sunnudagur, 6. september 2020

Hindberjarunnar tveir dansa með rokinu, rósir drjúpa regnvotar.

Sólin glennti sig í allann gærdag og frúin fór ekki út fyrir hússins dyr. Nema að svaladyrnar teljist með; eyddi deginum að mestu úti á verönd, stússaðist lítillega í blómum en sat að mestu í garðstól með hatt á höfði (keyptum í Úrúgvæ), sólgeraugu á nefi (keyptum á Siglufirði) og þeyttist í gegnum afar áhugaverða bók eftir japanskann rithöfund.

Í dag hamast veðrið við haustið og frúin var að koma úr göngutúr. Ég kann vel að meta veður, beljandi rokið hressir andann og blaut rigninginn hreinsar hugann. Allavega minn. Sit við eldhúsborðið, endurnærð, með kaffi í bolla og kveikt á kertum. Birta og Bjössi liggja makindaleg á bleikum sófa. Rondó ómar lágstillt í eyru frúar með veðurroða í kinnum og værð í hjarta.

Það er eitthvað við veður sem mér þykir svo heillandi, þessi þverstæða að njóta þess að æða út og leyfa roki og rigningu að belja á sér og njóta þess síðan jafn vel að sitja inni í húsi, komin aftur í náttföt með köld læri og kaldar kinnar, hamagang veðurs fyrir utan, róina hið innra.

laugardagur, 5. september 2020

Tikk tokk, tikk tokk

Ég er hætt að líta á klukkuna um helgar þegar ég vakna. Mér kemur tíminn ekki við þegar ég er í fríi. Teygi út hendi í von um mjúkan kisukropp til að strjúka. Hin hendin teygir sig yfir á náttborðið. Það er fátt sem raskar lestrarró nema þá helst kaffiþörf en henni er frúnni ljúft að gefa eftir. 

Það er hungrið sem á endanum hefur mig á fætur, hungur sem farið hefur úr blíðri gælu um að gott væri að nærast yfir í yfirþyrmandi þörf sem malar hærra en kötturinn sem hringar sig upp við mig og æpir yfir orðin sem ég renni yfir á blaðsíðu bókar. 

Búin að vökva beðin í garðinum mínum. Búin að drösla öllum blómum heimilisins út á verönd og vökva og sturta. Búin að tína nýjustu berin beint uppí mig. Búin að dæsa og andvarpa og dæsa svo aftur af óhaminni hamingju af veðri og verönd og veröld sem frúin er að skapa sér sjálf.

Í sambúðinni með sjálfri mér er ég að læra að ég má gera það sem mér einni langar. Ég þarf ekki að gera eitthvað eitt til að gera eitthvað annað. Ég þarf ekki heldur að gera eitthvað annað til að gera svo eitthvað eitt. Ég má einfaldlega gera það sem mér sýnist og það er einmitt það sem ég ætla að gera í dag og líklegast á morgun líka. Legg ekki meira á ykkur. 

þriðjudagur, 11. ágúst 2020

Fugl, frí, faðir

Vaknaði upp við skræka skræki á undan vekjaraklukkunni í gærmorgunn. Hentist fram úr rúminu og náði í hnakkadrambið á Birtu rétt u.þ.b. sem bróðir hennar hentist inn um kattalúguna. Bæði fengu þau að dúsa inni í gestaherbergi á meðan ég hlúði að fuglsanganum sem hafði sem betur fer skrækt mig á fætur á undan vekjaranum. Anginn var blessunarlega ómeiddur en ofandaði skiljanlega. Eftir sturtu og skál af ab-mjólk sá ég fuglinn hefja flugið út í frelsið, sem betur fer.

Ríflega vikufríi lauk í gærmorgun, fínasta frí, en þar sem ég gerði fjandakornið ekki neitt þá fannst mér hálft í hvoru bara léttir að mæta aftur í vinnuna. Ætlaði mér að elta fossa í 3ja daga göngu með FÍ um Verslunarmannahelgina. 3ja daga gangan var svo stytt í 2ja daga göngu þar til óbermis Covid-táningurinn náði yfirhöndinni og förinni var frestað með öllu. Óttast nú helst að Ferðafélag Íslands sé búið að setja frúna á svartann lista.

Í fríinu afrekaði ég þó að sofa út á hverjum degi, knúsa kisurnar, lesa glás af bókum og elda góðan mat. Fór m.a.s. í göngutúr, alla leið í Spöngina, til að kaupa mér ís í Huppu. Takk fyrir. Labbaði reyndar aftur í Spöngina til að kaupa mér sérbakað vínarbrauð en, það er önnur saga, önnur gönguferð. 

Fór líka í bíltúr, í allt annað bæjarfélag, til að kaupa mér bókahillur. Já, þakka ykkur kærlega fyrir. Hringdi því næst í föður minn til að spyrja um stjörnuskrúfjárn og stöff. Hefði svo sem alveg getað arkað beint í Húsasmiðjuna, það var bara skemmtilegra að heyra í pabba fyrst. Enda hringdi ég lóðbeint í hann aftur þegar ég var heimkomin með litla tösku, fulla af allskyns skrúfjárnum, og hamri að auki. 

Ekki að við pabbi hefðum bara talað um samsetningu bókahillna, onei, við töluðum líka um veðrið, girðingavinnu, vini mína, pólitík, fjölskylduna, garðslátt, Birtu og Bjössa, bílinn minn, fyrrverandi fjölskyldu mína, sveitina og jújú, skrúfjárn og hamar og samsetningu bókahillna. 

Sagði pabba að ég hefði eiginlega ekki gert neitt í báðum fríunum mínum. Pabbi var mér ekki sammála. Pabbi sagði að það væri ekki öllum gefið að geta verið einir með sjálfum sér. Hann telur að þeir sem þurfi sífellt að vera á ferðinni, sífellt að elta aðra, sífellt að kaupa og gera, þeim líði ekki nógu vel. Þeir sem hins vegar geta staldrað við og gert "ekki neitt", þeir sem geta verið "einir" með sjálfum sér og séu sáttir við eigin félagsskap, þeir séu lánsamir. 

Sjálf veit ég fyrir víst að ég er lánsöm að eiga pabba minn fyrir pabba. Legg ekki meira á ykkur.

föstudagur, 24. júlí 2020

Þrír mínus einn eru tveir

Rétt ókomin í Borgarnes bað bíllinn mig um að athuga hvort þrýstingurinn í dekkjunum væri ekki réttur. Ég hlýddi að sjálfsögðu og beygði til vinstri, rétt nýkomin af brúnni, lagði bílnum og gekk inní Geirabakarí þar sem ég pantaði mér Cappuchino með tvöföldu kaffiskoti og Napóleonshatt. Rólegan mysing krakkar, auðvitað tjékkaði ég á þrýstingnum, Geirabakarí var bara á leiðinni í dekkjapumpuna.

Í einstaklingsherberginu sem ég hafði pantað mér í Flókalundi reyndust 2 rúm og 1 skrifborð. Á skrifborðinu smurði ég nesti fyrir næstu 3 daga sem áttu að fara í göngu, á öðru rúminu pakkaði ég ofan í bakpokann minn. Í hinu rúminu lagðist ég til svefns. Þrátt fyrir mökk af óreiðukenndum hugsunum var ég fljót að sofna. 

Var líka fljót að vakna, dreif mig í sturtu og morgunmat. Mætti fram í andyri hótelsins kappklædd í gönguföt, regnbuxur og vel reimaða gönguskó. Sá að göngufélagar mínir voru flestir í hversdagsfötum, flestir í strigaskóm, nokkrir í gallabuxum. Allir, fyrir utan einn, voru harðákveðnir í því að fara ekki fet þennann daginn. Pabbi minn hafði nefninlega hárétt fyrir sér; það var ekki göngufært í Arnarfirði þennann daginn. 

Þann daginn sníkti ég far með fólki sem ég þekkti ekki neitt fyrir næsta dag. Fór síðan í göngutúr upp að Surtarbrandsgili með fólki sem ég þekti allt úr fyrri göngum. Prísaði mig sæla að Anna bauð mér að deila 2ja manna herberginu sem henni tókst að fá í uppbókuðum Flókalundi. Þrátt fyrir að hafa rætt hjartans mál í heita pottinum í orlofsbyggð Flókalundar og báðar snætt ljúffengann þorsk á veitingastað hótelsins, þá afréðum við engu að síður að biðja um annað lak svo við gætum aðskilið rúmin. Þrátt fyrir að yfirfara skrínukostinn saman með það í huga að 3ja daga ganga var orðin að 2ja daga göngu, áframtalandi um hjartans mál og hlægjandi, búnar að staðfesta að það var ekki bara 1 ganga á Hornströndum sem við áttum að baki heldur aðra göngu norður á Strandir, þá vorum við ekki reiðubúnar að liggja saman í hjónarúmi. Orðnar nánar en samt ókunnugar. 

Svoleiðis eru þessar göngur, maður er sífellt að hitta nýtt fólk og spjalla við fólk, ganga með fólki og  jafnvel ganga með því oftar en einu sinni. Sumu fólki fer manni að þykja vænt um og svo er líka til fólk sem maður tengist. Allt er það óháð líkamlegu þreki og göngugetu, getið sveiað ykkur uppá það.

miðvikudagur, 15. júlí 2020

Var að finna regnbuxurnar mínar,

ekki seinna vænna. Inni í geymslu, ofan í svartri tösku ásamt svörtu dragtinni hennar ömmu Boggu með loðkraganum, bómullarbolnum hennar ömmu Hallveigar, vindgalla af mömmu og gömlum gallabuxum af mér. Allt fatnaður sem áður dvaldi í kjallara í Samtúni, kjallara sem ég stóð í fyrr í kvöld ásamt eina eiginmanni sem ég hef um ævina átt. Fórum í gegnum útilegudótið okkar, hann nýkominn úr ferð og ég á leið í ferð. 

Rétt nýkomin heim hringdi síminn. Á hinum enda línunnar reyndist faðir minn, nýbúinn að horfa á veðurfréttir kvöldsins; Eru fararstjórarnir hjá Ferðafélaginu ekkert búnir að aflýsa ferðinni? spurði pabbi. Neei, af hverju ættu þeir að gera það? spurði ég á móti. Spáin er nú ekki kræsileg fyrir göngu svaraði pabbi. Þess vegna er nú 85% innihald bakpokans á göngu á Íslandi lög af fatnaði, einmitt til að mæta vondu veðri svaraði ég sposk. Það er ekki bara spurning um að hafa nógu mikið af fatnaði sagði pabbi, þú verður að vera með hlý föt og góð regnföt. Pabbi minn, þetta er nú ekkert í fyrsta skipti sem ég fer í göngu svaraði ég. Þú ert þá komin með tjaldið spurði pabbi, og fer lítið fyrir því? Jájá pabbi minn, það góða við þetta tjald er líka að það er smá fortjald þannig að ef það verður mikil rigning þá er ekkert mál að elda í fortjaldinu. Ertu með prímus? spurði pabbi. Já, hann Pési var svo vænn að láta mig hafa tvo litla prímusa og príma pott sem er líka hægt að hita kaffi í. Þú skalt nú fara varlega með það Katla mín, þessi tjöld eru nú yfirleitt úr þannig efnum sem geta auðveldlega fuðrað upp í eldi. Elsku pabbi, þessi græja sem Pési lánaði mér er nú bara alveg eins og græjan sem við Pétur eigum og höfum oft eldað með í þessu sama tjaldi. Nú jæja, þessir fararstjórar, þú veist hver þau eru? spurði pabbi. Heldur betur pabbi minn, við Pétur fórum margar ferðir með þeim Siggu Lóu og Braga svaraði ég. Sigga Lóa og Bragi? hváði pabbi. Já pabbi minn, þau komu bæði í síðustu menningarnæturveislu okkar Péturs svaraði ég, og töluðu við hana mömmu enda bæði tvö áhugafólk um Hornstrandir. Sigga heyri ég pabba kalla út fyrir símtólið, talaðir þú við einhverja Siggu Lóu og Braga í síðasta borgarapartýi hjá Kötlu og Pétri?

Föður mínum líst sumsé ekkert of vel á að fjórða dóttir hans sé á leið í 3ja daga göngu, með allt á bakinu, í hvassviðri og rigningu. Miklu roki og mikilli rigningu ef ég skildi föður minn rétt. En, ég er búin að finna regnbuxurnar og þá get ég farið að sofa. Legg ekki meira á ykkur.

sunnudagur, 5. júlí 2020

Að loknum slætti

Var nauðsynlegt að skilja? spurði frúin sjálfa sig þar sem hún skreið um blettinn með glænýjar grasklippurnar. Við hvert snip í skærunum velti hún því fyrir sér af hverju hún hefði ekki líka keypt hrífu í gær þegar hún asnaðist til að kaupa þessar heimskulegu klippur. Þegar svo þumallinn fór að emja undan síendurteknum snip, snipum ígrundaði frúin af fullum þunga hvort það væri einhver smuga að krefjast þess að fá slátturvélina þrátt fyrir að 6 mánuðir væru nú liðnir síðan hún yfirgaf heimili sem var aldrei hennar í raun.

Ekki misskilja mig, klippurnar svínvirka, það er garðelja konunnar sem er að klikka. Það er því einungis tvennt í stöðunni; annað hvort fæ ég mér hross á veröndina eða kem mér í kynni við fjallmyndarlegann karlmann sem er reiðubúinn að slá hjá mér blettinn, ber að ofan, óháð veðri, hvenær sem ég þarf á því að halda.

Eitt get ég sagt ykkur, í fúlustu alvöru, hér eftir verður grasbletturinn minn aldrei kallaður neitt annað en tún. Legg ekki meira á ykkur.

laugardagur, 4. júlí 2020

Graslegnar hljómplötur

Ég hefði getað raðað plötunum upp eftir plötuheiti, en ég gerði það ekki. Ég hefði líka getað raðað erlendum flytjendum eftir eftirnafni og íslenskum eftir nafni, en ég gerði það ekki heldur. Ég raðaði öllum flytjendum, hvort heldur sem íslenskum, erlendum eða hljómsveitum, eftir fyrsta staf í nafni. Ekkert erlent hálfkák hér í íslenskri stafrófsröðun, takk fyrir. Þessu ljóstra ég upp hér vegna gríðarlegs áhuga, heilar 3 manneskjur búnar að spyrja. Takk fyrir.

Unnur vinkona stakk uppá því síðast er hún var í heimsókn að ég myndi bara nota dömurakvél til að slá hjá mér grasblettinn (jújú, hún hefur húmorinn fyrir neðan nefið) en af því ég hlýddi henni ekki strax þá hefur hreint ótrúlegt magn af grasi og stráum vaxið (Birtu og Bjössa til ómældrar gleði) á þessum bletti sem sannarlega ber nafn með rentu, þ.e.a.s. blettur. Í dag fór ég og keypti grasklippur. Ef ég væri enn gift þá væri minn fyrrverandi löngu búinn að klippa grasið í tætlur en af því að ég er skilin þá eru klippurnar enn í umbúðunum. Ég þurfti nauðsynlega að lesa nokkra kafla í bókinni sem ég er að lesa og síðan varð ég að hlusta á nokkrar hljómplötur og þegar þessu var loks nokkurn veginn skammlaust áorkað þá var bara kominn tími til að elda kvöldmatinn. 

Þannig týnist víst tíminn.