sunnudagur, 15. september 2019

Sund-ur er Und-ur

Í stað þess að liggja í bælinu yfir kaffi og lestri rauk ég á lappir og arkaði út í rigninguna. Hellidemban fylgdi mér alla leið út í laug þar sem fáir voru á floti, ef til vill vegna veðurs. Sjálfri þykir mér best að synda í rigningu, nýt þess að heyra í henni smella á vatnsyfirborðinu í kafi og sjá dropana skella á vatnsfletinum á innsoginu.

Synti í hálftíma. Sat lengi í heita pottinum.

Það var ekki dugnaður sem ýtti mér af stað heldur pirra, svekkelsi og leiði. Að synda er allra meina bót, eða þannig. Að taka tökin og líða í lauginni skerpir á hausnum, allavega mínum. Set allt það góða sem kemur í hugann í innsogið og allt það leiðinlega sem svekkir og pirrar í útblásturinn. 

Og viti menn, nú skín sólin og frúin situr í þverröndóttum kjól með kaffi í blómabolla og dáist að haustinu. 

Skörp. Einbeitt. Áfram.

sunnudagur, 8. september 2019

Sund-ur

Man ekki hvenær ég fór síðast í sund en um leið og ég spyrnti mér frá bakkanum fann ég hvað ég hef saknað þess, saknað þess að líða í gegnum klórinn og leggja hugann í bleyti. Anda að mér orkunni og blása frá mér luðrunni. Sópa að mér vellíðan með sundtökum, sparka frá mér neikvæðni. Stundum syndi ég hægt, stundum syndi ég hratt. Hjartað slær örar og hugurinn virkar skarpari. 

Man það núna að ég fór í sund síðustu helgi en ekki til að synda heldur fljóta, fljóta með 28 öðrum kellum með flothettu á höfði, einbeiting á andardrætti, hugarfloti og slökun. Anda inn, anda út. 

Andardráttur andi, lífsandi, vindur, önd, öndun; blástur.

miðvikudagur, 28. ágúst 2019

Heimlæða

Sit við tekkskrifborð sem stendur við glugga. Skrifborðið á maðurinn minn. Við þetta skrifborð sat hann og lærði lexíurnar sínar. Óharnaður dengur á Hvolsvelli.

Glugginn sem skrifborðið stendur við er sprunginn. Glugginn stendur í húsi sem maðurinn minn keypti árið 1993. Þá var hann giftur, 2ja barna faðir. Í dag er hann tvígiftur, einu sinni fráskilinn, 3ja barna faðir og 2ja stúlkna afi. 

Ég sé Birtu, kisuna mína, liggja makindalega á verandarhandriðinu út um gluggann, fyrir neðan sprunguna. Milli þess sem hún horfir í kringum sig lygnir hún aftur augunum. 

Bróðir hennar, Bjössi, liggur værðarlegur í bleikum sófasettsstól sem við maðurinn minn keyptum á fornsölu þarna um árið sem við töldum mér trú um að þetta hús gæti orðið mitt heimili.

Þar sem ég sit og hripa niður þessi orð situr maðurinn minn á mjög mikilvægum fjölskyldufundi þar sem nærveru minnar er ekki óskað.

fjölskylda fólk, heimafólk, heimilisfólk, hjón, sifjalið, skyldulið.

laugardagur, 24. ágúst 2019

Man alltaf eftir fyrstu Menningarnóttinni.

Án vafa var hún smærri í sniðum og minnist ég helst síðdegisrölts og flugeldasýningar. Það eru ekki smáatriðin sem ég man heldur stemningin, eftirvænting og smitandi hamingja sem skein úr hverju andliti. Djamm fram á næsta dag, enginn sem kleip mig í rassinn, allir glaðir og afslappaðir. Besta djamm ever.

Það eru ekki allir sem muna. Í þessum skrifuðum orðum puðast sá myndarlegi við að potast 10 km í minningu systur sinnar sem lést úr Alzheimer.

Þar sem ég kom frá því að keyra hann í hlaupið braust sólin fram. Þrátt fyrir innvortis ólgu vegna komandi óvissu nánustu framtíðar var ég full af gleði með blússandi jass í bílnum, sólarvarma á nefbroddinum og kitlandi nútíðina í fanginu. 

Stemning andi, andrúmsloft, geðblær, geðhrif, hugarhræring, hugblær, skap.

þriðjudagur, 30. júlí 2019

Sólin var að brjótast fram...

...úr dökkum skýum. Næstum 20 stiga hiti á mælinum og regndropar á bílrúðunni er ég keyrði heim úr vinnu. Núna er klukkan að verða níu að kvöldi og ég sit úti á verönd á stuutermabol, berfætt, 19 stiga hiti og Trump Bandaríkjaforseti trúir ekki á loftslagsbreytingar.

Í lok vikunnar verðum við myndarlegi komin til Argentínu. Þar mun vera síðasti mánuður vetrar. Við þurfum því að pakka fötum fyrir hitastig sem mætti búast við á hefðbundnu íslensku sumri.

 það er nefninlega það.

sunnudagur, 28. júlí 2019

Regndropar falla

Hvíta og svarta læðan mín var að skjótast út um gluggann, tiplaði hratt og örugglega á hvítum loppum út í örfína rigninguna. Svarti og hvíti fressinn minn liggur makindalegur í bleikum stól inní stofu, sefur vært og veit ekki af rigningardropunum sem færast í aukana fyrir utan gluggann. Fyrrum rauðhærði eiginmaðurinn minn er með sína eigin rigningu á hlaupabretti í ræktinni í næsta hverfi, hvort sú rigning er fínleg er ekki gott að segja, líklega spurning um á hvaða km hann er staddur blessaður. 

Sjálf var ég að setja uppþvottavélina af stað, trompettónar Chets Baker úðast eins og frískandi rigning um eldhúsið. Ætti auðvita að vinda mér í fleiri heimilisstörf en þá er nú skárra að blogga, getið sveiað ykkur uppá það.

fimmtudagur, 18. júlí 2019

Í veðri sem þessu slægi ég ekki hendinni á móti Parísarkaffiís

Bjallan á ísbílnum glumdi í næstu götu og það rifjaðist upp fyrir mér að einhverju sinni var til kynlífstækjabíll sem keyrði á milli hverfa, rétt eins og ísbíllinn. Ekki að ég hafi neina reynslu af slíkri bifreið, ónei, minnir að ég hafi lesið um þetta í einhverju blaði á góðæristímabilinu heimsfræga þegar einhleyp kona eins og ég varð allt í einu fær um að festa kaup á íbúðarskonsu undir sjálfa sig án nokkurra ábyrgðarmanna. Jú, svei mér ef þetta var ekki bara grein í Fréttablaðinu. Nei andskotakornið, mig hefur varla dreymt þetta. 

Þegar ísbílsbjallan glumdi í minni götu mundi ég eftir nýju vegan íspinnunum sem ég gleymdi að setja inn í kerfið áður en ég fór úr vinnunni áðan. Hringdi í ofboði í hinn Péturinn í lífi mínu en lét það alveg vera að minnast á kynlífstækjabílinn.

Í sumarfríinu nýafstaðna notaði ég hvert tækifæri sem gafst til að fá mér ís; einu sinni, tvisvar, já, allt upp undir þrisvar  á dag. Hvort heldur sem var í Frakklandi, Ítalíu eða Sviss þá var það ávalt kaffiísinn sem stóð uppúr.

Í kvöld ákvað ég að fylgja leiðbeiningunum aftan á Sólgætis Kínóapakkanum: "Látið standa í 5-10 mínútur. Sjálf megið þið sitja." Hver fær staðist slíka hnyttni spyr ég nú bara?