þriðjudagur, 10. desember 2019

Talandi um systur

þá á Magga systir mín afmæli í dag. Magga er þriðja systirin og ég er sú fjórða. Árin eru fimm sem skilja okkur að í aldri. Í dag skilur haf okkur að en Magga systir mín frísportar sig í París ásamt sínum ektamanni. Síðast þegar Magga var í París dandalaðist hún um með litlu systur sína í eftirdragi og löngu tímabært fyrir hana að fara aftur. Alveg er ég viss um að París klæðir hana betur í dag.

Af öðrum góðum fréttum dagsins þá eru þessi tvö eins árs í dag 


mánudagur, 9. desember 2019

Á gamals aldri eignaðist ég systur,

litlu systur. Við erum ekki sammæðra og því ekki alsystur. Við erum enn síður samfeðra og því ekki heldur hálfsystur. Systur erum við samt, að sögn þeirrar stuttu. Litla systir mín heitir Hallveig alveg eins og elsta systir mín enda skírð í höfuðið á henni. Hallveig er amma Hallveigar. Við litla systir erum nefninlega þrælskyldar þrátt fyrir að vera ekki systur. 

Talandi um Hallveigar þá fór í bókabúð eftir vinnu og keypti Billede Bladet, jólaútgáfan með konunglega dagatalinu, blaðið sem amma mín Hallveig varð að fá á hverju ári. Það voru ófá Billede blöðin sem ég fletti með henni ömmu minni, sötrandi kaffi og smjattandi á Berlínarbollum, en jólablaðið var möst, eins og sagt er. 

Amma mín Hallveig var skírð í höfuðið á landnámskonu okkar Íslendinga. Systir mín Hallveig var skírð í höfuðið á ömmu okkar. Litla systir mín Hallveig var skírð í höfuðið á ömmu sinni Hallveigu. 

Litla systir mín á afmæli í dag. Í morgun borðaði ég afmæliskökubakstur Janesar sem ég vinn með, hún á líka afmæli í dag. Jan, maðurinn hennar Janesar, á sama afmælisdag og amma mín Hallveig.

Legg ekki meira á ykkur að sinni, elskurnar.

laugardagur, 7. desember 2019

Baroque

Stjórnandinn var rússneskur og vart kominn af barnsaldri, rétt liðlega þrítugur. Hann fetti sig og bretti, hoppaði og skoppaði, sveiflaði höndum og hármakka. Bach og Telemann fyrir hlé. Lully og Rameau eftir hlé. Út undan mér sá ég konu sem svaf vært með opinn munn og allt. Í hléinu heyrði ég þessa sömu konu segja vinahjónum sínum að hún ætti kannski að fara í jóga en að hún slakaði best á á Sinfóníutónleikum.

Þýskararnir voru góðir en ég heillaðist meira af frökkunum. Mér á vinstri hönd sat maður í blárri skyrtu, á hægri hönd kona í rauðum jakka. Bæði voru þau gráhærð. Sjálf var ég í svörtum kjól, í rauðri jólapeysu. Ein á tónleikum. 

Eða nei, reyndar ekki, ég var langt í frá ein, ég var með sjálfri mér. Það er ekki amalegur félagsskapur get ég sagt ykkur. Legg ekki meira á ykkur elskurnar.

þriðjudagur, 3. desember 2019

Matur er manns gaman

Cosmóbleikur
Á innan við tveimur mánuðum er ég búin að fara á Eiriksson brasserie þrisvar sinnum. Í fyrsta skiptið fór ég með systurdóttur minni, annað skiptið fór ég ein og nú síðast snæddi ég þar með tveimur góðum vinkonum. Mæli hikstalaust með Cosmopolitan og Martini espresso þarna að kona tali nú ekki um matinn, maður minn. Starfsfólkið natið og skemmtilegt.

Laugardaginn sem leið brunaði ég ásamt góðri vinkonu á Hótel Glym. Þar eyddum við kvöldinu í eðal félagsskap, röðuðum í okkur dásemdarmat af jólahlaðborði, hlógum svo skein í allar tennur yfir skemmtiatriði kvöldsins milli þess sem við spjölluðum við æskuvinina, borðfélaga okkar. Mesta furða að við ættum tíma aflögu til að tyggja allann góða matinn.
Bogga sæta syss

Í gærkvöld fór ég út að borða með Boggu systur minni. Ef Eiriksson væri opið á mánudögum hefði ég dregið hana þangað en Rok varð fyrir valinu í rokinu. Vorum ekki sviknar af misáfengum kokteilum, bragðgóðum smáréttum og brosmildri þjónustu. Þrátt fyrir vindasamt mánudagskvöld var staðurinn smekkfullur af fólki, túrhestum að sjálfsögðu, við systur gátum því talað tæpitungulaust um lífsins mál af hjartans alvöru og hlógum eins og hrossabrestir þess á milli.


Í kvöld steikti ég fisk. Samrýndu systkinin í Samtúni fengu að sjálfsögðu soðningu.

Legið á meltunni

sunnudagur, 17. nóvember 2019

Samviskulaus sunnudagur

Gekk hnarreist inn í bókabúð gærdagsins og beina leið að ljóðabókastaflanum sem ég staldraði örlítið við í gær. Rigsaði út með ekki bara eina, heldur tvær ljóðabækur. Já, að sjálfsögðu er önnur ljóðabók gærdagsins og já, það má vel vera að hin hafi slæðst með sökum samviskubits. 

Frá bókabúðinni gekk ég yfir götu og inn á kaffihús þar sem ég pantaði mér kampavínsglas og eggin hans Benedikts. Engin sneypt yfir því. Gúffaði ljóðabók gærdagsins í mig aftur og skolaði hinni í mig með cappuchinoi með tvöföldu kaffiskoti.

Frá kaffihúsinu rölti ég niður að tjörn þar sem ég virti fyrir mér endur semja ljóð í svanasöng og dúfnakurri. Hvítur snjór, stilla og kuldi. Skrefin heim léttari en í gær.

laugardagur, 16. nóvember 2019

Stuldur í bókabúð

Stóð í bókabúð síðdegis í dag og gleypti í mig ljóðabók. Ég ætlaði bara rétt að kíkja í hana en áður en ég vissi af var ég búin með hana. Var hálf skömmustuleg er ég lagði hana frá mér, leið eins og ég yrði að kaupa hana en gerði það ekki, setti undir mig hausinn og arkaði út úr búðinni, út í Reykvíska dimmuna. Arkaði beinustu leið heim, þjökuð af samviskubiti yfir stolnum orðum. 

Ég ætlaði ekki að gera þetta gæti ég sagt, orðin voru svo falleg að ég gat ekki hætt gæti ég líka sagt. Oscar Wilde sagði víst að besta leiðin til að losna við freistingu væri að falla fyrir henni en hvort hann átti við orðastuld er ég hreint ekki viss um. 

þriðjudagur, 12. nóvember 2019

Hjólaði í vinnuna í morgun

Kom við í Sandholti og keypti krossant handa mér og hinum Pétrinum í lífi mínu, klædd í regnjakka og regnbuxur. Rigndi tvisvar á leiðinni.

Á heimleiðinni steig ég pedalana í lægsta gír með rokið og rigninguna í fangið, með fisk og kartöflur í  bakpokanum. Rokóratorían við Hörpu var svaðaleg en ég klauf hana á háa céinu. Í rigndumrokbarning á hjólabrautinni við sjávarsíðuna sá ég loks glitta í Höfða og fann til léttis, loksins að komast á áfangastað. Var búin að gleyma Turninum, skrímslinu sem vofir yfir Túnbyggðinni. Þar sem ég setti í herðarnar og bjóst til átaka við vindinn fann ég hviðuna hefja mig á loft, steig pedalana útí tómið, ríghélt í stýrið á hjólinu þar sem turnhviðan feykti mér hærra og hærra, svo hátt að ég glitti í Brad Pitt og Gwyneth Paltrow í lúxus íbúðinni á turnhæðinni eða nei, var þetta ekki Jennifer Aniston eða nei, djók! 

Ég setti bara undir mig hausinn og steig pedalana. Hjólið og kartöflurnar báru mig alla leið í Samtún þar sem ég steikti þær og fiskinn og fleira góðgæti sem ég fann í ísskápnum. Príma súrefnisinntaka, getið sveiað ykkur uppá það.