemmdi saman augun og reyndi að halda áfram að sofa en hugurinn fór óðara á flug. Reisti mig upp við dogg, teygði mig í bók á náttborðinu og kveikti á lampanum. Eftir að hafa teygað fyrsta kaffibolla dagsins ákvað ég að titill bókarinnar sem ég var að lesa væri vel við hæfi. Þrátt fyrir malandi og mjúka ketti í bælinu reif ég mig á lappir, sönglaði lagstúf undir sturtunni, neri kremi á allann kroppinn á eftir. Valdi skyrtuna litríku sem ég keypti í London fyrr á árinu, raðaði á mig skartinu frá búðinni við endann á tröppunum í París, setti á mig maskara sem ég keypti í ferjunni frá Buenos Aires til Úrúgvæ og smurði á mig varalit sem mamma gaf mér fyrir einhverjum árum. Smeygði mér í fínu rauðu eightís kápuna hennar mömmu, smellti svarta hattinum hennar ömmu á hausinn á mér og tók svo strætó niður í bæ.

Fékk gluggaborð á Kol þar sem ég snæddi himneskann brunch, hlustaða á vinina á næsta borði rabba um hve mjög þeir söknuðu matarferðanna til London, drakk kampavínsglas, mændi út úm gluggann, stillti mig um að benda félögunum á næsta borði á að prófa Nopi næst er þeir kæmust til Lundúna, pantaði mér annað kampavínsglas, hélt áfram að kýla magann með óstjórnlega góðum mat, las og pantaði mér kaffi. 

Fyrst ég var komin niður í bæ ákvað ég að fá mér göngutúr, margir mánuðir síðan ég flutti til uppsveita Reykjavíkur og langt síðan ég hafði spókað mig um á slóðum sem áður voru mínar heimaslóðir. Fyrsta sem ég heyrði var fuglasöngurinn. Því næst heyrði ég í kyrrðinni. Bærinn sem ég gekk um í dag er ekki sami bærinn og ég gekk reglulega um í fyrir bráðum ári síðan í ríflega 15 ár. Bærinn sem ég var vön að ganga var yfirleitt fullur af fólki, erlendu jafnt sem íslenskum, fólki sem gekk heim eftir vinnu eins og ég, fólki sem spókaði sig um bæinn um helgar í spássitúrum, fólk sem stoppaði til að heilsa vinum eða anda að sér súrefni, mæna í búðarglugga og spá í matseðla, íhuga hvort tími væri til að fá sér kaffi eða glas af víni. 

Þar sem ég stóð og mændi á styttuna af Jóni Sigurðssyni fann ég að mér var mál að pissa. Smeygði mér inní bókabúð og komst að því að á kaffihúsunum þar er einungis hægt að fá kaffi í mál, sumsé til að taka með sér, en mér var mál. Fékk náðarsamlegast að komast á klósett. Fannst ég í framhaldinu skuldbundin til að kaupa bók en þar sem ég eigraði um og skoðaði áhugaverða bókatitla áttaði ég mig á því að það eina sem mig langaði til var að vera uppí rúmi heima, með malandi, mjúka ketti og góða bók.

þriðjudagur, 17. nóvember 2020

Ertu lestrarhestur?

 spurði konan konuna. Já, ég er mikill lestrarhestur svaraði síðarnefnda konan enda nýbúin að vinna sér inn einhverja nýútgefna skruddu með því að hringja inn í þáttinn. Æðislegt svaraði þáttastjórnandinn, þú ert þá vel að gjöfinni komin, hvaða bók er á náttborðinu hjá þér núna? Ja, ég er nú reyndar ekki að lesa neina bók í augnablikinu, svaraði konan. 

Mér til gamans taldi ég bækurnar á náttborðinu mínu þegar ég kom heim, þær reyndust 27 talsins. Ein á dönsku, tvær á ensku, restin á íslensku. 13 skáldsögur (þar af 4 með sögulegu ívafi), 6 krimmar, 4 ljóðabækur (þar af 3 áritaðar af höfundi til yðar einlægrar), 3 barnabækur og 1 raunsæissaga bóksala. Níu bækur eru eftir íslenska höfunda, sex eftir Breta, tvær eftir Svía, Norðmenn, Þýskara og Rússa, ein eftir Dana, Úkraíana (er það orð?) og bóksalinn raunsæi er Skoti. 6 af þessum bókum eru með bókamerki (ég sem lofaði sjálfri mér því að lesa aldrei fleiri bækur en 3 í einu), 3 hef ég lesið áður en ætla mér nú að lesa aftur. Tvær eiga að fara í jólapakka, þrjár hef ég að láni, restina á ég sjálf. 

Eins gott að ég hringdi ekki inn í þennann þátt í dag, ég hef víst ærin bókaverkefni á náttborðinu, annað en þessi kona þarna sem ég heyrði í í útvarpinu í dag, eins gott að hún vann sér inn bók, hún er jú líka svo mikill lestrarhestur. 

fimmtudagur, 29. október 2020

Títanik

Ætli það séu ekki ein 22 ár síðan ég fór með þáverandi kærasta í bíó að sjá stórmyndina Titanic. Svaðaleg stórmynd og svaðalega löng að auki. Engu að síður fór ég aftur í bíó nokkrum dögum síðar að sjá sömu svaðalegu stórmynd með ömmu minni. Eins og það væri nú ekki nóg þá fór ég örfáum dögum enn síðar í 3ja svaðalega sinnið að sjá sömu svaðalegu mynd. Ég veit, svaðalegt alveg, ég meina, við erum að tala um einhverja 9 kltíma allt í allt sem ég gerði mér ferð og greiddi fyrir að sjá Titanic í Háskólabíó. Ekki að ég hafi verið neitt svaðalega svag fyrir að fara í þetta 3ja skipti en amma var svo stórhrifin í hennar fyrsta skipti (mitt annað sumsé) að hún bara varð að komast aftur með Döggu systur sinni sem bara varð að sjá þessa stórmynd. 

Titanic var sýnd í bíóhúsum Reykjavíkur um vetur. Það veit ég vegna þess að ég tifaði yfir snjó og klaka með þær systur hangandi á sitthvorum handlegg. Reykjavíkurdæturnar Hallveig (fædd 1920) og Dagbjört (fædd 1919), báðar með hatt á höfði (enda á leið að sjá stórmynd í kvikmyndahúsi), hlógu sig í keng yfir að ríghalda í 23ja ára stráið mig enda sáu þær systur alveg fyrir sér að ef annarri hvorri þeirra myndi skrika fótur þá myndu þær auðveldlega kippa mér niður um leið.  

Já, frábær minning en eftir þessa 3ju ferð í bíó sór ég þess eið að ég myndi aldrei horfa aftur á Titanic. Hef og enda staðið við það í þessi rúm tuttugu ár. Þ.e.a.s. alveg þar til um síðustu helgi en þá varð mér það á að kveikja á sjónvarpsræflinum (stórhættulegt athæfi) og hvað haldið þið ekki annað en að Titanic hafi verið á dagskrá á DR1. Hugsaði með mér að það væri nú kannski í lagi að rétt kíkja á ræmuna (svona getur kona mildast með aldri). Komin niður í miðja mynd (að ég hélt) var ég farin að bölsótast út í sjálfa mig fyrir að standa aldrei við neitt sem ég segði, ég ætlaði jú aldrei að mæna á þessa sv*<"%**?!! ræmu aftur. Þegar ég ákvað að nú hlyti að fara að sjá fyrir endanum á þessu tók ég ákvörðun um að ég væri búin að horfa of lengi til að hætta við. Það sem ég vissi ekki þá var að enn var klukkutími eftir. 

Nú hef ég svarið þess rándýrann eið að ég muni aldrei, aldrei, horfa aftur á Titanic, það sökkvandi skip. Hlýt að halda það út í önnur tuttugu ár eða svo.

laugardagur, 24. október 2020

Kampavínslegin lifur og bleik læri

Í gær var alþjóðlegur dagur kampavínsins. Eins og alþjóð veit á ég ávallt kalda kampavín inni í ísskáp. Ætlaði því aldeilis að spretta tappa úr Ekkju sem beið mín heima eftir vinnu. Sauð fisk handa kisunum og hugsaði um að drekka kampavín. Kveikti á kertum og las nokkra kafla í bók og hélt áfram að hugsa um að fá mér kampavín. Ætlaði að elda silungsflak í appelsínuengiferchillimaríneringu en endaði á að hita upp plokkfisk. Hugsaði með mér að kampavín væri eflaust engu síðra með plokkfiski og að ég þyrfti ekki að drekka meira en 1 glas þó að ég opnaði flöskuna, því er teskeið fyrir að þakka. Nema sérkennileg þreyta var kampavínslöngun yfirsterkari (ótrúlegt, ég veit) og ég var sofnuð fyrir tíu.

Þar sem ég vil alls, alls, alls ekki að fólk fari að trúa því að ég fái mér ekki kampavín við hvert mögulegt og ómögulegt tækifæri þá spretti ég tappanum af Ekkjunni núna áðan, staðráðin í að fá mér kampavínskokteil fyrir matinn, kokteil sem inniheldur tekíla, ylliblómalíkjör og bleikan greipaldinsafa, hrist saman, og fyllt upp með kampavíni. Nema ég átti ekki bleikan greipaldinsafa. Hins vegar á ég bleikt greipaldin tónik svo ég skellti því bara í kokteilhristarann, smellti á mig rauðu kokteillúffunum, og byrjaði svo að hrista og hristi svo aðeins hressilegar og svo að sjálfsögðu skaust lokið af kokteilhristaranum og blandan puðrast útí loftið og upp um veggi og út um allt eldhúsborð. Jú, það er víst gos í tóniki.

Svo lengist lærið sem lifrin átti minn fyrrverandi til með að segja og kannski eitthvað til í því. Um þessar mundir er heilt ár liðið síðan ég sat með honum á skrifstofu sýslumanns og fór fram á skilnað; ekki af því að ég væri hætt að elska hann, ég var bara búin að átta mig á því að ég yrði að elska mig meira. 

Svo lengist lærið sem lifrin.

sunnudagur, 6. september 2020

Hindberjarunnar tveir dansa með rokinu, rósir drjúpa regnvotar.

Sólin glennti sig í allann gærdag og frúin fór ekki út fyrir hússins dyr. Nema að svaladyrnar teljist með; eyddi deginum að mestu úti á verönd, stússaðist lítillega í blómum en sat að mestu í garðstól með hatt á höfði (keyptum í Úrúgvæ), sólgeraugu á nefi (keyptum á Siglufirði) og þeyttist í gegnum afar áhugaverða bók eftir japanskann rithöfund.

Í dag hamast veðrið við haustið og frúin var að koma úr göngutúr. Ég kann vel að meta veður, beljandi rokið hressir andann og blaut rigninginn hreinsar hugann. Allavega minn. Sit við eldhúsborðið, endurnærð, með kaffi í bolla og kveikt á kertum. Birta og Bjössi liggja makindaleg á bleikum sófa. Rondó ómar lágstillt í eyru frúar með veðurroða í kinnum og værð í hjarta.

Það er eitthvað við veður sem mér þykir svo heillandi, þessi þverstæða að njóta þess að æða út og leyfa roki og rigningu að belja á sér og njóta þess síðan jafn vel að sitja inni í húsi, komin aftur í náttföt með köld læri og kaldar kinnar, hamagang veðurs fyrir utan, róina hið innra.