laugardagur, 18. mars 2017

Uppskrift að príma laugardagskvöldi

Steytið rósmarín og rósapipar og dembið útí heita olíu á pönnu. Steikið þunnt skorið epli og endið steikinguna með teskeið af hunangi. Stappið gráðaost og hrærið með sýrðum rjóma. Smyrjið ostablöndunni á little gem salat, setjið steiktu eplin og smátt saxaðan rauðlauk yfir

Kveikið á öllum kertunum í betri stofunni, bregðið rómantískri tónlist á fóninn, skjótið upp tappanum úr freyðivínsflösku sem einhver stúlkan kom með í kampavínspartý forðum daga og plantið myndarlegum eiginmanni í sófann

Eftir forrétt og freyðivín bað ég þann myndarlega um að taka upp rauðvínsflöskuna sem ég keypti fyrr í dag, þessa þarna sem einhver Dominique og Eymar mæltu með þarna um árið, í ljós kom þessi tappi (þetta var jú 2007)

Steikið lambalundir og kryddið með salti og pipar. Kælið. Setjið hindber, balsamedik og hunang í matvinnsluvél og maukið. Piprið og bætið ólífuolíu saman við. Maukið enn frekar. Blandið blönduðu salati, furuhnetum, niðurskornum eplum, hindberjum og niðursneiddum lambalundum á disk

Hindberjasósan yfir, rauðvín í glas, skála við karlinn, bon appetit!

Blautur snjór

Sá myndarlegi fór í ræktina og ég flaut með til þess eins að labba heim. Stutt og hressandi ganga á letidegi sem þessum. 

Á heimleiðinni sá ég tré sem úr uxu tveir stórir, ljótir nabbar með fullt af skrýtnu stöffi sem líktist blöndu af geimsteini og trévöxnu hrauni. 
Gekk fram á blautan minnismiða sem geymdi innkaupalista öðru megin og húsnæðispælingar hinumeginn. 
Gekk framhjá pilti með lokk í öðru eyra og húðflúraðar bleikar varir á hálsinum. 
Stakk mér inn í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins og fann þar rauðvínsflösku sem Dominique og Eymar mæltu með árið 2007 með réttinum sem ég ætla að elda á eftir. 
Kom líka við í blómabúðinni.

Snjórinn er blautur og ég er að fíla þetta lag

föstudagur, 17. mars 2017

Je voudrais un paquet café noir, s'il vous plaît.Elda vinkona okkar veit að við myndarlegi erum að læra frönsku. Núna tekur hún ekki annað í mál en að við pöntum hjá henni kaffið á frönsku og ekkert nema frönsku. Við gerum okkar besta, auðmjúk og bljúg, enda óhugsandi fyrir okkur að fara inn í helgina án bestu bauna landsins. Þó víðar væri leitað.

Laaaangþráð helgi upp runnin. Ekki það að yfirleitt finnst mér bara vera mánudagur og svo er aftur kominn föstudagur. Þessi tiltekna helgi er laaaangþráð fyrir þær sakir að við myndarlegi erum ekki með nein plön, nema þá helst AFSLÖPPUN og LETI, haugaleti jafnvel. Og kaffidrykkja, mais oui bien sûr.

Hvað er annars málið með þetta fössari ? Má ég þá heldur biðja um vendredi.

fimmtudagur, 16. mars 2017

Pissublaut

Í vinnunni í dag hellti ég yfir mig glasi af vatni. Óviljaverk en engu að síður vandaði ég mig til verksins. Hellti öllu vatninu beint í kjöltuna á mér þannig að svo virtist sem ég hefði pissað á mig. Allt í lagi svo sem, sit við skrifborð megnið af deginum og þarf ekkert að vera að glenna kjöltuna á mér framan í menn eða mýs. Nema hvað, það var ekkert sérstaklega þægilegt að vera svona hundblaut. Þess fyrir utan varð mér skítkalt á lærunum.

Er búin að baka tvær eplakökur, þrífa kattadallinn og vaska upp. Líka búin að koma mér vel fyrir uppí sófa, í þurrum buxum og ætla að halda áfram að lesa í bók sem hefst á þessum orðum;
"Ég hef klárað sjálfsmorð dóttur minnar."

Legg ekki meira á ykkur að sinni.

mánudagur, 13. mars 2017

Alls forvendis

Áttum von á þremur fríhressum norskum kellum í mat s.l. föstudagskvöld. Ætluðum að rigga fram svaðalegann Ottolenghi rétt fyrir þær norsku sem ætluðu að renna beint til okkar eitthvað rétt eftir hefðbundin matartíma úr Bláa Lóninu, þar sem þær að sjálfsögðu áttu bókaðan tíma, það fer víst enginn óforvendis í Lónið á tímum sem þessum. Nema hvað, Bogga systir hringdi, alls óforvendis, og kríaði út næturgistingu fyrir sig og dæturnar tvær sem eitthvað voru að bisast í höfuðborginni við fiðluspil og bíóferð. Ætluðu ekkert að snæða með okkur enda fyrirhuguð ferð á fyrirmyndar kjúklingastað á heimsvísu, eftirlæti dætranna. Nema hvað, þær norsku sáu ekki fram á að ná í mat á neinum skikkanlegum tíma þar sem öllu þeirra plani hafði seinkað. Bogga og dætur enduðu svo á að borða með okkur og það var spjallað og kettinum klappað og tekinn tappi úr einni rauðvínsflösku og lesin heil bók og svo sofnaði sú yngri og sú eldri kom sér fyrir í Pétursholu og sofnaði þar (því skal haldið til haga hér að hvorugur atburður hafði neitt með rauðvínið að gera). Klukkan hálf tólf mættu þær norsku færandi hendi með norskt ákavíti og kampavín, ferlega hressar þrátt fyrir svakalega seinkun og bið í öllu er viðkom Lóninu (bið eftir rútunni, bið til að komast inn í Lónið, bið í sturturnar og svo framvegis). Þeim finnst allt dýrt á Íslandi. Já, ég sagði það, þeim norsku finnst allt dýrt á Íslandi en líka allt alveg ógvuðdómlega og afskaplega fallegt og skemmtilegt og hresst, helst til mikið af túristum kannski. Og já, hrikalega dýrt.

Vorum með stórar hugmyndir um sófaleti á laugardagskvöldið en vorum svo alls forvendis boðin í mat hjá vinum okkar sem eru miklir matargúrmeiar og því erfitt að hafna slíku boði. Steiktar geistaostabollur, krabbasalat á bruchettu, himnesk andabringa með velktu spínati og rabarbarasorbei með kampavínsskvettu bættu öll önnur plön prýðilega upp. Og já, félagsskapurinn ágætur líka.

Þrátt fyrir lítið og eiginlega ekkert kenderí vöknuðum við örlítið rykug. Hafði hugsað mér að baka köku en mamma og pabbi björguðu mér frá því með því að mæta í Túnið og heimta næturgistingu. Foreldrar, ekki sem verstir. 
Og svo bara *púff* aftur kominn mánudagur. Legg ekki meira á ykkur.

laugardagur, 8. október 2016

Í gær, kl.16:58,

fékk ég sms frá betri helmingnum svo hljóðandi;

Keypti "óvart" mikið af kantarellu sveppum. Kannski finna uppskrift fyrir morgundaginn?

Að sjálfsögðu brást ég vel við og hóf strax að gúggla uppskriftir enda ekki á hverjum degi sem eiginmaðurinn kemur heim að utan með kantarellusveppi. Sem betur fer var ég nokkuð iðin við kolann og fann þó nokkrar girnilegar uppskriftir til að moða úr, sá myndarlegi er komin frá Stokkhólmi með 1,5 kg af kantarellum! Er rétt í þessu að sýna af mér aðdáunarverða þolinmæði við rísottógerð, læt sem vind um eyru þjóta allar athugasemdir þess myndarlega um að klukkan sé þetta og hitt hjá honum (á sænska vísu). Held risottóreglu Margrétar systur að sjálfsögðu í heiðri - bara eitt glas af hvítvíni í pottinn, restin í kokkinn. Með Double Fantasy á fóninum má karlinn alveg kvarta yfir svengd fyrir mér.

þriðjudagur, 4. október 2016

Sá myndarlegi fór í ræktina eftir vinnu.

Það þýddi að eldamennskan var á minni könnu. Allt gott og blessað með það. Fátt betra en góð hlutverkaskipting hjóna á milli, eða hvað?

Nema hvað, eldri sonur eiginmannsins hefur ákveðið að vera grænmetisæta. Allt gott og blessað með það. Sjálf reyni ég að elda grænmetisrétti reglulega og þykir verulega gott að borða grænmetisrétti. Svo ég fór að gúggla. Grænmetisrétti að sjálfsögðu. Endaði slefandi í vinnunni á síðunni hjá henni Kate sem á þennan líka sjúklega sæta hund sem virðist líka vera grænmetisæta. Ojæja, allt gott og blessað með það. Fletti í gegnum uppskrift eftir upskrift af svo girnilegum mat að ég átti í mestu vandræðum með að velja eina úr. Fyrir valinu varð þó að lokum þessi, líklega vegna þess að ég elska blómkál. Og túrmerik. Og karrí. Og engifer. Og spínat. Og og og.......

Hvort sem þú ert grænmetisæta, veganæta, kjötæta, brauðæta, snakkæta eða bara almenn alæta þá mæli ég með því að þú kíkir á hana Kate. Aðallega samt af því að Cookie er svo sæt.