miðvikudagur, 5. apríl 2017

Kransakaka, rafmagn og mæður.

Talandi um fermingar þá gróf ég upp fermingarminningarnar mínar og sannreyndi þá staðreynd að 28 ár eru liðin síðan ég fermdist. Já, tuttuguogátta ár sagði ég. Fermingarminningarnar fékk ég í fermingargjöf frá bróður mínum, mappa sem samanstendur af gestabók, myndaalbúmi og vasa undir fermingarkortin og skeytin. Já, ég sagði skeyti, það eru jú hartnær 30 ár liðin þið vitið. Myndirnar í albúminu eru 11 talsins, við erum að tala um fermingu á tímum filmunar krakkar. Fermingarveislan var haldin heima (að sjálfsögðu) og mamma sá um allar veitingarnar (að sjálfsögðu). Af myndunum að dæma var kransakaka (hver hefði trúað því), brauðterta, snittur og ostar. Heitt kaffi á könnum og öskubakkar á víð og dreif um borð.

Samviskusamlega hef ég skráð niður allar gjafirnar, styttur, hálsmen, armbönd, svefnpoka, skó, orðabók, myndaalbúm (þið munið þetta var filmuveröld, ekki digitalheimur), Passíusálmana, armbandsúr, hring, bjúdíbox (nkvl svona skrifað) og 15.000 kr. í peningum. Ef minnið bregst mér ekki keypti ég mér rúm í Ikea fyrir fermingarpeningana mína, rúm sem er reyndar enn í notkun, hefur farið á milli systurdætra minna og sú yngsta af þeim hvílir lúin bein á bedda þeim á Hvolsvelli, heimabæ þess myndarlega. 

Mamma og pabbi gáfu mér rafmagnsritvél. Þar sem ég pikka þessa færslu inn á fartölvuna mína verð ég bara að deila því með ykkur að þetta var mögnuð gjöf. Rafmagnsritvél sem ég gat pikkað á eins og vindurinn, með leiðréttingarborða og alles, algert dúndur. Helbert undur jafnvel. Ritvélin er enn í fullu fjöri en það er langt síðan að ég hef fengið leiðréttingarborða í hana.

Að lokum verð ég að segja ykkur frá því að stúlkukindin fékk hvorki meira né minna en 3 hárblásara í fermingargjöf. Já, ég sagði ÞRJÁ hárblásara, við erum að tala um 1989 krakkar. Á þessum árum kom sér vel að eiga öflugan hárblásara til að koma toppnum á réttan stað og svona. Sjálf notaði ég hárblásara lítið sem ekkert þá og eftirlét móður minni að velja einn úr og skila hinum tveimur. Fyrir valinu varð Braun silencio 1600 sem Hrefna (systir mömmu) og Jonni gáfu mér. Í dag bjargar þessi 28 ára gamli hárblásari lubbanum á mér á hverjum morgni. Þýðir það að mæðrum sé treystandi?

Legg ekki meira á ykkur elskurnar. Verið spök og munið að knúza mömmur ykkar.

þriðjudagur, 4. apríl 2017

Drífa, tilhlökkun og ferming

Vetur og vor takast á þarna úti. Er búin að komast að því að hundslappadrífa er þegar veðurguðirnir geta ekki ákveðið sig hvort það eigi að demba yfir okkur rigningu eða snjó, snjó eða rigningu. Skínandi sól inni á milli. 

Í hugskotinu takast skipulagning og tilhökkun á. Svo margt sem þarf að huga að, í vinnu og hér heima. Tilhlökkunin á það til að brjótast fram fyrir skynsemina og kannski ekkert að því.

Af blástursmálum frúarinnar ber þar helst að nefna að kerlingin lúrði á hárblásara sem hún fékk í fermingargjöf þarna um árið. Braun silencio 1600, nett grá græja, hljóðlát og brunafýlulaus.

Hvenær fermdist frúin? Öhm.......

laugardagur, 1. apríl 2017

Bubblandi granatepli og límóna

Hér í bústaðnum er ekki að finna eina einustu kaffitrekt til uppáhellingar. Sérvizkupúkar eins og við myndarlegi getum ekki hugsað okkur Severin uppáhellt Haiti kaffi og viljum því bara hella uppá gamla mátann þegar við erum komin í bústað (lesist: sá myndarlegi hellir uppá, frúin nýtur). Sá myndarlegi var auðvitað útsjónarsamur í morgunsárið og notaði trektina úr Severin könnunni til að hella uppá. Kvartaði þó sáran yfir hraðsuðukatlinum þegar hann vakti frúnna með kaffiilm en eins og hér gefur að sjá er stúturinn á katlinum drjúgt stór. Mér skildist á karlinum að út um þennan stút hefði dembst heitt vatn í gríðarlegum slurkum og því illfært fyrir myndarlegan mann að hella uppá eðalkaffið með hringlaga snúning á sjóðandi heitri mjósleginni bunu. Séð frá hlið lítur þessi stútur út eins og hlandskál á karlaklósetti.

Hér í bústaðnum er kaldavatns fráskrúfunin öfugu megin, svona altjént miðað við vanalegt viðmið. Kalda vatnið tekur sér líka dágóðan tíma til að verða kalt. Skyldi kannski engan undra, líklega rembist það við að verða heitt miðað við staðsetningu fráskrúfunarinnar en gefst svo upp að lokum og hleypir köldu vatni í gegn. Hvað veit ég?Jú, ég veit að einhversstaðar í heiminum er klukkan orðin sex og því engin ástæða til að skrúfa frá krana heldur tilefni til að skjóta tappanum úr kampavínsflöskunni og prufukeyra kokteiluppskriftina sem hinn Péturinn í lífi mínu sendi mig með út í helgina.

Bústaðarlíf, ekki sem verst.

föstudagur, 31. mars 2017

Pott-pons

Sátum í heita pottinum og mændum á tignarlegt tunglið. Bentum hugfangin á stjörnur, möluðum og töluðum. Nutum veðurstillunar og heita vatnsins.

Heil helgi framundan í bústað og frúin ætlar að njóta, getið sveiað ykkur upp á það.

þriðjudagur, 28. mars 2017

Morgunblástur

Eftir allt vesenið með hárblásarann í gærmorgun íhugaði ég að sleppa sturtunni og leyfa bara morgungreiðslunni að njóta sínGrafa upp hárspreyið sem ég veit að ég á einhversstaðar og stífspreyja lokkana svo þeir myndu halda sér út daginnAfréð þó að lokum að þriðjudagsmorgun í mars væri ekki heppilegur til að storka bæði örlögunum og rútínunni. Eftir sturtuna afréð ég líka að prufa að stinga græjunni svona eins og einu sinni enn í samband; höggborshljóðið hóf upp sína raust en í stað hitafnyksins gaus eingöngu upp megn brunastækja. Hárlubbinn fær því að leika lausum hala í dag. Hef einsett mér að setja þennan svip upp í hvert sinn sem einhver rekur inn nefið á skrifstofuna
    
Minnir frúin ykkur á einhvern?
Reynið þið svo að vera prúð í dag elskurnar, legg ekki meira á ykkur.

mánudagur, 27. mars 2017

Blástur og þokki

Í morgun blés hárblásarinn með þvílíkum látum að karlinn hélt að ég væri komin með höggbor í samband á baðherberginu. Ég lét óhljóðin ekki á mig fá og hófst handa við hárþurrkun vinstra megin (já, ég byrja alltaf vinstra megin og nei, ég hef ekki prófað að breyta til og byrja hægra megin). Þegar ég svo ætlaði að fikra mig yfir á hægri hliðina gaus upp megn hitafnykur sem var snöggur að  breytast í brunalykt. Mér var hætt að lítast á blikuna ekki síst fyrir það að karlinn kvartaði undan lyktinni, hann sem annars finnur aldrei neina lykt. Kippti hárblásaranum úr sambandi. Skarta því afar lekkeri og vel blásinni vinstri hlið meðan sú hægri sveigist eftir geðþóttum liðanna sem að öllu jöfnu prýða hár mitt, þ.e.a.s. þegar það er ekki blásið. Langar ekki einu sinni að vita hvernig það lítur út að aftan. Gleymdi líka að setja á mig maskara í morgun.

Ekkert af ofantöldu haggar ómótstæðilegum yndisþokka mínum, að kona tali nú ekki um kynþokka frúarinnar sem drýpur af henni eins og smjör af vænni flís.

Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

sunnudagur, 26. mars 2017

Lífið, ekki sem verst

Í gær bauð snaggaralegur heldri maður mér upp í dans á árshátíð í Viðey. Á appelsínugulum Minelli skóm leyfði ég honum að snarsnúa mér hring eftir hring og stýra mér í dansi (langt í frá einfalt). Tvistuðum og tjúttuðum, syngjandi og hlægjandi. Svaka fjör. Þegar ég ætlaði að fá mér sæti og ná aftur eðlilegum andardrætti eftir danssveifluna vildi sá myndarlegi ólmur dansa. Gat ekki neitað honum svo ég hélt áfram að skekja alla skanka, syngja, hlægja og ærlast í góðum gír með góðum gæja.

Núna sit ég við eldhúsborðið með kuldaroða í kinnum og hita í kroppnum eftir hressilega göngu. Sá myndarlegi er staddur í Sögusetrinu á Hvolsvelli með foreldrum sínum. Meðan sá myndarlegi reif sig framúr, í sturtu, í leppa og reif í sig morgunmat lá ég pollróleg undir sæng og hélt áfram að lesa. Ég nefnilega neitaði því góða boði um að fljóta með og missi því af bílferð í sólinni, málþingi um Njálu, kaffiveitingar í Sögusetrinu og kaffistoppi á Selfossi. Verst þykir mér að sjálfsögðu að missa af ávarpi Guðna Ágústssonar. 

Í staðinn hef ég sumsé legið í bælinu og lesið, drukkið ósköpin öll af kaffi, klappað kettinum, vökvað basilikuna, sett í uppþvottavélina, klætt mig án þess að fara í sturtu á undan og arkað út í hressandi, sólríkan og vindblásinn göngutúr. Brugðið plötu á fóninn og hlustað á Þorvald Halldórsson synga Ó, hún er svo sæt með sinni blíðustu bassaröddu. Klætt mig aftur í náttfötin.

Örlar ekki á samviskubroti yfir því að hafa ekki nennt með. Já, ég sagði það, ég NENNTI ekki með. Svo er ég líka að læra að segja nei. Vildi að ég hefði lært það svo miklu, miklu fyrr.